Miðfellstindur klukkaður

Seinustu sex vikur hefur þetta blogg verið undirlagt sögum af undirbúningi mínum undir göngu á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum. Þessi undirbúningur hefur falist í venjubundnum mánudags- miðvikudags- og laugardagshlaupaæfingum. Því til viðbótar hef ég farið ófáar fjallgöngur og svo nokkrum sinnum í ræktina. Einnig hef ég flutt vikulegar fréttir af líkamsrýrnun minni.

Allur þessi undirbúningur skilaði sér vel. Ásamt félögum mínum í TKS náði ég takmarkinu um helgina. Miðfellstindur var klukkaður.

Við keyrðum austur að Hofi í Öræfum á föstudagskvöld þar sem við gistum í samkomuhúsinu. Eftir stuttan fund með fjallaleiðsögumönnum þar sem farið var yfir ferðaáætlunina var pakkað í bakpokana. Í svona ferð þarf útbúnaður að vera réttur. Búast má við öllum veðrum, allt frá sól og hita yfir í slagveður og hríð. Nesti verður líka að vera nóg. Það er hins vegar erfitt að átta sig á hversu mikið er hæfilegt fyrir allt að 20 tíma göngu.

Um kl. 23.00 var mannskapurinn komin í ró. Ég var glaðvakandi og þurfti að beita mig hörðu til að ná að sofna. Það var nauðsynlegt að hvílast.

Klukkan þrjú eftir miðnætti hringdi vekjaraklukkan. Nú þýddi ekkert hangs, á fætur skyldum við, borða morgunmat, það verður að fylla tankinn fyrir áreynsluna. Í Skaftafell mættum við svo stundvíslega klukkan fjögur. Lagt var af stað um kl. 04.15.

Fyrsti áfangi göngunnar var yfir Skaftafellsheiði yfir í Morsárdal. Þetta er falleg gönguleið sem ég mæli með, þægilegur göngustígur alla leið.

Þegar yfir heiðina var komið blasti Morsárdalurinn við og yfir honum gnæfði takmarkið - Miðfellstindur. Á myndinni hér fyrir neðan er hann eins og hryggur fyrir miðri mynd, hæsti toppurinn í fjarska.

IMG_8284

Á Morsá er göngubrú sem við fórum yfir og síðan var þrammað meðfram Morsá að vestanverðu og inn dalinn. Allan tímann blöstu Skaftafellsfjöllin við, Miðfellstindur, Ragnarstindur, Skarðstindur og Kristínartindar. Stórbrotinn fjallgarður og fegurðin ólýsanleg í morgunsárið enda veðrið milt og allt lífið bara yndislegt.

IMG_8300

Á myndinni glittir í Miðfellstind lengst til vinstri, Ragnarstindur er eins og geirvarta á brjósti, Skarðstindur er strýtan til hægri og Kristínartindar taka svo við lengst til hægri, mest utan myndar. Skriðjökullinn fyrir miðri mynd er Morsárjökull.

Þegar inn í dalinn kom slógu fjallaleiðsögumenn upp búðum. Settir voru upp þrír tjaldhimnar til skjóls en veðrið var svo milt að við kusum frekar að henda okkur á jörðina. Vatn var hitað og við loftuðum um sveittar tær og nærðum okkur. Við vorum um þrjá klukkutíma þarna inn eftir þannig að við vorum þarna milli klukkan 7 og 8 um morguninn.

Stundvíslega kl 07:45 pípti einn síminn, hvergi var friður fyrir þessum símum, en gat það verið að þarna innfrá væri GSM samband? Nei, þetta var síminn hennar Ragnheiðar. Hann var að minna hana á að þennan dag ætlaði hún á Miðfellstind! Það hefði nú verið gaman hjá henni að vakna við þetta ef hún hefði forfallast.

Eftir morgunmat númer tvö þennan daginn og góða hvíld var haldið af stað. Nú hófst hin eiginlega fjallganga. Það er ekki ofsögum sagt að uppgangan hafi verið brött.

uppganga

Á myndina hef ég merkt inn uppgönguleiðina með rauðri línu. Leiðin liggur vestan gilsins sem sést þarna en það heitir Vestra Meingil.

IMG_8353

Síðan tekur við Hnútudalur sem sést á myndinni hér að ofan og þaðan liggur leiðin upp snarbratta fönn fyrir miðri mynd.

IMG_8355 

Hér pjökkum við upp fönnina.

IMG_8361

Þá er farið yfir hrygginn og þræddum við snarbratta hlíð norðan tindanna. Myndin hér að ofan er tekin ofan af hryggnum og niður á félaga mína sem fóru fyrstir yfir.

IMG_8368

Þumall sjálfur rétt gægðist á okkur í þokunni. Þetta er glæsilegur tindur sem er víst hægt að klífa. Ég þekki einn mér nákominn sem nú þegar lætur sig dreyma um það. Meira um það síðar.

Eftir þetta var farið í línu og pjökkuðum við norðan við Miðfellstind og síðan upp hann að austanverðu.

IMG_8380

Miðfellstindur er hryggur. Á myndinni hér að ofan sést að á honum miðjum er mjótt haft. Við þræddum haftið því vestari hlutinn er hæstur og þangað stefndum við. Að göngu lokinni sögðu leiðsögumennirnir okkur að þarna niður væri snarbratt hengiflug. Þökk sé þokunni að við gerðum okkur enga grein fyrir því. Annars hefðum við líklega ekki þorað þarna yfir.

Það er óhætt að segja að við höfum þrætt breytileg veður á leið okkar upp í skýin. Niðri var milt og hlýtt, þegar ofar dró varð raki meiri og það kólnaði og fór að snjóa. Skyggni var lítið eins og sést á myndunum. Á niðurleiðinni rigndi svo þétt á okkur.

Auðvitað hefði verið gaman að fá útsýni en allt veður hefur sinn sjarma og upplifunin að fara þetta stóð fyrir sínu.

Þegar tindinum var náð var gert stutt stopp en síðan snúið við. Þegar við vorum rétt komin til baka fram hjá Þumli aftur, lá leiðin yfir snarbratta klakarennu með snjóföl yfir. Ég horfði á Svölu rétt fyrir framan mig skrika fót og renna. Hún náði að bjarga sér upp aftur. Ég ákvað að fara eins varlega og ég gat, það dugði ekki til, mér skrikaði fótur og byrjaði að renna. Mér leist ekki á blikuna því þarna var snarbratt svo langt niður sem ég sá í þokunni. Sindri sonur minn var fyrir aftan mig. Hann brást hratt við og náði að krækja í bakpokann minn og hékk í mér. Ég fann að ég mátti mig hvergi hreyfa því þetta var mjög sleipt. Ég náði að rétta stafinn minn til Hugrúnar sem fullyrti að hún hefði góða festu og gat mjakað mér til hennar. Já, allt fór vel.

Þegar við komum að snarbrattri snjóbrekkunni niður í Hnútudalinn skellti Leifur fjallaleiðsögumaður sér á rassinn beint niður brekkuna. Á eftir honum komu svo öll börnin í TKS. Við hlógum og skríktum alla leiðina. Rassarnir okkar grófu braut þannig að okkur fannst við vera á bobsleðum. Ferðin varð þó nokkur.

IMG_8386

Þegar hér var komið við sögu var rigningin tekin við af snjókomunni og hélst hún alla leið niður í tjaldbúðir. Við urðum mörg vel rassblaut af renniferðinni, sveitt og blaut eftir gönguna.

Ósköp var nú gott að hafa tjaldbúðirnar þegar við komum aftur niður. Þar gátum við fengið okkur kvöldmat. Margir höfðu tekið með sér þurrmat. Mér blöskrar verðið á honum þessa dagana og leysti matarmál með kúskús og steiktu beikoni sem ég hafði tekið með mér. Ég hafði einnig tekið með mér ullarbol og sokka til að eiga þurra eftir gönguna. Eitthvað hafði mér brugðist bogalistin í pökkun og gleymdi að setja þetta í plastpoka. Mátti varla milli sjá hvort var blautara bolurinn í bakpokanum eða sá sem ég var í. Þar sem bolurinn sem ég var í var heitur þá var valið auðvelt.

Að matarpásu lokinni voru tjaldbúðirnar teknar saman og arkað til baka yfir aurana í Morsárdal að Skaftafelli. Óhætt er að segja að við höfum verið eins og heimfúsir hestar því það var óttalegt ark á okkur enda gott að skunda svona eftir gönguna í rigningunni og snjónum.

Í Skaftafell komum við um kl 22.15, eftir 18 tíma ferð. Við vorum bara nokkuð ánægð með okkur. Æfingar liðinna vikna höfðu virkilega komið sér vel. Sjálf fann ég hvergi til, auðvitað lúin en ekkert umfram það sem búast mátti við.

Vorferðir TKS eru orðinn fastur liður. Við höfum nú fimm ár í röð fengið fjallaleiðsögumenn til að velja fyrir okkur leið og leiða okkur á hina ýmsu tinda. Þrisvar höfum við verið tilraunadýr hjá þeim, þ.e. verið fyrsti hópurinn sem þeir fara með á viðkomandi tinda. Það eru ferðir á Hrútfjallstinda, Þverártindsegg og svo núna á Miðfellstind. Okkur líkar það mjög vel að vera svona tilraunadýr.

Næsta ferð verður líklega á Sveinstind í Öræfajökli. Þegar ég kemst niður úr skýjunum eftir þessa ferð hefst tilhlökkun og undirbúningur undir hana.

PS. Fleiri myndir úr ferðinni má sjá hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg ferðasaga í máli og myndum. Til lukku með þennan áfanga.
Kv.
Villa

Vilborg Hjartar. (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband