Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Sunnudagur, Silfur Egils og gömul mynd

Ég hef mikið hugsað undanfarna daga og marga pistla samið í huganum. Það geri ég iðulega þegar ég er í ræktinni, úti að hlaupa eða bara heima í eldhúsinu.

Í Silfri Egils í dag var rætt við Jón Baldvin Hannibalsson. Hann sagði allt sem ég hef hugsað þannig að ég sleppi formlegum skrifum í dag. Hvet hins vegar alla til að hlusta á Jón. Orð hans um hverslags hindrun stjórn Seðlabankans í vitrænni ákvarðanatöku hefur verið, var mjög svo athyglisverð. Ég hvet alla til að hlusta á viðtalið við Jón.

Í tilefni þess sunnudags ætla ég að birta gamla mynd svona til að létta mér og lundina.

eb-9trim

Þessi mynd er úr albúmi Bentu frænku minnar. Á henni eru:

Efsta röð: Örn, Guðbjartur, Bjarni, Hrafnkell

Miðröð: Hvítklæddur karlmaður (?), Kristjana amma, Alexander afi, karlmaður (?), karlmaður (?).

Neðsta röð: Sigríður, Guðrún, Magndís Benediktsdóttir, Valdimar Sigurðsson

Bjarni er faðir minn, Guðrún, Guðbjartur og Hrafnkell eru föðursystkini mín og Magndís er langamma mín.

Myndin er líklega tekin 1938.


Fólk framtíðarinnar

Þessa dagana er auðvelt að gleyma sér í svartsýnisrausi. Auðvelt að finnast allt vera á niðurleið og engin framtíðarsýn.

Við megum ekki gleyma því að mikill mannauður er í ungu fólki. Um helgina stóðst 18 ára sonur minn nýliðapróf björgunarsveitarinnar Ársæls. Þjálfunin hefur staðið í eitt ár og fólst meðal annars í: Skyndihjálparnámskeiðum, kennslu í ferða- og fjallamennsku, kennslu í rústabjörgun og svona mætti lengi telja. Fjallamennskunámskeiðin voru erfiðust, helgarferð frá föstudegi til sunnudags á jökli um miðjan vetur, fyrst rigning og síðan frost. Þar var farið yfir atriði sem tengjast ferðalögum á jöklum, ísklifur og fleira, hafst við í tjöldum og dagskrá meginhluta sólarhringsins. Björgunarsveitarfólk verður að hafa nokkurra sólarhringa úthald og þjálfunin miðast við þann veruleika.

Prófið sjálft var um 30 tíma vinna við lausn á mismunandi þrautum. Nokkurra klukkustunda rötunaræfing um erfitt landsvæði og síðan próf í leitartækni og fleiri atriðum. Engin hvíld. Hluti af prófinu fólst í því að kunna að bjarga sér og félögum sínum við erfiðar aðstæður og einnig að útbúnaður væri réttur og nægilega góður.

Á dögum eins og í dag þegar bankakreppa vofir yfir er mikilvægt að minnast þess gríðarlega mannauðs sem liggur í unga fólkinu okkar.

Ég er ákaflega stolt móðir í dag.


Fjárheimta

Um helgina tók ég þátt í fjárheimtuaðgerðum. Eggert skólabróðir minn á Hofstöðum er fjárhaldsmaður og þurfti að heimta sitt fé af fjalli. Sér til aðstoðar fær hann nokkra núverandi og fyrrverandi sveitunga og vini.

Þetta er fyrir mér orðin árlegur viðburður og skemmti ég mér alltaf konunglega. Hvernig er annað hægt, ég hef gaman af gönguferðum og ratleikjum og smalamennskur er ekkert nema risastór ratleikur. Í þessum ratleik má nota síma og eru sum símtölin æði skondin. "Hæ, farðu aðeins til baka, það er rolla á bak við holtið sem er á milli okkar". Ég er með í símanum mínum símanúmer hjá fólki sem ég hitti bara þennan eina dag á ári. Þetta eru samt mjög nytsamleg símanúmer.

Fjárheimtusvæðið er fallegt. Leyfi ykkur að njóta nokkurra mynda sem ég tók:

002

Vatnafell, liggur á milli Hraunsfjarðarvatns og Baulárvallavatns. Það er syðri endi Hraunsfjarðarvatns sem sést hér.

004

Hraunsfjarðarvatn. Horn fyrir miðri mynd, Vatnafell til hægri.

007

 Baulárvallavatn. Vatnafellið fyrir miðri mynd. Bjarnarhafnarfjall á bakvið það.


Ég hef bloggað í eitt ár og er ekki hætt

Þann 30. ágúst 2007 var fimmtudagur. Ég var heimavið vegna minniháttar slæmsku í hálsi. Mér leiddist. Ég skoðaði stundum nokkrar bloggsíður, mest hjá Gillí frænku sem á þessum tíma barðist hetjulega við krabbamein og skrifaði hún um baráttu sína og annað sem á daga hennar dreif. Einnig skoðaði ég oft síðuna hennar Önnu og örfáar aðrar.

Eftir áskorun Gillíar um að lesendur hennar sem þekktu hana frá gamalli tíð létu vita af sér með tölvubréfum átti ég í email samskiptum við hana. Ég vildi með þessum tölvubréfum aðeins gefa henni til baka lítilræði af því sem hún hafði með skrifum sínum gefið mér. Þar sagði ég henni sögur af sjálfri mér og einnig rakti ég ýmsar hugrenningar mínar og sagði henni að ég væri of feimin til að blogga.

Eftir þessa yfirlýsingu velti ég því fyrir mér hvort þetta væri satt, þ.e. að ég væri svona feimin. Þennan veikindadag minn þann 30. ágúst 2007 stofnaði ég bloggsíðu og birti ég mínar fyrstu færslur. Gillí var fljót að finna mig og þá fór boltinn að rúlla. Margir skoðuðu hennar síðu og fóru þannig inn á mína. Það var skrítin tilfinning að sjá að það voru einhverjir að lesa það sem ég skrifaði.

Feimnin fór fljótt af mér. Því þakka ég ekki síst að Gillí hvatti mig óspart áfram í athugasemdum og var hún ófeimin að lýsa sig sammála þegar ég fór geyst í að tjá mig um málefni líðandi stundar, sagðist kannast við æsinginn og kom fyrir að hún vísaði lesendum sínum á mig þegar mér var hvað mest niðri fyrir.

Nú er liðið ár, Gillí kvaddi þennan heim þann 8. nóvember 2008 og er mér mikils virði þau samskipti sem við áttum hér í bloggheimum seinustu vikurnar sem hún lifði.

Feimnin er alveg farin af mér. Ég setti mér þó strax í upphafi ákveðna "ritstjórnarstefnu". Henni hef ég fylgt að mestu en þó má geta þess að engar reglur eru án undantekninga. Hér koma þessar meginreglur mínar:

  1. Birta aldrei meira en eina færslu á dag
  2. Tengja aldrei við fréttir
  3. Blogga aldrei í vinnunni

Ég hef brotið allar þessar reglur, þá seinustu bara einu sinni, fyrstu líklega 2var og reglu 2 líklega 3var.

Ég hef mikla ánægju af því að blogga, einkum ef ég verð þess vör að það sem ég segi höfði til fólks þegar ég fæ athugasemdir, ég er hégómleg og finnst gaman af því að vita af lesendum mínum. Mér finnst samt alveg skiljanlegt að fólk vilji ekki gera alþjóð vart við að það sé að lesa þetta en ég tek fram að ég lít ekki á það sem hnýsni þó fólk lesi reglulega þessa bloggsíðu, þetta er opinber miðill og ef ég vildi ekki að þetta væri lesið þá myndi ég ekki skrifa. Þeim sem vilja láta vita af sér en gera það óopinberlega þá hef ég netfangið: bubot.kristjana@gmail.com og hef ég nú þegar fengið nokkur tölvubréf frá lesendum og finnst mér vænt um það.

Ég viðurkenni að ég hef enst lengur en ég bjóst við og þakka þeim sem nenna að lesa þetta þolinmæðina. Ég er ekki hætt.


Í þá gömlu góðu daga.

Mér áskotnuðust nokkrar gamlar myndir í tengslum við ættarmótin 2 sem ég fór á nú í ágúst. Gamlar myndir eru fjársjóður liðins tíma og vekja hjá manni hlýjar endurminningar. Myndin hér að neða er af mér sjálfri og er líklega tekin 1968.

Scan10029laga


Minning um Ömmu

Um liðna helgi minntust fjölskylda Kristjönu Bjarnadóttur og Alexanders Guðbjartssonar frá Stakkhamri þess að í ár eru 100 ár frá fæðingu Kristjönu. Fjölskyldan kom saman og við þetta tækifæri fluttum við Kristjönurnar minningu um ömmu. Ég birti hér minn þátt í þessum minningum:

Þegar ég minnist ömmu man ég fyrst og fremst eftir glaðlegu andliti hennar. Mér fannst hún alltaf glöð og í góðu skapi og bera umhyggju fyrir öllum sem umgengust hana. Fyrst og fremst beindist sú umhyggja að nánustu fjölskyldu en hlýtt hjarta hennar rúmaði mun meira en þá sem næst henni stóðu.

scan0035cropAmma ólst upp við kröpp kjör en það hafði ekki áhrif á glaðlyndi hennar, vafalaust hefur léttlyndi hennar hrifið afa og efast ég ekki um að á milli þeirra hafi ástin blómstrað. Myndir sem hanga uppi á Breiðabliki í dag, teknar í Hvammi um 1937 sýna ástfangin hjón sem þá þegar áttu 4 heilbrigð börn.

Amma átti ekki kost á mikilli skólagöngu. Hún var þó á húsmæðranámskeiði í Skógarnesi haustið 1925 sem haldið var að tilhlutan búnaðarsambandsins. Þar lærði hún ýmislegt sem nauðsynlegt var að húsmæður í sveitum á þeim tíma kynnu.

Á þessum árum hefur þekking kvenna á eigin líkama líklega ekki verið mikil. Ég minnist þess að amma sagði  mér að í kringum 1940 hafi hún komist yfir bækling sem Katrín Thoroddsen læknir lét gera. Þessi bæklingur var fræðsla fyrir konur um starfssemi kvenlíkamans þar á meðal tíðahringinn og upplýsingar um hvenær konan væri frjó. Amma sagði mér að ef hún hefði vitað þetta fyrr hefðu börnin ekki þurft að verða svona mörg fyrstu búskaparárin.

Ömmu þótti gaman að fara á hestbak. Einhverju sinni eftir að nokkur elstu börnin voru fædd var ákveðið um kvöld að fara í reiðtúr. Líklega var það Bjargey sem tók að sér að gæta barnanna en a.m.k. afi og amma fóru á hestum upp á fjall. Veðrið var gott og útsýni gott. Amma hafði aldrei farið svona langt og hana langaði alltaf að sjá meira. Skilst mér að þau hafi farið inn á Tröllaháls en þar sést niður í Grundarfjörð. Þetta var fyrir ömmu mikið ferðalag og mikið ævintýri og vafalaust verið komið fram undir morgun þegar þau komu heim.

Ég man að amma fór nokkrum sinnum á hestbak með okkur Ernu. Hún fór á Perlu, meri sem Erna átti. Amma sat Perlu vel og Perla tölti fallega undir henni.

Afi féll snögglega frá vorið 1968, þá var amma rétt ekki orðin 60 ára. Amma sagði mér að þegar afi fór á aðalfund kaupfélagsins í mars þetta ár, hafi hann keypt armbandsúr og gefið henni með þeim orðum að óvíst væri að hann lifði 60 ára afmælið hennar sem var 10. nóvember sama ár. Hann reyndist sannspár og ég veit að ömmu þótti mjög vænt um þetta úr.

Það hefur örugglega verið tómlegt fyrir ömmu að vera ein í gamla húsinu eftir að afi dó. Því var ákveðið að við Erna skiptumst á að sofa hjá ömmu. Ég svaf því aðra hverja nótt hjá ömmu frá því um vorið 1968 til haustsins 1972 þegar amma flutti í Stykkishólm. Undanskilið er þegar amma dvaldi hjá hinum systkinunum eða þegar gestir voru hjá henni. Mér þótti gott að sofa hjá ömmu, það fylgdi henni ákveðin rósemi meðfram glaðlyndinu og þar leyfðist mér meira en heima. Ekki spillti fyrir að í morgunmat hjá ömmu fékk ég stundum kornfleks og jafnvel kókópuffs sem mér þótti mikið sælgæti.

Haustið 1971 brunnu fjárhúsin og hlöðurnar á Stakkhamri. Ég held það hafi fyllt ömmu ákveðnu öryggisleysi og í kjölfarið ákvað hún að flytja inn í Stykkishólm. Ég man eftir flutningunum og hvað mér fannst þetta skrýtið, fram að því hafði hún verið svo fastur punktur í tilveru minni. Ég man þegar við kvöddum hana á tröppunum á íbúðinni við Skólastíginn að það voru tár á kinninni. Mér fannst það skrýtið því á þeim árum var ég sannfærð um að fullorðnir grétu ekki. Þarna varð mér ljóst að fullorðnir hafa líka sínar tilfinningar.

Eins og þið öll vitið ber ég nafn ömmu. Mér hefur alla tíð þótt það mikill heiður þó mér á ákveðnu aldursskeiði hafi ekki þótt nafnið fallegt. Amma vildi alls ekki gera upp á milli barnabarnanna og allra síst vegna nafna okkar. Engu að síður fann ég ákveðna tengingu og er mjög stolt af því. Ég man að sem unglingur á mótunarskeiði velti ég því fyrir mér hvernig manneskja ég vildi verða og svarið kom fljótt: „Ég vil verða eins og amma“. Amma hefur því alla tíð verið mér fyrirmynd, léttlyndi hennar, dugnaður og hjartahlýja eru eiginleikar sem við öll ættum að hafa í heiðri og reyna að tileinka okkur.

PS. Þau atvik sem ég tel upp í þessum pistli hef ég að mestu eftir eigin minni. Mér hefur verið bent á að afi hafi verið orðinn það veikur rétt fyrir andlátið að líklega hafi hann ekki sótt kaupfélagsfund árið sem hann dó. Það breytir þó ekki því ég minnist þess að amma sagði mér að hann hafi fært sér gjöf einhverju fyrir andlátið með þeim orðum að hann efaðist um að lifa 60 ára afmælið hennar.


Á milli ættarmóta

Um seinustu helgi hittust afkomendur Laufeyjar Valgeirsdóttur og Bjarna Jónssonar sem lengi bjuggu í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Þau eru afi minn og amma í móðurætt.

Á svona ættarmótum er dýrmætt að hitta ættingjana og endurnýja kynni við frændfólkið. Það er nú einu sinni þannig að ættin hittist ekki í barnaafmælum eða sunnudagskaffiboðum, til þess erum við alltof mörg.

Laufey og Bjarni í Asparvík

Það sem er ekki síður mikilvægt á svona ættarmótum er að heyra frásagnir frá lífinu sem forfeður okkar lifðu. Að reyna að skilja hversu hörð lífsbaráttan var. Systkinin brugðu upp afar áhrifamikilli mynd af ömmu með lestri upp úr sendibréfum sem hún hafði skrifað. Sú mynd verður ekki endursögð hér en brugðið var ljósi á æðrulausa dugnaðarkonu sem vann hörðum höndum allt sitt líf með það að leiðarljósi að koma börnum sínum áfram í lífinu. Það er í raun stórmerkilegt að þrátt fyrir mikil veikindi afa og vafalaust lítil fjárráð hafi 5 af 10 systkinum tekið stúdentspróf og lokið háskólanámi.

Sendibréfin sem voru lesin voru mjög vel skrifuð, höfum í huga að amma var algerlega ómenntuð og líklega hafa sendibréf verið einu skiptin sem hún stakk niður penna.

Á ættarmótinu voru sýndar gamlar myndir sem skannaðar höfðu verið inn og þeim var einnig dreift. Þetta var frábært framtak. Ég ætla að nota mér þetta og birta hér gamla mynd af afa og ömmu.

Um næstu helgi mun ég hitta afkomendur Kristjönu Bjarnadóttur og Alexander Guðbjartssonar sem lengi bjuggu að Stakkhamri á Snæfellsnesi en þau eru hins vegar afi minn og amma í föðurætt.


Fossaganga

Mér hefur tekist í sumar að aftengja mig umheiminum. Ég hef farið í þrjár gönguferðir sem hafa verið 3ja - 6 daga langar. Líkamlega tekur þetta stundum á en andlega er þetta alger endurnæring.

Um verslunarmannahelgina fórum við Darri ásamt Rán dóttur okkar og vinum okkar Finni, Þórdísi, Sveini og Arndísi í göngu upp með Djúpá í Fljótshverfi. Markmiðið var að skoða fossa sem leynast efst í Djúpárdal.

Ég læt myndirnar tala sínu máli.

IMG_7256

Fjölskylduhátíð um verslunarmannahelgi getur litið svona út ef áhugi er fyrir hendi. Það skal tekið fram að við gengum samtals ca 30-35km með allan útbúnað á bakinu.

IMG_7322

Þetta er "Fossinn í Djúpá" af sumum nefndur Bassi. Nokkuð tignarlegur, flúðirnar þarna fyrir neðan eru einnig kraftmiklar og heillandi.

IMG_7324

Og enn fleiri fossar. Áin sem þessir fossar eru í, rennur í Djúpá rétt neðan við Bassa. Upp með þessari á er ævintýraland fossa. Hraunið er ógreiðfært en vel þess virði að fikra sig upp með ánni til að skoða nokkra fossa.

IMG_7339

Eins og kannski sumar myndirnar bera með sér þá hrepptum við þoku og súld. Á sunnudaginn voru greidd atkvæði um að taka struns í bílana eða eiga styttri dagleið og tjalda aftur blautum tjöldum í suddanum. Niðurstaðan var að dvelja eina nótt í viðbót og þá fundum við enn fleiri fossa. Þessi var með góðum hyl sem unglingarnir nýttu sér þar til tennurnar glömruðu. Það er engin lygi að þeim kólnaði nokkuð. Heitt kakó og hlýr svefnpoki var því vel þeginn eftir baðið. Það sá enginn eftir því að halda fossaleitinni áfram því við fundum nokkra fallega til viðbótar.

Fyrir þá sem vilja skoða fleiri fossamyndir þá má sjá þær hér.


Labbað kringum Langasjó

Ég er núna nýkomin úr göngu í kringum Langasjó. Það verður ekki sagt að veður og útsýni hafi leikið við okkur. Áætlunin hljóðaði upp á að arka á Sveinstind í upphafi eða enda göngu. Við fórum inn eftir á miðvikudagsmorgun og þegar að Sveinstindi kom var tindurinn auður og skyggni þokkalegt. Það var því ekki um annað að ræða en byrja á honum. Þetta eru rétt um 2km og 300-400m hækkun, það stóð á endum að þegar tindinum var náð steyptist yfir þoka. Við dokuðum örlítið við en þokan var ekkert á förum. Við vorum hins vegar ekki komin nema hálfa leið niður þegar birti og reyndust þetta vera einu 15 mín dagsins sem tindurinn var hulinn. Alltaf heppin!

Þá var að arka af stað, við reyndum að fylgja leiðarlýsingu sem kemur fram í bókinni "Bíll og bakpoki". Þegar fyrirhuguðu tjaldstæði var náð var freistandi að halda áfram þar sem ljóst var að næsti dagur yrði langur og strangur. Við höfðum þegar þarna kom við sögu arkað um algera eyðisanda og var þetta fyrsta gróðurvinin. Það var því úr vöndu að ráða, freista þess að önnur vin reyndist við næsta horn eða slá upp tjöldum. Við ákváðum að freista þess að ganga lengra og reyndist ekki síðri staður vera nokkrum kílómetrum lengra. Við slógum upp tjöldum hvíldinni fegin eftir samtals um 20km þramm þar af ca 15 með bakpokana.

Langisjór liggur í um 650m hæð y. sjó og því er hitastig mun lægra en á láglendi, það er samt alveg merkilegt hvað maður finnur lítið fyrir því í svona ferðum, ef maður passar upp á að hreyfa sig aðeins fyrir svefninn og fer heitur í pokann þá sefur maður alveg dæmalaust vel.

Næsti dagur heilsaði heldur þungbúnari en skyggni hélst þokkalegt fram yfir hádegi, þá mætti þokan. Við máttum af engu missa og eftir að hafa fundið Grasver sem reyndist vera orðin eyðisandur þá hófst leitin að Fagrafirði. Það þýddi að við þurftum að fara aðeins til baka og klöngrast yfir fjallgarðinn aftur. Um það leyti sem Fagrifjörður átti að blasa við steyptist þokan yfir og við sáum varla út úr augum. Þar sem við vissum ekki vel hvar væri fært meðfram vatninu var afráðið að henda sér upp á efstu toppa og ganga eftir þeim, miðað við kort átti það að vera heillavænlegast. Í þokunni tókst okkur svo að finna rana sem var þokkalegur til niðurgöngu. Þetta var ágæt æfing í notkun korts og GPS og gekk bara þokkalega.

Þá hófst ægilegt ark í þokunni og leit að tjaldstæði sem Páll Ásgeir lýsir í bókinni sem sandeyri milli tveggja vatna. Fyrra vatnið var ægilangt og við enda þess töldum við nauðsynlegt að fara hátt upp í hlíð til að komast fyrir það. Þá var ekki mikill afgangur eftir af mér og var með naumindum að ég harkaði af mér til að komast það, orðin æði lúin enda munum við hafa arkað um 28km þennan dag. GPS tækið mældi reyndar 33km. Því trúðu ferðafélagarnir ekki, sögðu að þá myndu þau vera miklu þreyttari, mitt svar var einfaldlega að ég væri svo þreytt að ég tryði því bara alveg.

Tjaldstæðið reyndist vera í möl en það var bara ekki um neitt annað að ræða í rokinu og rigningunni. Er virkilega til fólk sem eyðir sumarfríinu sínu sjálfviljugt svona? Greinilega.

Við slógum upp tjöldum og það kom sér vel að vera með sandhæla og ofan á þá sóttum við björg til að festa betur. Að þessu sinni var engin afgangsorka eftir fyrir kvöldgöngu og eftir kakóið og strohið var lagst beint í pokann. Botninn á mér var kaldur og það fór mikil orka í að hita pokann og ég lá lengi og bylti mér áður en ég sofnaði. Svefninn var líka æði skrykkjóttur þarna í rokinu og rigningunni og fannst okkur í sumum hviðunum að nú myndi bara allt fjúka. Ég geri mér enga grein fyrir hversu mikið ég svaf, en mér fannst ég vakna á korters fresti.

Milli klukkan fimm og hálfsex um morguninn voru allir vaknaðir og ákveðið að taka sig saman. Það tók að venju einn og hálfan klukkutíma og um sjö leytið í morgun var lagt af stað í töluverðum vindi og það ringdi þétt. Það tók okkur um 3klst að þramma þá 12 km sem við áttum í bílinn. Þá var ég gegnblaut og 3ja laga goritex útivistarúlpunni minni var sagt upp störfum enda komin til ára sinna, henni verður ekki boðið með í aðra ferð.

Þegar ég kom heim í dag var ég algerlega búin á því og lagði mig. Ég velti því mikið fyrir mér hvað mér gengi eiginlega til með því að velja mér maraþonhlaupara sem ferðafélaga en þeir voru: Darri (eiginmaður og maraþonhlaupari), Þóra (vinkona okkar og maraþonhlaupari) og Palli (vinur okkar og mikill fjallagarpur). Ég held reyndar að ég hafi svona að mestu haft við þeim, dróst reyndar aðeins aftur úr í mestu brekkunum. Ég verð seint talin íþróttamannslega vaxin en í flokki stuttfættra með plattfót held ég að ég standi mig bara þokkalega, enda ætla ég að keppa í þeim flokki.

Svo lengi sem ég með einhverju móti held í við þessa ferðafélaga mína, ætla ég að halda því áfram, það hins vegar tekur á en er svo sannarlega þess virði. Þó útsýni hafi verið minna seinni hluta göngunnar en við hefðum kosið, þá var þetta mjög gaman. Ánægjan felst ekki síst í því að reyna á þolrifin og lifa þessum "minimalisma" sem fylgir gönguferðum þegar allur útbúnaður er skorin við nögl en verður jafnframt að duga við erfiðar aðstæður.

Myndirnar mínar úr þessari göngu eru ekki eins litríkar og upplifunin var og því er þetta myndalaust blogg. Ætla að hlaða einhverjum myndum inn í Picasa en er ekki búin að því enn. Þegar þar að kemur má skoða myndir hér.


Gerpisganga - myndir

Ég er alltaf að verða meira netvædd. Nú er ég búin að uppgötva Picasa Web Album. Ég hef sett myndirnar mínar frá Gerpisgöngunni þar inn og ef einhver hefur áhuga þá er hægt að skoða þær þar. Ég biðst forláts en þær eru frekar margar en það má auðveldlega spóla hratt í gegnum þær ef áhuginn minnkar.

Myndirnar má skoða hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband