Selveiðar

Á hverju vori veiddi pabbi sel. Lítill árabátur var notaður við veiðina og net voru lögð. Netin héngu þess á milli hátt uppi á krók í skemmunni. Það þurfti að tryggja að þau væru með réttri möskvastærð og gera við göt sem höfðu myndast árið áður. Þau voru lögð út á grasflötina við íbúðarhúsið. Ég lærði snemma að hnýta netahnúta og að hjálpa til við viðgerðina.

gera við net 

Korkhringir sem ráku á fjörurnar voru sagaðir niður, gerð göt í þá og bútarnir festir á netin með reglulegu millibili. Svo var farið upp í holt og leitað að heppilegum steinum til að setja í neðri hluta netanna. Steinarnir þurftu að vera aflangir, þannig að hægt væri að bregða bandi um þá svo það héldi.

Ekki var hægt að fara á litlum árabát í skerin í hvað veðri sem var, brimið í sunnanáttinni var of mikið til að á það væri hættandi, ef norðanáttin var of hvöss gat undiraldan verið kröpp.

Vandlega var fylgst með veðurfréttum. Um leið og veðurspáín gaf vonir um hagstætt veður var lagt af stað. Báturinn settur á heykló aftan á dráttarvél. Önnur dráttarvél var með vagn aftan í með netin, steinana og hlunna. Keyrt var fram nesið eins langt og hægt var að komast, bátnum bakkað í flæðarmálið, netum og steinum hlaðið í hann og ýtt á flot.

Oftast réri Gunnar í Borgarholti með pabba. Nokkrum sinnum fengum við Erna að fara með að leggja netin, það var yfirleitt gert að degi til en vitjað um að nóttu.

Skerin eru þrjú, Staðasker, Bullusker og Stakkhamarssker. Það var mér kappsmál að geta róið með körlunum. Líklega voru áratökin ekki eins öflug og mér finnst í minningunni. Ég man ekki hversu mörg netin voru, líklega á bilinu 5-7. Það var vandi að halda bátnum kyrrum meðan netin voru lögð því aldan var töluverð upp við skerin. Hlutverk liðléttinganna var að finna steina og festa á netin jafnóðum og þau voru lögð. Pabbi lagði netin og Gunnar var á árunum.

Selveiði

Áður en netin voru lögð var reynt að ná einhverjum kópum í skerinu. Þá var hægt að blóðga þá og þannig mögulegt að nýta kjötið. Selkjötið var soðið og yfirleitt bara borðað með kartöflum og uppstúf. Ég man það var dökkrautt og bragðaðist ágætlega.

Á hverju ári voru veiddir svona 20-40 kópar. Skinnin voru verðmæt og þetta voru töluverð hlunnindi. Pabbi fláði selinn og skóf skinnin. Mamma þvoði skinnin svo í gömlu þvottavélinni og síðan voru þau spítt upp á timburþil í fjárhúsunum. Eftir nokkrar vikur voru þau tilbúin og lögð inn í Kaupfélagið, nema hvað.

Svo kom Brigitte Bardot. Líklega taldi hún fatnað úr gerviefnum umhverfisvænni en selskinn. A.m.k. var hún ekki hrifinn af selskinnsfatnaði og var í herferð gegn þessum veiðum. Skinnin lækkuðu í verði og  selveiðin lagðist af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Skemmtileg frásögn sem vert er að halda til haga. Hvaðan ertu nákvæmlega, Kristjana? Ætla að fletta upp á landakortinu.

Lára Hanna Einarsdóttir, 14.4.2008 kl. 20:21

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir Lára Hanna, það er rétt að svona frásagnir sem manni finnst kannski lítils virði eru í raun fjársjóður þegar tíminn líður. Mun skemmtilegra að birta þetta jafnóðum og maður skrifar heldur en að eiga bara ofaní skúffu eða geymt í tölvu.

Ég er alin upp að Stakkhamri á sunnanverðu Snæfellsnesi. Á efri myndinni eru Ljósufjöllin í baksýn, á þeirri neðri sést Elliðahamarinn.

Kristjana Bjarnadóttir, 14.4.2008 kl. 20:30

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Góð frásögn. Þetta sýnir að það er margt í minni okkar, sem erum á miðjum aldri í dag, sem er orðið að sögulegum heimildum. Ég ólst líka upp við hrognkelsaveiðar á árabáti á Akranesi og þegar svo bar undir voru sett upp segl og siglt í land með stórsegli og fokku. 

Haraldur Bjarnason, 14.4.2008 kl. 20:42

4 Smámynd: Ragnheiður

Einmitt um að gera að skrifa þetta og birta, ómetanleg heimild um eitthvað sem var. Takk fyrir...Ég átti lengi selskinn frá Patreksfirði sem maður frænku minnar verkaði, því var eiginlega klappað í klessu og ávarpað svona ; Kobbi greyið ! Kobbi greyið!

Fræg var svo sagan þegar ég (bestikrakkiíheimi) fékk flog í Sædýrasafninu. Vildi endilega fá einn kópinn með mér heim og argaði alla leiðina heim í Laugarnes

Selir voru greinilega merkilegir í mínum haus, borgarbarnsins

Ragnheiður , 14.4.2008 kl. 20:46

5 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Hæ Kristjana,

Fyrir mér er þetta nostalgíufærsla, því eins og þú veist veiddum við frændfólk þitt á norðanverðu Snæfellsnesi líka seli. Afi þinni og pabbi minn sagðist alltaf hafa fengið nýtt kópakjöt á vorin, það væri nauðsynlegur hluti árstíðarinnar. Ég man eftir að hann þótti tengdasonur sinn eiga viðbótarbúbót í sjónum undan Stakkhamarsnesi og hvatti hann eindregið í veiðarnar.

Það er reyndar umhugsunarefni varðandi þessar veiðar á landselskópum gengu ekki nærri stofninum. Það var ekki fyrr en þær lögðust af um 1980 að stofninn tók að minnka. Hvers vegna? Jú þá kom til skjalana hringormanefnd og í stað þess að veiða kópana vegna skinnsins voru fullorðnu selirnir skotnir og kjálkarnir hirtir, en fyrir þá voru veitt verðlaun. Í stað skynsamlegrar nýtingar á selnum var komin útrýmingarstefna. Í stað virðingar fyrir veiðinni, var komin fyrirlitning. Litið var á selastofnin líkt og fjárstofninn, þótt kópunum væri lógað myndu nægilega margir lifa til að endurnýja stofninn.

Miðað var að gernýta selinn, kjötið var yfirleitt eldað nýtt, enda geymdist það illa. Það sem ekki var notað heima var gefið nágrönnum. Spikið var saltað og boðað sem viðbit með signum fiski, saltfiski eða harðfiski. Svo voru náttúrlega sviðnir og súrsaðir selshreifar hið mesta hnossgæti.

Annars verð ég að trúa þér fyrir einu og þú verður að geyma það hjá þér. Ég hafði alltaf nokkra óbeit á selketi. Mér var neflilega sagt í æsku minni að hermenn Faraós, sem druknuðu í eftirförinni eftir Móse og hans fylgismönnum, hefðu breyst í seli. Sú hugsun greyptist fast í huga mínum, svo mér fannst selketið vera of skylt mannakjöti til að borða það.

Annars takk fyrir góða færslu og myndir.

Valgeir Bjarnason, 14.4.2008 kl. 22:38

6 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Já það var svakalega spennandi þegar selveiðin byrjaði. Síðast var veitt 1977, Kristjana þú varst 13 ára eins og Selma er núna . Hlunnarnir undir bátinn voru trékefli eða rifbein úr hval sem rekið hafði á Stakkhamarsfjörur. Eitt selskinn gaf svipað af sér og lamb að hausti og því var eftir nokkru að slægjast. En þetta var mikil vinna og ég held að pabbi hafi lítið sofið þá daga sem veiðin stóð yfir því oft var vitjað um á nóttunni, en vitjunum þurfti að haga í samræmi við flóð og fjöru. Í fyrsta skipti sem netin voru lögð var það gert á flóði og þá vissu menn ekkert hvar þeim var "hent" sum lentu uppi á skerjum en þetta lærðist víst. En nú er hún Snorrabúð stekkur eins og segir einhversstaðar, báturinn fúinn og ekki lengur sjófær en skerin eru á sínum stað og ég játa að það er alltaf gaman að horfa á selina synda fyrir framan Nestána, þeir eru svo skemmtilega forvitnir.

Erna Bjarnadóttir, 15.4.2008 kl. 10:07

7 identicon

Já það var greinilega farið vel með, hlutirnir nýttir til hins ítrasta og engu hent sem ekki mátti nýta. Þetta eru skemmtilegar myndir og góð frásögn Kristjana. Takk fyrir.

Ásdís (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 14:42

8 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Sérlega skemmtileg heimild Kristjana.  Um að gera að halda þessu til haga, því ekki hafa margir Íslendingar upplifað þetta sjálfir. 

Anna Einarsdóttir, 15.4.2008 kl. 20:00

9 Smámynd: Solla Guðjóns

Ég er úr Ísafjarðardjúpi og auðvita var voru selir veiddir á æskuslóðum mínum...Mér fannst selkjöt gott.....svo fluttum við suður en fórum og förum enn alltaf vestur...en 3-4 árum eftir að við fluttum gat ég ekki meðnokkru móti borðað þetta svarta kjöt....

En skemmtileg frá sögn

Solla Guðjóns, 16.4.2008 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband