Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hífa, slaka, gera eitthvað

Ég er haldin miklum tvískinnungi varðandi virkjanir, umhverfismál og stóriðju. Tvískinnungurinn er eftirfarandi:

  1. Ég vil ekki að fleiri náttúruperlur verði virkjunum að bráð að sinni. Á seinustu árum hefur verið farið alltof geyst í þessum efnum og framkvæmt af miklu kappi en minni forsjá. Ég held að þegar við gerum okkur grein fyrir mikilvægi ósnortinnar náttúru Íslands verði það of seint, hún verði ekki lengur ósnortin þegar ráðamenn og stór hluti almennings, hefur áttað sig á því.
  2. Ég tel að bygging fleiri álvera á Íslandi sé áhættusamt því með því erum við "að leggja öll eggin í sömu körfu". Við erum um of háð verði á einni tegund hráefnis.
  3. Stóriðja hverskonar með mörgum störfum á stað þar sem áður bjuggu til að gera fáir, er klárlega mikil lyftistöng fyrir viðkomandi svæði. En hvað með alla hina staðina sem eiga undir högg að sækja?

EN:

  1. Hvað er til ráða þegar skerðing á fiskveiðiheimildum er staðreynd? Staðreynd sem líklega er komin til með að vera um lengri tíma.
  2. Ef við höfnum alfarið virkjanaáformum og stóriðju, hvaða aðrar lausnir höfum við?
  3. Oft hefur verið talað um að lausnin felist í ferðamannaþjónustu, staðreyndin er að þar er um mjög árstíðabundinn rekstur og oft á tíðum eru þetta illa launuð störf.

Nú er álversumræðan hafin enn á ný, Helguvík og/eða Bakki við Húsavík. Ég tel hvoru tveggja vera slæma kosti.

Helguvík vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið. Hingað hefur flust gríðarlegur fjöldi fólks af landsbyggðinni á seinustu árum. Það er alveg óþarfi að auka það enn frekar.

Bakka við Húsavík tel ég slæman kost því svo stór vinnustaður sem álver er kallar á mikinn fólksfjölda til viðbótar þeim íbúum sem þarna búa í dag. Gerum við ráð fyrir að mikill fjöldi Íslendinga flytji til Húsavíkur og vinni í álverinu þar? Hvað segir reynslan frá Reyðarfirði okkur?

Getum við verið þess fullviss að svona gríðarleg fjárfesting skili sér í atvinnuuppbyggingu fyrir innlent vinnuafl?

Þó svo við séum fullviss um þetta þá fylgja því miklir búferlaflutningar, er það markmiðið? 

Slíkir búferlaflutningar væru þá væntanlega á kostnað annarra svæða.

Er ekki betra að hugsa aðeins smærra þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, þannig að það sem gert er nýtist á fleiri svæðum?

Aftur kem ég þá að tvískinnunginum mínum, ég er sannarlega á móti hvers kyns stóriðju og virkjunum þeim tengdar. Landsbyggðin hrópar hins vegar á aðgerðir og fátt er um góðar hugmyndir.

Spurningin snýst einnig um hvort hlutverk stjórnvalda sé að skapa störfin eða að skapa umhverfi fyrir heilbrigt atvinnulíf. Hátt gengi krónunnar og hátt vaxtastig hefur klárlega ekki hjálpað útflutningsgreinunum undanfarin ár. Gildir þar einu hvort um er að ræða fiskvinnslu eða hátækniiðnað.

Hífa, slaka, gera eitthvað, eru stórvirkjanir og stóriðja réttlætanleg á þeim forsendum?

Ég segi nei.


Snúast stjórnmál um menn eða málefni?

Nú er mesti hitinn rokinn úr REI skýrslunni, oddvitavandi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins er heldur ekki lengur frétt númer eitt hjá fjölmiðlunum.

Leifar umræðunnar eru þó á þá leið að Vinstri Grænir hamast við að benda á ágæti Svandísar og sköruglegrar framgöngu hennar. Einnig eru fjölmiðlar enn að pína fram stuðning eða ekki stuðning hinna ýmsu Sjálfstæðismanna við Vilhjálm. Vissulega á þetta hvort tveggja rétt á sér. Hinu megum við samt ekki gleyma að stjórnmál snúast ekki bara um persónur. Ég er nefnilega ekki frá því að búið sé að persónugera þetta mál um of.

Málið allt snýst nefnilega um eignarhald á orkuauðlindum. Teljum við að virkjunarréttur eigi að vera í eigu ríkisins, eða erum við að einhverju leiti, eða öllu leiti tilbúin til að selja það til einkaaðlila?

Þessari spurningu verða stjórnmálaflokkar að svara með skýrum hætti. Við skulum muna það að hlutur í Hitaveitu Suðurnesja hefur verið seldur til Geysir Green Energy. Orkuveita Reykjavíkur keypti einnig hlut í HS og einhverra hluta vegna var það skráð á REI. Skyndilega átti að sameina REI og GGE, eða jafnvel selja.

Gerðist þetta allt bara svona óvart, eða er þetta skv. stefnu Sjálfstæðisflokksins eða einhvers annars stjórnmálaflokks? Eigum við ekki rétt á að vita hver stefna stjórnmálaflokka er í þessu máli?

Ég vildi gjarnan að fjölmiðlar beindu aðeins kastljósi sínu að þessu og við fengjum að heyra afstöðu stjórnmálaflokkanna til þessa, ég vil ekki heyra neitt moð, ég vil heyra skýra afstöðu.

Í haust þegar REI málið kom upp varð umræða um þetta á alþingi. Þá sagði Geir Haarde eftirfarandi: "..................ég get tekið undir það sjónarmið, að orkulindirnar sjálfar eiga ekki endilega að vera andlag einkavæðingar". (ég fjallaði lítillega um það hér)

Getur verið að stjórnmálamenn reyni með þessu að tala óskýrt þannig að almenningur telji að þeir ætli að láta orkuauðlindirnar áfram vera í okkar eigu en laumast svo bakdyramegin til að selja það til einkaaðila "svona bara alveg óvart".

Getur verið að stefna sjálfstæðisflokksins um eignarhald á orkuauðlindum þoli illa dagsljósið og samræmist ekki vilja margra kjósenda hans?

Það geta verið rök fyrir að láta einkaaðila og áhættufjárfesta sjá um ákveðna þætti í þjóðlífinu. Ég vil þá heyra þau rök svo ég geti tekið afstöðu til þess og jafnframt að stjórnmálamenn og flokkar tali skýrt og standi og falli með þeirri afstöðu sem þeir kynna kjósendum sínum.

Við erum öll mannleg og viljum gjarnan kjamsa vandræðaganginum sem er í borgarstjórn Sjálfstæðisflokksins. Það er líka gaman að dásama dugnað og kraftinn í Svandísi.

Þetta eru hins vegar ekki stjórnmál, þau snúast um málefni.


Lítilsvirðing við kjósendur

Samúð mín undanfarna daga hefur verið með kjósendum Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að þeir eigi betra skilið en þá framkomu sem þeirra fulltrúar hafa boðið þeim upp á. Fréttablaðið í dag skýrir frá því að "Forystumenn flokksins hafi ráðlagt Vilhjálmi að taka ekki ákvörðun fyrr en orrahríðin vegna REI málsins sé gengin yfir, þar sem almenningsálitið breytist hratt".

Þar höfum við það. Á mannamáli heitir þetta: "Forysta Sjálfstæðisflokksins telur að kjósendur sínir hafi ekkert pólitískt minni og muni gleyma þessu fljótt". Eða með mínum orðum: "Forysta Sjálfstæðisflokksins telur að fólk sé fífl".

Hvar er virðingin fyrir kjósendum?

Ég hef oft haft áhyggjur að stuttu pólitísku minni almennings. Kannski hefur forysta Sjálfstæðisflokksins rétt fyrir sér. Ég hef í þessu tilfelli meiri trú á kjósendum hans en það.

Tíminn mun leiða þetta í ljós.

 

 


Í fréttum var þetta helst:

Þarf ég nokkuð að hafa formála að þessum? Held ekki. 

Fulltrúar skæla og skjálfa
skammast sín kunna þeir ei.
Samansafn barna og bjálfa
borginni stjórna og REI.

Minnislaus Villi villtur,
veit ekki rjúkandi ráð.
áfram enn er hann hylltur
halda mun áfram sú náð? 

Svo er það þingsályktunartillaga Kolbrúnar Halldórsdóttur og fleiri þingkvenna um bann við kaupum opinberra starfsmanna á kynlífi í ferðum erlendis. Til skýringa vísa ég á umfjöllun mína hér. Í þingsályktunartillögunni gleymdist að taka fram að starfsmönnum væri óheimilt að selja þessa "vöru".

Kynlíf mér Kolbrún bannar
að kaupa í ferðum um lönd.
Hlutur samt allt er annar
að aura fá fyrir í hönd

Erna systir mín og bloggvinkona kom með fyrripart í vikunni sem ég botnaði. Þar sem ég tel mig eiga helminginn af leirnum þá leyfi ég mér að birta hann hér (lítillega breyttan):

Áfram dagar ólmir æða
ekkert á því lát.
Viljum njóta vorra gæða
á völtum lífsins bát.

Snilld Svandísar

Fjölmiðlar og bloggheimar gera nú harða hríð að Svandísi Svavarsdóttur fyrir að í Rei skýrslunni skuli enginn dreginn til ábyrgðar. Ég vil sjá þetta í öðru ljósi.

Snilld Svandísar felst í því að ná samstöðu um skýrsluna. Þrátt fyrir að orðalag hafi kannski ekki verið eins harðort og í þeim drögum sem kynnt voru í gær þá fer ekki á milli mála að víða var pottur brotin.

  • Afskipti FL group að samningsgerð á milli REI og OR sem voru vægast sagt óeðlileg.
  • Umboðsleysi kjörinna fulltrúa til ákvarðanataka á ýmsum stigum málsins.

Svona mætti lengi telja. Undir þetta kvitta borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem meðhöfundar að skýrslunni og í borgarráði. Þetta gera:

  • Þeir sömu og sögðu Vilhjálm vera áfram sinn oddvita eftir uppþotið í haust.
  • Þeir sömu og studdu hann sem sinn foringja í myndun núverandi meirihluta.
  • Þeir sömu og verða að gera það upp við sig að ári hvort þeir kjósa hann aftur sem borgarstjóra.

Nema Vilhjálmur verði hrakinn frá. Hvort er það neyðarlegra fyrir Vilhjálm að vera hrakinn burt af sínum eigin félögum eða af Svandísi Svavarsdóttur?

Hinn kosturinn er að þeir borgarfulltrúar sem kvitta upp á að allt sé satt og rétt sem sagt er í REI skýrslunni haldi áfram að styðja sinn mann.

Þetta er svona "no way out situation".

Nú verða Sjálfstæðismenn sjálfir að taka afstöðu til síns eigin foringja sem harðneitar að bera nokkra ábyrgð, hann ætlar bara að læra af mistökunum. Fyrir utan að hann hafði að eigin sögn umboð til að gera þetta allt saman, já og fjölmiðlar snúa bara út úr, hann var ekkert margsaga!

Við skulum heldur ekki gleyma því að ef sexmenningarnir títtnefndir hefðu mátt ráða í haust hefði REI verið selt strax á brunaútsölu og ekkert ljótt verið grafið upp. Það hentar oft í "fyrirmyndarfjölskyldum" að stinga vandamálunum ofan í skúffu.

Takið eftir að með því að hafa skýrsluna þó þannig að allir geti skrifað undir hana, verða þeir sjálfir að horfast í augu við að þarna hafi fjölmargt einkennilegt verið á ferðinni. Og taka ábyrgð á eigin gjörðum, eða ekki og verða að standa skil á því í næstu kosningum.

Svandís ber enga ábyrgð á gerðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og hennar pólitísku hagsmunir eru að þeir engist sem mest og lengst undir þessu.


Ég má kaupa mér kynlíf eftir vinnu í Reykjavík en ekki í Helsinki!

Nú á nú aldeilis að taka á siðferði opinberra starfsmanna. Þessi kynlífskaup í útlöndum ganga nú ekki mikið lengur. Nú skulu barasta allir skrifa upp á plagg að þeim sé óheimilt að kaupa sér kynlíf erlendis! Sjá nánar frétt á mbl.is.

Þrír þingmenn hafa lagt fyrir þingsályktunartillögu sem banna kynlífskaup opinberra starfsmanna í vinnuferðum erlendis.

Nú er það svo að ég er opinber starfsmaður. Það kemur fyrir að ég þarf sem slíkur að fara til útlanda, nú seinast í seinustu viku og helgi var ég í Helsinki. Ég er bara svona að velta fyrir mér framkvæmdinni á þessu. Fyrir hverja ferð þarf ég að fylla út pappíra, helst með nokkrum fyrirvara og fá uppáskrift, þá fyrst get ég skipulagt ferðina.

Ég sé fyrir mér fylgiskjal með öllum þessum pappírum:

Ég undirrituð Kristjana Bjarnadóttir geri mér grein fyrir að tilgangur ferðar þessarar er ekki sá að kaupa kynlíf til einkanota.

Eða:

Mér er ljóst að mér sem opinberum starfsmanni er ekki heimilt að kaupa kynlíf til einkanota

Er það boðlegt að láta fólk skrifa undir svona pappíra í hvert skipti sem farið er á vegum ríkisins í vinnutengdar ferðir? Hvað er verið að gefa í skyn um hugsanagang minn svona dagsdaglega?

Er það mikið vandamál að opinberir starfsmenn séu að versla sér kynlíf í útlöndum? Ég bara viðurkenni hér opinberlega að mér hefur ekki einu sinni dottið það í hug, og þó svo, hvað kemur það öðrum við en mínum ektamaka? Ef ég rek erindi mitt sómasamlega ætti vinnuveitanda að vera sama.

Af hverju er mér frekar bannað að kaupa vændi í útlöndum þegar ég er þar í vinnuferðum en bara svona á venjulegu föstudagskvöldi hér heima á Íslandi? Ég er ekki í vinnunni í útlöndum eftir að erindi mínu er lokið, fæ a.m.k. ekki greitt fyrir það, alveg sama hvað erindið dregst, yfirvinna í svona ferðum er ekki greidd.

Ferðastu á almennu farrými, um helgar (í frítíma), vertu í útlöndum á laugardögum til að ná enn ódýrara fargjaldi, bannað að kaupa kynlíf.

Á hvaða forsendum getur vinnuveitandi minn skipt sér af hvernig ég eyði mínum frítíma erlendis?

Eru flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu ekki aðeins að fara framúr sjálfum sér.


Gróu þeir hitta og sögur út bera

Þessi síða heitir "Efst í huga", því skyldi ég þá skrifa um annað en það sem er mér efst í huga? Kannski eru einhverjir búnir að fá nóg af umfjöllun um borgarstjórnarskiptin í Reykjavík, ekki ég. Samt bý ég ekki í Reykjavík. Málið er að þetta snertir okkur öll.

Af hverju?

Jú, því stjórnmálaumræðan nú seinustu viku hefur verið dregin sífellt lengra niður í svaðið. Umræðan látin snúast um aukaatriði, sögum stráð. Kjósendur allra flokka eiga betra skilið, stjórnmálamenn allra flokka eiga betra skilið.

Þegar ég lamdi saman vísukorn um seinustu helgi og birti hér hélt ég að ég væri að ganga fulllangt með því að halda því fram að Sjálfstæðismenn dreifðu vísvitandi Gróusögum. Þetta passaði inn í rímið og stuðlana og mér fannst þetta fyndið. Ekki hvarflaði að mér að ég hefði svona rétt fyrir mér.

A.m.k. fimm bloggarar (mismunandi mikið tengdir Sjálfstæðisflokknum) hafa haldið því fram að mótmælin í Ráðhúsinu hafi verið beint vísvitandi gegn heilsu Ólafs F. Magnússonar. Anna Karen birti á bloggsíðu sinni um helgina ágætisúttekt um þetta, ef einhver efast um mín orð. Vil ég nefna að meðal þeirra sem hún vitnar í er einn ráðherra Sjálfsæðisflokksins sem blákalt heldur þessu fram.

Morgunblaðið hefur einnig farið hamförum bæði í Staksteinum og leiðara og vænt vinstri menn um að dreifa sögum um veikindi Ólafs. Ef við hugsum okkur aðeins um þá verður okkur skyndilega ljóst að það eru þeir sjálfir sem eru iðnastir við veikindaumræðuna. Ekki hefur þeim tekist að geta heimilda þegar þeir fullyrða að vinstrimenn hamri á þessari umræðu, því flokkast þessar sögur þeirra undir Gróusögur.

Finnur nokkur Vilhjálmsson fjallaði á bloggsíðu sinni í dag um fyrirbæri sem hann kallar "strámann". Það fyrirbæri gengur út á að strá sögum um aukaatriði til að dreifa athyglinni frá slæmum málstað. Þetta er gert með markvissum hætti þessa dagana og eins og Finnur segir:

Því verður loks að halda til haga að enginn hefur talað fjálglegar eða velt sér meira upp úr veikindum Ólafs F. Magnússonar en ritstjóri Morgunblaðsins og hans lagsbræður. Enginn hefur nýtt sér veikindi Ólafs í pólitískum tilgangi nema einmitt þeir sjálfir.

Mikil er ábyrgð borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að draga flokkinn út í þetta kviksyndi. Enn meiri er ábyrgð spunameistara flokksins að draga umræðuna á þetta lága plan og kenna öðrum um að láta umræðuna snúast um þessi atriði sem þeir sjálfir hamra á.

Höldum vöku okkar og áttum okkur á hvaðan þessi umræða er komin.


Græða, grilla og fleira

Stundum dunda ég mér við að lesa bloggfærslur víða hér í bloggheimum, það kemur nefnilega fyrir að maður rekst á ansi hnyttnar færslur. Í vikunni fann ég eina slíka. Sú færsla er eftir Láru Hönnu Einarsdóttur og ber nafnið "Oft ratast kjöftugum satt orð á munn". Þar skrifar Lára orðrétt upp skilgreiningu á Sjálfstæðismönnum sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson hélt fram í þættinum Mannamál á Stöð 2, nú fyrr í mánuðinum. Skilgreiningin er svo skemmtileg að ég birti hana hér fyrir neðan:

Hannes Hólmsteinn: Sjálfstæðismenn eru mjög foringjahollir og það er dálítill munur kannski ef maður tekur þetta svona... Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og vinstri flokkana hins vegar þá er... í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt. Það hljómar dálítið einkennilega kannski en... og ég á kannski ekki að segja það svona, en til einföldunar má segja að Sjálfstæðismenn eru menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin. Vinstri menn eru menn, sem halda að með masi og fundahöldum þá sé... og sko ljóðalestri, þá sé hægt að leysa einhverjar lífsgátur. Þarna er dálítill munur. Þannig að vinstri menn eru miklu pólitískari heldur en hægri menn. Þess vegna eru þeir ekki eins foringjahollir. Hægri mennirnir, þeir eru bara að reka sín fyrirtæki, þeir vilja leggja á brattann, þeir vilja bæta kjör sín og sinna, þannig að þeim finnst hérna... gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá og Davíð var slíkur maður.

(Leturbreyting KB) 

Svo mörg voru þau orð. Þetta hefði ég aldrei þorað að segja upphátt en fyrst Hannes sagði það...........þá hlýtur eitthvað að vera til í því, hann ætti að þekkja sína menn 

Með þessa skilgreiningu og atburðarás liðinnar viku datt mér eftirfarandi í hug:

Græða á daginn og grilla á kvöldin,
Gróu þeir hitta og sögur út bera.
Hraðlygnir pésarnir hrifsa svo völdin,
hrossakaup mikil um stóla þeir gera.


Litlir og saklausir lúta þeir valdi
laun munu fá þó að biðin sé löng.
Ekkert það stoðar þó móinn í maldi
meiningin foringjans aldrei er röng.

Það er náttúrulega ekki hægt að sleppa Birni Inga alveg þó hans þáttur hafi nánast fallið í skuggann af öllum hasarnum:

Sló um sig ávallt slyngur
sleipur og lúkkið var smart.
Framsóknarfatabingur
felldi þó krónprinsinn hart.

Ungu fólki misbýður og lætur í sér heyra

Í dag kom íslensk æska mér á óvart. Fjöldi ungs fólks mætti í ráðhús Reykjavíkur og mótmælti þeirri afbökun á lýðræði sem við höfum orðið vitni að síðustu daga.

Það er ekki hefð fyrir miklum mótmælaaðgerðum á Íslandi, almennt erum við feimin við að láta skoðanir okkar í ljós á opinberum vettvangi, viljum ekki láta sjá að við séum í þessu eða hinu pólitíska liðinu. Nú lét fólk í sér heyra, unga fólkið var þar fremst í fylkingu.

Ungt fólk er ófeimnara og er tilbúið til að fara óhefðbundnar leiðir en við sem eldri erum, spyr ekki alltaf hver hin lögbundna leið sé, enda hverjar eru hinar lögbundnu leiðir mótmæla? Eðli mótmælaaðgerða er að vekja athygli á málefninu og ef það truflar fund sem verið er að mótmæla er tilganginum náð. Það gerði ungir Íslendingar í dag.

Ég óska okkur öllum til hamingju með unga fólkið sem er ekki sama hvernig farið er með vald.


Dapurleg tíðindi

Á meðan valdarán var framið í Reykjavíkurborg í gær hugsaði ég um erfðabreytileika í kúm, hm. Vissi svo sem að tíðinda gæti verið að vænta en á flestu átti ég von en ekki þessu.

Dapurlegu tíðindin eru nefnilega ekki þau að vinstri meirihlutinn sé fallinn, það er leitt en ekki verst.

Dapurlegu tíðindin eru að Sjálfstæðismenn notfærðu sér veiklundaðan einstakling til að hrifsa völdin, sama hvað það kostaði. Tiltrú almennings á stjórnmálamönnum hefur minnkað og það tekur stjórnmálamenn langan tíma að endurvinna það traust sem tapaðist í gær, ekki bara þá sem að þessu stóðu, einnig þeir sem engan hlut áttu að þessum gjörningi misstu tiltrú, almenningur gerir ekki greinarmun þar á. Traust er hægt að missa á örskotsstundu, það tekur langan tíma að vinna það til baka.

Vel má vera að gjörningurinn standist lög en þetta er svo siðlaust að mig setur hljóða. Enginn málefnaágreiningur hafði komið upp í fyrri meirihluta, er allt falt fyrir völd?

Tal Ólafs um að málefnasamningurinn séu alfarið hans stefnumál verður hjákátlegt þar sem áfram verður unnið að rannsóknum á nýju flugvallarstæði. Jú, flugvöllurinn verður áfram á sínum stað skv skipulagi, en það stóð ekkert til að stroka hann út næstu tvö árin hvort sem er.

Allir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bera mikla ábyrgð á þessu ferli, getur það verið siðferðislega rétt að standa svona að málum?

Er allt leyfilegt ef það er löglegt?

Hversu langt mega menn ganga til að kroppa til sín völd?

Að mínu mati löglegt en siðlaust.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband