Hífa, slaka, gera eitthvað

Ég er haldin miklum tvískinnungi varðandi virkjanir, umhverfismál og stóriðju. Tvískinnungurinn er eftirfarandi:

  1. Ég vil ekki að fleiri náttúruperlur verði virkjunum að bráð að sinni. Á seinustu árum hefur verið farið alltof geyst í þessum efnum og framkvæmt af miklu kappi en minni forsjá. Ég held að þegar við gerum okkur grein fyrir mikilvægi ósnortinnar náttúru Íslands verði það of seint, hún verði ekki lengur ósnortin þegar ráðamenn og stór hluti almennings, hefur áttað sig á því.
  2. Ég tel að bygging fleiri álvera á Íslandi sé áhættusamt því með því erum við "að leggja öll eggin í sömu körfu". Við erum um of háð verði á einni tegund hráefnis.
  3. Stóriðja hverskonar með mörgum störfum á stað þar sem áður bjuggu til að gera fáir, er klárlega mikil lyftistöng fyrir viðkomandi svæði. En hvað með alla hina staðina sem eiga undir högg að sækja?

EN:

  1. Hvað er til ráða þegar skerðing á fiskveiðiheimildum er staðreynd? Staðreynd sem líklega er komin til með að vera um lengri tíma.
  2. Ef við höfnum alfarið virkjanaáformum og stóriðju, hvaða aðrar lausnir höfum við?
  3. Oft hefur verið talað um að lausnin felist í ferðamannaþjónustu, staðreyndin er að þar er um mjög árstíðabundinn rekstur og oft á tíðum eru þetta illa launuð störf.

Nú er álversumræðan hafin enn á ný, Helguvík og/eða Bakki við Húsavík. Ég tel hvoru tveggja vera slæma kosti.

Helguvík vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið. Hingað hefur flust gríðarlegur fjöldi fólks af landsbyggðinni á seinustu árum. Það er alveg óþarfi að auka það enn frekar.

Bakka við Húsavík tel ég slæman kost því svo stór vinnustaður sem álver er kallar á mikinn fólksfjölda til viðbótar þeim íbúum sem þarna búa í dag. Gerum við ráð fyrir að mikill fjöldi Íslendinga flytji til Húsavíkur og vinni í álverinu þar? Hvað segir reynslan frá Reyðarfirði okkur?

Getum við verið þess fullviss að svona gríðarleg fjárfesting skili sér í atvinnuuppbyggingu fyrir innlent vinnuafl?

Þó svo við séum fullviss um þetta þá fylgja því miklir búferlaflutningar, er það markmiðið? 

Slíkir búferlaflutningar væru þá væntanlega á kostnað annarra svæða.

Er ekki betra að hugsa aðeins smærra þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, þannig að það sem gert er nýtist á fleiri svæðum?

Aftur kem ég þá að tvískinnunginum mínum, ég er sannarlega á móti hvers kyns stóriðju og virkjunum þeim tengdar. Landsbyggðin hrópar hins vegar á aðgerðir og fátt er um góðar hugmyndir.

Spurningin snýst einnig um hvort hlutverk stjórnvalda sé að skapa störfin eða að skapa umhverfi fyrir heilbrigt atvinnulíf. Hátt gengi krónunnar og hátt vaxtastig hefur klárlega ekki hjálpað útflutningsgreinunum undanfarin ár. Gildir þar einu hvort um er að ræða fiskvinnslu eða hátækniiðnað.

Hífa, slaka, gera eitthvað, eru stórvirkjanir og stóriðja réttlætanleg á þeim forsendum?

Ég segi nei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Þetta er nú tvískinnungur í besta lagi, hvaða reynsla er það frá Reyðarfirði sem er svona slæm við það að þar fjölgi fólki ??? ef stöðva á flóttann af landsbyggðinni tala nú ekki um að snúa honum við hljótum við að vera tala um að fólki fjölgi jafnvel einhversstaðar - er eitthvað slæmt við það!

Erna Bjarnadóttir, 20.2.2008 kl. 09:27

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Erna mín, þetta er bara sami tvískinnungur og flestir Íslendingar eru haldnir, nema hörðustu virkjanasinnarnir.

Fátt um aðrar hugmyndir um atvinnusköpun á landsbyggðinni en við viljum hlífa náttúrunni.

Hvað varðar reynsluna frá Reyðarfirði þá er þarna spurningamerki, ég hreinlega þekki það ekki. Þar meina ég að hvað miklu leiti er sú uppbygging að gagnast innlendu vinnuafli? Er það komið í ljós? Erum við tilbúin í aðra slíka framkvæmd sem mögulega hefur í för með sér mikinn innflutning verkafólks? Mér finnst ástæða til að velta þessu fyrir sér.

Stærsta spurningin er hvernig gagnast uppbygging á einum stað landsbyggðinni í heild? Það er spurningin sem liggur að baki þessum pistli mínum.

Kristjana Bjarnadóttir, 20.2.2008 kl. 10:01

3 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Sko, nú verður stundum að vega og meta hvaða náttúruspjöll eru nauðsynleg til framfara. Það verður að virkja einhverstaðar. Það sem mér finnst hins vegar blóðugast er að við erum að fórna náttúruperlum til þess að niðurgreiða orku í stalíníska stóriðju. Þegar við erum búin að selja orkuna til álrisa á útsöluverði verður hún ekki notuð í eitthvað annað. Ég tel t.d. að vetnisframleiðsla, sem krefst mikillar orku, geti verið framtíðin og miklu hagkvæmari þegar til lengdar er litið en mengandi stóriðja. Hins vegar virkjum við ekki aftur á sama stað til annarrar framleiðslu en áframleiðslu eftir að við erum búin að selja orkuna einu sinni. Það er blóðugt að við séum tilbúin til að fórna náttúrunni fyrir álframleiðslu frekar en eitthvað annað í framtíðinni. Hættum þessari álvitleysu, það er komið meira en nóg.

Að lokum, ég er svo sem ekki á móti því að byggja álver í Helguvík svo lengi sem við lokum þessu fáránlega álveri í Straumsvík, sem er núna komið inn í byggð. Lokum Straumsvík og flytjum það álver til Helguvíkur.

Guðmundur Auðunsson, 20.2.2008 kl. 11:18

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það eru auðvitað ýmsir fletir á þessu máli.  Ég var hlynnt Kárahnjúkum vegna þess að það varð eitthvað að gera fyrir þetta svæði og mér finnst náttúran þarna uppi ekki neitt sérstök.  Nú vil ég hins vegar segja stopp.  Ekki meiri stóriðju.  Mér er alveg sama þótt herða þurfi sultarólina aðeins og mín vegna mætti erlendu starfsfólki fækka umtalsvert.....  landið okkar er of verðmætt til að skemma það og við Íslendingar höfum gott af því að slaka aðeins á í þessu blessaða lífsgæðakapphlaupi. 

Kjörorðið er:  Tökum brosandi á móti kreppunni - aftur til náttúrunnar - ekkert sjónvarp á fimmtudögum. 

Anna Einarsdóttir, 20.2.2008 kl. 18:22

5 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

1. Af hverju Erna mín - ?? Eru mínar skoðanir verri en þínar?

2. Hvar mega útlendingar vinna?? Hvað mega vera margir útlendingar t.d. á Hvanneyri??

3. Veit ekki betur en flestir starfmenn Alcoa á Reyðarfirði séu  íslendingar allavega margir og ekki fá allir vinnu þar sem sækja um.

Erna Bjarnadóttir, 21.2.2008 kl. 08:59

6 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Erna:

  1. Þú er mín af því þú ert systir mín. Þínar skoðanir eru jafngildar mínum, ég hins vegar átta mig ekki vel á hverjar þær eru í þessu máli
  2. Íslendingar eru hluti af Evrópsku efnahagssvæði með frjálsu flæði vinnuafls, hins vegar finnst mér orka tvímælis að við séum að leggja í mikla uppbyggingu sem leiðir til mikils innstreymis erlends vinnuafls. Ef við gerum það verðum við að vera í stakk búin til að taka vel á móti þeim, sem ég held að við séum ekki.
  3. Ég bendi aftur á að í pistlinum er spurningamerki við hvernig þetta er á Reyðarfirði. Ég bendi líka á að í pistlinum segi ég að: "Stóriðja hverskonar með mörgum störfum á stað þar sem áður bjuggu til að gera fáir, er klárlega mikil lyftistöng fyrir viðkomandi svæði". Enn og aftur: Hvað með alla hina staðina?

Kristjana Bjarnadóttir, 21.2.2008 kl. 10:02

7 Smámynd: Solla Guðjóns

Já það er skiptar skoðanir á þessum málum.Ég er líka með þennan tvískynning.

Maðurinn minn heefur unnið við að skemma landi eins og ég segi oft síðastliðin 12-13 ár.Þ.á.m. Kárahnjúkum og Reyðarfirði.Við þessar framkvæmdir eru íslennskir starfsmenn trúlega um 10% starfsliðsins.....Ég tel að það sé ekki komið í ljós ennþá hvort hlutfallið verði álíka í sambandi við Alco........en ljóst er að þetta er gífurleg lyftistöng fyrir austurlandið..

Mér finnst líka mjög athyglisvert sem Guðmundur segir.

Góður pistill og ekki eru kommentin slæm.

Haldið endilega áfram systur

Solla Guðjóns, 21.2.2008 kl. 12:33

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta finnst mér ekki vera tvískinnungur, Kristjana... ekki í hinum hefðbundna skilningi þess orðs. Þetta eru eðlilegar vangaveltur þar sem litið er á fleiri en eina hlið málanna. Mjög skynsamlegar vangaveltur en erfitt að komast að einhverri einni niðurstöðu og aldrei hægt að gera öllum til geðs frekar en venjulega.

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.2.2008 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband