Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
29.1.2008 | 18:56
Ásdís með myndlistasýningu
Vinkona mín Ásdís Arnardóttir frá Brekkubæ er útskrifuð frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk prófi frá málunardeild árið 1999. Nú seinustu ár hefur Ásdís helgað sig listinni. Afraksturinn ætlar hún að sýna á Bókasafni Háskólans á Akureyri og opnar sýningin 2. febrúar kl 15.00. Sjá nánar hér.
Við þessa frétt varð mér hugsað til gamalla tíma, teiknitíma í Laugagerðisskóla.
Matti kom með skókassa í teiknitímanna, jólakort seinustu ára til fjölskyldunnar voru í skókassanum.
Elsku Matti, Fjóla og börn, Gleðileg jól, farsælt komandi ár o.s.frv.
Þökkum liðið ár Stína, Siggi og börn
Við skemmtum okkur hið besta við jólakortalesturinn og urðum mikils vísari um vini og fjölskyldu teiknikennarans. Myndirnar á kortunum voru hefðbundnar: hús úti í skógi og snjór yfir öllu eða nokkrir galvaskir jólasveinar. Upplegg kennslustundarinnar var að láta nemendurna teikna eftir myndunum á jólakortunum. Mjög voru listaverkin misjöfn og áhugi nemendanna og ástundun var einnig á ýmsum stigum, sumir skemmtu sér meira við jólakortalesturinn en teikninguna. Inn á milli leyndust þó snillingar sem drógu upp myndir sem gáfu fyrirmyndunum ekkert eftir.
Ásdís var ein af þeim sem skaraði fram úr strax á þessum árum. Hennar myndir báru af. Nú hefur hún fært þessa myndlist yfir á nýtt svið. Í stað jólakortanna notar hún gamlar myndir úr fjölskyldualbúminu sem teknar voru á Kodak Instamatic myndavél af einfaldri gerð. Í stað crayola litanna í gamla daga notar Ásdís vatnsliti og mjög þunnan pappír sem ég kann ekki skil á en mikil vinna liggur í hverju verki sem eru mörg stór og glæsileg.
Ásdís, til hamingju með sýninguna, það er ljóst að við hinar eigum erindi til Akureyrar. Akureyringa hvet ég til að gera sér ferð á Bókasafn Háskólans og skoða sýninguna.
15.1.2008 | 22:02
Undrandi tunna
Það var verið að steypa á Stakkhamri. Líklega var þetta þegar verið var að byggja eftir brunann 1971. Í þá tíð hjálpuðust menn að þegar mikið lá við og á steypudögum komu nágrannarnir og aðstoðuðu.
Einhverra hluta vegna var tunna fyllt af steypu. Þetta var gamaldags trétunna með gjörðum og öllu. Hún þoldi ekki álagið og gliðnaði í sundur.
Elli í Dal horfði á tunnuna og sagði: "Sjáiði tunnuna, hún er svo hissa að hún féll í stafi!".
10.1.2008 | 22:31
Hugleiðing um feminisma og litríkt pasta
Í tilefni af pastasögunni hér á undan vek ég athygli á því hversu fyndið okkur mæðgum þótti þetta umrædda pasta. Karlpeningurinn í fjölskyldunni var alveg laus við að finnast þetta sniðugt.
Hvað hefðum við sagt ef umrætt pasta hefði verið eftirlíking af líffæri kvenna?
Í ítölsku kjörbúðinni var slíkt pasta ófáanlegt (ég leitaði!).
Hverjum hefði þótt það sniðugt?
Ég sé fyrir mér vandlætingu feminista og upphrópanir um hversu ósmekklegt það væri.
Finnst karlmönnum þetta pasta ósmekklegt? Eða bara ekkert fyndið?
Í hverju felst þessi munur á afstöðu okkar til litríks pasta?
9.1.2008 | 23:02
Pasta Basta
Eins og fram hefur komið þá brá fjölskyldan sér í skíðaferð. Slíkar ferðir eru sko alls ekki ókeypis frekar en önnur ferðalög. Það er þess virði að setja sér stefnu og ákveða hversu miklu af heimilistekjunum maður er viljugur til að eyða í hverja ferð, fara sjaldan og gera það grand, eða fara oft og lifa eins og nirfill.
Ég hef valið að fara seinni leiðina, þykir mörgum nirfilsskapurinn stundum ganga fulllangt, þar sem fjölskyldan er nánast komin með pastaeitrun eftir 12 daga dvöl á Ítalíu. Við leigðum okkur íbúð með eldunaraðstöðu og eftir hvern skíðadag var stormað í búðina, keypt pasta, það soðið í potti með kúptum botni, einhver sósa mölluð og svo gleypti hungrað liðið þetta í sig.
Í upphafi ákváðum við að fara tvisvar út að borða í ferðinni, á jóladag og á gamlársdag. Jóladagsveitingahúsið var vandlega valið, matseðill skoðaður og verðlag kannað. Þetta leit út fyrir að vera fínt en ekkert galið verð. Við pöntuðum borð með fyrirvara og mættum svo á tilsettum tíma. Fljótlega áttuðum við okkur á að þetta var nú heldur annað en til stóð. Níu rétta matseðill á línuna, allt fínt og huggulegt. Heldur brá nú fyrirvinnum fjölskyldunnar þegar reikningurinn kom, ríflega tvöfalt það sem fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Plastinu var rennt og það hitnaði vel.
Á leiðinni heim byrjaði Rán að flissa að þessu en húmor fyrirvinnanna leyfði ekki svoleiðis alveg strax. "Viltu aðeins bíða með þessa fimmaurabrandara svona rétt á meðan við erum að jafna okkur á þessu", var svarið.
"Heyrðu, við förum bara ekkert út að borða á Gamlárskvöld" sagði daman þá, málið leyst. Þar með var jafnvægi í heimilisbókhaldinu náð, allir glaðir. Við skelltum öll upp úr. "Svo höfum við bara marglitt pasta í matinn", bætti hún við. Auðvitað var pasta í matinn á Gamlárskvöld á Ítalíu, hvað annað.
Úrvalið af marglitu pasta var fjölbreytt. Ég var búin að lofa þeim saumaklúbbsvinkonum mínum myndum af því og hér koma þær:
Þetta var pastað sem við mæðgurnar völdum. Einhverra hluta vegna hafði karlpeningurinn ekki eins mikinn húmor fyrir þessu. Þetta fékkst því ekki samþykkt sem áramótamatur.
Við fundum pasta sem var eins og hattar og það var valið og borðað og því ekki myndað. Til viðbótar þá var þessu pasta bætt við. Gallinn við hattana var að þeir voru óvart ofsoðnir og láku í sundur og því ekki eins skemmtilegir soðnir og í pakkanum.
26.11.2007 | 22:15
Í ömmuleik
Þessa dagana er ég mikið í ömmuleik, er að vísu bara móðursystir en ég tek þessu hlutverki alvarlega og reyni að leika ömmu, köllum það stundum varaömmu.
Drengurinn heitir Finnbjörn og er algert krútt og fullkomið þægðarljós. Við eigum þrjá uppáhaldsleiki:
1. Vera týndur undir handklæði og taka það svo frá höfðinu. Þetta er langskemmtilegast.
2. Sitja ofan í balanum með dótið.
3. Slást við dótið ofan í balanum.
9.11.2007 | 22:19
Frænka
Frænka mín Gíslína Erlendsdóttir lést í gær langt fyrir aldur fram. Þegar við vorum börn var mikill samgangur milli fjölskyldna okkar og hefur mér nú seinustu mánuðina mikið verið hugsað til þeirra tíma. Það er bara þannig að það fólk sem maður kynnist sem barn skipar alltaf veglegan sess í huga manns.
Gillí hélt úti bloggsíðu þar sem hún fjallaði hispurslaust og af miklum kjarki um sjúkdóm sinn og lífið og tilveruna. Ég skrifaði fyrir um mánuði síðan um hvaða áhrif það hafði á mig og ég vísa nú aftur í það.
Ég hef þá trú að Gillí hafi með framgöngu sinni snert marga strengi og fengið marga til að líta örlítið í eigin barm og velta fyrir sér hvert við stefnum með lífi okkar, fengið okkur til að hugsa um hvað sé mikilvægt fyrir okkur og hvernig við viljum verja okkar dýrmæta jarðlífi.
Ég votta öllum aðstandendum mína dýpstu samúð.
7.11.2007 | 20:41
Táknmál í prófum
Hvað mæla próf?
Getu til að koma skriflega minnisatriðum á framfæri.
Hvað segir þessi mæling um getu einstaklingsins?
Svar: Til lengri tíma (framtíðar) lítið.
Próf mæla einn hæfileika sem ekki hefur verið haft hátt um; hversu flinkir nemendurnir eru í táknmáli sín á milli og skiptast á upplýsingum í prófinu sjálfu.
Úps þar játaði ég það. Við vinkonurnar vorum nefnilega æði flinkar í þessum fræðum, þetta var svona eins konar samhjálp okkar á milli eða þannig. Við komum okkur upp táknmáli. Fjöldi fingra á lofti táknaði náttúrulega númerið á spurningunni sem við vorum í vandræðum með. Svo var bara hugmyndaflugið notað til að skiptast á upplýsingum.
Eitt sinn vorum við í Íslandssöguprófi. Við vorum í 5. eða 6. bekk. Ég sat í öðrum endanum á matsalnum og Elín í hinum endanum. Við snerum á móti hvor annarri. Þetta var töluverð vegalengd og útilokað að við gætum talað saman.
Ég lít upp, Elín rekur upp 4 fingur. Já spurning númer 4. Einhver vandræði þar.
"Hvernig dó Eggert Ólafsson?" Hann drukknaði á Breiðafirði þegar skipið hans fórst, það vissi ég, en hvernig í veröldinni gat ég táknað það yfir allan matsalinn? Ég leit upp, sá hvernig Elín táknaði hengingarsnöru um hálsinn á sér og kippir í. Nei hann var ekki hengdur. Ég hristi höfuðið. Svo byrjaði ég að síga niður í sætinu með hendur fyrir andlitinu, eins og ég væri að drukkna inni í lófunum á mér, þetta reyndi ég aftur og aftur. Elín horfði bara gapandi á mig, líka hinir krakkarnir, hvað var eiginlega í gangi? Ég hugsaði og hugsaði.
Hvernig táknar maður mann á skipi sem ferst á Breiðafirði? Þarna brást okkur bogalistin. Ég held að þarna hafi kennarinn séð við okkur, þetta var bara ekki hægt að tákna.
31.10.2007 | 22:54
Efst í huga
Yfirskrift þessarar bloggsíðu er "Efst í huga". Í dag ætla ég að vera sjálfri mér samkvæm og skrifa um það sem varla hefur vikið úr huga mér í allan dag. Það er Gillí frænka mín sem er hér til hliðar á bloggvinalistanum. Hún hefur í u.þ.b. ár glímt hetjulegri glímu við krabbamein. Í þeirri baráttu hefur ekki verið skipt jafnt í lið en eigi að síður hefur hún af miklum kjarki og æðruleysi haldið úti bloggsíðu og leyft okkur hinum að fylgjast með sér.
Skrif hennar hafa mjög sterklega minnt mig á hvað lífið, heilsan og samvera með okkar nánustu er okkur dýrmæt. Hversu mikilvægt er að njóta stundarinnar. Við lestur skrifa hennar átta ég mig betur á hver eru hin raunverulegu vandamál í lífinu, einnig hvað það er sem skiptir okkur máli.
Ég hef staldrað við og velt fyrir mér hvernig lífi ég hef lifað, er ég sátt? Er eitthvað sem mig hefur langað til en ekki framkvæmt? Er þá ekki rétt að gera eitthvað í því? Ekki bíða, ekki gera ekki neitt.
Nú þegar fregnir berast af harðri baráttu Gillíar leitar hugurinn til sona hennar, Kára og Ásgeirs og einnig til Palla. Ég hugsa til samverustunda fjölskyldna okkar þegar við vorum börn, systkinin voru þau börn sem ég helst hafði samskipti við áður en ég byrjaði í skóla. Ég hugsa til Gerðu og Ella, Halldórs, Rósu og Egils. Við vonum og biðjum að Gillí öðlist enn á ný kraft til að njóta samvista með sínum nánustu.
19.10.2007 | 18:57
Kaupfélagið að Hvammstanga - þangað get ég ekki komið
Þegar börnin mín voru 1 og 3ja ára dvaldi ég nokkra daga í sumarfríi í húsi í Víðidal í Húnavatnssýslunum. Það rigndi mikið og því var alveg upplagt að skreppa í sund að Hvammstanga sem við gerðum nokkrum sinnum. Eftir einhverja sundferðina fórum við í kaupfélagið þar sem mig vantaði hárnæringu og eitthvað fleira smálegt. Þar sem ég stend í röðinni við kassann sé ég körfu með fullt af alls kyns bakkelsi.
"Það væri nú óvitlaust að kaupa eitthvað gott með kaffinu" hugsa ég. "Ætli þetta sé allt nýbakað?" velti ég áfram fyrir mér. Ég byrja að skoða kökurnar sem eru ágætlega girnilegar en það er ekki mikið til af hverri sort. Ég þukla þær vel og vandlega, kreisti og bora fingrinum laumulega inn í þær, smá "gæðatékk", ég ætla sko ekki að kaupa eitthvað gamalt dót.
Í þessum vangaveltum mínum verður mér litið upp, horfi beint framan í manninn sem er fyrir framan mig í kassaröðinni, þetta er innkaupakerran hans ......................... ég er að þukla kökurnar sem hann er að fara að kaupa. Eiginmaðurinn sér hvað er að gerast, tekur krakkana undir sitt hvora höndina og hleypur út úr búiðinni, hann bara gat ekki horft upp á þetta, þetta var of vandræðalegt.
"uh, ...................... ég hélt þetta væri til sölu" styn ég upp !!!!!!!!!!!!
(Auðvitað var þetta til sölu, maðurinn var að fara að kaupa þetta, var ég fífl !!!!!!!!!! Sarið var JÁ)
Maðurinn horfir á mig, þessu augnaráði sem segir manni að manni sé ekki viðbjargandi, sem mér var ekki. Ég var föst, með körfu fulla af vörum, gat ekki flúið og varð bara að bíða eftir að röðin kæmi að mér. Þetta voru langar mínútur.
Síðan hef ég ekki komið að Hvammstanga ................. og það stendur ekki til.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.10.2007 | 17:50
Af barnabófum
Ég var í 5. bekk, í seinasta tíma á föstudögum var kennslustund með umsjónarkennaranum. Stundum fengum við "samstarfsbækurnar" afhentar í þessum tíma. Í bókinni minni stóð oftast eitthvað á þessa leið: "Samviskusamur nemandi sem stundar nám sitt af kostgæfni". Svo þurftu foreldrarnir að kvitta undir að hafa séð vitnisburðinn. Mamma skrifaði yfirleitt undir: "Þakka góðan vitnisburð, kær kveðja, Ásta Bjarnadóttir". Ég á þessa bók ennþá.
Svo var það einn föstudaginn, tíminn var búinn. Pálína umsjónarkennari bað mig um að vera ögn lengur. Hún afhenti mér lokað umslag, í því var samstarfsbókin. Ég ein fékk hana þennan dag, það gat ekki vitað á gott. Pálína vildi ekkert segja meira um málið.
Ég fór heim með bókina. Var engan veginn viss hvað mér átti að finnast um þetta. Á vissan hátt var það "kúl" að hafa fengið bókina þegar enginn annar fékk hana, gat bara þýtt að ég hafði á einn eða annan hátt boðið kennurunum birginn. Samt var þetta pínu óþekktarstimpill.
Þegar heim kom lét ég mömmu hafa bókina. Þar stóð:
"30. jan. 1976
Þá er miðsvetrarprófunum lokið og þar stóð Kristjana sig mjög vel, eins og hennar var von og vísa. Síðustu kennslustund sem (kennari)XX átti með 5. bekk í eðlisfræði hafði Kristjana sýnt henni mikla ókurteisi. Var hún að vonum leið yfir þessu. Gott væri ef þið vilduð ræða þetta við Kristjönu því að þetta má ekki endurtaka sig í kennsustund.
Með bestu kveðju
Pálína Snorradóttir"
Gallinn var bara að ég gat ekki með nokkru móti munað eftir að hafa verið ókurteis. Yfirleitt veit maður þegar maður er dónalegur, sá sem fyrir því verður lætur maður yfirleitt vita það með viðbrögðum sínum ef maður áttaði sig ekki á því um leið og gjörningurinn var framinn. Ég settist niður og fór að hugsa..................ég hlaut að hafa gert eitthvað. Jú, það kom að því að ég mundi eftir einu atviki.
Þannig var að bekkurinn hafði lokið við námsbókina í eðlisfræði. Á seinustu blaðsíðunni átti að skrifa allt sem við hefðum lært í bókinni. Ég horfði á blaðsíðuna og áttaði mig á að það var útilokað að koma því öllu fyrir á þessari síðu. Höfundarnir höfðu þurft alla bókina, ég átti að koma því fyrir á einni síðu. Þetta var vitavonlaust verkefni. Ég skrifaði því: "Ég hef einfaldlega ekkert lært". Siðan gekk ég til kennarans og sagði hróðug: "Er þetta ekki nóg?"
Einhvern veginn gat mamma ekki með góðu móti tekið mig á beinið fyrir þetta. Hún skrifað því í bókina:
"Ég tel þetta ónógar upplýsingar sem þið gefið upp í samstarfsbókinni til að ég geti farið að atyrða hana. Kristjana segir mér að þetta hafi verið meiningarlaust af sinni hálfu. Hún bætti úr þessu eftir bestu getu þegar hún var heima næst á eftir og vona ég að XX erfi þetta ekki við hana.
Kær kveðja
Ásta Bjarnadóttir"
Hvort þetta var hinn raunverulegi glæpur minn eða hvort ég hafði algerlega óafvitandi verið dónaleg við eðlisfræðikennarann veit ég ekki. Eftir þetta varð ég hins vegar hin snúðugasta við viðkomandi kennara, hleypti viljandi upp tímum bjó til baunabyssur úr nöglum og þvottaklemmum og útdeildi meðal bekkjarfélaganna. Ég fór að svara hortug fyrir mig og varð virkilega dónaleg og með útúrsnúninga, bara alvöru óþæg. Nýtti hvert tækifæri til þess. Ég var hins vegar ótrúlega lúmsk, passaði mig á að vera búin að reikna öll dæmin og ef ég var tekin upp að töflu í hegningarskyni þá bara reiknaði ég dæmið án vandræða þó ég hefði ekki virst hafa flygst hið minnsta með. Ég hins vegar truflaði bekkjarsystkini mín og ég skammast mín fyrir það.
Ég skammast mín núna pínulítið fyrir óþægðina. Hún var afskaplega gelgjuleg en á vissan hátt ákveðin uppreisn. Uppreisn gegn agakerfi þar sem ekki mátti útskýra brotið, en líka uppreisn gegn sjálfri mér sem fyrirmyndarnemenda, fyrirmyndarnemandinn varð að setja upp "kúl lúkk" og bjóða kennurunum birginn, auðvitað varð þá hörundssári kennarinn fyrir barðinu, það var langskemmtilegast.