Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
10.4.2008 | 20:47
Haftastefna og fjármálalæsi
Hér á árum áður ríkti haftastefna á Íslandi, innflutningur var takmarkaður, gjaldeyrir til að taka með til útlanda var takmarkaður, allt til að hamla því að við eyddum of miklu af dýrmætum gjaldeyri.
Á þessum tíma og enn lengur voru útlán banka takmörkuð og þurfti því að sannfæra misvitra bankastjóra um nauðsyn og skynsemi þeirra fjárfestinga sem fólk hugði á.
Það jaðrar við að ég vilji þessa tíma aftur, eða hluta af þessu. Undanfarin ár virðast ekki hafa verið nokkur takmörk hafa verið á vilja lánastofnana til að lána fólki fyrir óskynsamlegum fjárfestingum. Já, ég sagði óskynsamlega, set mig svo sannarlega í dómarasæti.
Í dag heyrði ég af ungum manni sem nýlega keypti 3 milljón króna bíl á 100% lánum. Nú er bíllinn klesstur. Ónýtur. Ekki veit ég hvernig tryggingar fara með svona tjón, ég veit að umferðarreglur voru brotnar. Vafalaust var sjálfsábyrgðin einhver.
Hvaða vit er í svona lánum? Það er ekki ólöglegt að vera fífl, það er heldur ekki ólöglegt að hafa fólk að fíflum, en mér finnst siðlaust hvernig bankar hafa ausið út neyslulánum.
Þetta heitir frelsi til að velja. Ef við notum það frelsi til að vera fífl þá er okkur það heimilt.
Ég óska eftir meiri kennslu í fjármálalæsi í íslenskum grunnskólum. Ég tel það muni reynast heilladrýgra veganesti út í lífið en vitneskjan um að DNA sé umritað í mRNA í kjarna frumunnar og sú uppskrift notuð til að búa til prótein í ríbósómum í umfrymi frumunnar. Ófáar svona langlokur læra blessuð börnin til samræmds próf í náttúrufræði en sömu börn hafa litla tilfinningu fyrir hvernig fara á með peninga.
Þegar aðgengi að lánsfé er eins og verið hefur undanfarin ár er ekki nema von að einhverjir misstígi sig. Raunhæf verkefni í fjármálum ætti að vera hluti af skyldunámi barnanna okkar, það er nefnilega ekki gefið að foreldrar séu færir um að veita þessa kennslu í öllum tilvikum. Það er heldur ekki víst að afkvæmin vilji láta foreldrana kenna sér þetta.
Hin leiðin er að taka upp skömmtunar og haftastefnu aftur.
8.4.2008 | 23:26
Hægri menn, frjálshyggja og samfélagsleg ábyrgð
Kannski er ég bara vitlaus og hef ekkert vit á stjórnmálum. EN........ég hef skilið pólitík þannig að frjálshyggja sé til hægri og félagshyggja meira til vinstri.
Frjálshyggja samkvæmt mínum skilningi snýst í stuttu máli um það að skattar séu lægri og hver einstaklingur leggi minna í sameiginlega sjóði. Hver sé sjálfum sér næstur, einstaklingurinn njóti þess meir ef vel gengur en jafnframt verður meira á brattann að sækja. Frjálshyggjan snýst því um að skara eld að sinni köku, mögulega láta þeir sem allt gengur í haginn mola renna til góðgerðamálefna að eigin vali. Eingöngu ef þeim sýnist svo. Frjálshyggjan er því í eðli sínu "egocentrisk", þar er lítið pláss fyrir samfélaglega ábyrgð, nema bara svona þegar það hentar hverjum og einum.
Félagshyggja samkvæmt mínum skilningi snýst hins vegar í stuttu máli um að skattar séu hærri og meira svigrúm sé til að mæta áföllum einstaklinganna með sameiginlegum sjóðum. Í þessu kerfi er erfitt að verða mjög ríkur því sameiginlegu sjóðirnir hirða það til að þeir sem minna bera úr býtum nái að skrimta. Félagshyggjan er því í eðli sínu "samfélagsleg", snýst um að taka sameiginlega ábyrgð á umhverfinu og einstaklingunum, nær sem fjær.
Ekkert kerfi er fullkomið og það er ljóst að báðum þessum stefnum fylgja bæði kostir og gallar. Hins vegar finnst mér alltaf hlálegt þegar hægri menn kvarta undan skorti á "samfélagslegri ábyrgð" og einnig þegar vinstri menn kvarta undan skattpíningu og því að fá ekki að njóta ávaxta velgengni sinnar.
"You can´t have them both". Þú verður að vita í hvoru liðinu þú ert.
Kveikjan að þessum hugleiðingum mínum var viðtal við Ármann Kr. Ólafsson þingmann Sjálfstæðisflokksins, í kvöldfréttum sjónvarpsins í gærkvöld. Kvartaði hann undan skorti fjármálastofnana á samfélagslegri ábyrgð og vildi að þær skýri út fyrir okkur almúganum áhættu af því að taka erlend lán þegar gengi krónunnar er lágt hátt (leiðrétt 09.04.08).
Er hægt að ætlast til að peningastofnanir sem hafa það að markmiði sínu að græða (á okkur sauðsvörtum almúganum) sýni "samfélagslega ábyrgð"?
Er maðurinn ekki að biðja um að bankar séu ríkisreknir? Þá getum við gert þessa kröfu.
Ég held að annað hvort sé ég að misskilja illilega út á hvað stjórnmálastefnur snúast eða þingmaðurinn sé ekki í réttum stjórnmálaflokki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.4.2008 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2008 | 20:48
"Dauðans óvissi tími"
Ég brá mér bæjarleið nú í seinustu viku, skrapp yfir hafið og heimsótti Frakkaland. Slíkum ferðum fylgir mikil seta á flugvöllum og auðvitað í flugvélum. Þennan tíma er alveg upplagt að nota til bókalesturs.
Bókin sem fylgdi mér í þessa ferð var "Dauðans óvissi tími" eftir Þráinn Bertelsson. Ég hef ekki lokið lestrinum en mikið finnst mér þetta viðeigandi lesefni þessa dagana, nú þegar við virðumst vera að súpa seyðið af ótrúlegri óráðssíu og furðulegri peningastefnu undanfarinna ára........................að ekki sé minnst á mjög svo sérkennilegri einkavæðingu ríkisbankanna. Ég leyfi mér að birta hér kafla úr bókinni:
Haraldur stóð í afgreiðslusal bankans og virti fyrir sér listaverkin á veggjunum. Þessi listaverk voru þjóðargersemar sem einkavæðingarnefnd hafði láðst að undanskilja í æðibunuganginum við að ganga frá kaupunum eftir að Jökull Pétursson forsætisráðherra hafði fyrir sitt leyti samþykkt að gengið skyldi til samninga við Harald Rúriksson. Í hita leiksins hafði gleymst að Þjóðbankinn átti listaverkasafn sem var mun stærra en Listasafn ríkisins, enda höfðu samningarnir snúist um peninga en ekki tittlingaskít eins og menningu og listir.
Kannast einhver við þetta úr íslenskum raunveruleika?
Þessi bók Þráins er skáldsaga. Þó er ljóst að margar persónurnar eiga sér fyrirmynd í íslenskum raunveruleika. Söguþráðurinn er oft mjög fjarstæðukenndur. Það einkennilega er að sum fjarstæðukenndustu atvikin eiga sér stoð í íslenskum raunveruleika.
Í hvaða raunveruleika höfum við lifað nú seinustu ár? Er þetta draumur eða martröð sem við virðumst vera að vakna upp af?
Eða er þetta bara dauðans óvissi tími?
PS: Ég er ekki eins þunglynd þessa dagana og þessi færsla gefur til kynna. Mér finnst bara frekar skrýtið hvernig við höfum látið auðmenn stela af okkur ríkiseignum undanfarin ár beint fyrir framan nefið á okkur. Og nú er helst rætt um að íslenskur almúgi (ríkið) eigi að koma bönkunum til bjargar. Er ég ein um að vera skilningssljó?
26.3.2008 | 18:33
Íslenskur smáborgaraháttur
Í dag birtist bæði á mbl.is og visir.is frétt um viðtal við Richard Portes í bandarísku CNBS sjónvarpsstöðinni í gær. Einnig er umræða um þetta á eyjan.is í dag. Portes ku vera prófessor við London Business School.
Einhvern veginn finnst mér fréttaflutningur af þessu viðtali einkennast af íslenskum smáborgarahætti. "Sko, þarna er útlenskur prófessor sem segir að það sé allt í lagi hjá okkur".
Hvorugur fréttamiðillinn hefur fyrir því að geta þess að þessi maður er ekki bara einhver útlenskur prófessor. Visir.is getur þess að vísu að hann hafi unnið skýrslu fyrir Viðskiptaráð:
Portes þekkir vel til íslensk viðskiptalífs. Í nóvember í fyrra kynnti Portes skýrslu um alþjóðavæðingu íslenska fjármálakerfisins sem unnin var fyrir Viðskiptaráð sem viðskiptabankarnir eiga aðild að.
Það sem mér finnst þessir miðlar gleyma að geta er að Portes var með íslensku sendinefndinni sem reyndi að telja Dönum nú nýlega trú um að íslenskt viðskiptalíf væri með miklum blóma (sjá hér og hér). Danir stukku nú ekki alveg á þá skýringu.
Getur maður sem hefur farið í sendiferð á vegum íslensks viðskiptalífs og stjórnvalda til að kynna ágæti þess (á tímum þegar jafnvel íslenskur almenningur er ekki sannfærður um slíkt) verið marktækur sem álitsgjafi um stöðu þess?
Af hverju var þessa ekki getið í þessum fréttamiðlum?
Er það hlutverk háskólaprófessora að kynna sérstaklega viðskiptalíf annarra landa? Hvernig er slíkt kynningarstarf borgað?
Hver var fréttin? Í mínum huga er það ekki frétt þó prófessor sem hefur farið í sendiferð á vegum Íslendinga til að segja Dönum að hér sé allt í blóma segi það sama í sjónvarpi í Bandaríkjunum. Ekki frekar en Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings segi slíkt hið sama í sama sjónvarpi.
Viðbrögð okkar Íslendinga eru dæmigerð: "Sko útlenski maðurinn sagði að við værum frábær!"
25.3.2008 | 22:07
Safnanir til góðgerðamála
Vangavelta kvöldsins snýst um góðgerðarmál: Hvernig á verkaskipting milli ríkis og félagasamtaka að vera varðandi góðgerðarmál?
Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör.
Ég hef ekkert eitt svar við þessari spurningu. Tel mig í gegnum mína skatta gjalda ríkinu sitt og fá heilbrigðisþjónustu, menntun barnanna minna og eitthvert lágmarks félagslegt öryggisnet. Ef eitthvað er þá vildi ég frekar hækka þessa skattprósentu til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu þó ég telji nú einnig að það megi kannski verja þessum aurum eitthvað betur.
Ýmis félagasamtök vinna þarft verk, ýmis sjúklingasamtök, lions og kiwanisfélög, Rauði krossinn og fleira og fleira. Sum þessara samtaka sinna þjónustu sem skarast á við það sem ætti að vera hlutverk opinberra aðila, kannski er það betra og skapar meiri nálægð við starfssemina, en á móti fríar það hið opinbera ábyrgð á málinu.
Í stuttu máli þá vil ég meiri opinbera ábyrgð og aðkomu og að fjármagn til þess sé tryggt í gegnum okkar skatta. Fjármögnun félagasamtaka á tækjakaupum ýmis konar getur reyndar verið af hinu góða.
Í símaskránni er ég með kross fyrir framan númerið mitt. Samt sem áður fékk ég símhringingu í kvöld, í símanum var Brynja en mér láðist að leggja á minnið fyrir hvern hún hringdi. Brynja vildi selja mér söngtexta sem Kiwanisfélagið Elliði hafði tekið saman. Þetta átti að kosta 2900 kr komið heim til mín og ég átti að borga með gíróseðli.
Hvað skyldi ég hafa átt að styrkja með þessu? Jú, legudeild BUGL, Barna og unglingageðdeild Landspítalans. Athugið þarna er verið að tala um rekstur legudeildar á LANDSPÍTALA HÁSKÓLASJÚKRAHÚSI.
Hvað er að gerast hér á þessu landi, þarf að hringja sníkjusímtöl í borgarana til að við tímum að reka geðdeild fyrir börn? Málið er brýnt, geðsjúkdóma þarf að meðhöndla eins og hverja aðra sjúkdóma ekki síst hjá börnum. En hver hefur fengi símtal þar sem beðið var um styrk til að reka krabbameinsdeild Landspítalans?
Ég er starfsmaður þessarar stofnunar, á ég líka að styrkja hana með beinum fjárframlögum?
Á ég kannski að hefja fjársöfnun tilhanda minni deild?
Hvenær hefst fjársöfnun tilhanda fjársveltum lögregluembættum?
Nei, gerum skýran greinarmun á því hvað við teljum eðlilegt að sé borgað úr okkur sameiginlegu sjóðum og gerum réttláta kröfu til ráðamanna að vel sé staðið að geðheilbrigðismálum, rétt eins og meðhöndlun annarra sjúkdóma. Rekstur ríkisstofnanna getur ekki flokkast undir góðgerðarmál sem þarf sníkjusímtöl til að fjármagna.
20.3.2008 | 15:53
Hvert var gengi krónunnar þegar varan var keypt inn?
Fjölmiðlar hafa verið óþreytandi við að flytja okkur véfregnir af efnahagsmálum undanfarna daga. Ekki ætla ég að gera lítið úr alvarleika falls krónunnar, áhrif á verðbólgu eru óumflýjanleg að ónefndum áhrifum á greiðslubyrði erlendra lána.
Það sem vekur furðu mína er hversu snögglega verðlag hefur hækkað. Fréttablaðið birtir frétt í dag um hækkun á tölvuleikjum um eittþúsund krónur. Hvenær voru þessir tölvuleikir keyptir inn? Hvert var gengi krónunnar þá?
Það er algerlega óþolandi að verslanir nýti sér þetta upplausnarástand til að hækka vöruverð. Eðlilegt er að vöruverð hækki nú á næstu vikum og mánuðum þegar vörur keyptar inn á þessu nýja gengi koma í sölu. Það bara hvarflar ekki að mér að það gildi um vörurnar sem eru í hillum verslana í dag.
Staða okkar sem neytenda er afskaplega slöpp, við eigum fárra kosta völ, a.m.k. þegar um nauðsynjavöru er að ræða. Er einhver samkeppni á matvörumarkaði? Forstjóri Haga segir matvöruverð í sínum verslunum þegar hafa hækkað (sjá hér). Skyldi það gilda einnig um Krónuverslanirnar?
Getur verið að Íslenskir neytendur séu fangar á fákeppnismarkaði, banka, matvöru, eldsneytis...............................?
17.3.2008 | 22:16
Frjáls
Ég var að ljúka við bókina "Frjáls" sem er í senn sjálfsævisaga Ayaan Hirsi Ali og ádeila á Islam. Þetta er saga merkilegrar og sterkrar konu, hún elst upp í Sómalíu, Saudi-Arabíu, Eþíopíu en að mestum hluta í Kenya. Hún flýr síðan til Hollands, aflar sér menntunar þar og er kosin á hollenska þingið árið 2003.
Ayaan er alin upp í Islam, móðir hennar er mjög trúuð og sjálf gengur hún í gegnum tímabil þar sem hún les Kóraninn stíft og er í félagsskap með bókstafstrúuðum. Í bókinni kemur einnig sterkt fram hversu gríðarlega sterk tök ættarsamfélagið hefur á hverjum einstaklingi og takmarkar frelsi hans til ákvarðana á eigin lífi. Mest á þetta við um konur en einnig eru karlar bundnir höftum þessa samfélags. Trúin gengur út á að fylgja því sem hinn alvitri guð, Allah, vill og vegvísir þess er í Kóraninum. Ef einstaklingurinn brýtur gegn vilja Allah er voðinn vís, ekkert framhaldslíf og það sem verra er, helvíti bíður.
Í Kóraninum er margt fjandsamlegt konum. Ayaan er mjög hugleikið að vekja athygli á því. Ef kona þýðist ekki eiginmann sinn er honum leyfilegt að beita hana ofbeldi. Kona í þessu samfélagi getur ekki risið gegn þessu, þá er hún að rísa gegn sínum Guði, einnig sinni fjölskyldu og öllu samfélaginu. Hennar bíður aðeins útskúfun. Kynmök fyrir hjónaband eru óhugsandi. Af líffræðilegum ástæðum er mun auðveldara að sanna kynmök upp á konur, sérstaklega ef hún verður barnshafandi. Slíkarar konu bíður aðeins útskúfun. Konur eru einnig taldar bera ábyrgð á að tæla karlmenn og því er ábyrgðin fyrst og fremst þeirra, jafnvel þó þeim sé nauðgað. Í Kóraninum er einnig lagt fyrir að konur skuli hylja sig að öllu leiti nema hendur og andlit.
Þessi atriði, ofbeldi eiginmanns, ábyrgð kvenna á kynferðislegu ofbeldi karla og það að þær þyrftu að hylja sig, var kveikjan að stuttmynd sem Ayaan gerði með kvikmyndagerðarmanninum Theo van Gough. Mynd þessi vakti mikla andspyrnu meðal bókstafstrúarmanna og var Theo drepinn.
Í bókinni varpar Ayaan fram hvassri gagnrýni á að umburðarlyndi vesturlanda gagnvart Islam hafi gengið alltof langt. Samfélög muslima víða á vesturlöndum viðhaldi kúgun kvenna, stúlkubörn séu unnvörpum umskorin á eldhúsborðum í Hollandi og heimilisofbeldi í þessum samfélögum sé látið óáreitt. Trúarskólar kenni ekki vestræn gildi og menningu og fáfræði þriðja heimsins viðhaldist í þessum samfélögum þó fólkið sé flutt til vesturlanda.
Ayaan segir að Islam skipti fólki í tvo flokka: Þá sem aðhyllast trúna og hina. "Hinir" séu allir slæmir og allt að því réttdræpir. Það að fremja heiðursmorð er Allah þóknanlegt, morðinginn bjargar heiðri fjölskyldunnar og hlýtur náð Allah. Slíkt er það eftirsóknarvert að refsing vestræns samfélags skiptir engu.
Ayaan er hvöss í gagnrýni sinni. Ef ég segði það sem hún segir væri ég vænd um kynþáttahyggju. Gagnrýnin á hins vegar rétt á sér, hvernig geta vestræn samfélög setið hjá og leyft kúgun kvenna í sínum samfélögum, bara vegna þess að trúarbrögð viðkomandi leyfa það?
Gallinn við svona hvassa gagnrýni er að hún getur hleypt upp miklu hatri á múslimskum innflytjendum. Það er þessum samfélögum heldur ekki til góðs.
Hvað sem því líður þá hvet ég alla til að lesa bókina Frjáls eftir Ayaan Hirsi Ali. Hún er auðlesin, hrífandi og áhugaverð.
7.3.2008 | 20:15
Að axla ábyrgð
"Að axla ábyrgð". Ég hef verið að velta fyrir mér þessu hugtaki. Hvað þýðir það að segjast axla ábyrgð? Er nóg að segja "þetta er mér að kenna" og málið síðan dautt?
Mikið hefur verið talað um hver ber ábyrgð á REI málinu, einhvern veginn hefur það mál týnst. Vilhjálmur telur sig hafa axla sína ábyrgð með því að hafa misst meirihlutann í haust og þar með borgarstjórastólinn. Hm, er það að axla ábyrgð?
Nýjast er umfjöllun um kostnað umfram áætlanir við byggingu stúku í Laugardal. Þar hefur stigið fram á sjónarsviðið Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og segist hann axla ábyrgð (sjá hér). Gott mál, ábyrgur maður.
En hvað svo? Ætlar hann að borga? Ætlar hann að stíga úr sínu formannssæti?
Geir var ekki einu sinni formaður KSÍ á þessum tíma, það var Eggert Magnússon.
Spurningin er: Hvað þýðir það "að axla ábyrgð", hvaða þýðingu hefur það í raun á Íslandi í dag?
2.3.2008 | 21:58
Nýtt Háskólasjúkrahús - Allir á hjóli
Í liðinni viku var kynnt fyrir starfsmönnum Landspítala áform um byggingu nýs Háskólasjúkrahúss. Ég ætla ekki að þreyta lesendur með endursögn af þeim fundi, aðeins að tiltaka það sem mér þótti sérkennilegast.
Farið var yfir staðarval sjúkrahússins í mörgum orðum. Hófst sú kynning með þeim orðum að staðsetningin milli Gömlu Hringbrautar og þeirrar nýju væri ekki bara "staðurinn" heldur "besti staðurinn". Lítum aðeins nánar á rökin fyrir þessu.
Nálægðin við Háskóla Íslands og einnig Háskóla Reykjavíkur þegar hann rís í Öskjuhlíðinni, er sögð skipta miklu máli. Hvað þýðir þetta samgöngulega séð? Jú, þetta eru þrír gríðarlega fjölmennir vinnustaðir. Höfuðborgarsvæðið er nokkurn veginn í laginu eins og trekt, þar sem Vesturbærinn og Seltjarnarnesið eru opið á trektinni. Rétt þar sem trektin byrjar að þrengjast þykir snjallt að byggja upp þessa gríðarstóru vinnustaði. Samgöngulega skil ég þetta ekki.
Lausn nefndarinnar um nýtt Háskólasjúkrahús liggur fyrir. Jú, gera aðgengi reiðjólafólks gott, góðar reiðhjólageymslur þar sem innangengt væri úr þeim inn í spítalann. Það skiptir auðvitað öllum máli fyrir reiðhjólafólk að geta gengið innandyra frá hjólageymslunni inn í spítalann!
Þetta var kynnt á degi þegar töluverður snjór var á götum borgarinnar og meira að segja þeir vinnufélagar mínir sem eru harðastir í að hjóla í vinnuna skildu fáka sína eftir heima.
Þessi staðsetning spítalans gerir það að verkum að fjarlægð flestra starfsmanna frá heimili verður það mikil að það verður erfitt að fá þá til að hjóla í vinnuna.
Í kvöld sá ég útundan mér konu bisa við að koma reiðhjóli í bílinn sinn og þá áttaði ég mig á hvað nefndin átti raunverulega við. Það var auðvitað að setja hjólið í skottið á bílnum og leggja bílnum í nágrenninu þar sem bílastæði fæst og hjóla þaðan beint inn í spítalann. Örugglega geta slíkir reiðhjólakappar mætt hreinir og stroknir í vinnuna eftir þennan hjólatúr í öllum veðrum.
(Leturgerð breytt 03.03.08)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.3.2008 kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.2.2008 | 21:35
Aðbúnaður barna á heimavistakólum
Nú hefur verið gerð skýrsla um Breiðavíkurheimilið og í ljós hefur komið að þarna var víða pottur brotinn. Í framhaldi af því hefur vaknað umræða um aðbúnað á öðrum heimilum fyrir börn á þessum tíma. Sjálfsagt er að kanna með hvaða hætti það hefur verið.
Upp hefur einnig komið spurningin hvernig aðbúnaður barna á heimavistaskólum var á þessum tíma. Þar sem ég hef birt minningarbrot frá dvöl minni í einum slíkum skóla langar mig að leggja orð í belg.
Ég vil taka það fram að ég minnist þess ekki að skólastjóri, kennarar eða annað starfsfólk hafi vísvitandi með einum eða öðrum hætti komið illa fram við nemendur. Auðvitað fannst okkur margar reglur einkennilegar og við fengum stundum refsingar eða tiltal þegar þær voru brotnar, það er eðlilegur hluti starfssemi svona staða.
Hitt er svo annað mál að tilhögun starfsseminnar var barn síns tíma og endurspeglaði viðhorf sem heyra sögunni til. Hér nefni ég nokkur dæmi:
Fyrstu árin sem skólinn starfaði voru börn allt niður í 7 ára gömul höfð á heimavist 2 vikur í einu, kennt á laugardögum en frí á sunnudögum. Börnin voru eigi að síður í skólanum. Vegir og samgöngur voru með allt öðrum hætti en nú er, en ég hefði samt haldið að hægt hefði verið að stytta þennan tíma niður í viku mun fyrr en gert var. Þegar það var gert voru börnin sótt á sunnudögum heim og keyrð í skólann til að skólastarf gæti hafist snemma á mánudagsmorgnum. Þetta fyrirkomulag var í nokkur ár, þar til farið var að sækja börnin á mánudagsmorgnum. Í dag finnst mér mjög sérkennilegt að ástæða þótti til að keyra börnin í skólann rétt eftir miðjan dag á sunnudögum til að skóli gæti hafist kl 8 á mánudögum. Líklega tók það 2 klst að keyra þau börn sem áttu um lengstan veg að fara.
Ég man ekki eftir að starfsfólk skólans hefði mikil afskipti af yngstu börnunum. Þau sáu um að búa um rúmin sín (setja lakið á rúmið þegar þau komu í skólann) og allar sínar helstu daglegu athafnir. Ef einhver skældi af heimþrá þá var það bara þannig og ekkert mikið verið að velta sér upp úr því. Enda ekkert við því að gera. Ef einhver var veikur þá var hann bara veikur á sínu herbergi og herbergisfélagarnir sáu oftast um að sækja mat. Ég man ekki til að boðið hafi verið upp á aðra umönnun.
Börn í þessum skóla voru ekki frábrugðin öðrum með það að einelti þreifst ágætlega. Ég minnist ekki neinna aðgerða af skólans hálfu til að bregðast við því eða sporna við því. Líklega er þar tíðarandanum um að kenna, það var ekki búið að finna upp þetta hugtak á þessum tíma.
Mötuneytið var sérstakur kapítuli. Gikksháttur var ekki liðinn, sá sem ekki borðaði matinn sinn var einfaldlega svangur. Ekki flókið. Fjölbreytni var í lágmarki og engu hnikað á matseðli þrátt fyrir hávær mótmæli foreldra og barna. Lapþunni og brimsalti hafragrauturinn er mér þar ofarlega í huga.
Á þessum tíma var ekki í sama mæli litið til þarfa, langana og tilfinninga barna eins og gert er í dag. Mötuneytismaturinn endurspeglaði mikla sparsemi og skipulag komutíma barna skapaðist af erfiðum samgöngum en sömuleiðis litlu hugmyndaflugi í að breyta því eftir hvort það var haust og vor eða snjóþungur vetur. Líklega þótti það ekki skipta öllu máli hvort börnin sváfu 4 eða 5 nætur í skólanum. Fyrir lítið barn sem leið illa í skólanum gat þetta hins vegar skipt máli. Umhyggja og andlegt atlæti starfsfólks endurspeglaði tíðarandann, það var ekki venjan að sýna of mikla tilfinningasemi og umhyggju.
Sjálfri leið mér mjög vel þarna, leiddist aldrei og hlakkaði alltaf til að fara. Það segir hins vegar ekkert um líðan hinna. Margir áttu erfitt með að sofna á kvöldin og stundum var skælt. Þeir sem áttu fáa vini eða urðu fyrir aðkasti áttu ekki sjö dagana sæla.
Mér er ekki kunnugt um neitt sem flokka mætti sem slæma meðferð á börnum eða að starfsfólk hafi á nokkurn hátt misboðið börnunum. Fyrirkomulag starfsseminnar endurspeglaði hins vegar tíðaranda sem hefur sem betur fer breyst.