Tilkynning um flutning

Kæru lesendur

Ég hef flutt mig um set. Ný bloggsíða mín er: http://bubot.wordpress.com/

Flutningar á eldra efni standa yfir en að þeim loknum mun ég halda áfram að skrifa með sama hætti og áður. 

Ég þakka fyrir mig hér á moggabloggi.

PS. Ég vil vekja athygli á Google reader sem með einföldum hætti gefur notendum kost á að fylgjast með skrifum uppáhaldsbloggaranna. Einnig vek ég athygli á blogg.gattin.is þar sem nýjar bloggfærslur af ýmsum vefsvæðum sjást.


Hef tekið ákvörðun

Ég ætla að hætta að blogga á moggabloggi.

Get ekki hugsað mér að heimili mitt í bloggheimum lúti þeirri yfirstjórn sem nú hefur verið upplýst að mun stjórna mbl.is.

Ég ætla ekki að loka þessu bloggi en nýjar færslur verða skrifaðar á nýju vefsvæði sem ég tilkynni um síðar.

Ég er enn að skoða önnur vefsvæði og heiti. Það á að vanda valið.

bubot.blogspot.com er ekki laust.

bubotin.blogspot.com er laust en mér finnst það óþjált og ekki smart.

Einu sinni eignaði ég mér kú. Hún hét Búbót, þetta var góð kú, ljúf í skapi, eldrauð, með krullur í enninu og afurðaskjóða. Þannig er nafnið á síðunni tilkomið.

Ég átti einu sinni kind sem hét Spök þar sem hún var mjög gæf. Vefsvæði skýrt eftir henni yrði: spok.blogspot.com. Það gengur ekki. Enda eru færslurnar mínar ekki alltaf mjög "spakar" í þýðingunni þægar. Hversu gáfulegar hins vegar, hm, skal ég ekki segja til um það.

Ég átti einu sinni hryssu sem hét Elding, elding.blogspot.com er ekki laust enda á Sigrún systir mín líka svolítið í þessu nafni.

Það eru tvö önnur hestanöfn sem tengjast mér sem ég er að velta fyrir mér. Sigrún á reyndar annað nafnið með mér en hitt er karlkyns. Bæði eru flott nafn á vefsvæði og bera vel það sem ég er vön að skrifa um.

Nú verður lagst undir feld.

PS. var að fá ábendingu um vefsvæðið blogg.is og var að skoða það. Sýnist það vera flott og það er ótvíræður kostur að hafa vefsvæðið íslenskt.


Að kaupa þýfi

Að kaupa þýfi er refsivert. Skiptir þar jafnvel ekki máli hvort kaupandanum var kunnugt um að varan sem verslað var með var þýfi. Bara að kaupandanum hefði mátt vera það ljóst.

Nýtt myndband um sjónhverfingar Jóns Ásgeirs í viðskiptum hefur verið sett á youtube. Myndbandið má skoða á síðu Láru Hönnu sjá hér.

Ég hef rennt í gegnum það einu sinni, þarf nokkur skipti í viðbót til að skilja sjónhverfingarnar sem þarna er lýst, en eitt skildi ég: Þarna er verið að lýsa umfangsmiklu ráni á miklu magni af peningum. Hvort þetta rán verði úrskurðað löglegt á endanum veit ég ekki.

Viðskiptin sem lýst er snerta nokkrar verslanir sem eru fyrirferðarmiklar í umhverfi okkar: Hagkaup, Bónus, 10-11, Útilíf, Húsasmiðjan.

Má ekki færa fyrir því rök að með því að versla í þessum verslunum séum við að kaupa þýfi?


Leitað nýrra heimkynna

Ég er ekki dús við hvað er verið að móast þarna í Hádegismóum. Einhvern veginn líður mér ekki eins og ég eigi alveg heima á þessu vefsvæði.

Kvöldinu hef ég eytt í leit að nýju heimili. Það er vandaverk að velja sér samastað.

Vefsvæðið 123.is finnst mér aðlaðandi. Gallinn við það er að google reader getur ekki lesið það. Sjálf nota ég google reader mikið og vil gjarnan að fastir lesendur mínir geti fylgst með mér þar. Fyrir not á þessu svæði borgar maður rúmlega 3000kr á ári. Það finnst mér í góðu lagi. En vegna google reader ætla ég ekki að flytja þangað.

Ég er með gmail "reikning". Því liggur beint við að fara á blogspot.com. Í kvöld stofnaði ég síðu þar: bubotin.blogspot.com. Því miður var bubot ekki laust. Það finnst mér miður því ég kann vel við bubot, hins vegar finnst mér bubotin frekar óþjált. Ég er ekki viss um að ég kunni við þetta heimilisfang. Er að velta fyrir mér öðrum nöfnum.

Mig langar að flytja með mér hafurtask af gamla heimilinu. Mér sýnist að það eigi að vera hægt að flytja færslur milli vefsvæða, er að skoða þá möguleika og þigg allar ábendingar. Gjarnan vildi ég líka flytja athugasemdir en mér sýnist það líklega ekki ganga upp.

Já, það er svolítið mál að velja nýtt heimili, kannski er þetta óþarfa viðkvæmni að vilja skipta, þarf svona að velta þessu vel fyrir mér.


Villandi umfjöllun um skuldavanda heimilanna

Mikið hefur verið talað um ábyrgð fjölmiðla og mikilvægi þess að þeir komi réttum upplýsingum til almennings. Ábyrgð fjölmiðla er mikil því það er auðvelt að framreiða sannleikann með mismunandi hætti, allt eftir því hvaða áhrifum á að ná fram.

Undanfarnar vikur hefur mikið púður fjölmiðla farið í skuldavanda heimilanna, tónninn hefur verið að vandinn sé umfangsmikill og ekkert bóli á aðgerðum. Einstaklingar og hópar sem tala fyrir almennri niðurfellingu skulda hafa ítrekað fengið fyrirferðamikla umfjöllun en raddir þeirra sem telja slíkt illframkvæmanlegt eða jafnvel óréttláta leið þar sem slík aðgerð í raun væri "öfugur Hrói Höttur" verða æði hjáróma í umræðunni.

Það gleymist nefnilega í þessari umræðu að þeir sem fóru glannalegast í góðærinu hafa hæst, þeir eru ekki endilega fulltrúar fjöldans.

En skoðum nú tvö nýleg dæmi úr fjölmiðlaumfjölluninni:

mbl_vanskilaskraÁ fimmtudag í seinustu viku birti Morgunblaðið á forsíðu línurit sem sýndi fjölgun einstaklinga á vanskilaskrá, sjá mynd hér til vinstri.

Línuritið sýnir fjölgun úr 16.000 manns í ca 19.500. Þetta er aukning um 3.500 manns eða um ríflega 20%. Ekki ætla ég að gera lítið úr því.

Myndræna framsetning blaðsins er hins vegar gagnrýniverð. Ef grafið er skoðað þá sést að búið er að klippa neðan af því, skalinn byrjar í 15.500. Myndrænu áhrifin eru þau að aukningin virðist miklu meiri en þau raunverulega eru. Okkur sýnist að vanskil í byrjun árs 2008 hafi verið nánast engin en farið upp í hæstu hæðir á tveimur árum.vanskilaskra

Ég setti þetta að gamni mínu upp í graf þar sem allur ásinn sést. Þá lítur þetta út eins og sést á grafinu hér til hægri.

Jú það er aukning en áhrifin af myndinni eru allt önnur en af myndinni sem birt var á forsíðu Morgunblaðsins.

Spurningar mínar eru:

Getur þetta talist hlutlaus fréttamennska sem miðar að því að koma hlutlausum upplýsingum á framfæri?

Eða er tilgangur fréttarinnar að ná ákveðnum áhrifum fram?

Það fyrsta sem mér var kennt í tölfræði var einmitt hvernig hægt er að villa lesendum sýn með rangri notkun á línuritum og gröfum. Í vísindavinnu er það grundvallaratriði að fara rétt með staðreyndir og geri ég hiklaust sömu kröfur til fjölmiðla sem vilja láta taka sig alvarlega.

Í kvöld vakti athygli mína frétt á Stöð 2 um skuldavanda heimilanna. Gerð hefur verið könnun um umfang þessa vandamáls. Ég vil taka fram að mér finnst mikilvægt að gera slíka könnun til að hægt sé að átta sig á umfangi vandamálsins.

Titill fréttarinnar er:

"Yfir helmingi landsmanna stefnir í gjaldþrot".

Ég ætla ekki að dvelja yfir málvillunni sem þarna er. Yfirskriftin gefur til kynna gríðarlegt vandamál hjá meirihluta landsmanna. En hvað kom fram í könnuninni?

45% landsmanna leggja fyrir peninga.......þ.e. eiga afgang um hver mánaðamót.

37% landsmanna ná endum saman en með naumindum, þurfa að skipuleggja útgjöldin til að dæmið gangi upp.

18% landsmanna eiga í vandræðum, þurfa að ganga á sparnað, safna skuldum eða eru komin í vanskil, jafnvel gjaldþrot.

Hvernig er hægt að fá það út að þessi 37% sem ná endum saman stefni í gjaldþrot?

Það er verið að tala um stöðuna í dag, ekki eftir nokkra mánuði enda ekkert sem segir að staða þessara 37% muni versna á næstunni. Það að fólk þurfi að skipuleggja sig til að ná endum saman er engin vísbending um fjárhagsvandræði.

Fréttin er að 18% landsmanna eiga í fjárhagserfiðleikum. Mér finnst það nógu slæmt og ekki nokkur ástæða til að gera meira úr því en það er. Fyrirsögn fréttarinnar er því villandi svo ekki sé meira sagt og í engu samræmi við það sem fram kom í könnuninni.

Að skrúfa umræðuna upp með þeim hætti sem þessi tvö dæmi sýna hefur þann eina tilgang að ýkja skuldavanda heimilanna og gefa til kynna nauðsyn almennra niðurfellinga skulda.

Almenn niðurfelling skulda færir fjármuni frá þeim sem lítið fé hafa milli handanna til þeirra sem meira eiga. Vísa ég til stórgóðrar greinar Jóns Steinssonar máli mínu til stuðnings.

Látum ekki þennan villandi áróður vanhæfra fjölmiðla villa okkur sýn.


Bless moggi

Morgunblaðið er samofið Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá því ég fór að hafa skoðanir á stjórnmálum verið í mínum huga flokkaður sem "síðasta sort".

En vegna fátæktar á fjölmiðlamarkaði hef ég stundum um stundarsakir verið áskrifandi að Mogganum. Síðastliðinn vetur hef ég oft vaknað mjög snemma. Þá hefur verið gott að vita af Mogganum í forstofunni ásamt fréttablaðinu, svona til að stytta mér stundir

Ég las oft leiðara Ólafs Stephensen í Morgunblaðinu. Mér féll almennt ekkert illa það sem hann skrifaði. Þó Ólafur sé íhald, þá held ég að hann sé mjúkt og frjálslynt íhald.

Nú hefur Ólafur fengið reisupassann. Eigendunum finnst hann of mjúkur, of frjálslyndur, ekki nógu mikill frjálshyggjupési.

Mín viðbrögð eru einföld:

BLESS MOGGI.


Óraunverulegur raunveruleiki

Í dag lá ég heima í slappleika. Ég fór að dunda mér við að grafa upp á netinu myndbönd um samsæriskenningar varðandi árásirnar á tvíburaturnana í New York.

Það er alveg óhætt að mæla með því að skoða þetta. Best er að skoða klippur sem heita 9/11 coincidencies. Það eru 19 klippur númeraðar 1-19.

Það fyrsta er hér.

Þegar það er skoðað birtist til hægri linkur á næstu númer og þannig hægt að rekja sig áfram.

Hversu lítt sem maður er gefin fyrir samsæriskenningar þá er margt þarna sem þarfnast skýringa. Þær skýringar hafa stjórnvöld ekki viljað svara í skýrslu sem gerð var um árásirnar.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að fjalla um þetta hér, er að það er ótrúlega margt svipað í atburðarásinni þarna og við höfum orðið vitni að hér á landi seinustu mánuði í tengslum við bankahrunið.

Atburðirnir sjálfir eru svo óvæntir og utan við allt sem almenningur þekkir að við sitjum og gleypum við öllum fréttum hráum og spyrjum engra spurninga. Við teljum að stjórnvöldum sé treystandi og enn síður dettur okkur í hug að vantreysta fjölmiðlum, hvað þá lögreglunni.

Bandarísk stjórnvöld voru ótrúlega treg til að hefja opinbera rannsókn á atburðunum. Það eitt ætti að kveikja strax grunsemdir, bæði almennings og fjölmiðla. Að ég tali ekki um stjórnarandstöðu. Íslensk stjórnvöld drógu einnig lappirnar í að hefja rannsókn, það mátti ekki persónugera vandann!

Þær óljósu fréttir sem við þegar höfum haft af svindli, sukki og svínaríi sem viðgekkst í viðskiptalífinu hér á landi, benda til að þar hafi ýmislegt gengið á sem er algerlega utan við hugmyndaflug venjulegs fólks. Ég geng svo langt að fullyrða að við höfum aðeins fengið óminn af raunveruleikanum.

Það hversu óraunverulegur raunveruleikinn virðist vera í okkar tilviki hefur opnað augu mín.

Því skyldi það ekki eiga við víðar?

Ask questions, think for your self. Wake up an you will make the difference.

(9/11 Mysteries)


Að leita fjár

Í gær tók ég þátt í skipulagðri aðgerð til að endurheimta fé.

Aðgerðin fór fram á Snæfellsnesfjallgarði og var leitarsvæðið vestan Hraunsfjarðarvatns, vestan Baulárvallarvatns, Dufgusdalur, Urðarmúli, austurhlíð Elliðahamars og Hofstaðaháls.

Fyrsti hluti aðgerðarhópsins var ferjaður af björgunarsveit eftir endilöngu Hraunsfjarðarvatni og hófst aðgerðin við norðurenda vatnsins. Smám saman hafði fundist þó nokkurt fé og virtist aðgerðin ganga nokkuð vel. Reyndi þó venju samkvæmt töluvert á útsjónarsemi leiðangursmanna við að fjárheimtuna þar sem féð vildi stundum sleppa í skjól.

Þegar leið á aðgerðina þyngdist róðurinn. Það var eins og utanaðkomandi öfl reyndu að villa um fyrir leiðangursmönnum eftir því sem aðgerðahópum fjölgaði. Fór svo að samstillt átak bæði innan aðgerðahópa og milli aðgerðahópa breyttist í sundurlaus einkaframtök. Leitarmenn sáu ekkert hver til annars og öll samskipti voru erfið þar sem símar hættu að virka vegna bleytu, inneignarleysi og aðgerðasvæðið reyndist stundum vera utan þjónustusvæðis. Er þá ótalið að einstakir leiðangursmenn gleymdu símanum heima. Leiðangursmenn týndu hverjir öðrum, urðu áttavilltir og týndu jafnóðum því fé sem fannst.

Erfitt er að segja um hvaða öfl voru þarna að verki en heimtur fjár urðu að vonum litlar. Hvort það sé staðreynd sem eigendur íslensks fjár verði að sætta sig við verður bara að koma í ljós.

Síðar í þessari viku stendur til að frysta eigur fjáreigandans, Eggerts bónda á Hofstöðum. Það eru lögmætar eigur hans og afrakstur vinnu heils árs. 


11. sept og samsærið mikla

Ég elska samsæriskenningar. Sumar þeirra lífga svo mikið upp á lífið og tilveruna að það er alveg óþarfi að lesa skáldsögur.

Ein af mest spennandi samsæriskenningunum fjallar um árásirnar á tvíburaturnana þann 11. september 2001. Að það hafi jafnvel verið Bandaríkjastjórn sjálf sem stóð fyrir árásunum.

Í dag tekur Illugi Jökulsson þetta fyrir. Ég er ekki viss hversu mikið hann meinar af því sem hann skrifar. En þegar ég las færsluna hans þá mundi ég að fyrir 2 árum sökkti ég mér í þetta og skrifaði ítarlega bloggfærslu með miklum tilvitnunum um þetta.

Í ljósi þeirra illu grunsemda sem ég hef um atburðarásina hér á landi seinustu árin þá fór ég í kvöld að hugsa um þetta aftur.

Hversu mikinn trúnað sem við leggjum í hvers kyns samsæriskenningar þá er samt nauðsynlegt að tileinka sér lokaorð myndarinnar  9/11 mysteries :

"Ask questions, think for yourself".

Það væri betur að við hefðum gert meira af því á liðnum árum.


Bjartsýni

Höfnun saksóknara á að taka fyrir ákærur á hendur nokkrum blaðamönnum gefur tilefni til bjartsýni.

Þetta er besta frétt sem birst hefur lengi.

Þungu fargi hlýtur að vera létt af íslenskum blaðamönnum.

Íslenskir fréttafíklar gleðjast og ég get lofað ykkur að ég bíð spennt eftir næsta skúbbi.

Ég ber miklar væntingar til Kristins Hrafnssonar. Hann og Jóhannes Kristjánsson sem var með honum með Kompási hafa sagt okkur að þeir búi yfir áhugaverðu efni.

Auðvitað er mögulegt að rannsóknarhagsmunum sé ógnað. En þar sem að traust okkar í víðum skilningi hefur minnkað þá treystum við ekki fyllilega rannsakendum. Það að almenningur viti af maðkaðri mysu tryggir að ekki er hægt að horfa með blindu auga á maðkinn.

Verum vongóð.............


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband