Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Að leita fjár

Í gær tók ég þátt í skipulagðri aðgerð til að endurheimta fé.

Aðgerðin fór fram á Snæfellsnesfjallgarði og var leitarsvæðið vestan Hraunsfjarðarvatns, vestan Baulárvallarvatns, Dufgusdalur, Urðarmúli, austurhlíð Elliðahamars og Hofstaðaháls.

Fyrsti hluti aðgerðarhópsins var ferjaður af björgunarsveit eftir endilöngu Hraunsfjarðarvatni og hófst aðgerðin við norðurenda vatnsins. Smám saman hafði fundist þó nokkurt fé og virtist aðgerðin ganga nokkuð vel. Reyndi þó venju samkvæmt töluvert á útsjónarsemi leiðangursmanna við að fjárheimtuna þar sem féð vildi stundum sleppa í skjól.

Þegar leið á aðgerðina þyngdist róðurinn. Það var eins og utanaðkomandi öfl reyndu að villa um fyrir leiðangursmönnum eftir því sem aðgerðahópum fjölgaði. Fór svo að samstillt átak bæði innan aðgerðahópa og milli aðgerðahópa breyttist í sundurlaus einkaframtök. Leitarmenn sáu ekkert hver til annars og öll samskipti voru erfið þar sem símar hættu að virka vegna bleytu, inneignarleysi og aðgerðasvæðið reyndist stundum vera utan þjónustusvæðis. Er þá ótalið að einstakir leiðangursmenn gleymdu símanum heima. Leiðangursmenn týndu hverjir öðrum, urðu áttavilltir og týndu jafnóðum því fé sem fannst.

Erfitt er að segja um hvaða öfl voru þarna að verki en heimtur fjár urðu að vonum litlar. Hvort það sé staðreynd sem eigendur íslensks fjár verði að sætta sig við verður bara að koma í ljós.

Síðar í þessari viku stendur til að frysta eigur fjáreigandans, Eggerts bónda á Hofstöðum. Það eru lögmætar eigur hans og afrakstur vinnu heils árs. 


Hlaupahetjusaga

Ég minnist þess þegar ég var barn og unglingur hvað mér þótti merkilegt að geta hlaupið 5 og 10 km. Á frjálsíþróttamótum voru það bara örfáir sem lögðu þetta á sig og þóttu þeir miklar hetjur. Þeir hlupu þá hring eftir hring á íþróttavellinum og mér var óskiljanlegt hvernig þetta væri hægt.

Nú hef ég í nokkur ár stundað hlaup og finnst bara alls ekkert merkilegt að komast 5 og 10km. Það sem meira er, þetta er bara alls ekkert erfitt.

Í gær tók ég þátt í 10km hlaupinu. Reyndar var ég lengi vel í vafa um hvort ég ætlaði að taka þátt þar sem ég hef fundið lítilsháttar til í hnjám nú undanfarið. Kenndi ég göngum sumarsins um það. Stemningin í hlaupinu er hins vegar slík að ég ákvað að láta slag standa og taka þetta bara rólega.

Þar sem ég gerði ekki ráð fyrir neinum persónulegum afrekum nema þá í mesta lagi "personal werst", þá gerði ég allt eins og ekki á að gera fyrir hlaup:

  • Hljóp á glænýjum skóm
  • Fór í grillparty kvöldið áður og borðaði yfir mig en gleymdi að innbyrða vökva
  • Fór mjög seint að sofa og vaknaði eldsnemma
  • Gleymdi að fá mér kaffibolla um morguninn, en það er ávísun á hausverk og vanlíðan hjá mér.

Ég vaknaði illa sofin með stein í maganum. Ég var alls ekki búin að melta þau ósköp sem ég hafði látið ofan í mig kvöldið áður og var útbelgd. Ekki gæfulegt.  

Þar sem ég var þarna mætt án þess að ætla mér nokkur afrek var ég fullkomlega afslöppuð. Oft áður hef ég verið að hugsa um tímamælinguna og því fylgir ákveðið stress. Ég staðsetti mig í rásmarki rétt aftan við þann sem hélt á blöðru merktri 60 sem þýddi að viðkomandi ætlaði að hlaupa þetta á 60 mín. Minn besti tími til þessa er 59:01 en í þetta sinn gerði ég ráð fyrir að vera í kringum 65 mín eða jafnvel lengur.

Eftir ræsingu hlaupsins mjakaðist þvagan hægt, slíkur var fjöldinn að hann fyllti Lækjargötuna og síðan Skothúsveginn. Þegar komið var á Suðurgötuna var mögulegt að hlaupa á sínum hraða.

Það hefur stórlega færst í aukana að fólk fari út á götur til að hvetja hlaupara. Á Lynghaganum er stemningin best, þar eru íbúar úti á tröppum með potta og pönnur og slær taktinn. Manni líður eins og alvöru hlaupahetju og brosir út fyrir eyru meðan maður hleypur þarna í gegn.

Víða annars staðar var fólk að hvetja og fann ég vel fyrir því hvað það jók kraftinn að finna hvatninguna.

Ég náði að fylgja 60mín blöðruhlauparanum lengi vel og var sjálf mjög hissa. Þegar ég kom á Norðurströndina á Seltjarnarnesi var ég þó að mestu búin að missa sjónar á honum. Ég fann hvergi til og fætur í fínu formi, þökk sé nýju skónum. Ég vissi að göngurnar í sumar hefði byggt upp líkamlegan styrk og því ætti ég alveg að geta haldið uppi góðum hraða.

Í svona hlaupi er auðvelt að detta niður í hraða og fara inn í þægindafasa. Því þurfti ég þarna svolítið að telja í mig ákveðni og það tókst. Ég fór út úr þægindahraðanum og jók í. Hélt þessu út að Mýrargötu og uppgötvaði þar að ég átti enn mikið eftir. Þar byrjaði ég að velja mér fórnarlömb, valdi hlaupara fyrir framan mig og einsetti mér að fara fram úr. Þannig tókst mér að fikra mig stöðugt framar.

Í Lækjargötunni er nauðsynlegt að taka góðan endasprett, þar var reyndar lítill afgangur eftir af mér, en hvatning áhorfenda jók samt þrekið og þegar ég heyrði kallað "Áfram Kristjana" og síðan "Helvítis fokking fokk", gaf ég allt í. Ég veit ekkert hver þetta var en tel að viðkomandi þekki mig nokkuð vel. Um nóttina hafði ég verið þungt hugsi yfir sölu auðlinda okkar á Suðurnesjum og ótrúlegum sögum sem ganga um mútur og spillingu því tengt sem og öðru í tengslum við bankahrunið. Alla leiðina hafði ég verið að velta þessu fyrir mér, þessi hvatning var því ótrúlega viðeigandi.

Í markið kom ég á 61 mín og 21 sek. Hef aðeins tvisvar náð betri tíma og einu sinni nákvæmlega þessum sama tíma. Ég tel þetta því bara nokkuð gott og er alsæl með árangurinn.

Kannski er þetta bara málið, hlaupa í nýjum skóm, borða yfir sig kvöldið áður og gleyma að drekka, já og síðast en ekki síst:

Helvítis fokking fokk............


Skemmtileg sumarmynd

Þessi mynd var tekin í Húsafelli í morgun, þar var ég í tveggja nátta útilegu í yndislegu veðri og góðum félagsskap.

Sumarfrí á Íslandi er góður kostur.

IMG_8572

Þetta er Sigrún systir mín með Finnbjörn, uppáhaldsfrænda minn.


Vorganga TKS

Árleg vorganga félaga í TKS er áætluð á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum. Þessar vorgöngur eru orðnar árviss viðburður og höfum við þegar gengið á Hvannadalshnjúk, Eyjafjallajökul, Hrútfellstinda og Þverártindsegg.

Löngunin til að taka þátt í þessum göngum heldur mér við efnið yfir veturinn. Ég dríf mig með félögunum út að hlaupa nánast í hvaða veðri sem er, reyni að fara líka í líkamsræktina og svo stunda ég bæði skíðagöngur og fjallgöngur. Allt til að komast með í vorgönguna.

Gangan á Miðfellstind er skipulögð þannig að lagt verður af stað úr Skaftafelli og gengið inn í Kjós og þaðan á tindinn. Gallinn er að gangan úr Skaftafelli inn í Kjós er víst ein og sér 12-16 km (mælingum ber ekki saman, á eftir að afla mér betri heimilda) og þá er eftir gangan á Miðfellstind en hann er víst 1430m. Og síðast en ekki síst þarf að koma sér til baka. Áætlunin gerir ráð fyrir 20klst ferð.

Í gær fórum við félagar í TKS saman í langa göngu til að kanna úthaldið. Við lögðum að baki u.þ.b. 24 km í frekar auðveldu göngulandi. Gengið var um Núpshlíðarháls á Reykjanesi.

Það skal viðurkennt að ég varð lúin eftir gönguna og tilhugsunin um að þetta væri lámarksvegalengd til og frá tindinum og að tindurinn sjálfur væri eftir, var ekki góð.

Síðan ég kom úr þessari æfingaferð hefur læðst að mér sú hugsun að hætta við vorgönguna. Það er ekki viturlegt að leggja af stað og vera óviss um hvort úthaldið leyfi svona ferð.

Ætli þrautalendingin verði ekki samt að herða æfingar, ég hef rúman mánuð, við áætlum ferðina 13. júní.

Semsagt nú verður slegið í og engin leti leyfð!


Stakkhamarsstelpurnar

Við systurnar á Stakkhamri höfum verið kallaðar Stakkhamarsstelpurnar. Svona litu Stakkhamarstelpurnar út fyrir örfáum árum:

Scan10024 

En heimurinn breytist og mennirnir með. Nú eru komnar nýjar Stakkhamarsstelpur. Með trega afhendi ég viðurnefnið til þeirra Alexöndru Ástu og Bjarndísar Erlu.

Dömurnar eru komnar heim að Stakkhamri eftir nokkurra daga viðdvöl hjá gamalli móðursystur að Barðaströndinni.

Svona líta Stakkhamarsstelpurnar út í dag:

IMG_7700

Þetta er frábær áfangi í þeirra stutta lífi og við skulum muna að það er alls ekki sjálfgefið hversu vel þetta hefur þó gengið.

Þó ég með trega afhendi viðurnefnið þá unni ég þessum litlu gullmolum þess og hlakka til að sjá þær sulla í læknum, drullumalla í búinu og ríða út um fjörurnar.

Ég óska þessum frænkum mínum og foreldrunum gæfu og góðs gengis í framtíðinni.


Nýjasta dellan

Ég hef áður játað á mig að vera dellukelling.

Nýjasta dellan eru gönguskíði. Ég keypti mér vegleg utanbrautaskíði fyrir ári og er himinlifandi yfir fjárfestingunni. Það er algerlega frábært að taka rúnt á þessum græjum.

Nú í vikunni skráði ég mig í ferð um páskana. Ferðin er með Útivist og heitir Sóleyjarhöfði - Kerlingarfjöll. Farið er yfir Þjórsá, um Þjórsárver og yfir í Kerlingarfjöll, tveggja daga ferð.

Bera þarf með sér svefnpoka og mat en gist í skála.

Ég hef hafið æfingar og þegar farið nokkrar ferðir á gönguskíðin. Tilhlökkun mín er mikil. Ég er enn ein í ferðafélaginu en mér er alveg sama, þetta er svo skemmtilegt að ég þarf ekki félagsskap. Tek þó fram að ég tek öllum ferðafélögum fagnandi.

Myndin hér að neðan er úr nýlegri æfingaferð um Bláfjallasvæðið. Ég fer gjarnan töluvert út fyrir brautirnar enda eru þær ávallt um sömu slóðir og hægt að fá nóg af þeim rúnti.

IMG_7644


Frænku og handavinnusýning - taka tvö

Frænkur mínar tvær hafa vaxið og dafnað vel síðan ég flutti seinast fréttir af þeim fyrir þremur vikum. Þær hafa báðar náð u.þ.b. 2500g og braggast vel.

Áætlaður fæðingardagur þeirra var 6. apríl miðað við fulla meðgöngu. Upphaflega var gert ráð fyrir að þær færu ekki heim fyrr en um áætlaðan fæðingardag en þar sem allt gengur vel getur vel farið svo að heimferð verði fyrr.

Ég hef nýtt þessar vikur til að ljúka því sem ég setti mér fyrir í prjónaskap. Peysur og sokkar voru tilbúin seinast en nú hafa bæst við húfur, buxur og vettlingar.

Í tilefni þessa fór ég í gær í dúkkuleik og fékk að klæða dömurnar í múnderinguna.

Alexandra Ásta er til vinstri en Bjarndís Erla til hægri.

IMG_7669IMG_7674

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

IMG_7678

IMG_7677


Frænku- og handavinnusýning

Þessi færsla er tvöfalt mont. Annarsvegar vil ég sýna ykkur frænkur mínar og dugnaðarforkana Alexöndru Ástu og Bjarndísi Erlu. Þær stækka hratt og dafna vel. Báðar komnar úr hitakassa og í vöggu. Það eru mikil tímamót því þá eru þær miklu nálægari og geta farið í föt.

Talandi um föt. Ég hef setið við eins og gamalli móðursystur sæmir og prjónað. Peysur, húfur, sokka hef ég lokið við en áætlunin hljóðar upp á vettlinga og buxur til viðbótar.

Þar sem dömurnar geta farið í föt þá brá ég mér í dúkkuleik í dag og módelin mátuðu handavinnuna.

Alexandra er til vinstri en Bjarndís til hægri. Nú er Alexandra ca 1700g (hún fæddist 1260g) en Bjarndís ca 1500g (hún fæddist 1190g).

IMG_7638

IMG_7642

 

 


Litlar frænkur fæddar

Ég gæti skrifað svo margt þessa dagana...........hugur minn er fullur sem fyrr. Íslenskt samfélag stendur á öndinni.

Það sem gerst hefur á vettvangi stjórnmálanna er þó hjóm eitt við hliðina á því kraftaverki sem ég hef orðið vitni að í minni nánust fjölskyldu. Laufey systir mín eignaðist tvær litlar stúlkur sl sunnudag þann 18. janúar.

Þessar lillur fæddust töluvert langt fyrir áætlaðan fæðingardag, þær eru ósköp smáar þar sem fullri meðgöngu hefði átt að vera lokið í byrjun apríl. Þær braggast samt vel og allt gengur skv áætlun bæði hjá móður og dætrum.

Þar sem Laufey býr núna hjá mér og mun gera a.m.k. næstu tvo mánuði hef ég fengið að fylgjast náið með framvindu mála. Ég fyllist ánægju og þakklæti fyrir hversu frábært heilbrigðiskerfi við búum við og hvað hægt er að gera fyrir þessa litlu unga sem fæðast svona fyrir tímann. Tæknin sem vökudeild Landspítalans býr yfir er aðdáunarverð og þar vinnur einnig gott starfsfólk.

Það er um þetta frábæra heilbrigðiskerfi sem við verðum að standa vörð á þeim einkennilegu tímum sem nú fara í hönd.


Fésbók

Í október skráði ég mig á fésbók. Hafði heyrt af einhverri umræðu þar sem ég taldi áhugaverða. Ég setti eins litlar upplýsingar um sjálfa mig og ég gat, hafði heyrt að þetta væri stórvarasamt njósnatæki hannað af kananum og ég ætlaði sko ekki að ljóstra of miklu upp.

Taldi samt óhætt að skrá mig "married".

Um áramótin fór svo að koma til mín tölvupóstur þar sem nokkrir ættingjar og einnig "drengir" sem ég þekkti kringum 16 ára aldurinn vildu vera vinir mínir.

Ég fór þá aftur inn á fésbókina og skoðaði skráninguna mína. Ég hafði verið spurð hver væri tilgangur minn með að vera skráð þarna.

Samviskusamlega hafði ég hakað við

  • Dating

Þá vitum við það. Ég er gift og vil fara á stefnumót. Þetta skýrir kannski af hverju gömlu sénsarnir vilja nú vera vinir mínir.

Hmmmmmmmmmm


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband