Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
4.9.2008 | 22:18
Sarah Palin
Ég hef verið að velta fyrir mér vali Republikana á varaforsetaefni, henni Söruh Palin. Vissulega skelegg og velútlítandi kona, þar að auki góður árgangur þar sem hún er víst jafnaldra mín.
En hjálp, gildin sem hún stendur fyrir.
- Algert bann við fóstureyðingum.
- Ævilangur félagi í félagsskap byssueigenda (við erum ekki að tala um að leyfa rifflaeign fyrir gæsaskytterí, það er heldur annar tilgangur með byssueign sem þessi félagsskapur miðar að).
- Gegn réttindum samkynhneigðra.
- Vill láta kenna "sköpunarfræði" í grunnskólum.
Það er ekki síst þetta með sköpunarfræðin sem mig sundlar yfir því með því tel ég markvisst unnið að fáfræði almennings og gegn vísindalegum framförum, sérstaklega í læknisfræði. Á hvaða þekkingarstigi er fólk sem vill að þetta sé kennt sem "vísindi"?
Ég vaknaði snemma í morgun og villtist í netráfi mínu inn á ræðuna hennar á flokksþingi Republikana í gærkvöld. Jú vissulega vel flutt ræða. En er nóg að vera góður ræðumaður til að verðskulda það að verða varaforseti Bandaríkjanna?
Ég held það þurfi heldur betur að skoða innihaldið og fyrir hvað blessuð konan stendur.
Því miður höfum við hér á klakanum ekki kosningarétt þarna úti og verðum að treysta á dómgreind kanans, hm..............
3.9.2008 | 20:56
Net fyrir atvinnulausa
Í fréttablaðinu í dag bls 16 er frásögn sem ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á.
Á Alþingi í fyrradag var fjallað um aðsteðjandi efnahagsþrengingar og vandamál vinnumarkaðarins sem birtist meðal annars í auknu atvinnuleysi. Geir Haarde sagði: "Þeir sem missa vinnuna geta treyst á netið sem sterkt velferðarkerfi býður upp á."
Eitthvað hefur Guðni Ágústsson verið utanvið sig því hann steig í pontu heldur þungur á brún og fannst Geir ekki sýna vandanum tilhlýðilega alvöru: "Og forsætisráðherra segir fólki bara að treysta á netið!"
Nú er það spurningin hvort okkar "sterka" velferðarkerfi býður atvinnulausum upp á fría nettengingu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2008 | 21:10
Viðskiptafélagar í veiðiferð - Trimmklúbbur í fjallgöngu
Í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 var forsætisráðherra í viðtali hjá Svanhildi Hólm. Svanhildur má eiga það að hún stóð sig bara vel, þjarmaði ákveðið en kurteislega að herranum sem átti satt best að segja ekki mörg svör við sumum spurningunum.
Svanhildur spurði í lokin meðal annars um laxveiði heilbrigðisráðherra en það er mál sem mér finnst fjölmiðlar hafa forðast eins og heita kartöflu. Geir svaraði því til að Guðlaugur hefði borgað sjálfur og þó við fengjum enga staðfestingu á því þá yrðum við bara að ráða hverju við trúum.
Ég hef alveg ákveðið það fyrir mína parta. Setjum upp smá dæmisögu. Segjum svo að þeir kumpánar hefðu farið í ferðina með mér og félögum mínum í TKS á Hrútfjallstinda í fyrravor. Segjum að þeir félagar séu félagar í Trimmklúbbnum og Haukur hefði meira að segja af alkunnum rausnarskap boðið okkur hinum líka enda vinskapur með öllum félögunum í klúbbnum sérdeilis mikill. Haukur gamall hlaupafélagi og vildi gera vel við vini sína. Þarna voru semsagt Guðlaugur, Vilhjálmur, Björn Ingi, Haukur, og svo fjármálastjóri Baugs Stefán Hilmar Stefánsson sem reyndar er ekki félagi í TKS en kom með vegna mikils vinskaps við Hauk. Já og svo við hin.
Semsagt nú snýr dæmið þannig að aðalleikararnir í REI málinu fóru í gönguferð á Hrútfjallstinda ásamt vinum sínum í TKS. Haukur borgaði brúsann. Finnst einhverjum þetta siðlaust?
Nei mér finnst þetta dæmi ekki siðlaust en afar fjarstæðukennt. Munurinn á þessu dæmi og veiðiferðinni er ekki hver borgaði hverjum eða hvað ferðin kostaði. Munurinn felst í að þarna var fleira fólk með. Fólk sem hvergi kom við sögu í REI málinu. Þá trúir almenningur að hópur vina sé á ferð.
Þegar vinahópurinn samanstendur af aðalleikurum í viðskiptum sem ekki allir eru sammála um að eðlilega hafi verið staðið að, þá fyllumst við grunsemdum.
Í mínum huga skiptir þessi kvittun sem Guðlaugur vill ekki framvísa ekki máli, aðalleikararnir fóru saman að veiða, þarna voru engir utanaðkomandi og það er nógu óeðlilegt til að ég fyllist grunsemdum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2008 | 22:21
Fréttir vikunnar (og það er bara fimmtudagur)
14,5% verðbólga
Mannekla á frístundaheimilum
Ljósmæður fá ekki menntun sína metna
Hópuppsagnir hjá Ístak og Pósthúsinu
Já það er þröngt í búi hjá smáfuglunum þessa dagana. Við skyldum ætla að stjórnvöld gæfu okkur gott fordæmi. En nei á þessum sama tíma gefa stjórnvöld okkur eftirfarandi skilaboð:
Samgöngunefnd Alþingis gistir á Hóteli á höfuðborgarsvæðinu
Menntamálaráðherra, maki og ráðuneytisstjóri ferðast eins og jójó til Kína
Forgangsröðunin greinilega á hreinu.
Og við gleymum okkur í tilfinningahitanum við að horfa á sjónvarpið þar sem hægt er að sjá beina útsendingu af flugvél fljúga yfir Reykjavík. Bara af því að handboltalandslið er innanborðs þá er þetta sjónvarpsefni. Myndavélin staðsett ýmist á húsi héraðsdóms (eða var það hæstiréttur?) eða Hallgrímskirkju.
Æi, hvert stefnum við.
Mér finnst eins og fjölmiðlar og stjórnvöld geri lítið úr almenningi, daglega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.8.2008 | 21:37
Stórar skólatöskur með lítil börn á leið í skólann
Þessa dagana er fjöldi 6 ára barna að hefja sína skólagöngu. Það er ætíð ákveðin athöfn að velja fyrstu skólatöskuna. Má þá stundum vart á milli sjá hver er spenntari, barnið eða foreldrarnir sem eru fullir stolts.
Ég hef hins vegar lengi furðað mig á stærð þeirra skólataska sem eru á markaðnum. Þær eru alltof stórar fyrir líkama 6 ára barna. Hvaða nauðsyn er á því að 6 ára börn (já 7, 8 og jafnvel 9 ára) noti bækur af stærðinni A4? Minni bækur hæfa þessu smáfólki mun betur, það að bjóða þeim upp á þessa stærð er rétt eins og pappír okkar fullorðna fólksins væri af stærðinni 2xA4 (er það ekki A3? er ekki viss).
Einnig furða ég mig á því að börnin þurfi yfirhöfuð töskur. Mögulega undir nesti en í flestum skólum er farið að bjóða upp á heitan mat. Heimavinna barna á þessum aldri ætti að vera liðin tíð þar sem skóladagurinn er það langur að hann ætti að teljast fullur vinnudagur fyrir þau.
Hvað er það sem börnin þurfa að burðast með fram og til baka milli heimilis og skóla í þessum stóru töskum?
Er ekki tímabært að útrýma skólatöskum fyrir börn undir 10 ára aldri?
24.8.2008 | 22:21
Veiðimennirnir í Miðfjarðará ánægðir með handboltalandsliðið!
Íslenska handboltalandsliðið toppaði á hárréttum tíma............. í fleiri en einum skilningi. Árangur þess þarf ég ekki að mæra, það er margbúið að gera það í ræðu og riti.
Alveg er ég þess fullviss að veiðimennirnir Haukur Leósson, Björn Ingi Hrafnsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þór Þórðarson séu hæstánægðir með frammistöðu íslenska handboltalandsliðsins í fleiri en einum skilningi. Hver nennir að velta fyrir sér veiðiskap þeirra á seinasta ári dagana þegar íslendingar vinna silfur á ólympíuleikunum?
ENGINN
Fjölmiðlar eru stútfullir af fréttum af þessum viðburði og meira að segja nöldurskjóðan ég, nenni ekki að fylgjast með neinum öðrum fréttum, vil bara sjá handboltatröllin í tilfinningarússíbananum sem fylgir svona frammistöðu.
Aðeins eyjan.is hefur reynt að halda okkur við efnið, sjá hér og hér.
Hvað sem því líður þá sakna ég meiri umfjöllunar um þetta mál, mögulega á það eftir að koma.
Guðlaugur heilbrigðisráðherra fullyrti strax í upphafi að hann hafi greitt Hauk Leóssyni veiðileyfið eftir ferðina. Alveg er eftir að krefja hann skýringa á því á hvaða kjörum Haukur lét hann fá leyfið. Skv frétt á visir.is nú fyrir helgi þá greiddi Haukur Baug fyrir heildarpakkann aðeins brot af því sem veiðileyfið kostaði eða 480 þús. Samkvæmt visir.is kostuðu þessir 3 dagar 600 þús fyrir ein hjón eða um 1.8 millj. alls þannig að afsláttur Baugs til Hauks var verulegur.
Spurningin sem ég vil fá svar við er þessi: Greiddi Guðlaugur Hauki listaverð fyrir sinn hluta eða einungis sinn hluta af þessum 480 þús.?
Ef Guðlaugur greiddi listaverð (600 þús fyrir þau hjónin) þá var ferðin í boði Guðlaugs. Þá meina ég Guðlaugur borgaði fyrir alla hina og gott betur, Haukur fékk hærri upphæð en hann greiddi Baug.
Ef hann greiddi bara sinn hluta af 480 þúsundunum þá var Guðlaugur að veiða í Miðfjarðará í boði Baugs.
Ef Guðlaugur greiddi bara sinn hluta (rúmlega 100 þús) mátti hann vita að hann væri að greiða þetta á undirverði.
Vissi Guðlaugur að ferðin var niðurgreidd?
Svar: Ef maðurinn hefur minnsta verðskyn þá mátti hann a.m.k. vita það.
Hvort er betra að heilbrigðisráðherra hafi vitað þetta en samt þegið ferðina, eða að hann hefði mátt vita það en ekki haft vit til að velta þessu fyrir sér?
Hvar eru fjölmiðlar okkar?
Við erum að tala um ráðherra í ríkisstjórn, mann sem talað er um sem mögulegan arftaka formanns Sjálfstæðisflokksins.
Finnst okkur þetta í lagi?
Bara af því að við erum svo glöð yfir því að við unnum silfur í handbolta á ólympíuleikunum?
Já og líka vegna þess að einn veiðimaðurinn vinnur á Fréttablaðinu, góður vinur hans er fréttastjóri Stöðvar 2 og morgunblaðið og RUV vernda sína menn.
Æi, ljótt er ef satt er.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.8.2008 | 23:03
Laxasalat
Í dag birtist á visir.is frétt um laxveiðiferð nokkurra lykilmanna í OR seinasta sumar. Einnig var þar á ferð heilbrigðisráðherra sem nota bene var nýhættur sem stjórnarformaður OR. Stangirnar allar skráðar á Baug en einhvern veginn er látið líta svo út sem Haukur Leósson þáverandi stjórnarformaður OR hafi borgað þetta, bara svona prívat og persónulega.
Já og svo hafi heilbrigðisráðherra gert upp við Hauk, svona prívat og persónulega, eftir á, án þess að hafa hugmynd um að stangirnar hafi verið skráðar á Baug.
Er virkilega ætlast til að við séum svo græn að við trúum svona löguðu? Hvernig er það, þegar félagar fara saman í frí, er það venjulega þannig að einn leggur persónulega út fyrir ferðinni og svo er gert upp við hann? Tja það fer nú allt eftir upphæðinni, við í saumaklúbbnum leigjum stundum bústað yfir helgi, ein borgar og svo allt gert upp eftir á jafnvel. Við erum að tala um nokkra þúsundkalla á mann. Þarna er verið að tala um 3 daga hver dagur á ca 150 þús og Guðlaugur gerði persónulega upp við Hauk sem hafði lagt út fyrir herlegheitunum.
Nei drengir þið verðið að gera betur ef við eigum að trúa þessu.
Þessi frétt fannst mér vera frétt dagsins, alveg þar til ég fylgdist með kvöldfréttum í ríkisútvarpinu, Stöð 2 og sjónvarpinu. Einungis sjónvarpið birti eitthvað um þetta og mogginn rétt minnist lauslega á þetta þar sem Vilhjálmur segir þetta hafa verið vinargreiða hjá Hauk.
Nei frétt dagsins er að fjölmiðlar virðast ekki hafa mikinn áhuga á þessu spillingarmáli. Hér er verk að vinna og hér þarf að grafa upp. Ef fjölmiðlum finnst þetta í lagi þá eru þeir dýpra sokknir en ég hafði gert mér grein fyrir.
19.8.2008 | 22:50
Dagbókarfærslur Matthíasar og bloggfærslur almúgans
Í umræðu manna á meðal heyrist stundum að bloggið sé ómerkilegur miðill, kjaftasögur nútímans. Vissulega er margt ritað og birt sem betur hefði verið ósagt látið, ýmislegt sem ekki á við rök að styðjast. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að blogg er þess eðlis og ber að lesa með slíkum fyrirvara.
Bloggið gerir okkur kleyft að birta samdægurs skoðanir okkar á mönnum og málefnum og erfiðara er fyrir t.d. stjórnmálamenn að þagga niður óæskilegar sögur. Miðillinn er algerlega óritskoðaður með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir.
Nú seinustu daga hafa verið birtar á netinu dagbókarfærslur fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins. Ekki ætla ég að leggja mat á sannleiksgildi þessara frásagna af tveggja manna tali, þær eru þó að mínu viti í besta falli upplifun annars aðilans. Það er þó ljóst að fyrir ekki meira en 10 árum höfðu ritstjórar þessa blaðs ótrúlegt vald yfir því um hvað umræðan í þjóðfélaginu snerist og bjuggu yfir upplýsingum langt umfram það sem eðlilegt var.
Ég held að með tilkomu netmiðla og bloggs sé slíkt óhugsandi í dag og er það vel. Bloggið gerir okkur sauðsvörtum almúganum kleyft að segja álit okkar á málefnum dagsins samdægurs, við þurfum engan að spyrja hvort skoðanir okkar séu einhverjum þóknanlegar. Mun erfiðara er að þagga niður umræðu sem almenningur vill halda á lofti og er það vel. Ritstjórar Morgunblaðsins hafa ekki lengur þau völd sem þeir virðast hafa haft og er það vel.
Getur verið að mest agnúist út í hugrenningar almúgans á blogginu, þeir sem gjarnan vildu sjá þá gömlu tíma aftur þegar Morgunblaðsritstjórarnir höfðu töglin og hagldirnar stjórnmálaumræðu samtímans?
4.7.2008 | 21:26
Hvernig metum við líf
Mál nokkurra lífvera á flótta hefur verið mjög í fréttum nú í vor og sumar.
Tvo Grænlendinga rak á land í Skagafirði í júnímánuði og fór þjóðin algerlega af límingunum þegar sá fyrri fékk ekki landvistarleyfi. Stjórnvöld sáu sitt óvænna og gripu til umfangsmikilla kostnaðarsamra aðgerða til að reyna að tæla þann seinni til að bjarga lífi sínu með afleiðingum sem öllum eru kunn.
Þá kemur að villtum Kenyabúa. Sá hafði komið hér áður, verið hér sem skiptinemi, gat haft samskipti við innfædda, hafði aðstoðað Íslendinga við þróunaraðstoð í heimalandi sínu en komist þar upp á kant við þarlend stjórnvöld og taldi sér ekki vært í sínu landi. Fannst honum nærtækast að leita á náðir lands þar sem hann þekkti eitthvað til.
Nei, okkur Íslendingum þótti ekki einu sinni taka því að taka málið til efnislegrar umfjöllunar þrátt fyrir að maðurinn væri búinn að vera hér mánuðum saman.
Það tók ekki nema nokkra klukkutíma að ákveða að senda hingað danskan dýralækni og sérhannað búr fyrir hælisleitandann í Skagafirði.
Í hverju felst munurinn?
Hvítur vs svartur
Ísbjörn vs maður
Skagafjörður vs Reykjavík
Umhverfisráðuneyti vs dómsmálaráðuneyti
Grænland vs Kenya
Já hvað er það sem skiptir máli þegar við berum þessi mál saman. Ég bara skil ekki í hverju munurinn liggur.
30.6.2008 | 21:31
Ég er hugsi
Að mínu mati hafa fjölmiðlar fjallað ótrúlega lítið um meint innherjaviðskipti Landsbankans með íbúðabréf áður en tilkynnt var um aðgerðir stjórnvalda þann 19. júní sl. Sjónvarpið var með stutta frétt um þetta á föstudagskvöld en Stöð 2 fannst þetta ekki fréttnæmt þann daginn. Jú bæði fréttablaðið og 24 stundir minntust á þetta í laugardagsblaðinu, rétt er það.
Ég lít hins vegar á að þetta sé stórmál. Nú er einhver rannsókn í gangi og á meðan þá gleymum við alveg um hvað málið snerist.
Var nauðsynlegt að forsætisráðherra kallaði bankastjóra Landsbankans til sín á sérstakan fund til að upplýsa hann um þetta áður en fjölmiðlar fengu þessar upplýsingar, hvaða nauðsyn kallaði á það? Ég er bara forvitin.
Hvaða nauðsyn var á því að viðkomandi bankastjóri sendi öðrum aðilum í fjármálaheiminum þessar upplýsingar fyrir lokun markaða þennan dag? Mér finnst að það þurfi að upplýsa okkur sauðsvartan almenning um þetta.
Fullyrt hefur verið að viðskipti Landsbankans með íbúðabréf seinasta klukkutíma fyrir lokun markaða hafi verið margföld miðað við hina bankana. Tilviljun? Ekki veit ég hvort svona gríðarlegar sveiflur geti verið í þessum viðskiptum, ef það er ekki venjan finnst mér ekki hægt annað en fyllast grunsemdum.
Nei, bankarnir hafa glatað trausti almennings og ég krefst þess að þessu máli sé haldið gangandi.
Ofurlaun í fjármálakerfinu hafa einmitt verið skýrð með því að þessu fylgi mikil ábyrgð og áhætta, menn verða þá að gangast við bæði ábyrgðinni og áhættunni og taka því ef þeim verði fótaskortur á svellinu.
Var samkomulag í ríkisstjórninni um að gefa þessar upplýsingar til ofangreindra aðila? Ef svo þá vil ég vita hvaða nauðsyn bar til að gefa þær út. Ef ekki þá skuldar forsætisráðherra okkur skýringar, einhvers staðar hefði einhver þurft að segja af sér.
Ég hef fengið mig fullsadda af sjálftökuliðinu og misnotkun valds. Fjölmiðlar standa sig illa í að veita nauðsynlegt aðhald. Við almenningur verðum að halda vöku okkar og krefjast skýringa.