Af barnabófum

Ég var í 5. bekk, í seinasta tíma á föstudögum var kennslustund með umsjónarkennaranum. Stundum fengum við "samstarfsbækurnar" afhentar í þessum tíma. Í bókinni minni stóð oftast eitthvað á þessa leið: "Samviskusamur nemandi sem stundar nám sitt af kostgæfni". Svo þurftu foreldrarnir að kvitta undir að hafa séð vitnisburðinn. Mamma skrifaði yfirleitt undir: "Þakka góðan vitnisburð, kær kveðja, Ásta Bjarnadóttir". Ég á þessa bók ennþá.

Svo var það einn föstudaginn, tíminn var búinn. Pálína umsjónarkennari bað mig um að vera ögn lengur. Hún afhenti mér lokað umslag, í því var samstarfsbókin. Ég ein fékk hana þennan dag, það gat ekki vitað á gott. Pálína vildi ekkert segja meira um málið.

Ég fór heim með bókina. Var engan veginn viss hvað mér átti að finnast um þetta. Á vissan hátt var það "kúl" að hafa fengið bókina þegar enginn annar fékk hana, gat bara þýtt að ég hafði á einn eða annan hátt boðið kennurunum birginn. Samt var þetta pínu óþekktarstimpill.

Þegar heim kom lét ég mömmu hafa bókina. Þar stóð:

"30. jan. 1976

Þá er miðsvetrarprófunum lokið og þar stóð Kristjana sig mjög vel, eins og hennar var von og vísa. Síðustu kennslustund sem (kennari)XX átti með 5. bekk í eðlisfræði hafði Kristjana sýnt henni mikla ókurteisi. Var hún að vonum leið yfir þessu. Gott væri ef þið vilduð ræða þetta við Kristjönu því að þetta má ekki endurtaka sig í kennsustund.

Með bestu kveðju

Pálína Snorradóttir"

Gallinn var bara að ég gat ekki með nokkru móti munað eftir að hafa verið ókurteis. Yfirleitt veit maður þegar maður er dónalegur, sá sem fyrir því verður lætur maður yfirleitt vita það með viðbrögðum sínum ef maður áttaði sig ekki á því um leið og gjörningurinn var framinn. Ég settist niður og fór að hugsa..................ég hlaut að hafa gert eitthvað. Jú, það kom að því að ég mundi eftir einu atviki.

Þannig var að bekkurinn hafði lokið við námsbókina í eðlisfræði. Á seinustu blaðsíðunni átti að skrifa allt sem við hefðum lært í bókinni. Ég horfði á blaðsíðuna og áttaði mig á að það var útilokað að koma því öllu fyrir á þessari síðu. Höfundarnir höfðu þurft alla bókina, ég átti að koma því fyrir á einni síðu. Þetta var vitavonlaust verkefni. Ég skrifaði því: "Ég hef einfaldlega ekkert lært". Siðan gekk ég til kennarans og sagði hróðug: "Er þetta ekki nóg?"

Einhvern veginn gat mamma ekki með góðu móti tekið mig á beinið fyrir þetta. Hún skrifað því í bókina:

"Ég tel þetta ónógar upplýsingar sem þið gefið upp í samstarfsbókinni til að ég geti farið að atyrða hana. Kristjana segir mér að  þetta hafi verið meiningarlaust af sinni hálfu. Hún bætti úr þessu eftir bestu getu þegar hún var heima næst á eftir og vona ég að XX erfi þetta ekki við hana.

Kær kveðja

Ásta Bjarnadóttir"

Hvort þetta var hinn raunverulegi glæpur minn eða hvort ég hafði algerlega óafvitandi verið dónaleg við eðlisfræðikennarann veit ég ekki. Eftir þetta varð ég hins vegar hin snúðugasta við viðkomandi kennara, hleypti viljandi upp tímum bjó til baunabyssur úr nöglum og þvottaklemmum og útdeildi meðal bekkjarfélaganna. Ég fór að svara hortug fyrir mig og varð virkilega dónaleg og með útúrsnúninga, bara alvöru óþæg. Nýtti hvert tækifæri til þess. Ég var hins vegar ótrúlega lúmsk, passaði mig á að vera búin að reikna öll dæmin og ef ég var tekin upp að töflu í hegningarskyni þá bara reiknaði ég dæmið án vandræða þó ég hefði ekki virst hafa flygst hið minnsta með. Ég hins vegar truflaði bekkjarsystkini mín og ég skammast mín fyrir það.

Ég skammast mín núna pínulítið fyrir óþægðina. Hún var afskaplega gelgjuleg en á vissan hátt ákveðin uppreisn. Uppreisn gegn agakerfi þar sem ekki mátti útskýra brotið, en líka uppreisn gegn sjálfri mér sem fyrirmyndarnemenda, fyrirmyndarnemandinn varð að setja upp "kúl lúkk" og bjóða kennurunum birginn, auðvitað varð þá hörundssári kennarinn fyrir barðinu, það var langskemmtilegast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Hahahaha.... ég þykist muna eftir þessu atviki með bókina.  Þetta var óvænt útspil frá þér á þeim tíma.      En hárrétt ályktun hjá þér.... að ef þú lærðir alla bókina, þá var auðvitað vandkvæðum bundið að koma því á eina litla síðu.

Anna Einarsdóttir, 16.10.2007 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband