Pálmasunnudagur 1964

Það var sunnudagskvöld með Svavari Gests í útvarpinu. Húsfreyjan að Stakkhamri ákvað að nota tímann vel og skúra gólfin. Hún átti von á barni en þó gerði talning ekki ráð fyrir að fæðing ætti sér alveg strax stað. Einhverjir verkir gerðu vart við sig og hún reyndi að leggja sig. Það dugði ekkert og verkirnir ágerðust. Það fór ekki á milli mála, það var fæðing í aðsigi.

Á heimilinu var aðeins til Willys jeppi og þótti það ekki heppilegt farartæki til að flytja fæðandi konu. Því var hringt í Leifa í Hrísdal og hann beðinn um að koma til að keyra konuna og eiginmanninn yfir Kerlingarskarð á sjúkrahúsið í Stykkishólmi. Þetta gerði Leifi fúslega. Þegar hersingin nálgaðist fjallið leist honum hins vegar ekki á blikuna, hann hafði litla löngun til að breyta bílnum í fæðingarstofu uppi á miðju fjalli.

Leifi krafðist þess að keyra heim að Hjarðarfelli og koma konunni í hús. Það varð úr þrátt fyrir mótmæli Stakkhamarshjónanna sem fannst það ekki góð hugmynd að banka upp á bæjum og biðja um að fá að fæða barn heima hjá öðru fólki.

Kvöldið áður hafði verið skemmtun í sveitinni og því var Hjarðarfellsfólkið gengið snemma til náða. Gunnar og Ásta risu úr rekkju og tóku vel á móti gestum. Fæðandi konan var drifin upp í hjónarúmið og áhorfendaskarinn viðbúinn.

Ásta hafði sjálf átt 6 börn, hún var nokkuð hress þegar seinasta barnið fæddist og hafði forvitnast um hvernig skilið væri á milli. Þessi forvitni hennar kom sér vel og þarna í öllu patinu og látunum hafði hún hugsun á að sjóða bendla til að hnýta fyrir naflastrenginn.

Fæðingin gekk fljótt fyrir sig, örlítið fjólublá stúlka fæddist með naflastrenginn vafinn um hálsinn. Ásta skildi á milli, líklega með skjálfandi höndum en það kom ekki að sök, ég er lifandi sönnun þess.

Í hamaganginum hafði enginn fyrir því að fylgjast með tímanum. Því var fæðingarstundin eitthvað á reiki, meira að segja hvoru megin við miðnættið þetta var. Einhver kvað þó upp úr með að klukkuna hefði vantað tíu mínútur í tólf þegar barnið fæddist.

Það hefur örugglega verið sérstakt að vakna upp við það á pálmasunnudegi að fæðandi kona stæði á dyraþrepinu. Ég fann alltaf fyrir sérstökum tengslum við Ástu og Gunnar vegna þessa. Á sex ára afmælinu mínu gáfu þau mér áletraða skeið með fæðingarstundinni. Mér þykir mjög vænt um þessa skeið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Yndisleg saga. Það er ekki að spyrja að sveitafólkinu....

Ragnheiður , 22.3.2008 kl. 17:12

2 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Til hamingju með daginn systir

Erna Bjarnadóttir, 22.3.2008 kl. 17:13

3 Smámynd: Solla Guðjóns

 

GLEÐILEGA PÁSKA......

Solla Guðjóns, 23.3.2008 kl. 03:28

4 identicon

Til hamingju med daginn!! Varst thu ad flyta ther eda var thad modir thin sem aetladi ekki ad eyda tima i otharfa? Sennilega hvoru tveggja - ef eg thekki ykkur rett  

signy (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 16:34

5 identicon

Til hamingju með daginn

Bylgja Valtýsdóttir (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband