Snúast stjórnmál um menn eða málefni?

Nú er mesti hitinn rokinn úr REI skýrslunni, oddvitavandi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins er heldur ekki lengur frétt númer eitt hjá fjölmiðlunum.

Leifar umræðunnar eru þó á þá leið að Vinstri Grænir hamast við að benda á ágæti Svandísar og sköruglegrar framgöngu hennar. Einnig eru fjölmiðlar enn að pína fram stuðning eða ekki stuðning hinna ýmsu Sjálfstæðismanna við Vilhjálm. Vissulega á þetta hvort tveggja rétt á sér. Hinu megum við samt ekki gleyma að stjórnmál snúast ekki bara um persónur. Ég er nefnilega ekki frá því að búið sé að persónugera þetta mál um of.

Málið allt snýst nefnilega um eignarhald á orkuauðlindum. Teljum við að virkjunarréttur eigi að vera í eigu ríkisins, eða erum við að einhverju leiti, eða öllu leiti tilbúin til að selja það til einkaaðlila?

Þessari spurningu verða stjórnmálaflokkar að svara með skýrum hætti. Við skulum muna það að hlutur í Hitaveitu Suðurnesja hefur verið seldur til Geysir Green Energy. Orkuveita Reykjavíkur keypti einnig hlut í HS og einhverra hluta vegna var það skráð á REI. Skyndilega átti að sameina REI og GGE, eða jafnvel selja.

Gerðist þetta allt bara svona óvart, eða er þetta skv. stefnu Sjálfstæðisflokksins eða einhvers annars stjórnmálaflokks? Eigum við ekki rétt á að vita hver stefna stjórnmálaflokka er í þessu máli?

Ég vildi gjarnan að fjölmiðlar beindu aðeins kastljósi sínu að þessu og við fengjum að heyra afstöðu stjórnmálaflokkanna til þessa, ég vil ekki heyra neitt moð, ég vil heyra skýra afstöðu.

Í haust þegar REI málið kom upp varð umræða um þetta á alþingi. Þá sagði Geir Haarde eftirfarandi: "..................ég get tekið undir það sjónarmið, að orkulindirnar sjálfar eiga ekki endilega að vera andlag einkavæðingar". (ég fjallaði lítillega um það hér)

Getur verið að stjórnmálamenn reyni með þessu að tala óskýrt þannig að almenningur telji að þeir ætli að láta orkuauðlindirnar áfram vera í okkar eigu en laumast svo bakdyramegin til að selja það til einkaaðila "svona bara alveg óvart".

Getur verið að stefna sjálfstæðisflokksins um eignarhald á orkuauðlindum þoli illa dagsljósið og samræmist ekki vilja margra kjósenda hans?

Það geta verið rök fyrir að láta einkaaðila og áhættufjárfesta sjá um ákveðna þætti í þjóðlífinu. Ég vil þá heyra þau rök svo ég geti tekið afstöðu til þess og jafnframt að stjórnmálamenn og flokkar tali skýrt og standi og falli með þeirri afstöðu sem þeir kynna kjósendum sínum.

Við erum öll mannleg og viljum gjarnan kjamsa vandræðaganginum sem er í borgarstjórn Sjálfstæðisflokksins. Það er líka gaman að dásama dugnað og kraftinn í Svandísi.

Þetta eru hins vegar ekki stjórnmál, þau snúast um málefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála! Gott að einhverjir sjá í gegn um moldviðrið.

Hrós fyrir þessa færslu Kristjana.

Lilja (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband