Íslenski þjóðbúningurinn og þjóðsöngurinn

Seinustu daga hafa pilsklæddir karlmenn prýtt miðbæ Reykjavíkur. Flestir eru auk þess berleggjaðir og ég segi nú bara ekki meir. Ég átti leið um bæinn í gær og fannst þetta lífga verulega upp á tilveruna.

Þegar landsleikurinn hófst í gær var ég með sjónvarpið opið. Fyrst var íslenski þjóðsöngurinn sunginn, hljómfögur söngrödd ómaði, enginn fjöldasöngur. Svo kom sá skoski, aftur hljómaði falleg söngrödd en berleggjuðu skotarnir í köflóttu pilsunum stálu senunni og yfirgnæfðu söngkonuna.

Mikið öfundaði ég þá. Þjóðbúningurinn okkar eru þvílík spariföt að það klæðist þeim varla nokkur maður. Þjóðsöngurinn okkar er ekki óður til lands og þjóðar sem fyllir okkur stolti og hvetur okkur til dáða. Þjóðsöngurinn er óður til Guðs og hefur ekkert með land og þjóð að gera, textinn er tyrfinn og lagið getur enginn sungið.

Þjóðsöngur á að æra upp í manni þjóðerniskenndina og fylla mann stolti yfir því að tilheyra þessari þjóð og minna mann á hversu vænt okkur þykir um landið okkar. Hvaða línur í þessum texta gera það?

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:/: Íslands þúsund ár, :/:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Það vill svo til að við eigum texta sem uppfyllir það að æsa upp í manni þjog lagið við textann er grípandi og auðvelt að syngja:

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig dreymir,
Ísland í vonanna birtu þú sérð,
Ísland í sumarsins algræna skrúði,
Ísland með blikandi norðljósa traf.
Ísland að feðranna afrekum hlúði,
Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.

Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.

Það er verra með þjóðbúninginn, sé ekki alveg hvernig við eigum að breyta honum þannig að hann henti fyrir klæðnað fyrir áhorfendur á íþróttaleikjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nei ekki "Ísland er land þitt"! Það er hræðileg vella sem allir verða leiðir á eftir að hafa sungið nokkrum sinnum. Það eru til önnur ágæt lög eins og "Hver á sér fegra föðurland", "Land míns föður" og fleiri. Textinn þarf annars ekki að vera hylling á landinu. Ljóðið sem Skotarnir sungu, "Flower of Scotland", er um sigur í orustu á miðöldum.

Skúli Pálsson (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 23:23

2 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Þannig að Táp og fjör væri sambærilegt og allir geta sungið

Erna Bjarnadóttir, 12.9.2008 kl. 13:04

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Mér hefur alltaf fundist gaman að syngja Táp og fjör, sem þjóðsöngur finnst mér það nú æði karllægt. Sem þjóðsöngur fyrir landsliðsleik í karlafótbolta sæmir það sig ágætlega.........en engan vegin í kvennaboltanum

Kristjana Bjarnadóttir, 12.9.2008 kl. 14:57

4 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

en kátir voru karlar og allar kerlingar hlógu og hlupu ......... út í sjó.....................

Erna Bjarnadóttir, 12.9.2008 kl. 21:36

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég er sammála þér, Kristjana - og um leið ósammála Skúla. Mér finnst "Ísland er land þitt" einmitt mjög fallegt lag og textinn dásamlegur. Og hver sem er getur sungið það!

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.9.2008 kl. 22:29

6 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Bæði Þjóðsöngurinn og Ísland er land þitt æra upp í mér þjóðerniskenndina.  Pabbi kallaði alltaf á mig þegar Þjóðsöngurinn var spilaður í dagskrárlok á sunnudögum,  í gamla daga og bað mig að horfa á og hlusta.  Mér þykir því afar vænt um Þjóðsönginn.  Ísland er land þitt er þó ekki síðra, að mínu mati.  Algerlega gullfallegur texti.  

Anna Einarsdóttir, 13.9.2008 kl. 09:19

7 identicon

Já Kristjana þú hefðir betur komið með okkur kellingunum yfir til Glasgow í s.l. haust. Þar var enginn skortur á köllum í pilsum enda enn einn landsleikurinn í gangi. Reyndar var líka hægt að berja augum athyglisverða sýningu í GoMa listasafninu, sýningin var minnir mig kölluð Blind Faith og fjallaði á breiðum grundvelli um hópsálina og hvernig stórir hópar fylgja sinni köllun gagnrýnilaust. Þar var einmitt stór veggur þakinn ljósmyndum, eftir listamanninn Roderick Buchanan, af fótboltamönnum og bullum í búningum og með flögg hlaðin sameiningartáknum.

Þó mér finnist Ísland er land þitt fallegt þá verð ég að vera sammála Skúla. Hver á sér fegra föðurland eftir Huldu - Unni Benediktsdóttur Bjarklind kemur bæði út á mér gæsahúð og tárum.

Ásdís (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband