Færsluflokkur: Lífstíll

Hlaupahetjusaga

Ég minnist þess þegar ég var barn og unglingur hvað mér þótti merkilegt að geta hlaupið 5 og 10 km. Á frjálsíþróttamótum voru það bara örfáir sem lögðu þetta á sig og þóttu þeir miklar hetjur. Þeir hlupu þá hring eftir hring á íþróttavellinum og mér var óskiljanlegt hvernig þetta væri hægt.

Nú hef ég í nokkur ár stundað hlaup og finnst bara alls ekkert merkilegt að komast 5 og 10km. Það sem meira er, þetta er bara alls ekkert erfitt.

Í gær tók ég þátt í 10km hlaupinu. Reyndar var ég lengi vel í vafa um hvort ég ætlaði að taka þátt þar sem ég hef fundið lítilsháttar til í hnjám nú undanfarið. Kenndi ég göngum sumarsins um það. Stemningin í hlaupinu er hins vegar slík að ég ákvað að láta slag standa og taka þetta bara rólega.

Þar sem ég gerði ekki ráð fyrir neinum persónulegum afrekum nema þá í mesta lagi "personal werst", þá gerði ég allt eins og ekki á að gera fyrir hlaup:

  • Hljóp á glænýjum skóm
  • Fór í grillparty kvöldið áður og borðaði yfir mig en gleymdi að innbyrða vökva
  • Fór mjög seint að sofa og vaknaði eldsnemma
  • Gleymdi að fá mér kaffibolla um morguninn, en það er ávísun á hausverk og vanlíðan hjá mér.

Ég vaknaði illa sofin með stein í maganum. Ég var alls ekki búin að melta þau ósköp sem ég hafði látið ofan í mig kvöldið áður og var útbelgd. Ekki gæfulegt.  

Þar sem ég var þarna mætt án þess að ætla mér nokkur afrek var ég fullkomlega afslöppuð. Oft áður hef ég verið að hugsa um tímamælinguna og því fylgir ákveðið stress. Ég staðsetti mig í rásmarki rétt aftan við þann sem hélt á blöðru merktri 60 sem þýddi að viðkomandi ætlaði að hlaupa þetta á 60 mín. Minn besti tími til þessa er 59:01 en í þetta sinn gerði ég ráð fyrir að vera í kringum 65 mín eða jafnvel lengur.

Eftir ræsingu hlaupsins mjakaðist þvagan hægt, slíkur var fjöldinn að hann fyllti Lækjargötuna og síðan Skothúsveginn. Þegar komið var á Suðurgötuna var mögulegt að hlaupa á sínum hraða.

Það hefur stórlega færst í aukana að fólk fari út á götur til að hvetja hlaupara. Á Lynghaganum er stemningin best, þar eru íbúar úti á tröppum með potta og pönnur og slær taktinn. Manni líður eins og alvöru hlaupahetju og brosir út fyrir eyru meðan maður hleypur þarna í gegn.

Víða annars staðar var fólk að hvetja og fann ég vel fyrir því hvað það jók kraftinn að finna hvatninguna.

Ég náði að fylgja 60mín blöðruhlauparanum lengi vel og var sjálf mjög hissa. Þegar ég kom á Norðurströndina á Seltjarnarnesi var ég þó að mestu búin að missa sjónar á honum. Ég fann hvergi til og fætur í fínu formi, þökk sé nýju skónum. Ég vissi að göngurnar í sumar hefði byggt upp líkamlegan styrk og því ætti ég alveg að geta haldið uppi góðum hraða.

Í svona hlaupi er auðvelt að detta niður í hraða og fara inn í þægindafasa. Því þurfti ég þarna svolítið að telja í mig ákveðni og það tókst. Ég fór út úr þægindahraðanum og jók í. Hélt þessu út að Mýrargötu og uppgötvaði þar að ég átti enn mikið eftir. Þar byrjaði ég að velja mér fórnarlömb, valdi hlaupara fyrir framan mig og einsetti mér að fara fram úr. Þannig tókst mér að fikra mig stöðugt framar.

Í Lækjargötunni er nauðsynlegt að taka góðan endasprett, þar var reyndar lítill afgangur eftir af mér, en hvatning áhorfenda jók samt þrekið og þegar ég heyrði kallað "Áfram Kristjana" og síðan "Helvítis fokking fokk", gaf ég allt í. Ég veit ekkert hver þetta var en tel að viðkomandi þekki mig nokkuð vel. Um nóttina hafði ég verið þungt hugsi yfir sölu auðlinda okkar á Suðurnesjum og ótrúlegum sögum sem ganga um mútur og spillingu því tengt sem og öðru í tengslum við bankahrunið. Alla leiðina hafði ég verið að velta þessu fyrir mér, þessi hvatning var því ótrúlega viðeigandi.

Í markið kom ég á 61 mín og 21 sek. Hef aðeins tvisvar náð betri tíma og einu sinni nákvæmlega þessum sama tíma. Ég tel þetta því bara nokkuð gott og er alsæl með árangurinn.

Kannski er þetta bara málið, hlaupa í nýjum skóm, borða yfir sig kvöldið áður og gleyma að drekka, já og síðast en ekki síst:

Helvítis fokking fokk............


Eggið og hænan klifra

Á Hnappavöllum í Öræfasveit eru fallegir hamrar sem freista klifrara. Þar hefur verið komið fyrir festingum þar sem klifrarar geta komið fyrir tryggingum. Til eru kort með merktum leiðum í hamrinum þar sem tiltekið er erfiðleikastig klifurleiðanna.

Um seinustu helgi gafst Sindra syni mínum tækifæri á að sýna okkur foreldrunum þetta svæði og hvernig hann ber sig til við þetta sport. Einnig mátti faðirinn til með að prófa og var verulega gaman að sjá þarna eggið kenna hænunni.

IMG_8399

Klifrarar þurfa að vera a.m.k. tveir saman. Talað er um að sá sem fer fyrr upp "leiði", þ.e. hann setur karabínurnar (tvistana) í krókana sem eru fastir í veggnum. Síðan smellir hann línunni í tvistana. Sá sem stendur á jörðinni er með línuna festa í beltið sitt og passar að ætíð sé mátulega strekkt á henni og gefur meiri slaka eftir þörfum. Ef sá sem leiðir dettur, er fallið aldrei meira en sem nemur fallinu úr seinustu festingu.

IMG_8408 

Hér er Sindri kominn langleiðina að efsta krók.

IMG_8414

Þegar línan er kominn í efsta krók er talað um að vera í "toprope". Þá er hægt að síga niður og hirða upp tvistana sem notaðir voru sem tryggingar  á leiðinni upp.

IMG_8424

Þá var komið að hænunni sem stóð sig bara vel. Þetta sport reynir mjög á styrk í öllum líkamanum, sérstaklega í fingrum og framhandlegg skilst mér.

IMG_8423´

Þarna voru staddir fleiri klifrarar. Mér sýndist þetta svæði vera alger paradís fyrir þetta sport. Á þessari mynd sést vel hvernig samspil klifraranna tveggja er.

Það var reglulega ánægjulegt að fá að fylgjast með og sjá hvernig þetta sport gengur fyrir sig.

Ég nefndi í fyrri færslu að ég þekki einn mér nákominn sem lætur sig dreyma um Þumal. Þar eru einhverjar festingar og get ég vel skilið löngun þeirra sem eru byrjaðir í þessu sporti til að klífa hann.


Miðfellstindur klukkaður

Seinustu sex vikur hefur þetta blogg verið undirlagt sögum af undirbúningi mínum undir göngu á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum. Þessi undirbúningur hefur falist í venjubundnum mánudags- miðvikudags- og laugardagshlaupaæfingum. Því til viðbótar hef ég farið ófáar fjallgöngur og svo nokkrum sinnum í ræktina. Einnig hef ég flutt vikulegar fréttir af líkamsrýrnun minni.

Allur þessi undirbúningur skilaði sér vel. Ásamt félögum mínum í TKS náði ég takmarkinu um helgina. Miðfellstindur var klukkaður.

Við keyrðum austur að Hofi í Öræfum á föstudagskvöld þar sem við gistum í samkomuhúsinu. Eftir stuttan fund með fjallaleiðsögumönnum þar sem farið var yfir ferðaáætlunina var pakkað í bakpokana. Í svona ferð þarf útbúnaður að vera réttur. Búast má við öllum veðrum, allt frá sól og hita yfir í slagveður og hríð. Nesti verður líka að vera nóg. Það er hins vegar erfitt að átta sig á hversu mikið er hæfilegt fyrir allt að 20 tíma göngu.

Um kl. 23.00 var mannskapurinn komin í ró. Ég var glaðvakandi og þurfti að beita mig hörðu til að ná að sofna. Það var nauðsynlegt að hvílast.

Klukkan þrjú eftir miðnætti hringdi vekjaraklukkan. Nú þýddi ekkert hangs, á fætur skyldum við, borða morgunmat, það verður að fylla tankinn fyrir áreynsluna. Í Skaftafell mættum við svo stundvíslega klukkan fjögur. Lagt var af stað um kl. 04.15.

Fyrsti áfangi göngunnar var yfir Skaftafellsheiði yfir í Morsárdal. Þetta er falleg gönguleið sem ég mæli með, þægilegur göngustígur alla leið.

Þegar yfir heiðina var komið blasti Morsárdalurinn við og yfir honum gnæfði takmarkið - Miðfellstindur. Á myndinni hér fyrir neðan er hann eins og hryggur fyrir miðri mynd, hæsti toppurinn í fjarska.

IMG_8284

Á Morsá er göngubrú sem við fórum yfir og síðan var þrammað meðfram Morsá að vestanverðu og inn dalinn. Allan tímann blöstu Skaftafellsfjöllin við, Miðfellstindur, Ragnarstindur, Skarðstindur og Kristínartindar. Stórbrotinn fjallgarður og fegurðin ólýsanleg í morgunsárið enda veðrið milt og allt lífið bara yndislegt.

IMG_8300

Á myndinni glittir í Miðfellstind lengst til vinstri, Ragnarstindur er eins og geirvarta á brjósti, Skarðstindur er strýtan til hægri og Kristínartindar taka svo við lengst til hægri, mest utan myndar. Skriðjökullinn fyrir miðri mynd er Morsárjökull.

Þegar inn í dalinn kom slógu fjallaleiðsögumenn upp búðum. Settir voru upp þrír tjaldhimnar til skjóls en veðrið var svo milt að við kusum frekar að henda okkur á jörðina. Vatn var hitað og við loftuðum um sveittar tær og nærðum okkur. Við vorum um þrjá klukkutíma þarna inn eftir þannig að við vorum þarna milli klukkan 7 og 8 um morguninn.

Stundvíslega kl 07:45 pípti einn síminn, hvergi var friður fyrir þessum símum, en gat það verið að þarna innfrá væri GSM samband? Nei, þetta var síminn hennar Ragnheiðar. Hann var að minna hana á að þennan dag ætlaði hún á Miðfellstind! Það hefði nú verið gaman hjá henni að vakna við þetta ef hún hefði forfallast.

Eftir morgunmat númer tvö þennan daginn og góða hvíld var haldið af stað. Nú hófst hin eiginlega fjallganga. Það er ekki ofsögum sagt að uppgangan hafi verið brött.

uppganga

Á myndina hef ég merkt inn uppgönguleiðina með rauðri línu. Leiðin liggur vestan gilsins sem sést þarna en það heitir Vestra Meingil.

IMG_8353

Síðan tekur við Hnútudalur sem sést á myndinni hér að ofan og þaðan liggur leiðin upp snarbratta fönn fyrir miðri mynd.

IMG_8355 

Hér pjökkum við upp fönnina.

IMG_8361

Þá er farið yfir hrygginn og þræddum við snarbratta hlíð norðan tindanna. Myndin hér að ofan er tekin ofan af hryggnum og niður á félaga mína sem fóru fyrstir yfir.

IMG_8368

Þumall sjálfur rétt gægðist á okkur í þokunni. Þetta er glæsilegur tindur sem er víst hægt að klífa. Ég þekki einn mér nákominn sem nú þegar lætur sig dreyma um það. Meira um það síðar.

Eftir þetta var farið í línu og pjökkuðum við norðan við Miðfellstind og síðan upp hann að austanverðu.

IMG_8380

Miðfellstindur er hryggur. Á myndinni hér að ofan sést að á honum miðjum er mjótt haft. Við þræddum haftið því vestari hlutinn er hæstur og þangað stefndum við. Að göngu lokinni sögðu leiðsögumennirnir okkur að þarna niður væri snarbratt hengiflug. Þökk sé þokunni að við gerðum okkur enga grein fyrir því. Annars hefðum við líklega ekki þorað þarna yfir.

Það er óhætt að segja að við höfum þrætt breytileg veður á leið okkar upp í skýin. Niðri var milt og hlýtt, þegar ofar dró varð raki meiri og það kólnaði og fór að snjóa. Skyggni var lítið eins og sést á myndunum. Á niðurleiðinni rigndi svo þétt á okkur.

Auðvitað hefði verið gaman að fá útsýni en allt veður hefur sinn sjarma og upplifunin að fara þetta stóð fyrir sínu.

Þegar tindinum var náð var gert stutt stopp en síðan snúið við. Þegar við vorum rétt komin til baka fram hjá Þumli aftur, lá leiðin yfir snarbratta klakarennu með snjóföl yfir. Ég horfði á Svölu rétt fyrir framan mig skrika fót og renna. Hún náði að bjarga sér upp aftur. Ég ákvað að fara eins varlega og ég gat, það dugði ekki til, mér skrikaði fótur og byrjaði að renna. Mér leist ekki á blikuna því þarna var snarbratt svo langt niður sem ég sá í þokunni. Sindri sonur minn var fyrir aftan mig. Hann brást hratt við og náði að krækja í bakpokann minn og hékk í mér. Ég fann að ég mátti mig hvergi hreyfa því þetta var mjög sleipt. Ég náði að rétta stafinn minn til Hugrúnar sem fullyrti að hún hefði góða festu og gat mjakað mér til hennar. Já, allt fór vel.

Þegar við komum að snarbrattri snjóbrekkunni niður í Hnútudalinn skellti Leifur fjallaleiðsögumaður sér á rassinn beint niður brekkuna. Á eftir honum komu svo öll börnin í TKS. Við hlógum og skríktum alla leiðina. Rassarnir okkar grófu braut þannig að okkur fannst við vera á bobsleðum. Ferðin varð þó nokkur.

IMG_8386

Þegar hér var komið við sögu var rigningin tekin við af snjókomunni og hélst hún alla leið niður í tjaldbúðir. Við urðum mörg vel rassblaut af renniferðinni, sveitt og blaut eftir gönguna.

Ósköp var nú gott að hafa tjaldbúðirnar þegar við komum aftur niður. Þar gátum við fengið okkur kvöldmat. Margir höfðu tekið með sér þurrmat. Mér blöskrar verðið á honum þessa dagana og leysti matarmál með kúskús og steiktu beikoni sem ég hafði tekið með mér. Ég hafði einnig tekið með mér ullarbol og sokka til að eiga þurra eftir gönguna. Eitthvað hafði mér brugðist bogalistin í pökkun og gleymdi að setja þetta í plastpoka. Mátti varla milli sjá hvort var blautara bolurinn í bakpokanum eða sá sem ég var í. Þar sem bolurinn sem ég var í var heitur þá var valið auðvelt.

Að matarpásu lokinni voru tjaldbúðirnar teknar saman og arkað til baka yfir aurana í Morsárdal að Skaftafelli. Óhætt er að segja að við höfum verið eins og heimfúsir hestar því það var óttalegt ark á okkur enda gott að skunda svona eftir gönguna í rigningunni og snjónum.

Í Skaftafell komum við um kl 22.15, eftir 18 tíma ferð. Við vorum bara nokkuð ánægð með okkur. Æfingar liðinna vikna höfðu virkilega komið sér vel. Sjálf fann ég hvergi til, auðvitað lúin en ekkert umfram það sem búast mátti við.

Vorferðir TKS eru orðinn fastur liður. Við höfum nú fimm ár í röð fengið fjallaleiðsögumenn til að velja fyrir okkur leið og leiða okkur á hina ýmsu tinda. Þrisvar höfum við verið tilraunadýr hjá þeim, þ.e. verið fyrsti hópurinn sem þeir fara með á viðkomandi tinda. Það eru ferðir á Hrútfjallstinda, Þverártindsegg og svo núna á Miðfellstind. Okkur líkar það mjög vel að vera svona tilraunadýr.

Næsta ferð verður líklega á Sveinstind í Öræfajökli. Þegar ég kemst niður úr skýjunum eftir þessa ferð hefst tilhlökkun og undirbúningur undir hana.

PS. Fleiri myndir úr ferðinni má sjá hér.


Miðfellstindur

Nú er alveg að koma að því.........félagar úr TKS stefna á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum um helgina.

Óhætt er að segja að ferðin sé margumtöluð og mikiðtilhlökkuð. Svo mikið að aðrir félagar okkar í klúbbnum sem og vinir og vinnufélagar eru búnir að fá nóg. Ef áfanganum verður náð verðum við algerlega óþolandi eftir helgi. Líklega breytir það engu, við vorum óþolandi fyrir.

Fyrir þessa göngu höfum við flest æft af kappi. Gert er ráð fyrir að gangan taki um 20klst. Lagt verður af stað um kl 4 aðfararnótt laugardags og komið til baka um miðnætti. Erfiðleiki göngunnar felst fyrst og fremst í því að frá Skaftafelli og inn í Kjós þar sem uppganga er á Miðfellstind, eru um 11km. Gert er ráð fyrir að gangan inn í Kjós taki allt að 4 klst. Tindurinn sjálfur er um 1430m og gert er ráð fyrir að gangan á hann og niður aftur taki um 9klst. Svo þarf að koma sér til baka en það má reikna með að það séu aðrar 4 klst. Glöggir lesendur taka eftir að þetta gera 17 klst en ekki 20. Þessar 3 klst sem á milli ber er reiknað með að fari í góðar hvíldarpásur.

Lýsingu og myndir af þessari göngu má sjá hér.

Hversu erfið svona ganga er síðan ræðst svo að sjálfsögðu af veðri. Veðurspá helgarinnar gerir ráð fyrir lygnu veðri og það skiptir miklu máli. Ekki er alveg ljóst hvort búast má við úrkomu og þá hversu mikilli, en það er hætt við að það verði eitthvað skýjað.

Við tökum því sem að höndum ber, höfum áður reynslu af því að fá brilljant útsýni þrátt fyrir að hefja gönguna í þokusudda.

Að göngu lokinni ætlum við að gæða okkur á súpu sem mallar núna á eldavélinni minni. Hún smakkast vel nú þegar, hvað þá eftir svona göngu.


Hreyfiskýrsla og Joly

Nú styttist óðum í margumtalaða og mikiðtilhlakkaðrar ferðar á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum. Æfingar og aðhald hafa skilað árangri sem ég er ánægð með. Úthald og kraftur hafa aukist og allt að 5 kíló fokin á jafnmörgum vikum. Nokkuð bratt en ef tekið er tillit til þess að byrjunarvigtun var gerð eftir mikið hamborgaraát og bjórdrykkju má reikna með að þetta séu um 3 kíló. Það gera ríflega 1/2 kíló á viku sem er mjög svo mátulegt.

Frétt dagsins er svo að mínu mati hótun Evu Joly um að hætta og svo að hún sé hætt við að hætta. Það er ljóst að einhver öfl hafa ekki sætt sig við að hún væri með puttana í óhreina tauinu okkar. Sjálf varð ég róleg í vetur þegar hún var ráðin að rannsókninni að bankahruninu. Taldi þar með að það væri óþarft að ég væri að hafa áhyggjur af þessu og hætti fyrirgrennslunum mínum á netinu. Það var komin hæfari kona í málið.

Ýmislegt sem sagt hefur verið og gefið í skyn í tengslum við icesave samkomulagið fyllir mig enn frekari tortryggni gagnvart fyrrum eigendum og stjórnendum Landsbankans. Ég ætla ekki að rökstyðja þetta frekar hér en hvet fólk til að hlusta á það sem EKKI er sagt og lesa það sem stundum er milli línanna og gefið í skyn.

Einnig vil ég benda á nokkrar nýlegar færslur Láru Hönnu (1, 2, 3 og 4) þar sem hún birtir greinar í danska blaðinu Ekstrabladed frá því árið 2006. Þar eru íslensku "útrásarvíkingarnir" teiknaðir upp ófögrum litum. Kaupþing var viðkvæmt fyrir þessari umfjöllun og fékk lögbann á birtinguna.

Endilega skoðið.


Hallgrímur og icesave

Í dag var Hallgrímur hlaupinn. Honum hefur verið lýst áður á þessari síðu. Líklega um 9km því ég fór lengri leiðina.

Ég fann árangur erfiðis míns greinilega í dag. Miklu léttari á mér og samanburðurinn við mína venjulegu mánudagshlaupafélaga var mér hagstæðari en áður. Hafði mun betur við þeim............og jafnvel gott betur.

Á hlaupunum var tekin umræða um icesave. Að sjálfsögðu. Um það mál gæti ég skrifað langhund, hann yrði leiðinlegur.

Stutta útgáfan er svona:

Það var ljóst strax í haust að við værum í djúpum. Ráðamenn og þjóðin sjálf kaus að loka augunum og lifa í sjálfsblekkingum. Þeir sem hafa lesið búbótina vita að ég var æf. Svo reið að ættingjar, vinir og vinnufélagar gerðu grín að mér. Ég mætti á fyrsta mótmælafundinn á Arnarhóli og hvern laugardaginn eftir annan á Austurvöll. Mér fannst viðbragðsleysi stjórnvalda óskiljanlegt og sofandaháttur almennings enn furðulegri. Hlustaði fólk ekki á fréttir? Það var ljóst að framtíðin var svört, við vorum rænd og engar aðgerðir sjáanlegar í þá átt að elta uppi skúrkana.

Núverandi stjórnvöld tóku við atburðarás sem var hafin. Að bakka út úr Icesave samningaferlinu var líklega ekki valkostur nema samhliða að segja okkur úr samfélagi þjóðanna.

Að þessu sögðu upplýsi ég að mér er létt. Ég er enn bálreið út í þá sem komu okkur í þessa stöðu en með þessu samkomulagi eru ákveðin vatnaskil og við getum betur áttað okkur á hvert við erum að fara.

Steingrímur J. á öll mín prik þessa dagana. Ég þoli ekki populistastjórnmálamenn sem haga seglum eftir vindi. Í stjórnarandstöðu átti hann það til. Núna þorir hann að taka erfiðar ákvarðanir og það kann ég að meta.

Að fara af límingunum núna yfir icesave er að mínu viti sjö mánuðum of seint.

Hvar voru þeir sem hæst láta í dag fyrstu vikurnar eftir bankahrunið?


Helgin

Hreyfiskýrsla helgarinnar er einföld:

Rólegheit.

Reyndar brá ég mér á æskuslóðir og fór á hestbak. Hvort það flokkast undir hreyfingu mína skal ósagt látið. Hrossið hreyfði sig þokkalega og ég fór vissulega hratt um en áreynsla mín var óveruleg.

Annars bara hress.


Hengill

Í gærkvöld, á fimmtudagskvöldi, dreif Hugrún göngufélagi minn í því að smala saman fólki í göngu á Hengilinn. Lagt var af stað um Sleggjubeinaskarð um kl. 19 og tók gangan um 4 og hálfan tíma, upp á tindinn Skeggja og til baka aftur. Alls voru gengnir um 13km. 

Við fengum milt veður og ágætt skyggni á leiðinni upp og fínt skyggni á toppnum, logn og frábæra stemmningu. Á niðurleiðinni skall á með þoku.

Þetta var frábær ganga, að vísu í lengra lagi sem kvöldganga en samt í góðu lagi.

Mér finnst ekki slæmt að hafa gengið á: Vífilsfell, Botnssúlur, Bláfjallahrygginn, Móskarðshnjúka, Hengilinn og Bjarnarfell í Biskupstungum á rétt rúmum hálfum mánuði.

Pínuánægð með mig.

Í dag verður hvíldardagur enda skal viðurkennt að það sat smáþreyta í skrokknum í morgun. Hvíldardögum mun fjölga nú næstu vikuna, nú skal bara safna kröftum fyrir næstu helgi.

 


Hvíld og hugleiðing um matarræði

Eftir stífar göngur tvo daga í röð tók ég einn hvíldardag. Held það sé gáfulegt og sleppti hefðbundnum miðvikudagshlaupum.

Þetta æfingaprógramm mitt er að skila árangri og er ég hæstánægð með formið. Einnig hafa þyngdarbreytingarnar verið skv. áætlun. Það er ákjósanlegt að léttast ekki of ört. Þá gengur maður á vöðvamassann skilst mér en ef þetta gerist hægar má maður frekar vonast til að það sé spikið sem sé að leka af. Ég hef verið að missa ca. 500g á viku sem er fínt. Heildarþyngdartap þessar 4 vikur er 3,5 kíló.

Ég hef samhliða æfingum tekið á matarræði. Borða mikið af ávöxtum, léttjógúrti og skyri. Einnig geri ég mér oft salatdisk með iceberg salati, kirsuberjatómötum, mangó (eða öðrum ávöxtum), papriku, ostabitum og furuhnetum. Síðan set ég balsamik edik yfir. Þetta er mjög gott og seðjandi. Ég borða annars einnig allan almennan mat en sneiði hjá því sem er hitaeiningaríkt en tek ríflega af grænmeti og ávöxtum. Ég forðast helst brauðmeti, pasta og hrísgrjón.

Fyrir æfingar fæ ég mér iðulega banana og í fyrir heilsdagsgönguferðir fæ ég mér góðan morgunmat með músli. Í göngunesti hef ég flatkökur með hangikjöti og einnig hnetur, súkkulaði og brjóstsykur ef ég verð orkulítil.

Að lágmarki einn dag í viku leyfi ég mér að borða vel og það sem mig langar í, pizzur, grillkjöt með rjómasósu, bjór eða hvað sem er.

Ég hvorki vigta mat né tel hitaeiningar. Er bara meðvituð og legg áherslu á ómælt magn af ávöxtum og grænmeti. Árangurinn er greinilegur og mér líður miklu betur.


Kvöldganga á Móskarðshnjúka

Í dag er þriðjudagur og þá stendur Hugrún göngufélagi minn, fyrir kvöldgöngum. Í kvöld var ferðinni heitið á Móskarðshnjúka.

Þó gangan í gær hafi verið löng og stíf var skrokkurinn bara í fínu formi og því ekkert til fyrirstöðu að skella sér. Örlítið fann ég í aftanverðum lærunum að ég hefði tekið á í gær en mér til mikillar ánægju þá truflaði það uppgönguna ekkert.

Það er óhætt að segja að æfingar seinustu vikur hafi skilað sér og var ég semsagt bara í góðu formi og naut kvöldgöngunnar.

IMG_8219

Með mér á myndinni eru göngufélagar mínir Ragnheiður og Bestla.

Fleiri myndir sjá hér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband