Labbað kringum Langasjó

Ég er núna nýkomin úr göngu í kringum Langasjó. Það verður ekki sagt að veður og útsýni hafi leikið við okkur. Áætlunin hljóðaði upp á að arka á Sveinstind í upphafi eða enda göngu. Við fórum inn eftir á miðvikudagsmorgun og þegar að Sveinstindi kom var tindurinn auður og skyggni þokkalegt. Það var því ekki um annað að ræða en byrja á honum. Þetta eru rétt um 2km og 300-400m hækkun, það stóð á endum að þegar tindinum var náð steyptist yfir þoka. Við dokuðum örlítið við en þokan var ekkert á förum. Við vorum hins vegar ekki komin nema hálfa leið niður þegar birti og reyndust þetta vera einu 15 mín dagsins sem tindurinn var hulinn. Alltaf heppin!

Þá var að arka af stað, við reyndum að fylgja leiðarlýsingu sem kemur fram í bókinni "Bíll og bakpoki". Þegar fyrirhuguðu tjaldstæði var náð var freistandi að halda áfram þar sem ljóst var að næsti dagur yrði langur og strangur. Við höfðum þegar þarna kom við sögu arkað um algera eyðisanda og var þetta fyrsta gróðurvinin. Það var því úr vöndu að ráða, freista þess að önnur vin reyndist við næsta horn eða slá upp tjöldum. Við ákváðum að freista þess að ganga lengra og reyndist ekki síðri staður vera nokkrum kílómetrum lengra. Við slógum upp tjöldum hvíldinni fegin eftir samtals um 20km þramm þar af ca 15 með bakpokana.

Langisjór liggur í um 650m hæð y. sjó og því er hitastig mun lægra en á láglendi, það er samt alveg merkilegt hvað maður finnur lítið fyrir því í svona ferðum, ef maður passar upp á að hreyfa sig aðeins fyrir svefninn og fer heitur í pokann þá sefur maður alveg dæmalaust vel.

Næsti dagur heilsaði heldur þungbúnari en skyggni hélst þokkalegt fram yfir hádegi, þá mætti þokan. Við máttum af engu missa og eftir að hafa fundið Grasver sem reyndist vera orðin eyðisandur þá hófst leitin að Fagrafirði. Það þýddi að við þurftum að fara aðeins til baka og klöngrast yfir fjallgarðinn aftur. Um það leyti sem Fagrifjörður átti að blasa við steyptist þokan yfir og við sáum varla út úr augum. Þar sem við vissum ekki vel hvar væri fært meðfram vatninu var afráðið að henda sér upp á efstu toppa og ganga eftir þeim, miðað við kort átti það að vera heillavænlegast. Í þokunni tókst okkur svo að finna rana sem var þokkalegur til niðurgöngu. Þetta var ágæt æfing í notkun korts og GPS og gekk bara þokkalega.

Þá hófst ægilegt ark í þokunni og leit að tjaldstæði sem Páll Ásgeir lýsir í bókinni sem sandeyri milli tveggja vatna. Fyrra vatnið var ægilangt og við enda þess töldum við nauðsynlegt að fara hátt upp í hlíð til að komast fyrir það. Þá var ekki mikill afgangur eftir af mér og var með naumindum að ég harkaði af mér til að komast það, orðin æði lúin enda munum við hafa arkað um 28km þennan dag. GPS tækið mældi reyndar 33km. Því trúðu ferðafélagarnir ekki, sögðu að þá myndu þau vera miklu þreyttari, mitt svar var einfaldlega að ég væri svo þreytt að ég tryði því bara alveg.

Tjaldstæðið reyndist vera í möl en það var bara ekki um neitt annað að ræða í rokinu og rigningunni. Er virkilega til fólk sem eyðir sumarfríinu sínu sjálfviljugt svona? Greinilega.

Við slógum upp tjöldum og það kom sér vel að vera með sandhæla og ofan á þá sóttum við björg til að festa betur. Að þessu sinni var engin afgangsorka eftir fyrir kvöldgöngu og eftir kakóið og strohið var lagst beint í pokann. Botninn á mér var kaldur og það fór mikil orka í að hita pokann og ég lá lengi og bylti mér áður en ég sofnaði. Svefninn var líka æði skrykkjóttur þarna í rokinu og rigningunni og fannst okkur í sumum hviðunum að nú myndi bara allt fjúka. Ég geri mér enga grein fyrir hversu mikið ég svaf, en mér fannst ég vakna á korters fresti.

Milli klukkan fimm og hálfsex um morguninn voru allir vaknaðir og ákveðið að taka sig saman. Það tók að venju einn og hálfan klukkutíma og um sjö leytið í morgun var lagt af stað í töluverðum vindi og það ringdi þétt. Það tók okkur um 3klst að þramma þá 12 km sem við áttum í bílinn. Þá var ég gegnblaut og 3ja laga goritex útivistarúlpunni minni var sagt upp störfum enda komin til ára sinna, henni verður ekki boðið með í aðra ferð.

Þegar ég kom heim í dag var ég algerlega búin á því og lagði mig. Ég velti því mikið fyrir mér hvað mér gengi eiginlega til með því að velja mér maraþonhlaupara sem ferðafélaga en þeir voru: Darri (eiginmaður og maraþonhlaupari), Þóra (vinkona okkar og maraþonhlaupari) og Palli (vinur okkar og mikill fjallagarpur). Ég held reyndar að ég hafi svona að mestu haft við þeim, dróst reyndar aðeins aftur úr í mestu brekkunum. Ég verð seint talin íþróttamannslega vaxin en í flokki stuttfættra með plattfót held ég að ég standi mig bara þokkalega, enda ætla ég að keppa í þeim flokki.

Svo lengi sem ég með einhverju móti held í við þessa ferðafélaga mína, ætla ég að halda því áfram, það hins vegar tekur á en er svo sannarlega þess virði. Þó útsýni hafi verið minna seinni hluta göngunnar en við hefðum kosið, þá var þetta mjög gaman. Ánægjan felst ekki síst í því að reyna á þolrifin og lifa þessum "minimalisma" sem fylgir gönguferðum þegar allur útbúnaður er skorin við nögl en verður jafnframt að duga við erfiðar aðstæður.

Myndirnar mínar úr þessari göngu eru ekki eins litríkar og upplifunin var og því er þetta myndalaust blogg. Ætla að hlaða einhverjum myndum inn í Picasa en er ekki búin að því enn. Þegar þar að kemur má skoða myndir hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Kristjana.

Þú ert nú meiri fjallageitin!  Ótrúlega dugleg og mátt vera stolt af því!  Við fórum inn að Langasjó í fyrra og gengum langleiðina upp á Sveinstind, en þá sáum við rigninguna koma á móti okkur svo við fórum aldrei alla leið upp.  Rannveig (þá 9 ára) var mjög sár og svekkt yfir okkur að snúa við.  Hún vildi komast alla leið!  Útsýnið var samt alveg magnað.

Þorbjörg (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 09:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband