Færsluflokkur: Lífstíll

Bláfjallahryggurinn

Ég hef svikist undan skýrslu um æfingar mínar. Ástæðan er ekki að ég hafi slegið slöku við, aðeins minniháttar bloggleti.

Laugardagur: Venjubundin laugardagsæfing með TKS, fyrst hljóp ég um 5km og síðan voru æfingar í tröppum fyrir neðan Seltjarnarneskirkju. Þó það teljist kannski ekki til hefðbundinnar líkamsræktar þá hamaðist ég í garðinum góðan hluta dagsins.

Sunnudagur: Ég nennti ómögulega í ræktina þar sem lokað var hér á nesinu, reyndar opið í Laugardalnum. Hljóp því um 5km og tók lóða- og magaæfingar heima.

Mánudagur: Göngu- og hlaupafélagi minn hún Þóra stóð fyrir gönguferð sem var alvöru æfing og prófraun á þrek og þol okkar sem ætlum á Miðfellstind. Við gengum upp Vífilsfellið og síðan eftir hryggnum sem mynda Bláfjöllin og komum niður skíðabrekkuna í Suðurgili. Til baka gengum við svo meðfram hryggnum að vestanverðu. Gangan var um 25km og töluverð hækkun í byrjun. Einnig var mikið um að við þyrftum að lækka okkur og hækka aftur. Við vorum um 8klst í ferðinni.

Bláfjallahryggurinn er mjög hrjóstugur, gróður af mjög skornum skammti. Móbergið í Vífilsfelli er skemmtilega vind- og vatnssorfið en svo sannarlega er Bláfjallasvæðið sjálft mun fallegra á veturna þegar snjór er yfir öllu. Ósköp virkaði skíðasvæðið sjálft eyðilegt svona snjólaust.

Ferðin í dag var í kílómetrum talið álíka löng og ferðin sem við fórum um Núpshlíðarháls fyrir 4 vikum en mun erfiðari vegna hæðabreytinga.

Eftir gönguna fyrir 4 vikum var ég gersamlega uppgefin. Óttaðist að ég kæmist ekki með á Miðfellstind. Í dag var raunin allt önnur. Mér leið vel allan tímann og í göngulok var ég alveg tilbúin í lengri göngu. Æfingarnar hafa því svo sannarlega skilað sér.

Ég hlakka orðið til að takast á við gönguna á Miðfellstind.


Ræktin í dag

Til að æfingar yrðu ekki of einhæfar og einskorðist við hlaup og fjallgöngur þá notaði ég rigninguna í inniæfingar.

Byrjaði á 30 mín í skíðavél, síðan u.þ.b. 30 mín í tækjum, 20 mín í stigvél og í lokin tók ég vel á því í magaæfingum og læraæfingum á dýnu.

Bara nokkuð ánægð með þetta.


Hlaupið í skarðið

Í dag var hefðbundinn miðvikudagur. Hlaupið út fyrir Bakkatjörn og brekkur að norðanverðu nesinu.

Þvílík veðurblíða. Það er algerlega frábært að skokka í svona veðri.

Í stað inniæfinga þá tókum við útiæfingar í skrúðgarði Seltjarnarness. Armbeygjur í halla niður í móti og magaæfingar í hallanum upp í móti.

Svo enduðum við æfinguna á því að hlaupa í skarðið. Það eru forréttindi að tilheyra hóp sem hefur svona gaman af að leika sér.

Það skal tekið fram að TKS er öllum opið og þessa dagana bætast stöðugt við ný andlit, bara gaman af því. Það koma oft margir inn nýir á vorin en svo er það bara eins og gengur, fólk endist misvel í svona reglubundinni hreyfingu. Mér finnst frábært að vera í útihreyfingu allt árið og svo skemmir ekki fyrir hvað það er skemmtilegt fólk í þessum hópi. Það skiptir ekki öllu máli hvaða hreyfingu fólk velur sér, aðalatriðið er að hafa gaman af því, þá er von til að maður haldi því áfram.


Letidagur

Í dag var letidagur í  þjálfunarprógramminu.

Það var þó ekki stærri letidagur en ég fór í vinnuna, vann minn fulla vinnudag, útréttaði smá, eldaði almennilegan kvöldmat (fyrir nokkra daga) og gerði tiltektarskurk. Þá var nú eiginlega komið kvöld. Svona er mitt letilíf á stundum.

Engin fjöll, engin hlaup og engin líkamsrækt.

En 3,0 kíló eru farin frá áfallinu mikla. Bara ánægð með það.


Í dag var Hallgrímur hlaupinn

Mánudagshringurinn heitir Hallgrímur. Ég hef áður lýst þessum hring en hann hefst við Sundlaug Seltjarnarness, hlaupið út að Ægissíðu og eftir henni. Síðan í gegnum háskólasvæðið, gegnum Hljómskálagarðinn og upp á Skólavörðuholt og að Hallgrímskirkju. Niður Skólavörðustíginn og krókaleiðir gegnum Vesturbæinn og aftur út á nes.

Þetta eru líklega um 9km.

Á leiðinni var ýmislegt rætt. Þjóðmálin krufin að venju en síðar voru það trúmál og önnur heimspekileg málefni. Leyfið til að vera öðruvísi í okkar þjóðfélagi seinustu ár. Það leyfi var torfengið. Gagnrýni var illa séð. Steypa átti flesta í sama mót og helst ekki að spyrja spurninga.

Hlaupafélagar mínir eru dásamlegt fólk og skemmtilegt.

Ég lofaði myndum frá ferðinni á Botnsúlur sl fimmtudag. Þær koma hér.


Bjarnarfell

Helginni eyddi ég í sumarbústað í Brekkuskógi. Þar í nágrenninu er Bjarnarfell og á laugardaginn gekk ég á það. Mæling segir til um að þetta hafi verið um 10-11km göngutúr og samtals um 550m hækkun en fjallið sjálft er um 730m í hæsta punkti.

Bjarnarfell er ágætlega auðvelt uppgöngu, ekki mjög bratt. Útsýni er gott og þetta var bara hin ánægjulegasta gönguferð.

Sunnudagurinn var tekinn sem hvíldardagur.

 


Ekki Eyjafjallajökull

Á miðvikudaginn sparaði ég brekkuhlaup þar sem ég stefndi á átök í gær. Ferðafélag Íslands var með auglýsta dagsferð á gönguskíðum á Eyjafjallajökul. Ég hafði haft þessa ferð í huga frá því í vetur og hlakkað til í laumi. Veðurspá var góð og Þóra, göngu- og hlaupafélagi minn, var einnig með sömu hugmynd um hvernig ætti að eyða uppstigningadegi.

Við vorum báðar mættar á tilsettum stað og tilsettum tíma með gönguskíði og annan nauðsynlegan útbúnað. En enginn fararstjóri mætti og engir aðrir ferðafélagar. Frekar urðum við súrar. Við nánari athugun komumst við að því að við vorum á réttum stað og réttum tíma miðað við það sem auglýst var. Okkur er enn óskiljanlegt hvers vegna ferðin féll niður. Engar tilkynningar voru á heimasíðu Ferðafélagsins eða annars staðar þar sem okkur hefur hugkvæmst að gá. Ég hringdi á skrifstofuna í dag til að spyrjast fyrir en þar var lokað. Ég lofa að pesta skrifstofuna á mánudaginn.

Þarna vorum við semsagt kl 8.00 í gærmorgun með nesti og útbúnað í skíðagöngu á jökli. Og allt stefndi í sólríkan vordag. Það kom ekki til greina að fara heim og aftur í rúmið.

Stefnan var því tekin á Botnssúlur og þangað fórum við. Gengum á Syðstu-Súlu. Hún er skv mælingum 1093m og hæsta fjall í nágrenni Reykjavíkur. Ég hafði ekki gengið áður á Botnssúlur þannig að þetta var ágætis sárabót.

En Ferðafélag Íslands fær last gærdagsins.

Dagurinn í dag var frekar hreyfingalaus.

P.S. Myndir verða að bíða betri tíma þar sem myndavélin skrapp í helgarferð norður í land.


Engar brekkur í dag

Á miðvikudögum hlaupum við yfirleitt sama hringinn. Frá sundlaug Seltjarnarness, út fyrir Bakkatjörn og síðan hlaupum við brekkurnar að norðanverðu upp og niður.

Í dag sleppti ég brekkunum. Ég stefni nefnilega á meiri átök á morgun, var semsagt að spara mig.

Að þessu loknu tókum við æfingar með þjálfara, að þessu sinni voru þær úti. Það er dásamlegt að vera komin út í vorið. Gera armbeygjurnar í grasinu og finna lyktina í hverju átaki.

Þjálfarinn okkar hún Steina er hugvitssöm og lætur okkur oft vinna tvö og tvö saman. Í dag lét hún okkur slást um leið og við gerðum armbeygjurnar.

Svona dagar gera lífið skemmtilegra.


Á fjall í góðu veðri

Í æfingaprógrammi fyrir fjallgöngu er nauðsynlegt að ganga á fjöll.

Eins og ég hef áður upplýst stendur göngufélagi minn Hugrún fyrir gönguferðum á þriðjudagskvöldum. Í kvöld var gengið á Vífilsfell í blíðskaparveðri.

Útsýni af Vífilsfelli er frábært. Akrafjallið, Esjan, Móskarðshnjúkar, Skálafell, Botnssúlur, Þórisjökull, Skjaldbreið, Hlöðufell, Bláfell á Kili, Kerlingarfjöll, Hekla, Tindfjöll og Eyjafjallajökull. Að ógleymdum minni fjöllum nær.

Það er óhætt að mæla með kvöldgöngu á Vífilsfell.

IMG_8038


Gestagangur

Það munaði litlu að lítið yrði úr æfingum í dag. Ég var rétt ekki farin út til að hlaupa mánudagshlaupið með TKS þegar gamall skólabróðir minn birtist.

Svona eðalvinum sleppir maður ekki kaffilausum út úr húsi og var röflað um lífið og tilveruna. Gaman að hitta gamla vini. Hlaupahópurinn stakk mig því svo rækilega af að ég reyndi bara alls ekki að elta þau.

Eftir að hafa borðað kvöldmat var ekki viðlit að ég kæmist út að hlaupa með magann fullan og aftur birtist kaffigestur.

Þegar klukkan var langt gengin í tíu var kvöldmaturinn komin nægilega neðarlega til að ég treysti maganum á hlaup. Ég fór út og hljóp hér rangsælis um nesið, út fyrir Bakkatjörn og kringum golfvöllinn. Þetta eru ca 7,5km.

Bara verulega notalegur kvöldrúntur, sólin að setjast og krían á fullu að undirbúa varpið.

Nú eru 2,6 kg farin. Enga bjartsýni, ætli það megi ekki gera ráð fyrir ca 2kg í garnafyllingu þannig að ein góð máltíð er fljót að snúa þessu við. Betur má ef duga skal. Enda á þetta að gerast hægt og rólega.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband