Ekki Eyjafjallajökull

Á miðvikudaginn sparaði ég brekkuhlaup þar sem ég stefndi á átök í gær. Ferðafélag Íslands var með auglýsta dagsferð á gönguskíðum á Eyjafjallajökul. Ég hafði haft þessa ferð í huga frá því í vetur og hlakkað til í laumi. Veðurspá var góð og Þóra, göngu- og hlaupafélagi minn, var einnig með sömu hugmynd um hvernig ætti að eyða uppstigningadegi.

Við vorum báðar mættar á tilsettum stað og tilsettum tíma með gönguskíði og annan nauðsynlegan útbúnað. En enginn fararstjóri mætti og engir aðrir ferðafélagar. Frekar urðum við súrar. Við nánari athugun komumst við að því að við vorum á réttum stað og réttum tíma miðað við það sem auglýst var. Okkur er enn óskiljanlegt hvers vegna ferðin féll niður. Engar tilkynningar voru á heimasíðu Ferðafélagsins eða annars staðar þar sem okkur hefur hugkvæmst að gá. Ég hringdi á skrifstofuna í dag til að spyrjast fyrir en þar var lokað. Ég lofa að pesta skrifstofuna á mánudaginn.

Þarna vorum við semsagt kl 8.00 í gærmorgun með nesti og útbúnað í skíðagöngu á jökli. Og allt stefndi í sólríkan vordag. Það kom ekki til greina að fara heim og aftur í rúmið.

Stefnan var því tekin á Botnssúlur og þangað fórum við. Gengum á Syðstu-Súlu. Hún er skv mælingum 1093m og hæsta fjall í nágrenni Reykjavíkur. Ég hafði ekki gengið áður á Botnssúlur þannig að þetta var ágætis sárabót.

En Ferðafélag Íslands fær last gærdagsins.

Dagurinn í dag var frekar hreyfingalaus.

P.S. Myndir verða að bíða betri tíma þar sem myndavélin skrapp í helgarferð norður í land.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einu sinni ætlaði ég í ferðalag með Útivist á Botnsúlur. Rútan kom og nokkrir ferðafélagar en enginn fararstjóri. Við fórum nú samt og allt gekk vel fararstjóralaust.

Sæmundur Bjarnason, 22.5.2009 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband