Saga af kreppukonu í Köben

Ég skrapp af skerinu í nokkra daga. Fór á fund í Kaupmannahöfn vegna vinnu minnar og heimsótti í leiðinni rannsóknastofu vefjaflokkana á Ríkissjúkrahúsinu.

Ég var spurð þegar ég kom heim hvernig hefði verið. Svarið er: SKRÝTIÐ.

Eingöngu er leyfilegt að taka gjaldeyri með sér að andvirði 50.000 IKR. Það gerði í mínu tilviki 2.250 DKR. Ég valdi frekar ódýrt hótel, án morgunverðar. Dvaldi þrjár nætur og verðið var 1.650 DKR. Það þýddi að ég átti eftir 600 DKR til að ferðast fyrir og borða. Auðvitað gat ég notað kort en bankinn minn varaði mig við því, ekki væri víst hvert gengið væri á þeim tíma sem ég notaði kortið. Sögur gengu um að gengið gæti verið allt að tvöfalt það sem ég greiddi fyrir dönsku krónurnar í bankanum. Sannleiksgildi þessa ábyrgist ég ekki en ég tók strax þá ákvörðun að reyna hvað ég gæti til að láta þessar 600 DKR duga.

Þegar ég kom á hótelið tók á móti mér hótelhaldarinn, myndarleg dönsk valkyrja.

"How is the situation in Iceland?" var það fyrsta sem hún spurði mig. Ég kom mér strax upp stöðluðu svari: "The economy in Iceland isn´t bad, it´s ruined".

Konan sagði mér strax að þetta hefði mikil áhrif hjá henni, 60% af hennar viðskiptavinum væru Íslendingar og venjulega kæmu margir í nóvember. Nú bókar enginn Íslendingur og ef þeir bóka, þá afbóka þeir skömmu síðar. Við dæstum saman yfir hversu agalegt þetta ástand væri. Hún var meðvituð um að þetta væru svona 20-30 einstaklingar sem hefðu valdið þessu. Venjulegt fólk væru fórnarlömbin. Hún vissi líka til þess að Íslendingar hefðu verið hraktir út úr verslunum í Kaupmannahöfn og einnig að það væri stórvarasamt að nota kerditkort, algerlega óvíst hvert gengið væri.

Hún vissi að við mættum bara taka með okkur ákveðna upphæð í dönskum krónum og ég sagði henni hversu mikið það væri. Á sama augnabliki var hún að taka við greiðslu fyrir herbergið. Hún var fljót að reikna hvað ég hefði til að lifa fyrir. Ég flissaði vandræðalega og sagðist bara fara og kaupa jógúrt úti í "seven eleven" búðinni á móti. "Nei það skaltu ekki gera, farðu miklu heldur í stórmarkaðinn", svo sýndi hún mér hvert ég ætti að fara.

Um leið og hún stimplaði kvittunina fyrir greiðslunni spurði hún mig varlega hvort vinnan mín greiddi ekki gistinguna. "Jú, hún gerir það" svaraði ég, mér var alveg hætt að lítast á fátæktarbraginn sem var orðinn á mér, hélt hún ætlaði bara að lækka reikninginn. Ætlaði að segja henni að það yrði líklega boðið upp á mat á fundinum en fann að það var bara vandræðalegt.

Að endingu bauð hún mér að koma í eldhúsið hjá sér og fá kaffi ef ég vildi og svo gæti ég fengið smjör hjá henni á brauðið sem ég keypti í stórmarkaðinum.

Þetta var indæl kona sem vildi mér hið besta. Þetta var hins vegar afar skrýtið að vera þarna eins og bónbjargarmanneskja frá fátæku landi.

Meira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Vá, ætli þetta sé áþreifanleg mynd af því sem koma skal?.....Ansi hrædd um það.

Sigrún Jónsdóttir, 13.11.2008 kl. 22:41

2 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Áhugavert, ég fer til Finnlands á fimmtudaginn....

Erna Bjarnadóttir, 14.11.2008 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband