Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sagan af litla sæta ísbirninum

Ég ætla að leyfa mér að vera verulega ómálefnaleg og linka inn á ísbjarnarsögu sem mér finnst vera ákveðinn botn á umræðunni.

Einhvern veginn efast ég um að þessi saga sé sögð út frá sjónarhóli heimilisfólksins að Hrauni á Skaga.

Ekki orð um það meir.


Í tengslum við náttúruna

Fyrir um 20 árum heyrði ég eftirfarandi sögu frá Vestmannaeyjum:

Bandarísk kona kom til Eyja sem ferðamaður. Hún fór í skoðunarferð og skoðaði fuglabjargið. Hún undraðist allan fuglafjöldann og varð að orði: "Hvernig farið þið eiginlega að því að gefa öllum þessum fuglum að borða?"

Mér fannst þessi saga óborganlega fyndin og bera vott um hversu Kaninn væri kominn langt frá náttúrulegu umhverfi sínu. Það var nú eitthvað annað með okkur Íslendingana, allir í miklum tengslum við náttúruna.

Af hverju dettur mér þessi saga í hug í dag?


Um ísbjörninn, ég verð að fá að vera með

Ég verð að fá að vera með í ísbjarnarumræðunni, bloggheimar loga og allir hafa skoðun.

Bangsinn sem kom hér um daginn olli miklu fjaðrafoki eins og frægt er orðið og margir beturvitrungar vissu sko alveg hvernig átti að lúlla svona dýri í svefn. Svo átti bara að fá einhverja vélsmiðjuna til að útbúa gám og húrra bangsa svo úr landi, hvert var aukaatriði. Fæstir hugsuðu málið til enda.  Besta innleggið átti samt Bylgja vinkona mín og ég leyfi mér að benda á það hér.

Kostulegt er að mun lægra ris er á þessum sömu beturvitrungum í dag. Dýralæknirinn á Blönduósi sem taldi fyrir nokkrum dögum að vel hefði verið hægt að koma deyfilyfi í björninn með byssu segir í dag að hægt væri að gera það með deyfilyfi gegnum æti en slíkt væri bara tilraunastarfssemi. Ekki getur það samræmst dýravernd að vera með slíkar tilraunir.

Er ekki betra að hugsa áður en við rísum upp og gagnrýnum aðgerðir eins og þær hvernig brugðist var við fyrri ísbirninum?

Getur náttúruvernd snúist um björgunaraðgerðir á einstökum dýrum? Ég held ekki, jafnvel þó dýrin séu tvö með nokkurra daga millibili.

Náttúruvernd hlýtur að snúast um miklu víðtækari atriði. Náttúruvernd snýst miklu frekar um:

  • hvernig við umgöngumst takmarkaðar auðlindir jarðar
  • takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda

Ísbirnir í sínu náttúrulega umhverfi deyja eðlilegum dauðdaga. Það að fara út fyrir búsvæði sitt er feigðarflan fyrir ísbirni og líklegra en ekki að það leiði til dauða. Vafalaust týna margir lífi á sundi í íshafinu, tilviljun ein réði að þessir tveir sem hingað komu þetta árið lifðu af. Ísbjarnarstofninn er í nákvæmlega sömu stöðu þó þeim sé bjargað með miklum tilkostnaði og margir leggi sig í hættu við þá aðgerð.

Talandi um tilkostnað þá er það dæmi um auglýsingamennsku þegar auðmenn bjóðast til að kosta tiltækið. Hvað ætli vegi þyngst hjá viðkomandi auðmönnum, umhyggja fyrir einstökum ísbirni, umhyggja fyrir ísbjarnarstofninum í heild eða tækifæri til að tengja nafn sitt á jákvæðan hátt við málefni sem fólk ber heitar tilfinningar til?

Sjálfsagt er að setja upp viðbragðsáætlun, gleymum hins vegar ekki að eftir skoðun á öllum möguleikum getur sú áætlun hljóðað upp á mjög einfalda aðgerð:

Skjóta strax.


Olíuhreinsunarstöð - smellið til að spila

Kæru lesendur nær og fjær.

Ég bið ykkur um að skoða myndband sem baráttukonan Lára Hanna Einarsdóttir birtir á síðunni sinni.

Gefið ykkur örfáar mínútur í næði og hlustið á textann í laginu.

Hlustið jafnframt á orð þeirra sem ákaft vilja reisa olíuhreinsunarstöð í Arnarfirði.

Veltum fyrir okkur hvaða ábyrgð hvílir á okkur að varðveita landið okkar fyrir afkomendur okkar.

Hugsum einnig um fiskimiðin eða eru þau nú orðin einskis virði?

Lára Hanna á mikinn heiður skilinn fyrir óeigingjarna baráttu sína fyrir náttúru Íslands.


Menntun stjórnmálamanna

Það er einkennilegt að Staksteinar Morgunblaðsins skuli helst finna það Samfylkingunni til hnjóðs að henni stjórni menntað fólk. Er þetta það versta sem Staksteinar gátu sagt um Samfylkinguna í grein sem lýsir af hræðslu Sjálfstæðisflokksins við að verða ekki alltaf stærstir?

Tap fyrir menntuðu fólki.

Er það kostur ef stjórnmálamenn eru ómenntaðir? Munum að menntun og prófgráður fara ekki alltaf saman.

Það skyldi þó ekki vera að þjóðin sé orðin of menntuð fyrir sjálfstæðisflokkinn, farin að sjá í gegnum bláu slykjuna og hugsa sjálfstætt.


SPRON fékk gula spjaldið

Það er varhugavert að treysta bönkum. Það fékk ég að reyna nýverið. Við hjónakornin erum bæði með okkar bankaviðskipti í SPRON, fluttum okkur þangað fyrir nokkrum árum, fengum okkur debetkort, kreditkort og einhverja sparireikninga svona eins og gengur.

Ég skal viðurkenna að ég fer ekki nákvæmlega yfir bankayfirlitin sem ég fæ send ca 2var á ári. Enn hirði ég þó kortanótur og visareikningana fer ég alltaf yfir þó stundum dragist það nokkra mánuði, ég geri það á endanum. Þar sem debetkortið er minna notað þá skoða ég það ekki eins nákvæmlega.

Hvað um það. Nýlega fékk ég yfirlit. Á því var mánaðarleg færsla, færð 21. hvers mánaðar alveg frá því í janúar (reyndar líka á fyrra yfirliti sem mér hafði láðst að skoða). Þessi færsla heitir "heimildargjald" og var upp á 1500kr og bankinn hirti þetta, bara sisona.

Mér var ekki skemmt þar sem mér var ekki kunnugt um hvaða "heimild" bankinn hefði. Hringdi í morgun í bankann. 

Talaði við þjónustufulltrúa sem fannst líklegast að þetta tengdist yfirdráttarheimild, ég varð tortryggin þar sem ég nota slíkt aldrei, finnst það okurlán.

Fulltrúinn lofaði að athuga málið og hringdi seinni partinn.

Jú, ég hafði í upphafi verið með yfirdráttarheimild upp á einhver hundruð þúsund og það hafði ekki kostað neitt á sínum tíma. Það skal tekið fram að þessa heimild nota ég ALDREI. Nýlega hefði bankinn ákveðið að lækka "ókeypis" heimildina um helming en rukka fólk sem áfram væri með svona háa heimild um 1500kr á mánuði. Líklega fékk ég sent fyrir nokkrum mánuðum bréf frá bankanum með þessari tilkynningu, ég hef lesið framhjá þessu, talið mig vera með kort með ákveðnum skilmálum sem samið hefði verið um í upphafi og lét því ekki lækka heimildina.

Þjónustufulltrúinn var búinn að bakfæra þennan pening þegar hún hringdi í mig, 15.000kr, eða 10 mánuði aftur í tímann.

Það var eins gott fyrir SPRON því svo mikið er víst að annars hefði bankinn fengið rauða spjaldið og töluvert bölv hefði fylgt þessari færslu.

Hvað sem því líður þá er það siðlaust að selja manni ákveðin kjör í upphafi og lauma svo inn bakdyramegin einhverju allt öðru og rukka mann um stórfé fyrir.

Þegar við fluttum okkur til SPRON fylgdu einnig viðskiptunum líftrygging. Slíkt finnst mér reyndar bull, en hvað um það, við töldum okkur hafa þessa tryggingu. Í símtalinu í dag kom einnig fram að það væri búið að fella þessa tryggingu niður.

Já, maður skyldi lesa vel bankapóstinn sinn, líka smáaletrið.


Evrópa og við

Stundum geta stjórnmálamenn verið óskaplega sjálfhverfir, halda að stjórnmál snúist um þá, þeirra völd og stærð stjórnmálaflokkanna. Björn Bjarnason nær að mínu mati ákveðnu hástigi í Fréttablaðinu í dag.

"Hvers vegna skyldum við efna til átaka ef við höfum ekki beina hagsmuni af því - þjóðarhagsmuni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei mælt með stórum skrefum í utanríkismálum nema  forystumönnum hans hafi tekist að sannfæra flokksmenn um að það sé nauðsynlegt með þjóðarhag í huga."

Á mannamáli: "Það er forystan sem ákveður hvaða mál má ræða innan flokksins, forystan veit betur en almenningur hvað þjóðinni er fyrir bestu. Það gæti skaðað flokkinn ef málin eru rædd. Ef flokkurinn skaðast (missir fylgi) eru völd hans í hættu. Því borgar sig engan veginn fyrir flokkinn að taka óþægileg mál á dagskrá".

frett_19mai

Þetta er ekki í fyrsta skiptið í vetur sem kjósendum og almennum flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins er sýnd óvirðing í vetur.

Af hverju má ekki ræða Evrópusambandið?

Getur verið að það sé vegna þess að Flokkurinn óttist um vald sitt?

Hvort er mikilvægara, hagsmunir þjóðarinnar í heild eða vald þessa stjórnmálaflokks?

Það skal tekið fram að ég er ekki endanlega sannfærð um að hagsmunum okkar sé best borgið í Evrópusambandinu, það hefur vantað vitræna umræðu til að ég geti tekið endanlega afstöðu.

Það verður að mega tala um þetta svo fólk viti um hvað málið snýst.


Samræmd próf í náttúrufræði

Ég hef undanfarna daga aðstoðað dóttur mína við undirbúning undir samræmt próf í náttúrufræði í 10. bekk og hef ég því skoðað próf sem lögð hafa verið fyrir nú undanfarin ár. Þar kemur margt undarlegt fram. Mig langar að tína fram nokkrar einkennilegar prófspurningar:

Árið 2004:

Blóðflokkur einstaklings ræðst af:

a) Genum á Y-litningi eingöngu
b) Margföldum genasamsætum
c) Stökkbreytingu tveggja gena
d) Þremur hliðstæðum litningum

Rétt svar er b. Ég lagði þessa spurningu fyrir nokkra vinnufélaga mína (í Blóðbankanum) en þeir ýmist stóðu á gati eða gátu svarað rétt með því að nota útilokunaraðferðina. Margfaldar genasamsætur er orðskrípi sem ég hef ekki heyrt notað í þessu samhengi nema í kennslubók grunnskóla í erfðafræði. Hvar er tengingin við raunveruleikann? Hver er tilgangurinn með að prófa börn úr hugtökum sem hvergi eru notuð?

Árið 2004:

Í hvaða eftirfarandi ferli á sér stað efnahvarf:

a) Gos á vökvaformi frýs og myndar klaka
b) Ísmolar í gosi bráðna og mynda vatn
c) Salt leysist upp í hreinu vatni
d) Vatnsgufa þéttist í vatnsdropa utan á glasi

Skv svörum er rétt svar c. Vandamálið er að þetta er ekki efnahvarf. Þetta er leysing. Ekkert af möguleikunum sem gefnir eru upp eru efnahvörf, ekki einu sinni skv kennslubókinni.

Árið 2005 sjúkrapróf:

Hvað af eftirfarandi er hluti litnings:

a) Litningur
b) Gen
c) DNA
d) Okfruma
e) Líkamsfruma

Rétt skv svörum er b. Ég er líffræðingur með framhaldsmenntun í erfðafræði. Ég veit ekki betur en DNA sé staðsett í litningum. Kannski hef ég misskilið eitthvað!

Árið 2006:

Það sem einkennir frumefni er að það

a) er ekki hægt að kljúfa í önnur efni
b) finnst úti í náttúrunni
c) getur myndað efnasambönd
d) hefur breytilegan róteindafjölda

Rétt svar er a. Gott ef ég lærði þetta ekki svona á sínum tíma. Vandamálið er að í námsefninu er börnunum kennt um geislavirkni og kjarnahvörf. Þar eru frumefnum breytt í önnur efni. Hvar er samræmi milli þess námsefnis sem prófað úr og prófsspurninganna?

Árið 2006 sjúkrapróf:

Þegar tilraunaglas er hitað er mikilvægast að

a) hafa glasið yfir mesta hitanum
b) halda um mitt glasið með töng
c) loka glasinu með korktappa
d) vísa opinu frá fólkinu í kring

Rétt svar er d. Þetta er það sem ég kalla alger bullspurning. Þarna er verið að skerpa á öryggisatriðum en það hlýtur líka að vera mikilvægt að halda glasinu yfir hitanum og nota töng. Við gætum eins vel spurt: Hvað er mikilvægast þegar þú ætlar að elda mat: a) setja matinn í pott, b) setja pottinn á eldavélina, c) kveikja undir eldavélinni, d) kveikja á útvarpinu.

Árið 2007 sjúkrapróf:

Við rýriskiptingu verða til

a) fjórar frumur með helmingi færri litninga en móðurfruman.
b) fjórar frumur með jafn marga litninga og móðurfruman
c) tvær frumur með helmingi færri litninga en móðurfruman
d) tvær frumur með jafn marga litninga og móðurfruman

Rétt svar er a. Í svörunum sem gefin eru út er rétt svar c. Hvort um er að ræða prentvillu eða það að sá sem samdi prófið veit ekki betur, veit ég ekki. Engu að síður ekki gott að námsmatsstofnun gefi út röng svör.

Árið 2007 sjúkrapróf:

Bíll ekur eftir beinum vegi á jöfnum hraða. Þá er:

a) enginn núningskraftur sem verkar á hann
b) krafturinn frá vélinni jafnstór heildarnúningskraftinum
c) lítil loftmótstaða á hann því hraðinn er jafn
d) núningskraftur frá veginum jafn loftmótstöðunni

Rétt svar er b. Börnin læra um ýmsa gerðir krafta. Þar á meðal er fjallað um loftmótstöðu. Ég bara spyr, vegur hún ekkert?

Ég læt þetta duga af prófspurningum í náttúrufræði. Þær eru fleiri sem ég hef athugasemdir við, tók bara þær sem mér fannst bera af í vitleysu. 

Ég hef margar athugasemdir við námsefni í Náttúrufræði til samræmds prófs í grunnskóla. Það er efni í annan pistil. Prófspurningar sem þessar bera þess vitni að ekki sé nógu vel vandað til prófagerðar. Slíkt er alvarlegt mál því mörg börnin eru metnaðarfull og eiga fullan rétt á vönduðum vinnubrögðum.


Velferðarríkið Ísland

Það er okkur hollt að velta fyrir okkur að þau lífsgæði sem við búum við í dag eru svo langt í frá að vera sjálfsagður hlutur. Við þurfum að staldra við og gera okkur grein fyrir hvernig það velferðarkerfi sem við búum við varð til, hvaða fórnir voru færðar til að koma því á fót. Einnig hvaða hugsun lá þar að baki.

Ég rakst áðan á bloggfærslu sem mér fannst athygli verð í þessu samhengi. Leyfi mér að birta valin kafla úr henni:

Árni (Tryggvason) er tveimur árum yngri en hún mamma mín og ég er hálfsextugur í ár. Má þá reikna út hverrar kynslóðar Íslendinga hann er. Hans jafnaldrar plús mínus 10 ár byggðu upp þetta samfélag eins og við þekkjum það. Menn og konur af hans kynslóð bjuggu til verkalýðsfélögin, tryggðu okkur endanlega samningsrétt og verkfallsrétt. Þau gáfu okkur almannatryggingar og félagslegt heilbrigðiskerfi. Þau fórnuðu skammtímahagsmunum í launabaráttu fyrir burðuga lífseyrissjóði sem aðrar og reisulegri þjóðir skilja ekkert í að þær hafi ekki fundið upp. Þau bjuggu til samfélag þar sem okkur þykir öllum sjálfsagt að ungt fólk geti menntað sig í æðri skólum óðháð efnahag foreldranna.

Munum að það fólk sem kom þessu kerfi á fórnaði jafnvel tímabundnum launahækkunum til að koma þessu kerfi á. 

Það sem mér finnst vera kjarninn í þessum orðum á svo sannarlega erindi til okkar í dag. Þegar því velferðarkerfi sem við búum við í dag var komið á var sú grundvallarhugsun höfð að leiðarljósi að jafna aðstöðumun fólks, óháð efnahag. 

Lífeyrissjóðakerfið okkar, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, allt ber það þessari hugsun vitni. Nú hafa heyrst hugmyndir um skólagjöld í Háskóla Íslands, Landspítalinn ohf, svona mætti áfram telja. Sífellt oftar heyrir maður því hvíslað að þeir sem geti borgað fyrir sig eigi að njóta þess.

Erum við tilbúin til að varpa fyrir róða þeirri hugsun sem liggur til grundvallar íslenska velferðarkerfinu?


Landspítalinn ohf

Enn og aftur finnst mér vera læðst aftan að mér mér einkavæðingartilburði. Nýjast eru hugmyndir um að setja ohf aftan við nafn Landspítalans, tilgangurinn, jú að "auka sveigjanleika í rekstri".

Alveg er þetta í takt við aðra einkavæðingu sem komið hefur verið í kring. "Sveigjanleiki í rekstri", hvað skyldi það nú þýða á mannamáli? Kannski er ég bara vitlaus og tortryggin, en mér dettur bara í hug útboð til einkaaðila. Skoðum aðeins nánar hvað það þýðir.

Þetta er ekkert annað en einkavæðing í krafti einokunar en ekki samkeppni. Ég hef sagt það áður hér á þessari bloggsíðu og segi það enn og aftur: Einkavæðing á sviðum sem ekki getur staðið í raunverulegri samkeppni á ekki rétt á sér. Öll starfssemi sem í eðli sínu er einokun á að mínu mati að vera í höndum opinberra aðila.

Hátækniheilbrigðisþjónusta eins og rekin er á Landspítalanum er þar gott dæmi. Slík þjónusta verður aldrei rekin á samkeppnisgrundvelli, um er að ræða ákveðna tegund einokunar og í krafti eðlis þjónustunnar er hætta á að með tíð og tíma sé hægt að krefjast hárra fjárhæða fyrir að veita hana.

Hvernig í veröldinni ætlum við að komast hjá slíku eftir að einkaaðilar hafa komist yfir þessa starfssemi? Ef ég væri hörð "bisness" gella myndi ég reyna að komast inn í svona starfssemi, þarna liggja peningar og með kverkataki á stjórnvöldum er þetta uppspretta gríðarlega fjármuna.

Af hverju ættu einkaaðilar að sjá sér hag í að reka Landspítalann á ódýrari hátt en gert er í dag? Ég kem ekki auga á neina augljósa ástæðu meðan ríkið borgar brúsann.

Nú er bara spurningin hvort það sé einungis einn stjórnmálaflokkur við völd og hvort flokkurinn sem kennir sig við jafnaðarstefnu horfi í hina áttina eða hvort umræddur jafnaðarmannaflokkur hefur þrek og þor til að standa gegn þessari vitleysu.

Einn daginn verður þjóðvegur nr. 1 orðinn ohf.

Mér er ekki skemmt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband