"Dauðans óvissi tími"

Ég brá mér bæjarleið nú í seinustu viku, skrapp yfir hafið og heimsótti Frakkaland. Slíkum ferðum fylgir mikil seta á flugvöllum og auðvitað í flugvélum. Þennan tíma er alveg upplagt að nota til bókalesturs.

Bókin sem fylgdi mér í þessa ferð var "Dauðans óvissi tími" eftir Þráinn Bertelsson. Ég hef ekki lokið lestrinum en mikið finnst mér þetta viðeigandi lesefni þessa dagana, nú þegar við virðumst vera að súpa seyðið af ótrúlegri óráðssíu og furðulegri peningastefnu undanfarinna ára........................að ekki sé minnst á mjög svo sérkennilegri einkavæðingu ríkisbankanna. Ég leyfi mér að birta hér kafla úr bókinni:

Haraldur stóð í afgreiðslusal bankans og virti fyrir sér listaverkin á veggjunum. Þessi listaverk voru þjóðargersemar sem einkavæðingarnefnd hafði láðst að undanskilja í æðibunuganginum við að ganga frá kaupunum eftir að Jökull Pétursson forsætisráðherra hafði fyrir sitt leyti samþykkt að gengið skyldi til samninga við Harald Rúriksson. Í hita leiksins hafði gleymst að Þjóðbankinn átti listaverkasafn sem var mun stærra en Listasafn ríkisins, enda höfðu samningarnir snúist um peninga en ekki tittlingaskít eins og menningu og listir.

Kannast einhver við þetta úr íslenskum raunveruleika? 

Þessi bók Þráins er skáldsaga. Þó er ljóst að margar persónurnar eiga sér fyrirmynd í íslenskum raunveruleika. Söguþráðurinn er oft mjög fjarstæðukenndur. Það einkennilega er að sum fjarstæðukenndustu atvikin eiga sér stoð í íslenskum raunveruleika.

Í hvaða raunveruleika höfum við lifað nú seinustu ár? Er þetta draumur eða martröð sem við virðumst vera að vakna upp af?

Eða er þetta bara dauðans óvissi tími?

PS: Ég er ekki eins þunglynd þessa dagana og þessi færsla gefur til kynna. Mér finnst bara frekar skrýtið hvernig við höfum látið auðmenn stela af okkur ríkiseignum undanfarin ár beint fyrir framan nefið á okkur. Og nú er helst rætt um að íslenskur almúgi (ríkið) eigi að koma bönkunum til bjargar. Er ég ein um að vera skilningssljó?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nei, Kristjana... þú ert aldeilis ekki ein um skilningssljóleikann! Ég hef hugsað nákvæmlega á þessum nótum líka. Ég bara næ ekki forgangsröðinni í þjóðfélaginu, skil hana ekki og mun aldrei gera... nema hún breytist.

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.4.2008 kl. 01:55

2 Smámynd: Solla Guðjóns

Íslenskur raunveruleiki er oft á tíðum mjög lúalegur....við verðum bara ekki vör við ofangreint fyrr en eftir á og þá hellst ef einhver vekur máls á því.

Solla Guðjóns, 8.4.2008 kl. 03:00

3 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Eins og þú skil ég þetta ekki með að ríkið (lesist almenningur) þurfi að bjarga bönkunum. Eru þeir ekki nýbúnir að græða bunsj af peningum. Hroki þeirra sem svona tala í garð okkar almennings er ótrúlegur.... Við erum ekki fífl!!!!

Erna Bjarnadóttir, 8.4.2008 kl. 08:38

4 identicon

Já meðferðin á listaverkaeign Landsbankans var reginhneyksli á sínum tíma. Því miður held ég að þetta sé ekkert einsdæmi. Verð greinilega að lesa þessa bók. Svo finnst mér eins og ég hafi heyrt forsætisráðherra eða einhvern annan ráðamann dásama einkavæðingu bankana. Nánast í næstu setningu var farið að tala um að skjóta undir þá öryggisneti vegna ástandsins... Arrgh!

Ásdís (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband