Að leita fjár

Í gær tók ég þátt í skipulagðri aðgerð til að endurheimta fé.

Aðgerðin fór fram á Snæfellsnesfjallgarði og var leitarsvæðið vestan Hraunsfjarðarvatns, vestan Baulárvallarvatns, Dufgusdalur, Urðarmúli, austurhlíð Elliðahamars og Hofstaðaháls.

Fyrsti hluti aðgerðarhópsins var ferjaður af björgunarsveit eftir endilöngu Hraunsfjarðarvatni og hófst aðgerðin við norðurenda vatnsins. Smám saman hafði fundist þó nokkurt fé og virtist aðgerðin ganga nokkuð vel. Reyndi þó venju samkvæmt töluvert á útsjónarsemi leiðangursmanna við að fjárheimtuna þar sem féð vildi stundum sleppa í skjól.

Þegar leið á aðgerðina þyngdist róðurinn. Það var eins og utanaðkomandi öfl reyndu að villa um fyrir leiðangursmönnum eftir því sem aðgerðahópum fjölgaði. Fór svo að samstillt átak bæði innan aðgerðahópa og milli aðgerðahópa breyttist í sundurlaus einkaframtök. Leitarmenn sáu ekkert hver til annars og öll samskipti voru erfið þar sem símar hættu að virka vegna bleytu, inneignarleysi og aðgerðasvæðið reyndist stundum vera utan þjónustusvæðis. Er þá ótalið að einstakir leiðangursmenn gleymdu símanum heima. Leiðangursmenn týndu hverjir öðrum, urðu áttavilltir og týndu jafnóðum því fé sem fannst.

Erfitt er að segja um hvaða öfl voru þarna að verki en heimtur fjár urðu að vonum litlar. Hvort það sé staðreynd sem eigendur íslensks fjár verði að sætta sig við verður bara að koma í ljós.

Síðar í þessari viku stendur til að frysta eigur fjáreigandans, Eggerts bónda á Hofstöðum. Það eru lögmætar eigur hans og afrakstur vinnu heils árs. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband