Minning um Ömmu

Um liðna helgi minntust fjölskylda Kristjönu Bjarnadóttur og Alexanders Guðbjartssonar frá Stakkhamri þess að í ár eru 100 ár frá fæðingu Kristjönu. Fjölskyldan kom saman og við þetta tækifæri fluttum við Kristjönurnar minningu um ömmu. Ég birti hér minn þátt í þessum minningum:

Þegar ég minnist ömmu man ég fyrst og fremst eftir glaðlegu andliti hennar. Mér fannst hún alltaf glöð og í góðu skapi og bera umhyggju fyrir öllum sem umgengust hana. Fyrst og fremst beindist sú umhyggja að nánustu fjölskyldu en hlýtt hjarta hennar rúmaði mun meira en þá sem næst henni stóðu.

scan0035cropAmma ólst upp við kröpp kjör en það hafði ekki áhrif á glaðlyndi hennar, vafalaust hefur léttlyndi hennar hrifið afa og efast ég ekki um að á milli þeirra hafi ástin blómstrað. Myndir sem hanga uppi á Breiðabliki í dag, teknar í Hvammi um 1937 sýna ástfangin hjón sem þá þegar áttu 4 heilbrigð börn.

Amma átti ekki kost á mikilli skólagöngu. Hún var þó á húsmæðranámskeiði í Skógarnesi haustið 1925 sem haldið var að tilhlutan búnaðarsambandsins. Þar lærði hún ýmislegt sem nauðsynlegt var að húsmæður í sveitum á þeim tíma kynnu.

Á þessum árum hefur þekking kvenna á eigin líkama líklega ekki verið mikil. Ég minnist þess að amma sagði  mér að í kringum 1940 hafi hún komist yfir bækling sem Katrín Thoroddsen læknir lét gera. Þessi bæklingur var fræðsla fyrir konur um starfssemi kvenlíkamans þar á meðal tíðahringinn og upplýsingar um hvenær konan væri frjó. Amma sagði mér að ef hún hefði vitað þetta fyrr hefðu börnin ekki þurft að verða svona mörg fyrstu búskaparárin.

Ömmu þótti gaman að fara á hestbak. Einhverju sinni eftir að nokkur elstu börnin voru fædd var ákveðið um kvöld að fara í reiðtúr. Líklega var það Bjargey sem tók að sér að gæta barnanna en a.m.k. afi og amma fóru á hestum upp á fjall. Veðrið var gott og útsýni gott. Amma hafði aldrei farið svona langt og hana langaði alltaf að sjá meira. Skilst mér að þau hafi farið inn á Tröllaháls en þar sést niður í Grundarfjörð. Þetta var fyrir ömmu mikið ferðalag og mikið ævintýri og vafalaust verið komið fram undir morgun þegar þau komu heim.

Ég man að amma fór nokkrum sinnum á hestbak með okkur Ernu. Hún fór á Perlu, meri sem Erna átti. Amma sat Perlu vel og Perla tölti fallega undir henni.

Afi féll snögglega frá vorið 1968, þá var amma rétt ekki orðin 60 ára. Amma sagði mér að þegar afi fór á aðalfund kaupfélagsins í mars þetta ár, hafi hann keypt armbandsúr og gefið henni með þeim orðum að óvíst væri að hann lifði 60 ára afmælið hennar sem var 10. nóvember sama ár. Hann reyndist sannspár og ég veit að ömmu þótti mjög vænt um þetta úr.

Það hefur örugglega verið tómlegt fyrir ömmu að vera ein í gamla húsinu eftir að afi dó. Því var ákveðið að við Erna skiptumst á að sofa hjá ömmu. Ég svaf því aðra hverja nótt hjá ömmu frá því um vorið 1968 til haustsins 1972 þegar amma flutti í Stykkishólm. Undanskilið er þegar amma dvaldi hjá hinum systkinunum eða þegar gestir voru hjá henni. Mér þótti gott að sofa hjá ömmu, það fylgdi henni ákveðin rósemi meðfram glaðlyndinu og þar leyfðist mér meira en heima. Ekki spillti fyrir að í morgunmat hjá ömmu fékk ég stundum kornfleks og jafnvel kókópuffs sem mér þótti mikið sælgæti.

Haustið 1971 brunnu fjárhúsin og hlöðurnar á Stakkhamri. Ég held það hafi fyllt ömmu ákveðnu öryggisleysi og í kjölfarið ákvað hún að flytja inn í Stykkishólm. Ég man eftir flutningunum og hvað mér fannst þetta skrýtið, fram að því hafði hún verið svo fastur punktur í tilveru minni. Ég man þegar við kvöddum hana á tröppunum á íbúðinni við Skólastíginn að það voru tár á kinninni. Mér fannst það skrýtið því á þeim árum var ég sannfærð um að fullorðnir grétu ekki. Þarna varð mér ljóst að fullorðnir hafa líka sínar tilfinningar.

Eins og þið öll vitið ber ég nafn ömmu. Mér hefur alla tíð þótt það mikill heiður þó mér á ákveðnu aldursskeiði hafi ekki þótt nafnið fallegt. Amma vildi alls ekki gera upp á milli barnabarnanna og allra síst vegna nafna okkar. Engu að síður fann ég ákveðna tengingu og er mjög stolt af því. Ég man að sem unglingur á mótunarskeiði velti ég því fyrir mér hvernig manneskja ég vildi verða og svarið kom fljótt: „Ég vil verða eins og amma“. Amma hefur því alla tíð verið mér fyrirmynd, léttlyndi hennar, dugnaður og hjartahlýja eru eiginleikar sem við öll ættum að hafa í heiðri og reyna að tileinka okkur.

PS. Þau atvik sem ég tel upp í þessum pistli hef ég að mestu eftir eigin minni. Mér hefur verið bent á að afi hafi verið orðinn það veikur rétt fyrir andlátið að líklega hafi hann ekki sótt kaupfélagsfund árið sem hann dó. Það breytir þó ekki því ég minnist þess að amma sagði mér að hann hafi fært sér gjöf einhverju fyrir andlátið með þeim orðum að hann efaðist um að lifa 60 ára afmælið hennar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Falleg orð sem lýsa hlýjum og góðum minningum.  Ég hef alltaf átt erfitt með að sjá fyrir mér hvernig afi þinn og amma komust fyrir í Hvammi með barnahópinn sinn.  Mamma sagði mér áreiðanlega að þau hefðu borðað í hollum (og amma þín aldrei sest við matarborðið, ekki frekar en flestar húsmæður þá).

Falleg mynd.

Kveðja til þín og þinna.

Þorbjörg (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 09:37

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég tárast þegar ég sé svona skrif. Þvílík hlýja og virðing fyrir forfeðrum og -mæðrum! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.8.2008 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband