Laxasalat

Í dag birtist á visir.is frétt um laxveiðiferð nokkurra lykilmanna í OR seinasta sumar. Einnig var þar á ferð heilbrigðisráðherra sem nota bene var nýhættur sem stjórnarformaður OR. Stangirnar allar skráðar á Baug en einhvern veginn er látið líta svo út sem Haukur Leósson þáverandi stjórnarformaður OR hafi borgað þetta, bara svona prívat og persónulega.

Já og svo hafi heilbrigðisráðherra gert upp við Hauk, svona prívat og persónulega, eftir á, án þess að hafa hugmynd um að stangirnar hafi verið skráðar á Baug.

Er virkilega ætlast til að við séum svo græn að við trúum svona löguðu? Hvernig er það, þegar félagar fara saman í frí, er það venjulega þannig að einn leggur persónulega út fyrir ferðinni og svo er gert upp við hann? Tja það fer nú allt eftir upphæðinni, við í saumaklúbbnum leigjum stundum bústað yfir helgi, ein borgar og svo allt gert upp eftir á jafnvel. Við erum að tala um nokkra þúsundkalla á mann. Þarna er verið að tala um 3 daga hver dagur á ca 150 þús og Guðlaugur gerði persónulega upp við Hauk sem hafði lagt út fyrir herlegheitunum.

Nei drengir þið verðið að gera betur ef við eigum að trúa þessu.

Þessi frétt fannst mér vera frétt dagsins, alveg þar til ég fylgdist með kvöldfréttum í ríkisútvarpinu, Stöð 2 og sjónvarpinu. Einungis sjónvarpið birti eitthvað um þetta og mogginn rétt minnist lauslega á þetta þar sem Vilhjálmur segir þetta hafa verið vinargreiða hjá Hauk.

Nei frétt dagsins er að fjölmiðlar virðast ekki hafa mikinn áhuga á þessu spillingarmáli. Hér er verk að vinna og hér þarf að grafa upp. Ef fjölmiðlum finnst þetta í lagi þá eru þeir dýpra sokknir en ég hafði gert mér grein fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Þeir treysta því að við gleymum og séu ekkert að fylgjast með of mikið.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 20.8.2008 kl. 23:26

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég trúi ekki orði af þessu bulli og mun engu gleyma!

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.8.2008 kl. 02:09

3 identicon

Blessuð góða, trúðir þú virkilega að fjölmiðlar hefðu metnað á þessu sviði ætli það sé ekki helst að treysta á DV

Gáfnaljós (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 11:28

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Í allri minni tortryggni og gaspri er ég líklega svo saklaus að ég í alvöru trúði að fjölmiðlar hefðu metnað til að fjalla um þetta. Líklega er skýringin sú að annar helmingur íslenskra fjölmiðla er í eigu Baugs en hinn með einum eða öðrum hætti undir hælnum á Sjálfstæðisflokknum.

Ég ætlast til að þetta sé tekið fyrir og er enn ekki úrkula vonar með það. Mogginn birtir viðtal við Dag í dag um þetta og Svandís fjallar skelegglega um þetta á fundi borgarstjórnar í dag. Ég er enn bláeyg og trúi því að við fáum að heyra meira um þetta.

Annars er ýmislegt fleira skrýtið sem komið hefur upp á borðið seinustu daga sem of lítið hefur verið fjallað um að mínu mati. Sem dæmi um það er hvaðan uppkaup Rvíkur að húsunum að Laugavegi 2-4 er runnið. Það mál fékk furðulitla umfjöllun.

Kristjana Bjarnadóttir, 21.8.2008 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband