Ég hef bloggað í eitt ár og er ekki hætt

Þann 30. ágúst 2007 var fimmtudagur. Ég var heimavið vegna minniháttar slæmsku í hálsi. Mér leiddist. Ég skoðaði stundum nokkrar bloggsíður, mest hjá Gillí frænku sem á þessum tíma barðist hetjulega við krabbamein og skrifaði hún um baráttu sína og annað sem á daga hennar dreif. Einnig skoðaði ég oft síðuna hennar Önnu og örfáar aðrar.

Eftir áskorun Gillíar um að lesendur hennar sem þekktu hana frá gamalli tíð létu vita af sér með tölvubréfum átti ég í email samskiptum við hana. Ég vildi með þessum tölvubréfum aðeins gefa henni til baka lítilræði af því sem hún hafði með skrifum sínum gefið mér. Þar sagði ég henni sögur af sjálfri mér og einnig rakti ég ýmsar hugrenningar mínar og sagði henni að ég væri of feimin til að blogga.

Eftir þessa yfirlýsingu velti ég því fyrir mér hvort þetta væri satt, þ.e. að ég væri svona feimin. Þennan veikindadag minn þann 30. ágúst 2007 stofnaði ég bloggsíðu og birti ég mínar fyrstu færslur. Gillí var fljót að finna mig og þá fór boltinn að rúlla. Margir skoðuðu hennar síðu og fóru þannig inn á mína. Það var skrítin tilfinning að sjá að það voru einhverjir að lesa það sem ég skrifaði.

Feimnin fór fljótt af mér. Því þakka ég ekki síst að Gillí hvatti mig óspart áfram í athugasemdum og var hún ófeimin að lýsa sig sammála þegar ég fór geyst í að tjá mig um málefni líðandi stundar, sagðist kannast við æsinginn og kom fyrir að hún vísaði lesendum sínum á mig þegar mér var hvað mest niðri fyrir.

Nú er liðið ár, Gillí kvaddi þennan heim þann 8. nóvember 2008 og er mér mikils virði þau samskipti sem við áttum hér í bloggheimum seinustu vikurnar sem hún lifði.

Feimnin er alveg farin af mér. Ég setti mér þó strax í upphafi ákveðna "ritstjórnarstefnu". Henni hef ég fylgt að mestu en þó má geta þess að engar reglur eru án undantekninga. Hér koma þessar meginreglur mínar:

  1. Birta aldrei meira en eina færslu á dag
  2. Tengja aldrei við fréttir
  3. Blogga aldrei í vinnunni

Ég hef brotið allar þessar reglur, þá seinustu bara einu sinni, fyrstu líklega 2var og reglu 2 líklega 3var.

Ég hef mikla ánægju af því að blogga, einkum ef ég verð þess vör að það sem ég segi höfði til fólks þegar ég fæ athugasemdir, ég er hégómleg og finnst gaman af því að vita af lesendum mínum. Mér finnst samt alveg skiljanlegt að fólk vilji ekki gera alþjóð vart við að það sé að lesa þetta en ég tek fram að ég lít ekki á það sem hnýsni þó fólk lesi reglulega þessa bloggsíðu, þetta er opinber miðill og ef ég vildi ekki að þetta væri lesið þá myndi ég ekki skrifa. Þeim sem vilja láta vita af sér en gera það óopinberlega þá hef ég netfangið: bubot.kristjana@gmail.com og hef ég nú þegar fengið nokkur tölvubréf frá lesendum og finnst mér vænt um það.

Ég viðurkenni að ég hef enst lengur en ég bjóst við og þakka þeim sem nenna að lesa þetta þolinmæðina. Ég er ekki hætt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Já þetta er opinber miðill það er sko rétt, sú staðreynd veldur sumum klumsu á verstu tímum. Ég nenni ekki mikið að tengja við fréttir en geri það þó stundum.

Það er ágætt að sjá og lesa hvað aðrir eru að skrifa.

Gillí var mögnuð, henni gleymir enginn sem með henni fylgdist á hennar lokaspretti. Það sem maður vonaði innilega að hún sigraði meinið...

Ragnheiður , 30.8.2008 kl. 21:53

2 identicon

Ég les hverja einustu færslu þó ég skilji ekki alltaf eftir ummerki:)

Andri Valur (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 22:53

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Gillí var gullmoli og ég er, eins og þú, afar þakklát fyrir samskiptin sem við áttum hérna á blogginu.  Hún var alltaf hvetjandi.  Ég sakna hennar.

Mér finnst líka gott og gaman að eiga samskipti við ykkur systur...... og auðvitað ert þú ekkert að hætta.   

Anna Einarsdóttir, 30.8.2008 kl. 23:29

4 identicon

Hæ, hæ,

lít inn nokkuð reglulega, án þess að skilja eftir mig spor. Hef gaman af hverri heimsókn og vona að þú sérst ekkert að hætta :)

Kv.

Villa

Vilborg (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 13:10

5 identicon

Sæl Kristjana

Hef kíkt a.m.k. vikulega á þig síðan að þú byrjaðir og passa alltaf uppá að ég kíkja yfir allt ólesið svo ég sé ekki að missa af einhverju skemmtilegu eða fræðandi. Vertu áfram dugleg að blogga, ég skal vera dugleg að lesa............

Takk fyrir mig.

kv. Sigrún á Kálfárvöllum

Sigrún G (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 22:49

6 identicon

Mér finnst reglulega gaman að lesa hugrenningar og oft baneitraðar athugasemdir og ábendingar um það sem manni hefur yfirsést í fréttum. Hefur oft svo góða vinkla á málin og jafnvel nýja vídd á sjálfsögðu sannindi. Oft sagt það sem ég hef ekki komist með að hugsa alla leið sjálf enda er ég lítill hugsuður...

Bylgja (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 15:07

7 identicon

Sæl og blessuð og til hamingju með áfangann!!

Fyrst þú byrjaðir, þá ætla ég bara að upplýsa það að ég bloggaði síðast þann 12.sept 2006.

Ætlaði að halda upp á það með nýju bloggi þann 12.sept. í fyrra, en gleymdi því, mundi eftir því daginn eftir.....

Því þurfti ég að bíða annað ár til viðbótar, ætla að blogga þ.tólfta þessa mánaðar

Þ.e. ef ég man eftir því, mamma segist reyndar ætla að hnippa í mig....

 Fylgist með á www.yfirzetor.blogspot.com

Mundi (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 16:23

8 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Ég þakka ykkur fyrir góðar kveðjur,

Ragnheiður: já það gleymist stundum hversu opinbert þetta er, eins og þú segir í dag, aðgát skal höfð í nærveru sálar

Andri: ég les líka allar þínar færslur, þökk sé Google reader .

Anna: Hafðu sjálf þökk fyrir ánægjuleg samskipti, þarf að fara að drusla mér til að koma við hjá þér .

Villa: Takk fyrir innlitið, ég vissi nú nokkuð af því að þú fylgdist vel með .

Sigrún: Gaman að vita af þér, hef lengi grunað að fyrrverandi skólafélagar og sveitungar leyndust þarna .

Bylgja: Þú ert nú sjálf stundum hárbeitt, nú þurfa stálin stinn að mætast, kominn tími á hitting .

Mundi: nú er komin pressa, slóðin fer á Google reader .

Kristjana Bjarnadóttir, 1.9.2008 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband