Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.10.2008 | 17:32
Á hliðarlínunni
Á heimili mínu, líkt og mörgum orðum, var fjármálakreppan rædd yfir kvöldmatnum. Við ræddum þetta í bæði víðu og þröngu samhengi, orsök og mögulegar afleiðingar. Ég benti unga fólkinu jafnframt á að þetta væri söguleg stund og við myndum alltaf muna eftir þessum degi, hvar við vorum stödd þegar forsætisráðherra flutti ræðuna sína kl 16.00. Síðan eftir einhver ár þegar lífið væri aftur komið í svipaðar skorður og fennt í þessa atburði þá væri þetta eins og hver önnur hindrun í lífinu.
Ég minnti á að afi þeirra og amma hefðu átt heimili í Vestmannaeyjum í gosinu og þannig hefði þetta verið fyrir þeim, það hefði verið verkefni sem tekist hefði verið á við og þannig væri þetta núna.
Sonurinn, björgunarsveitarmaðurinn, benti hins vegar á eftirfarandi: "En það er allt annað, þegar náttúruhamfarir verða þá fer maður bara í björgunarsveitargallann til að gera eitthvað, núna getur maður ekkert gert, maður horfir bara ráðþrota á."
"Já", sagði ég, "en við hin sem ekki erum í björgunarsveit, við getum ósköp lítið gert í náttúruhamförum".
"Jú, það er hægt að gefa pening í safnanir handa þeim sem misstu allt sitt þegar það verða náttúruhamfarir, það er ekki hægt núna".
Það er nefnilega nokkuð til í þessu, við stöndum svolítið á hliðarlínunni og bíðum hvað verður og höfum ekki tök á að grípa inn í með nokkrum hætti. Það er vond tilfinning.
6.10.2008 | 17:44
Umræða um neyðarlög
Eins og margir landsmenn sit ég og reyni að átta mig á hvaða hremmingar ganga nú yfir okkur. Að einhverju leyti skortir mig þekkingu og vit til að skilja hvað þetta raunverulega þýðir.
Miklu skiptir að börn séu upplýst um það sem vitað er og hvað þetta þýðir fyrir þeirra fjölskyldu en enn skortir mikið á að almenningur geti skýrt þetta út fyrir þeim, við fullorðna fólkið skiljum það ekki enn.
Ég horfi nú á umræður frá Alþingi. Innlegg tveggja þingmanna vil ég minnast á:
Steingrímur J. Sigfússon vill draga til ábyrgðar þá sem fyrir þessu stóðu. Það er kannski ekki verkefni dagsins í dag en svo mikið er víst að þetta er það sem við þessi sauðsvarti almenningur vil sjá. Ekki endilega opinberar refsingar, bara að nöfnin séu tilgreind þeim til ævarandi skammar. Almenningi svíður sú staðreynd að ástandið sé mögulega tilkomið vegna græðgi einungis 20-30 manna.
Guðni Ágústsson segir framsóknarmenn hafa varað við þessu. Mögulega má það til sanns vegar færa og sannarlega hefur ríkisstjórnin siglt um seinustu mánuði með bundið fyrir augun. En Guðni gleymir alltaf að minnast á hver var við stjórnvölinn þegar grunnurinn var lagður að þessum atburðum. Hver var í ríkisstjórninni sem einkavæddi bankana, lækkaði bindiskyldu, jók möguleika einstaklinga og fyrirtækja til skuldsetningar, réð Davíð Oddsson sem seðlabankastjóra? Það sem ég er að segja m.ö.o. leyfði íslensku hagkerfi að éta fíl. Guðni, stundum er bara betra að hafa lágan prófíl.
Nú er verkefnið að vinna saman á samfélagslegum nótum, styðja sameiginlega við þá sem eiga um sárt að binda vegna þessa. Einhvern veginn er mér það ofar í huga en spariféð okkar.
Var einhver að tala um félagshyggju?
ps. Það er náttúrulega grátbroslegt að það sé hægt að flokka færslur hér á blogginu undir "Landsbankadeildin". Líklega eiga flestar færslur í dag heima þar.
4.10.2008 | 11:07
Ég er sár, svekkt og hef skömm á..........
Fyrir um ári síðan birti ég færslu sem bar heitið "Reið". Nú þessa dagana bærast aftur í mér sterkar tilfinningar. Það er ekki reiði, ég hef ekki orð yfir þessa tilfinningu, mér finnst almenningur í landinu hafa verið misnotaður og valdhafar hafa staðið þegjandi hjá, án aðgerða. Orðin sem mér dettur í hug eru: sár, svekkt, skömm og svo einhver tómleikatilfinning, getur verið að þetta sé að gerast?
Þessar tilfinningar mínar beinast gegn:
- Stjórnvöldum undanfarinna ára sem með sínum aðgerðum og aðgerðaleysi leyfðu bönkunum að tútna út langt umfram það sem eðlilegt var miðað við stærð hagkerfisins og möguleika seðlabankans til að styðja við þá ef illa færi.
- Stjórnvöldum undanfarinna ára fyrir að hafa ekki í kjölfar einkavæðingar bankanna sett einhverjar reglur um bann við krosseignatengslum. Það getur ekki verið gott að bankarnir séu í eigu sömu manna og hafa mestu fjármálaumsvifin, afleiðingin er að þeir lána sjálfum sér umfram það sem eðlilegt er.
- "Útrásarliðinu" og öllum gölnu kaupréttarsamningunum. Hvað ætli að séu margar millur eða milljarðar sem bankarnir hafa borgað þannig út?
- Núverandi stjórnvöldum fyrir að hafa stungið höfðinu í sandinn seinustu mánuði og vonað að þetta lagist af sjálfu sér.
- Davíð Oddsyni fyrir að haga sér eins og eiræðisherrann yfir Íslandi
- Guðna Ágústssyni og Valgerði Sverrisdóttur fyrir að tala núna eins og þau hafi aldrei verið í ríkisstjórn. Valgerður gagnrýndi meira að segja að Davíð Oddsson væri Seðlabankastjóri, bíddu hver var bankamálaráðherra þegar hann var ráðinn?
Listinn er lengri en þetta er það sem mér datt fyrst í hug.
Ég á aðeins eina ósk, hún er sú að þegar við förum aftur að rétta úr kútnum þá munum við öll læra af þessu, veita stjórnvöldum og fjármálakerfinu meira aðhald, verðum sjálf ekki jafnauðtrúa á að skjótfenginn gróði sé endilega á hendi. Skiljum að eignir sem eru veðsettar í topp eru ekki raunverulegar eignir, lærum að spara, hægjum á okkur í lífsgæðakapphlaupinu.
1.10.2008 | 16:53
Krónan og raunveruleg verðmæti
Ég hef aldrei átt hlutabréf, mér hefur einhvern vegin þótt það áhættusamt. Minn sparnaður hefur ætíð verið í krónum á bankabók.
Í dag gerði ég mér grein fyrir því að það er verulega áhættusamt að geyma spariféð sitt í þessum krónum. Raunverulegt verðmæti krónunnar er að þurrkast upp. Það er verulega áhættusamt að eiga þennan gjaldmiðil og geyma þó ekki sé nema fermingapeninga unglingsins í þessum gjaldmiðli. Hann er ekki pappírsins virði fyrir utan landsteinana.
Nú er komið að því að launþegar landsins krefjist þess að fá launin sín uppgerð í raunverulegum verðmætum en ekki verðlausum gjaldmiðli. Þessi raunverulegu verðmæti hljóta þá að tengjast starfssemi á vinnustaðnum.
Hm, ég vinn í Blóðbankanum.................!
29.9.2008 | 21:30
Röskva
Röskva, samtök félagshyggjufólks í Háskóla Íslands, er 20 ára á þessu ári. Þessara tímamóta minntist Röskvufólk á Borginni sl. laugardagskvöld.
Í stefnuskrá Röskvu sem samþykkt var á stofnfundi hennar fyrir 20 árum kemur orðið félagshyggja 18 sinnum fyrir. Það segir meira en mörg orð um fyrir hvað þetta félags stendur.
Þegar við stofnuðum Röskvu trúðum við því að félagshyggjufólk næði betri árangri í baráttu sinni fyrir hugsjónum sínum með því að sameina krafta sína frekar en að vinna að þeim í mörgum minni fylkingum. Ég trúi því enn og mig dreymir enn um samvinnu félagshyggjufólks á landsvísu.
Á dögum eins og í dag þegar færa má rök fyrir að frjálshyggjan hafi beðið ákveðið skipbrot, okkar sameiginlegu sjóðir taka yfir það sem talið var glæst fley útrásarliðs, þá langar mig að horfa örlítið lengra, dreyma. Dreyma um að einhvern tíma verði kosið á ný í þessu landi, að þjóðin hafi lært eitthvað um fyrir hvað hægri menn standa og að það sé full ástæða til að nefna orðið félagshyggja 18 sinnum í einni stefnuskrá. Félagshyggja þýðir nefnilega að við viljum öll njóta þess þegar vel gengur og bera saman ábyrgð þegar illa gengur, ekki bara að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið.
Í fréttablaðinu á laugardaginn stóð: "Sjallar óvelkomnir á Borgina". Það gildir líka fyrir þá stjórn sem ég vil sjá í þessu landi.
Sjallar eru óvelkomnir í Röskvustjórn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.9.2008 | 20:51
Græða og grilla / Tapa og tárast
Mér varð það á í vikunni að nota góða hugmynd að bloggi í athugasemd á aðra færslu, það var nú kannski af því að færslan var kveikjan að hugmyndinni. Þannig var að Anna skólasystir mín skrifaði um sjálfstæðismennina sem áður vildu bara græða á daginn og grilla á kvöldin (sjá færslu Láru Hönnu frá því í janúar sl og einnig færslu mína frá sama tíma). Anna óttast að þeir séu bara núna að tapa á daginn og eldi inni á kvöldin. Ég held svei mér þá að þeir hafi ekki þrek í að elda, þeir eru bara að reikna tapið og svekkja sig á því.
tapa á daginn og tárast á kvöldin
taka skal stöðu gegn íslenskri mynt
saman þeir verja og halda um völdin
verðbólgubálið mikla skal kynt
tapa á daginn og tárast á kvöldin
taka skal stöðu með íslenskri mynt
saman þeir verja og halda um völdin
verðbólgubálið mikla skal kynt
Ég get hins vegar ómögulega ákveðið mig hvort passi betur að þessir menn taki stöðu gegn krónunni, þar vísa ég auðvitað til þess að orðrómur er um að bankarnir geri þetta. Hitt er að vísan passi betur með því að segja að þeir taki stöðu með krónunni, þar vísa ég auðvitað til seðlabankastjóra DO sem má ekki heyra á minnst á annað en að hún sé fullgildur gjalmiðill.
18.9.2008 | 21:18
Nú er krónan ógæfuleg og óskiljanleg
Þegar fréttir eru skrifaðar í flýti geta dásamlegar ambögur orðið til. Í kvöld birtist á visir.is frétt eftirfarandi frétt:
Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir að atlaga sé gerð að krónunni, sem sé afskaplega ógæfuleg og óskiljanleg
Tja, ja, detta mér nú allar dauðar lýs úr höfði, er Davíð nú farinn að halda því fram að blessuð krónan sé ógæfuleg og óskiljanleg?
Ég hlustaði á viðtalið og einhvernveginn fannst mér akkúrat þetta ekki vera það sem hann átti við.
Ætli skýringin sé ekki sú að blaðamaður hafi aðeins misstigið sig í notkun á tilvísunarfornanfninu "sem". Svona misstök lífga aðeins upp á tilveruna á svona annars gráum degi.
17.9.2008 | 21:12
Hver leyfði íslensku hagkerfi að éta fíl?
Það er svo margt sem ég ekki skil................
Ég hef skilið mitt hlutverk sem foreldri þannig að ég eigi að setja börnum mínum reglur og gæta þess að eftir þeim sé farið. Einnig að passa að þau fari sér ekki að voða og geri ekki óskynsamlega hluti.
Ég tel að hlutverk stjórnvalda í samfélögum gagnvart þegnunum sé áþekkt foreldrahlutverkinu. Setja reglur í samfélaginu, gæta þess að eftir þeim sé farið og gæta þess að samfélagið skaði ekki sjálft sig með óskynsamlegum ákvörðunum.
Hvernig gátu stjórnvöld undanfarinna ára leyft íslensku hagkerfi að éta fíl?
Þessi samlíking er komin úr viðtali við Tryggva Herbertsson sérlegan fjármálaráðgjafa forsætisráðherra í Kastljósinu í gærkvöld. Í sömu setningu sagði Tryggvi að íslenska hagkerfið hefði verið byggt fyrir mun minni bita.
Á sama tíma var bindiskylda bankanna hjá Seðlabankanum lækkuð, fyrirtækjum og húseigendum gert kleyft að veðsetja sig meira en áður, vextir hér hærri en í löndunum í kringum okkur þannig að áhættusæknir erlendir fjárfestar hömstruðu svokölluð jöklabréf. Á sama tíma voru miklar virkjana og álversframkvæmdir.
Þetta kallar Tryggvi að við höfum étið fíl án þess að ráða við það.
En ég bara spyr: Hvað voru stjórnvöld á þessum tíma að hugsa? Þeirra aðgerðir voru allar í þá átt að hvetja til þessa fílsáts.
Sauðsvartur almenningur veit ekki einu sinni hvað þessi orð þýða: Bindiskylda, áhættustuðull, jöklabréf............
Ég hef hins vegar velt því fyrir mér hvaða áhrif þetta muni hafa á pólitískt landslag í framtíðinni. Frjálshyggjan hefur boðað sem minnst afskipti af markaði. Það þýðir að öllum á að vera frjálst að taka þá áhættu sem viðkomandi vill á hverjum tíma, á því skulu vera sem minnstar hömlur og afskipti ríkisins að vera sem minnst. Er mögulegt að afleiðing þessa fílsáts okkar verði að almenningur kalli eftir meiri hömlum og afskiptum stjórnvalda? Já og einnig meira eftirliti?
Ég tel að ekki veiti af, ekki hef ég löngun til að borga fyrir fílaát gróðafíkla.
Annars hef ég verið að reyna að bæta orðaforða minn eins og sést hér að ofan, þ.e. bindiskylda, áhættustuðull, jöklabréf o.fl. Ég rakst nefnilega á bloggfærslur frá því í vor þar sem þetta er útskýrt á mannamáli. Ég hvet áhugasama til að skoða þetta hér og hér.
13.9.2008 | 23:00
Rússarnir koma
Þegar stjórnvöld eiga í vandræðum heima fyrir hefur stundum verið sagt að nauðvörn þeirra sé að efna til ófriðar, herja á önnur lönd. Svona svo sauðsvartur almúginn hætti að hugsa um þrengingarnar heima fyrir.
Bush stjórnin sagði hryðjuverkamönnum stríð á hendur, stríð sem vonlaust er að taki endi.
Geir Haarde veifar Rússagrýlu.
Ekki hafði ég hugmyndaflug í að ráðaleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart efnahagsástandinu væri svona alvarlegt að það þyrfti að hræða okkur með yfirvofandi árásum frá Rússum.
11.9.2008 | 21:10
Íslenski þjóðbúningurinn og þjóðsöngurinn
Seinustu daga hafa pilsklæddir karlmenn prýtt miðbæ Reykjavíkur. Flestir eru auk þess berleggjaðir og ég segi nú bara ekki meir. Ég átti leið um bæinn í gær og fannst þetta lífga verulega upp á tilveruna.
Þegar landsleikurinn hófst í gær var ég með sjónvarpið opið. Fyrst var íslenski þjóðsöngurinn sunginn, hljómfögur söngrödd ómaði, enginn fjöldasöngur. Svo kom sá skoski, aftur hljómaði falleg söngrödd en berleggjuðu skotarnir í köflóttu pilsunum stálu senunni og yfirgnæfðu söngkonuna.
Mikið öfundaði ég þá. Þjóðbúningurinn okkar eru þvílík spariföt að það klæðist þeim varla nokkur maður. Þjóðsöngurinn okkar er ekki óður til lands og þjóðar sem fyllir okkur stolti og hvetur okkur til dáða. Þjóðsöngurinn er óður til Guðs og hefur ekkert með land og þjóð að gera, textinn er tyrfinn og lagið getur enginn sungið.
Þjóðsöngur á að æra upp í manni þjóðerniskenndina og fylla mann stolti yfir því að tilheyra þessari þjóð og minna mann á hversu vænt okkur þykir um landið okkar. Hvaða línur í þessum texta gera það?
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:/: Íslands þúsund ár, :/:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Það vill svo til að við eigum texta sem uppfyllir það að æsa upp í manni þjog lagið við textann er grípandi og auðvelt að syngja:
Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig dreymir,
Ísland í vonanna birtu þú sérð,
Ísland í sumarsins algræna skrúði,
Ísland með blikandi norðljósa traf.
Ísland að feðranna afrekum hlúði,
Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.
Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.
Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.
Það er verra með þjóðbúninginn, sé ekki alveg hvernig við eigum að breyta honum þannig að hann henti fyrir klæðnað fyrir áhorfendur á íþróttaleikjum.