Annáll ársins

Árið 2008 var mér persónulega gott og ánægjulegt. Árið byrjaði ég með fjölskyldunni í skíðaþorpinu Selva á Ítalíu. Ég hóf að stunda svigskíði eftir að ég komst á fertugsaldurinn og nýt þess því að vera enn í framför. Ég þyki reyndar stundum vera glannaleg í bröttustu brekkunum en Ítalirnir verða bara að læra að forða sér.

Á HvalvatniÉg er alin upp á algerri jafnsléttu og því ættu gönguskíði að vera meira við mitt hæfi enda fjárfesti ég í slíku græjusetti í mars 2008. Þessa hugdettu fékk ég þegar Ásdís vinkona mín var í sömu hugleiðingum og áttum við saman nokkrar góðar stundir á gönguskíðum á vormánuðum. Vonandi tekst okkur að taka upp gönguskíðaþráðinn fljótlega á nýju ári.

Gönguferðir fór ég nokkrar á árinu. Helstar vil ég telja dagsgöngur á Skessuhorn á sumardaginn fyrsta undir leiðsögn Hin fjögur fræknuíslenskra fjallaleiðsögumanna og í félagsskap eiginmanns og Ásdísar vinkonu minnar og Ágústar mannsins hennar. Um hvítasunnuna fór ég á Þverártindseggjar í Suðursveit aftur undir leiðsögn íslenskra fjallaleiðsögumanna. Þessi ferð var skipulögð af TKS (Trimmklúbbi Seltjarnarness) og heppnaðist vel þrátt fyrir IMG_5537að skyggnið krefjist þess að við förum þarna upp aftur síðar. Á 17. júní fór ég aftur í göngu á Skessuhorn en nú einnig á Heiðarhorn og á Skarðshyrnu. Þessi ferð var farin með vinkonu okkar og hlaupafélaga, Betu ásamt vinnufélögum hennar. Góð ferð en myndavélin mín var batteríslaus og því fátt um staðfestingu á þessari frábæru ferð.

055Ég fór í þrjár lengri ferðir í sumar sem leið. Fyrst fór ég með TKS í 6 daga göngu um Gerpissvæðið, úttekt á þeirri ferð er hér. Stuttu síðar fórum við hjónin með vinum okkar, göngu og hlaupafélögum Þóru og Palla í þriggja daga ferð í kringum Langasjó. Sú ferð var farin í döpru skyggni, dagleiðir voru heldur langar en að öðru leyti ánægjuleg ferð. Um verslunarmannahelgi fórum við Darri og Rán með vinum okkar Finni, Þórdísi, Sveini og Arndísi í þriggja IMG_7256daga ferð upp með Djúpá. Það var heldur léttari ferð en hinar og mjög ánægjulegt að fara svona fjölskylduferð.

Af persónulegum málum bar hæst að Rán dóttir mín tók grunnskólapróf sl vor og stóð sig vel. Það var mjög ánægjulegt og veit ég vel að það er langt í frá sjálfgefinn hlutur. Skólaganga Ránar hefur sannarlega ekki verið beinn og breiður vegur og er hennar árangur enn ánægjulegri í því ljósi. Rán hóf svo nám við MR í haust og líkar vel. MR er námslega séð mjög strangur skóli en það hefur komið mér ánægjulega á óvart hversu mannlegt og persónulegt umhverfið er.

Sindri sonur minn er í námi í húsasmíði. Hann fór á samning hjá meistara í maí og er enn í því prógrammi. Hann lenti í bílslysi í lok maí. Grafa keyrði í veg fyrir hann og endaði drengurinn þá ökuferð á slysadeild með aðstoð sjúkrabíls. Hann var í 100% rétti en þar sem hann handarbrotnaði og fékk 038hálsáverka þá þurfti hann að vera mánuð frá vinnu. Fjölskyldan hafði ekki reiknað með sameiginlegu sumarfríi en þetta bjargaði því og fórum við saman nokkra daga til Kaupmannahafnar. Síðar á árinu tók Sindri nýliðapróf björgunarsveitanna og gekk það vel. Hann verður bráðlega fullgildur félagi og er óhætt að segja að ég sé mjög stolt af þessu áhugamáli hans. Sjálfboðavinna meðlima björgunarsveitanna er íslensku þjóðlífi ómetanleg og að eiga son meðal þessara hetja fyllir mig stolti.

Ættarmót settu óneitanlega svip sinn á sumarið. Í júní var eitt ættarmót í tengda fjölskyldunni. Aðra helgi í ágúst var ættarmót systkina móður minna og afkomenda þeirra. Helgina eftir það var svo ættarmót systkina föður míns og afkomenda þeirra. Svona ættarmót eru skemmtileg að tvennu leyti. Maður hittir ættingja sem maður alla jafna er ekki í miklu sambandi við, einnig er gjarnan rifjað upp ýmislegt úr lífi forfeðranna sem er okkur nútímafólkinu svo framandi að við eigum erfitt með að gera okkur grein fyrir hvernið forfeðurnir lifðu lífinu. Þetta er okkur hins vegar mjög miklivægt til að ná tengingu við upprunann. Öll þessi ættarmót vörpuðu ljósi á lífskjör liðinna kynslóða.

019Um miðjan nóvember boðaði Laufey systir svo til sveitabrúðkaups. Hún og Þröstur bændur að Stakkhamri giftu sig og slógu upp veislu. Það var einnig ánægjuleg stund.

Hrun bankakerfisins hefur óneitanlega sett stórt mark sitt á íslenskt þjóðlíf seinustu mánuði. Eins og lesendur þessarar síðu hafa vafalaust tekið eftir þá stendur mér ekki á sama um þá atburðarrás. Ég tel grundvallaratriði að íslensk stjórnmál og viðskiptalíf komist út úr því umhverfi sem lítið samfélag óneitanlega skapar, þar sem allir þekkja alla, og mestu máli skiptir hver sé vinur hvers, hæfi einstaklinga skipti minna máli. Það er forgangsverkefni í íslensku samfélagi að taka á hvers kyns spillingu vegna þessara tengsla.

Kæru vinir nær og fjær, bestu þakkir fyrir allt á nýliðnu ári, megi nýtt ár bera betri tíma í för með sér. Ég óska lesendum mínum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilegt ár Kristjana, þetta var fínt gönguár og vonandi verður það nýja ekki síðra.

Ásdís (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband