Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Gengið um Gerpissvæðið

Á hverju sumri fer ég í nokkra daga gönguferð (oftast 6 daga) með félögum mínum í Trimmklúbbi Seltjarnarness. Nú er ég nýkomin úr einni slíkri sem var um Gerpissvæðið milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar. Að þessu sinni var þetta trússferð en áður höfum við ferðast um eins og snigillinn með allt á bakinu.

Ferðaþjónustan á Mjóeyri við Eskifjörð sá að mestu um skipulagningu, leiðsögn og trúss. Gönguleiðin var eftirfarandi:

Dagur 1: Úr Norðfirði um Hellisfjörð í Viðfjörð
Dagur 2: Úr Viðfirði út á Barðsnes. Þeir sprækustu fóru upp í Kerlingarskarð og gengið var á Sandfell.
Dagur 3: Jarðmyndanir og steingervingar á Barðsnesi skoðað.
Dagur 4: Frá Barðsnesi í Vöðlavík. Nokkrar leiðir voru mögulegar. Ég fór um Sandvíkurskarð yfir í Sandvík, gekk í leiðinni á Gerpiskoll og síðan um Gerpisskarð yfir í Vöðlavík.
Dagur 5: Frjáls dagur í Vöðlavík. Ég
gekk ásamt 8 öðrum á fjallið Snæfugl.
Dagur 6: Gengið út fyrir Krossanesskriður yfir að Karlsskála yst í Reyðarfirði.

Hér að neðan verður ferðasagan sögð með nokkrum myndum.

031

Í Kerlingarskarði sem er milli Viðfjarðar og Sandvíkur. Þar þurfti að gæta varúðar vegna lauss grjóts sem hrundi úr sporum okkar. Mátti litlu muna að einn steinninn færi í höfuð einnar konunnar. Í staðinn lenti hann í fæti annarrar og skrámaði hana. Sú fékk litla samúð því við vorum svo ánægð með stefnubreytinguna sem þetta slys olli á steininum!

042

Kerlingin í Kerlingaskarði skoðuð.

069

Það er hefð fyrir því að taka börn með í ferðina. Þau hafa aldrei verið til trafala á göngu og á kvöldin eru þau mjög dugleg að leika sér saman algerlega þvert á aldur.

093

Á Barðsnesi er mikil litadýrð.

096

Á Barðsnesi eru steingerð eða koluð tré sem hafa verið mjög sver og margar mannhæðir að hæð. Þau bera þess vitni að loftslag hafi verið með allt öðrum hætti hér fyrir mörgum milljónum ára.

214

Hér sést yfir í Vöðlavík úr Gerpisskarði, frá vinstri: Sauðatindur, Snæfugl, Svartafjall og Hesthaus. Snæfuglinn freistaði okkar sem verkefni næsta dags.......

229

Snæfugl freistaði okkar og gengum við 9 á hann. Leiðin var víða hrikaleg, háir hamrar og við fikruðum okkur meðfram klettunum, verst var hversu grjótið var víða laust. En upp komumst við og þá fær göngumaður ríkulega útborgað.

241

Þetta er nú bara svona smá montmynd af toppnum.

263

Þegar upp var komið hugsaði ég með mér: "Úff hvernig verður að komast niður", það gekk bara vonum framar, en klöngur var þetta.

268

Ganga þurfti nokkurn spöl á milli klettabelta. Milli klettabeltanna var snarbratt og við fikruðum okkur eftir riminni þar á milli.

305

Útsýni af Karlsstöðum í Vöðlavík. Svartafjall, Snæfugl, Hesthaus.

347

Leiðsögumaðurinn Sævar og hundurinn Týra. Sævar er einnig leiðsögumaður fyrir hreindýraveiðimenn á svæðinu. Sævar er flinkur leiðsögumaður, les hópinn vel, leiðbeinir fólki vel með mismunandi gönguleiðir en það er nauðsynlegt þegar um 55 manna hóp er að ræða. Einnig segir hann vel frá og hafsjór af alls kyns sögum af svæðinu.

Mest áhrif hafði hann þó á hópinn þegar hann sagði frá strandi rækuskipsins Bergvíkur í Vöðlavík á Þorláksmessu 1993 og síðan í framhaldi af því þegar björgunarskipið Goðinn fórst við tilraunir til að ná Bergvíkinni af strandstað í janúar 1994. Þá var Sævar 23 ára og var vettvangsstjóri á strandstað.

Ég hvet fólk eindregið til að skoða þetta svæði og fá Sævar til að sjá um ferðina, hann og konan hans Berglind leggja sálina í það sem þau gera og ég óska þeim alls hins besta í því.


Vi taler dansk í Danmark

Íslensk börn læra dönsku í grunnskóla, þau sem halda áfram í framhaldsskóla eru skyldug til að bæta við þá kunnáttu sína. Það er nokkuð víst að margir líta á þetta nám sem hina mestu kvöl og pínu og algengt er að danska sé á lista yfir óvinsælustu námsgreinarnar.

Dóttir mín (Rán) 16 ára sem í vor lauk grunnskólanámi er ein þessara nema, danska hefur lengst af verið hennar stærsti höfuðverkur og leit hún á þessa námsgrein sem óyfirstíganlega hindrun í sínu námi. Þrátt fyrir það stóð hún sig með mikilli prýði í prófum í vor, sjálfri sér, foreldrum og kennara til mikillar undrunar og gleði.

Um seinustu helgi fór fjölskyldan til Kaupmannahafnar, frábært tækifæri til að nota þessa þekkingu. Við fórum í búðir, tilgangurinn var m.a. að finna gallabuxur. Í dönskukennslubókunum sem notaðar eru í íslenskum grunnskólum eru gallabuxur kallaðar "cowboybukser". Hér kemur samtal dóttur minnar við danska afgreiðslustúlku í Zöru á Strikinu:

Afgreiðslustúlkan: "Kan jeg hjælpe dig?"

Rán: "Ja, har du cowboybukser?"

Afgreiðslustúlkan horfði með miklum spurnarsvip á Rán, hún velti greinilega fyrir sér hvað hún væri að meina, kúrekabuxur voru svo sannarlega ekki hluti af tískuvarningi þessa árs. Svipur afgreiðslustúlkunnar var óborganlegur, "þú ættir frekar að fara í reiðvöruverslun" var svona það sem lesa mátti af svipnum.

"Mener du jeans?" spurði afgreiðslustúlkan eftir langa mæðu.

Framburður á orðinu jeans var verulega danskur meira svona "jens" og Rán gat ómögulega áttað sig á hvað stúlkan var að segja. Ég stóð álengdar og Rán kallaði mig til hjálpar, "hún var að meina "djíns" útskýrði ég.

Þar með var allt orðið ljóst. Þrátt fyrir að íslenskar dönskukennslubækur kenni íslenskur grunnskólanemum að gallabuxur nefnist cowboybukser á dönsku þá er það kunnátta sem gagnast nákvæmlega ekki neitt í tískubúðum á Strikinu.

Gallabuxur á dönsku er JEANS.

Nú vitum við það.


Afi og amma

afiogamma

Rætur okkar liggja hjá forfeðrunum, það er okkur hollt að minnast þeirra með reglubundnum hætti, minnast kjara þeirra og aðbúnaðar sem var slíkur að okkur er ómögulegt að skilja eða skynja með hvaða hætti þau náðu að koma fjölda barna upp. Lífið var daglegt amstur og frítími var hugtak sem þeim var ókunnugt.

Ég man að amma minntist þess að hafa farið frá Hjarðarfelli þar sem hún þá bjó, í reiðtúr inn á fjall, þannig að hún sá yfir á láglendið að norðanverðu Snæfellsnesi. Það var í hennar huga mikið ferðalag, mikil tilbreyting í lífi þess tíma.

Myndin hér að ofan er af afa mínum Alexander Guðbjartssyni og ömmu minni Kristjönu Bjarnadóttur. Þessi mynd er líklega tekin árið 1938 eða 1939. Þau áttu þá þegar 4 börn, 5 voru ófædd.

Í sumar munu afkomendur þeirra hittast og minnast þeirra. Þau og þeirra kynslóð lagði grunninn að því velferðarkerfi sem við lifum við í dag. Þau skildu nauðsyn þess að leggja fyrir þegar vel áraði til að lifa af þegar harðnaði á dalnum. Þau skildu líka nauðsyn samfélagslegrar samhjálpar.

Það er langt síðan það var hart í ári hjá okkur, einhvers staðar á leiðinni höfum við glatað þessum skilningi.


Spilaði og söng

Í heimavistaskólanum Laugargerði á Snæfellsnesi vissum við stundum ekki alveg hvað við ættum að gera af okkur á kvöldin, rétt eins og algengt er með unglinga allra tíma. Við söfnuðumst saman á einhverju herberginu, stelpurnar oftast á herbergi 314. Hrúguðumst þar, setið þétt í hverri koju, líka í þeim efri. Það kom fyrir að svo margir væru þarna saman komnir að einnig væri setið í glugganum.

Ólína tók gítarinn og byrjaði að spila, "Um sólsetur í fjörunni", "Híf op æpti karlinn", "Þýtur í laufi" og mörg fleiri lög. Það varð vinsælt að skrifa textana upp í stílabækur og læra þá utanað.

Svona gátum við setið og sungið heilu kvöldin, allir textar á hreinu, flottast var þegar einhverjar gátu raddað lögin, stundum var dundað sér við það.

Það er farið að fenna í minniskubbin þar sem textarnir eru geymdir. Það var sannreynt um helgina, Ólína með gítarinn, Erna og Elín með hringlur, hristur og trommur. Textarnir runnu ekki eins ljúflega upp úr okkur og áður, stundum þurftum við að humma laglínuna. Frekar pínlegt, eins og við kunnum þetta einu sinni vel.

Það er ljóst að það þarf að hressa upp á textakunnáttuna hjá okkur.


Skessuhorn

Nú nýlega fékk ég í tölvupósti tilkynningu frá íslenskum fjallaleiðsögumönnum um ferð á Skessuhorn á sumardaginn fyrsta. Ég áframsendi á Ásdísi vinkonu mína með orðunum "eigum við ekki að skella okkur".

Í dag var semsagt sumardagurinn fyrsti og ferð með íslenskum fjallaleiðsögumönnum á Skessuhorn, við Ásdís mættar ásamt ektamökum. Frábær ferð og allir glaðir. Ferðasagan kemur hér í myndaformi.

Skessuhorn, séð frá Horni

 Skessuhorn er ekki árennlilegt á að líta frá bænum Horni í Andakíl. Andið rólega, þetta er mun þægilegri ganga en lítur út fyrir frá þessu sjónarhorni.

Á leið á Skessuna

Við vorum fullar eftirvæntingar í ferðarbyrjun, skyldum við "meikaða"?

Skessuhorn

Við nálguðumst Skessuna óðum.

Skessuhorn

Hún breytti stöðugt um svip eftir því sem nær dró.

Ásdís

Leiðin liggur sunnan við Skessuna og upp skál þeim megin.

Upp, upp, upp á fjall

Seinustu sporin upp á hrygginn.

 

Klettar kalla

Þegar upp var komið fengu göngumenn útborgað.......

Á Skessuhorni

...............og bónus.

Skarðshorn og Heiðarhorn

Skessan er ekki eina hornið á svæðinu, Skarðshorn og Heiðarhorn eru þarna líka og víst er að nokkrum sinnum var rætt um að skella sér þangað upp.

Hin fjögur fræknu

Hin fjögur fræknu voru bara ánægð með sig á toppnum, en munið...........það er kalt á toppnum.

Niður, niður, niður

En þá var eftir að ganga niður.

Þetta var hin ágætasta ganga og alls ekki erfið. Við getum hæglega mælt með göngu á Skessuhorn og fullyrðum að þetta er ekkert klettaklifur.

Ég óska öllum lesendum mínum gleðilegs sumars og þakka skemmtileg samskipti í vetur. Bloggskrifin hafa svo sannarlega stytt mér stundir í vetur. Hvort ég verð eins iðinn við kolann í sumar verður tíminn að leiða í ljós.


Selveiðar

Á hverju vori veiddi pabbi sel. Lítill árabátur var notaður við veiðina og net voru lögð. Netin héngu þess á milli hátt uppi á krók í skemmunni. Það þurfti að tryggja að þau væru með réttri möskvastærð og gera við göt sem höfðu myndast árið áður. Þau voru lögð út á grasflötina við íbúðarhúsið. Ég lærði snemma að hnýta netahnúta og að hjálpa til við viðgerðina.

gera við net 

Korkhringir sem ráku á fjörurnar voru sagaðir niður, gerð göt í þá og bútarnir festir á netin með reglulegu millibili. Svo var farið upp í holt og leitað að heppilegum steinum til að setja í neðri hluta netanna. Steinarnir þurftu að vera aflangir, þannig að hægt væri að bregða bandi um þá svo það héldi.

Ekki var hægt að fara á litlum árabát í skerin í hvað veðri sem var, brimið í sunnanáttinni var of mikið til að á það væri hættandi, ef norðanáttin var of hvöss gat undiraldan verið kröpp.

Vandlega var fylgst með veðurfréttum. Um leið og veðurspáín gaf vonir um hagstætt veður var lagt af stað. Báturinn settur á heykló aftan á dráttarvél. Önnur dráttarvél var með vagn aftan í með netin, steinana og hlunna. Keyrt var fram nesið eins langt og hægt var að komast, bátnum bakkað í flæðarmálið, netum og steinum hlaðið í hann og ýtt á flot.

Oftast réri Gunnar í Borgarholti með pabba. Nokkrum sinnum fengum við Erna að fara með að leggja netin, það var yfirleitt gert að degi til en vitjað um að nóttu.

Skerin eru þrjú, Staðasker, Bullusker og Stakkhamarssker. Það var mér kappsmál að geta róið með körlunum. Líklega voru áratökin ekki eins öflug og mér finnst í minningunni. Ég man ekki hversu mörg netin voru, líklega á bilinu 5-7. Það var vandi að halda bátnum kyrrum meðan netin voru lögð því aldan var töluverð upp við skerin. Hlutverk liðléttinganna var að finna steina og festa á netin jafnóðum og þau voru lögð. Pabbi lagði netin og Gunnar var á árunum.

Selveiði

Áður en netin voru lögð var reynt að ná einhverjum kópum í skerinu. Þá var hægt að blóðga þá og þannig mögulegt að nýta kjötið. Selkjötið var soðið og yfirleitt bara borðað með kartöflum og uppstúf. Ég man það var dökkrautt og bragðaðist ágætlega.

Á hverju ári voru veiddir svona 20-40 kópar. Skinnin voru verðmæt og þetta voru töluverð hlunnindi. Pabbi fláði selinn og skóf skinnin. Mamma þvoði skinnin svo í gömlu þvottavélinni og síðan voru þau spítt upp á timburþil í fjárhúsunum. Eftir nokkrar vikur voru þau tilbúin og lögð inn í Kaupfélagið, nema hvað.

Svo kom Brigitte Bardot. Líklega taldi hún fatnað úr gerviefnum umhverfisvænni en selskinn. A.m.k. var hún ekki hrifinn af selskinnsfatnaði og var í herferð gegn þessum veiðum. Skinnin lækkuðu í verði og  selveiðin lagðist af.


Pálmasunnudagur 1964

Það var sunnudagskvöld með Svavari Gests í útvarpinu. Húsfreyjan að Stakkhamri ákvað að nota tímann vel og skúra gólfin. Hún átti von á barni en þó gerði talning ekki ráð fyrir að fæðing ætti sér alveg strax stað. Einhverjir verkir gerðu vart við sig og hún reyndi að leggja sig. Það dugði ekkert og verkirnir ágerðust. Það fór ekki á milli mála, það var fæðing í aðsigi.

Á heimilinu var aðeins til Willys jeppi og þótti það ekki heppilegt farartæki til að flytja fæðandi konu. Því var hringt í Leifa í Hrísdal og hann beðinn um að koma til að keyra konuna og eiginmanninn yfir Kerlingarskarð á sjúkrahúsið í Stykkishólmi. Þetta gerði Leifi fúslega. Þegar hersingin nálgaðist fjallið leist honum hins vegar ekki á blikuna, hann hafði litla löngun til að breyta bílnum í fæðingarstofu uppi á miðju fjalli.

Leifi krafðist þess að keyra heim að Hjarðarfelli og koma konunni í hús. Það varð úr þrátt fyrir mótmæli Stakkhamarshjónanna sem fannst það ekki góð hugmynd að banka upp á bæjum og biðja um að fá að fæða barn heima hjá öðru fólki.

Kvöldið áður hafði verið skemmtun í sveitinni og því var Hjarðarfellsfólkið gengið snemma til náða. Gunnar og Ásta risu úr rekkju og tóku vel á móti gestum. Fæðandi konan var drifin upp í hjónarúmið og áhorfendaskarinn viðbúinn.

Ásta hafði sjálf átt 6 börn, hún var nokkuð hress þegar seinasta barnið fæddist og hafði forvitnast um hvernig skilið væri á milli. Þessi forvitni hennar kom sér vel og þarna í öllu patinu og látunum hafði hún hugsun á að sjóða bendla til að hnýta fyrir naflastrenginn.

Fæðingin gekk fljótt fyrir sig, örlítið fjólublá stúlka fæddist með naflastrenginn vafinn um hálsinn. Ásta skildi á milli, líklega með skjálfandi höndum en það kom ekki að sök, ég er lifandi sönnun þess.

Í hamaganginum hafði enginn fyrir því að fylgjast með tímanum. Því var fæðingarstundin eitthvað á reiki, meira að segja hvoru megin við miðnættið þetta var. Einhver kvað þó upp úr með að klukkuna hefði vantað tíu mínútur í tólf þegar barnið fæddist.

Það hefur örugglega verið sérstakt að vakna upp við það á pálmasunnudegi að fæðandi kona stæði á dyraþrepinu. Ég fann alltaf fyrir sérstökum tengslum við Ástu og Gunnar vegna þessa. Á sex ára afmælinu mínu gáfu þau mér áletraða skeið með fæðingarstundinni. Mér þykir mjög vænt um þessa skeið.


3 stúlkur á 3 dögum á 3 bæjum

Í dag 21. mars á hún Anna afmæli. Þessir 3 dagar sem nú fara í hönd hafa mér alltaf fundist gríðarlega merkilegir.

Það er stórmerkilegt að 3 stúlkur hafi fæðst 3 daga í röð á nánast 3 bæjum í röð.

Hvað var að gerast í þessari sveit 9 mánuðum áður?

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ ANNA


Miðaldra með skaðað skott

Ég verð 44 ára eftir rúman mánuð, það er ekkert leyndarmál. Meðallífsslíkur íslenskra kvenna eru einhver rúm 80 ár. Flokkast þessi aldur minn því ekki undir að vera miðaldra?

Ég vil leggja mjög svo jákvæða túlkun í þetta. Þetta hlýtur að þýða að ég sé á miðjum aldri, jafnframt að ég sé á eins konar hátindi, geti nánast allt Woundering.

Því var það í skíðaferð fjölskyldunnar nú um jól og áramót að ég fékk þá hugmynd að ég gæti rennt mér á bretti. Þarna sigldi kerlingin um barnabrekkuna á eldrauðu Billabong bretti, með einkakennara. Það var að sjálfsögðu einkasonurinn sem hafði fulla trú á að ég gæti þetta en sýndi mér heldur enga miskunn þar sem ég kútveltist með þetta drasl bundið um lappirnar.

Svo jókst mér kjarkur og ég fór hraðar ........ og datt........ á afturendann. Þvílíkur sársauki læddist um afturendann. Sonurinn var hughreystandi: "Stattu bara strax upp og haltu áfram, annars gætirðu bara orðið hrædd". Það gat ég náttúrulega ekki hugsað mér. Upp stóð ég og hélt náminu samviskusamlega áfram. Hugsaði ekkert um afturendann, hafði um mikilvægari verkefni að hugsa.

Svo bara gleymdi ég þessu. Þangað til á leiðinni heim. Fimm klukkutíma seta í flugvél (eftir 4 klst rútuferð) var meira en botninn þoldi. Líklega hef ég skaddað á mér rófubeinið.

Nú er einn og hálfur mánuður liðinn, ég þoli enn illa setur á óbólstruðum stólum.

Ég er enn að að drepast í skottinu.


Búálfar

Ég trúi á búálfa. Stundum finn ég ekki hluti sem ég veit nákvæmlega hvar ég lagði frá mér, það er eins og jörðin hafi gleypt þá. Svo nokkrum vikum eða mánuðum síðar liggja þeir einhversstaðar á glámbekk. Ég vara mig á því að leita of vel að þessum hlutum því þá geta búálfarnir ekki skilað þeim aftur.

Í sumar týndi ég buxum, hljómar kannski ekki vel en þetta er bara svona. Þetta voru brúnar kvartbuxur. Ég man seinast að ég var í þeim þegar ég heimsótti Signý frænku mína í Svíþjóð. Man að ég kom heim í gallabuxum. Nokkrum dögum síðar fann ég þær ekki, leitaði í öllum skápum og skúffum heima hjá mér. Þvottahúsið og óhreina tauið skannað vandlega. Ég spurðist meira að segja fyrir í öðrum húsum (hm, hvað kom til að ég var buxnalaust þar?). Buxurnar fundust hvergi, Signý kannaðist ekkert við þær heldur.

Ég fór í gegnum skápinn minn aftur í vetur, allar buxurnar og skoðaði hvort ég gæti grisjað bunkann. Var allan tímann með í huganum hvar brúnu kvartbuxurnar væru.

Í seinustu viku voru brúnu kvartbuxurnar mínar ofarlega í buxnabunkanum.

Hvar voru þær alla þessa mánuði? Það fæ ég aldrei að vita.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband