Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Prjónadella

Ég get verið óttaleg dellukerling. Seinustu mánuði hafa fréttir heltekið mig. Einnig ýmislegt fréttatengt grúsk á netinu. Þetta gekk svo langt að fjölskyldunni fannst eiginlega nóg um.

Til lengdar er þetta ekki hollt enda hef ég reynt að aftengja mig til hálfs. Reyni samt að fylgjast með.

Nú hefur önnur della tekið við. Hjá mér býr þessa dagana tvílembd bóndakona, þ.e. Laufey systir mín. Hún hefur verið kyrrsett í höfuðstaðnum til að vera nálægt hátæknisjúkrahúsi.

Ég tek hlutverk móðursysturinnar svo alvarlega að ég sit og prjóna hverja auða stund sem ég finn. Það skal vera tvennt af öllu, ekkert hálfkák.

Þetta eru spennandi tímar.


Aldur

Aldur er afstæður. Maður er nákvæmlega jafngamall og manni finnst. Ég velti ekki oft fyrir mér hversu gömul ég er og finnst ég raunverulega ekkert gömul, bara bráðung.

Ég á tvær yngri systur, sú yngsta er 13 árum yngri. Meðan hún var einhleyp kom hún oft með okkur í ferðalög og var oft talin elsta dóttir mín. Mér fannst það bara fyndið. Þegar ég heimsótti hana á fæðingardeild eftir fæðingu frumburðarins spurði ljósmóðirin hvort ég væri amman. Ég skellihló og leit á þetta sem hrós og ákvað að taka að mér hlutverkið móti hinum tveimur ömmunum.

Hin yngri systir mín er 6 árum yngri en ég. Um jólin lenti hún á sjúkrahúsi. Við hjónin kíktum á hana á jóladag. Þegar við spurðum eftir henni vorum við spurð hvort við værum foreldrarnir.

Mér fannst það ekki fyndið.


Annáll ársins

Árið 2008 var mér persónulega gott og ánægjulegt. Árið byrjaði ég með fjölskyldunni í skíðaþorpinu Selva á Ítalíu. Ég hóf að stunda svigskíði eftir að ég komst á fertugsaldurinn og nýt þess því að vera enn í framför. Ég þyki reyndar stundum vera glannaleg í bröttustu brekkunum en Ítalirnir verða bara að læra að forða sér.

Á HvalvatniÉg er alin upp á algerri jafnsléttu og því ættu gönguskíði að vera meira við mitt hæfi enda fjárfesti ég í slíku græjusetti í mars 2008. Þessa hugdettu fékk ég þegar Ásdís vinkona mín var í sömu hugleiðingum og áttum við saman nokkrar góðar stundir á gönguskíðum á vormánuðum. Vonandi tekst okkur að taka upp gönguskíðaþráðinn fljótlega á nýju ári.

Gönguferðir fór ég nokkrar á árinu. Helstar vil ég telja dagsgöngur á Skessuhorn á sumardaginn fyrsta undir leiðsögn Hin fjögur fræknuíslenskra fjallaleiðsögumanna og í félagsskap eiginmanns og Ásdísar vinkonu minnar og Ágústar mannsins hennar. Um hvítasunnuna fór ég á Þverártindseggjar í Suðursveit aftur undir leiðsögn íslenskra fjallaleiðsögumanna. Þessi ferð var skipulögð af TKS (Trimmklúbbi Seltjarnarness) og heppnaðist vel þrátt fyrir IMG_5537að skyggnið krefjist þess að við förum þarna upp aftur síðar. Á 17. júní fór ég aftur í göngu á Skessuhorn en nú einnig á Heiðarhorn og á Skarðshyrnu. Þessi ferð var farin með vinkonu okkar og hlaupafélaga, Betu ásamt vinnufélögum hennar. Góð ferð en myndavélin mín var batteríslaus og því fátt um staðfestingu á þessari frábæru ferð.

055Ég fór í þrjár lengri ferðir í sumar sem leið. Fyrst fór ég með TKS í 6 daga göngu um Gerpissvæðið, úttekt á þeirri ferð er hér. Stuttu síðar fórum við hjónin með vinum okkar, göngu og hlaupafélögum Þóru og Palla í þriggja daga ferð í kringum Langasjó. Sú ferð var farin í döpru skyggni, dagleiðir voru heldur langar en að öðru leyti ánægjuleg ferð. Um verslunarmannahelgi fórum við Darri og Rán með vinum okkar Finni, Þórdísi, Sveini og Arndísi í þriggja IMG_7256daga ferð upp með Djúpá. Það var heldur léttari ferð en hinar og mjög ánægjulegt að fara svona fjölskylduferð.

Af persónulegum málum bar hæst að Rán dóttir mín tók grunnskólapróf sl vor og stóð sig vel. Það var mjög ánægjulegt og veit ég vel að það er langt í frá sjálfgefinn hlutur. Skólaganga Ránar hefur sannarlega ekki verið beinn og breiður vegur og er hennar árangur enn ánægjulegri í því ljósi. Rán hóf svo nám við MR í haust og líkar vel. MR er námslega séð mjög strangur skóli en það hefur komið mér ánægjulega á óvart hversu mannlegt og persónulegt umhverfið er.

Sindri sonur minn er í námi í húsasmíði. Hann fór á samning hjá meistara í maí og er enn í því prógrammi. Hann lenti í bílslysi í lok maí. Grafa keyrði í veg fyrir hann og endaði drengurinn þá ökuferð á slysadeild með aðstoð sjúkrabíls. Hann var í 100% rétti en þar sem hann handarbrotnaði og fékk 038hálsáverka þá þurfti hann að vera mánuð frá vinnu. Fjölskyldan hafði ekki reiknað með sameiginlegu sumarfríi en þetta bjargaði því og fórum við saman nokkra daga til Kaupmannahafnar. Síðar á árinu tók Sindri nýliðapróf björgunarsveitanna og gekk það vel. Hann verður bráðlega fullgildur félagi og er óhætt að segja að ég sé mjög stolt af þessu áhugamáli hans. Sjálfboðavinna meðlima björgunarsveitanna er íslensku þjóðlífi ómetanleg og að eiga son meðal þessara hetja fyllir mig stolti.

Ættarmót settu óneitanlega svip sinn á sumarið. Í júní var eitt ættarmót í tengda fjölskyldunni. Aðra helgi í ágúst var ættarmót systkina móður minna og afkomenda þeirra. Helgina eftir það var svo ættarmót systkina föður míns og afkomenda þeirra. Svona ættarmót eru skemmtileg að tvennu leyti. Maður hittir ættingja sem maður alla jafna er ekki í miklu sambandi við, einnig er gjarnan rifjað upp ýmislegt úr lífi forfeðranna sem er okkur nútímafólkinu svo framandi að við eigum erfitt með að gera okkur grein fyrir hvernið forfeðurnir lifðu lífinu. Þetta er okkur hins vegar mjög miklivægt til að ná tengingu við upprunann. Öll þessi ættarmót vörpuðu ljósi á lífskjör liðinna kynslóða.

019Um miðjan nóvember boðaði Laufey systir svo til sveitabrúðkaups. Hún og Þröstur bændur að Stakkhamri giftu sig og slógu upp veislu. Það var einnig ánægjuleg stund.

Hrun bankakerfisins hefur óneitanlega sett stórt mark sitt á íslenskt þjóðlíf seinustu mánuði. Eins og lesendur þessarar síðu hafa vafalaust tekið eftir þá stendur mér ekki á sama um þá atburðarrás. Ég tel grundvallaratriði að íslensk stjórnmál og viðskiptalíf komist út úr því umhverfi sem lítið samfélag óneitanlega skapar, þar sem allir þekkja alla, og mestu máli skiptir hver sé vinur hvers, hæfi einstaklinga skipti minna máli. Það er forgangsverkefni í íslensku samfélagi að taka á hvers kyns spillingu vegna þessara tengsla.

Kæru vinir nær og fjær, bestu þakkir fyrir allt á nýliðnu ári, megi nýtt ár bera betri tíma í för með sér. Ég óska lesendum mínum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs.


Jól

Jólin eru fyrst og fremst hátíð hefðanna. Það sem okkur finnst jólalegt er einfaldlega það sem við erum vön að gera á þessum tíma. Að gera sömu hluti á sama hátt ár eftir ár.

Seinustu jól var ég í skíðaferð með fjölskyldunni á Ítalíu. Þá voru allar hefðir rofnar og þetta voru fyrst og fremst öðruvísi jól.

Nú munum við reyna að rifja upp okkar hefðir, muna hvar skrautið á að vera og stilla því upp á sína hefðbundnu staði.

Ég óska lesendum mínum nær og fjær, ættingjum, vinum og öðrum sem villast hér inn, gleðilegra jóla.


Verslunin Herðubreið opnar

Áhrif efnahagskreppunnar eru margvísleg. Einna fyrstir til að finna fyrir samdrætti eru arkitektar og er verulegur samdráttur þegar orðinn í þeirri grein.

Það er aðdáunarvert að fylgjast með viðbrögðum æskuvinkonu minnar Elínar. Hún hefur í samvinnu við félaga sinn rekið arkitektastofuna Skapa & og Skerpa arkitektar að Barónsstíg 27. Nú hafa verkefni þeirra dregist verulega saman en þau láta ekki deigan síga.  

Í samvinnu við Bryndísi Sveinbjörnsdóttur fatahönnuð hafa þau sett upp verslunina Herðubreið í húsnæðinu. Í versluninni verður til sölu margs konar áhugaverður varningur, svo sem íslensk fatahönnun fyrir bæði börn og fullorðna, skart og fylgihlutir, rabbabarakaramella beint frá býli, myndlist, tónlist og bækur. Arkitektastofan Skapa & Skerpa hyggst bíða kreppuna af sér í vari, í kjallara húsnæðis síns.

Verslunin Herðubreið opnar laugardaginn 29. nóvember kl 13.00 að Barónsstíg 27.

Til hamingju með verslunina Elín og félagar, þetta er glæsilegt framtak sem sýnir í verki íslenskt hugvit, hugrekki og kraft.

Gangi ykkur vel.


Sveitabrúðkaup

Ég hef verið upptekin undanfarna daga við að koma yngri systur minni í hjónaband. Slíkt krefst töluverðrar vinnu og nánasta fjölskylda lagði þar hönd á plóg. Þetta var sannkallað sveitabrúðkaup því hjónaefnin reyndu eftir fremsta megni að hafa veitingarnar eins "sveitalegar" og kostur var, þ.e. afurðir af eigin búi en þau eru bændur að Stakkhamri.

Allir sögðu svo já á réttum stöðum.

Til hamingju Laufey og Þröstur!

019


Kreppukona í Köben - seinasti hluti

Þetta er þriðji og seinasti hluti sögu af ferð til Köben. Fyrsti hluti er hér, annar hluti hér.

Á fundinum sem ég sótti hitti ég fólk sem ég hitti öðru hvoru í norrænu samstarfi á því sviði sem ég starfa á.

"How is the situation in Iceland" var algeng spurning eftir kurteislegar kveðjur. Svíarnir sögðu mér að deginum áður hefði sænska ríkið yfirtekið einn bankann hjá þeim. Þeir vildu meina að ástandið þar væri strax orðið verra en í bankakreppunni eftir 1990.

Ég dvaldi svo í einn dag á rannsóknastofu við Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn. Sú sem tók á móti mér þar heitir Bodil og ég hef hitt hana á nokkrum fundum. Hún spurði einskis. Mér fannst það einkennilegt eftir allt spurningaflóð hinna skandinavanna. Í hádegismatnum þegar kom vandræðalega þögn nefndi ég þetta. Þá sagði hún:

"I didn´t ask because I thoght it would be too embarrasing for you". Já blessuð konan var tillitssöm.

Ég sagði þeim að eitt af vandamálum okkar væri hversu þaulsetnir allir væru á sínum stólum þrátt fyrir mistök, jafnvel afglöp í starfi. Nefndi dæmi um niðurfellingu persónulegra ábyrgða stjórnenda hjá stórum banka, viku áður en hann var yfirtekinn. Þar á meðal eiginmaður ráðherra. Einnig að einn af þeim sem staðið hefði að þessari ákvörðun væri formaður eins stærsta verkalýðsfélags á Íslandi. Bæði sitja enn.

Þeir sem á þetta hlýddu störðu á mig í forundran. Svo sagði einn: "Þú ert ekki að lýsa vestrænu lýðræðisríki, þú ert að lýsa spillingu í þriðja heims ríki".

Þá höfum við það. Hér þarf mikið að skúra áður en við getum tjáð okkur um stjórnarfar í öðrum löndum.


Meira af kreppukonu í Köben

Þetta er framhald af ferðasögu minni til Köben í vikunni. Fyrsti kafli sjá hér.

Ég fór á fund fyrir notendur ákveðinnar vöru á Norðurlöndunum. Ég var sú eina af þátttakendum sem mætti degi áður en í fundarboði voru þeir sem mættu snemma boðið að koma og borða kvöldverð með fundarboðendum. Ég hafði boðað komu mína.

Ég mætti á tilskyldum tíma til að verða samferða í kvöldmatinn. Þar voru tveir sölumenn frá Bandaríska framleiðandanum og tveir skandínavískir sölumenn. Annan, Stuart, hafði ég hitt nokkrum sinnum, verulega viðkunnanlegur maður.

Þegar ég mætti í lobbíið á hótelinu þar sem þau gistu var það fyrsta sem Stuart sagði: "How is the situation in Iceland?" Ég svaraði eftir bestu getu og átti ágætt rabb við Stuart sem var greinilega brugðið yfir ástandinu.

Við gengum síðan saman á veitingastað í nágrenninu. Ég átti frekar von á að þetta yrði í boði fyrirtækisins en var engan veginn viss. Eins og gefur að skilja spyr maður bara ekki að svoleiðis. Ég hafði farið í stórmarkaðinn um daginn og verslað smá og um leið og ég skoðaði matseðilinn varð mér ljóst að það yrði á mörkunum að seðlarnir sem ég átti eftir dygðu fyrir máltíðinni. Þokkaleg kjötmáltíð kostaði vel yfir 200 DKR sem gerðu vel yfir 4400 IKR. Bjór með matnum kostaði minnir mig 65 DKR sem gerðu ca 1400 IKR. Ég lét á engu bera og fann ódýra kjúklingabringu og pantaði mér bjór með.

Yfir matnum var rætt um heima og geyma, oftar en einu sinni barst talið að ástandinu á Íslandi en einnig að kreppunni á heimsvísu. Peter, sá frá Bandaríkjunum sagði að margir af hans vinum hefðu tapað stórfé á hlutabréfum.

Þegar aðalréttinum var lokið var fóru þau að velta fyrir sér eftirréttum. Ég rétt leit á þá en sá að verðið var í kringum 100 DKR. Það gerði 2200 IKR sem mér fannst alveg fáránlegt verð fyrir ískúlu og þar að auki hélt ég enn í vonina með að 600 dönsku krónurnar mínar færu langt með að duga mér. Ég sagði þeim hinum að ég væri svo södd eftir aðalréttinn að ég gæti bara ekki torgað eftirrétt, það er bara ekki hægt að bera fyrir sig nísku í svona selskap.

Þegar að uppgjöri kom þá auðvitað var allt sett á reikning fyrirtækisins, ég borgaði ekki krónu. Það grunaði mig reyndar allan tímann, en gat engan veginn verið viss.

Ég dvaldi á öðru og mun ódýrara hóteli en þau. Ég viðurkenndi fyrir þeim að fyrir ári hefði dýra hótelið alveg komið til greina, núna væri verðið bara út úr kortinu. Nóttin þar var á 1050 DKR sem gera ca 23.100 IKR. Fyrir einu ári voru þetta ca 12.600 IKR. Mér fannst örlítið pínlegt að viðurkenna þetta en þetta er bara sá veruleiki sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í dag. Það sem fyrir ári var gerlegt að borga fyrir er bara ekki inni í myndinni í dag.

Þegar ég skildi við þau fyrir utan hótelið þeirra, sagði Stuart að kannski hefðu þau bara öll átt að dvelja á ódýra hótelinu, það væri engin ástæða til að eyða svona miklu í hótelkostnað. Ég hummaði bara eitthvað, var sammála honum á vissan hátt en grunaði hann um að segja þetta bara svona í samúðarskyni.

Ég fann að honum fannst illa fyrir okkur Íslendingum komið.


Saga af kreppukonu í Köben

Ég skrapp af skerinu í nokkra daga. Fór á fund í Kaupmannahöfn vegna vinnu minnar og heimsótti í leiðinni rannsóknastofu vefjaflokkana á Ríkissjúkrahúsinu.

Ég var spurð þegar ég kom heim hvernig hefði verið. Svarið er: SKRÝTIÐ.

Eingöngu er leyfilegt að taka gjaldeyri með sér að andvirði 50.000 IKR. Það gerði í mínu tilviki 2.250 DKR. Ég valdi frekar ódýrt hótel, án morgunverðar. Dvaldi þrjár nætur og verðið var 1.650 DKR. Það þýddi að ég átti eftir 600 DKR til að ferðast fyrir og borða. Auðvitað gat ég notað kort en bankinn minn varaði mig við því, ekki væri víst hvert gengið væri á þeim tíma sem ég notaði kortið. Sögur gengu um að gengið gæti verið allt að tvöfalt það sem ég greiddi fyrir dönsku krónurnar í bankanum. Sannleiksgildi þessa ábyrgist ég ekki en ég tók strax þá ákvörðun að reyna hvað ég gæti til að láta þessar 600 DKR duga.

Þegar ég kom á hótelið tók á móti mér hótelhaldarinn, myndarleg dönsk valkyrja.

"How is the situation in Iceland?" var það fyrsta sem hún spurði mig. Ég kom mér strax upp stöðluðu svari: "The economy in Iceland isn´t bad, it´s ruined".

Konan sagði mér strax að þetta hefði mikil áhrif hjá henni, 60% af hennar viðskiptavinum væru Íslendingar og venjulega kæmu margir í nóvember. Nú bókar enginn Íslendingur og ef þeir bóka, þá afbóka þeir skömmu síðar. Við dæstum saman yfir hversu agalegt þetta ástand væri. Hún var meðvituð um að þetta væru svona 20-30 einstaklingar sem hefðu valdið þessu. Venjulegt fólk væru fórnarlömbin. Hún vissi líka til þess að Íslendingar hefðu verið hraktir út úr verslunum í Kaupmannahöfn og einnig að það væri stórvarasamt að nota kerditkort, algerlega óvíst hvert gengið væri.

Hún vissi að við mættum bara taka með okkur ákveðna upphæð í dönskum krónum og ég sagði henni hversu mikið það væri. Á sama augnabliki var hún að taka við greiðslu fyrir herbergið. Hún var fljót að reikna hvað ég hefði til að lifa fyrir. Ég flissaði vandræðalega og sagðist bara fara og kaupa jógúrt úti í "seven eleven" búðinni á móti. "Nei það skaltu ekki gera, farðu miklu heldur í stórmarkaðinn", svo sýndi hún mér hvert ég ætti að fara.

Um leið og hún stimplaði kvittunina fyrir greiðslunni spurði hún mig varlega hvort vinnan mín greiddi ekki gistinguna. "Jú, hún gerir það" svaraði ég, mér var alveg hætt að lítast á fátæktarbraginn sem var orðinn á mér, hélt hún ætlaði bara að lækka reikninginn. Ætlaði að segja henni að það yrði líklega boðið upp á mat á fundinum en fann að það var bara vandræðalegt.

Að endingu bauð hún mér að koma í eldhúsið hjá sér og fá kaffi ef ég vildi og svo gæti ég fengið smjör hjá henni á brauðið sem ég keypti í stórmarkaðinum.

Þetta var indæl kona sem vildi mér hið besta. Þetta var hins vegar afar skrýtið að vera þarna eins og bónbjargarmanneskja frá fátæku landi.

Meira síðar.


Við megum ekki gleyma hvert öðru

Atburðir liðinna vikna eru okkur öllum ofarlega í huga. Þjóðin hefur verið rænd, steinsofandi um hábjartan dag með slökkt á öryggiskerfinu. Ég held meira að segja að útidyrahurðin hafi verið opin, ekki bara ólæst heldur galopin.

Það sem verra er, við vorum ekki bara rænd veraldlegum verðmætum, við vorum rænd sjálfsvirðingu og stolti. Við stöndum hnípin eftir og vitum ekki okkar rjúkandi ráð.

Við erum sorgmædd yfir þeim missi sem við höfum orðið fyrir.

Við erum öskureið við þá sem gerðu okkur þetta.

Og við erum hrædd því við vitum ekki hvað tekur við.

En við deilum öll þessum tilfinningum og við verðum að fá að tala um þær við þá sem okkur þykir vænt um. Við verðum líka að fá að tala ekki um þær, heldur bara ræða um hversdagslega hluti.

Nú er mikilvægt að rækta vini sína. Hringjast á, hittast fyrirvaralítið, kíkja óboðinn í kaffi og spjall.

Svilkona mín vakti mig upp með þetta. "Í vetur skulum við vera dugleg að hittast og bjóða hvert öðru oft í mat", sagði hún nýlega.

Þó það sé hægt að ræna sparifénu okkar, sjálfsvirðingu, bjartri framtíð barnanna og setja okkur í skuldafangelsi, þá er ekki hægt að ræna frá okkur vinum okkar og ættingjum.

Munum það og verum dugleg að rækta hvert annað.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband