Snilld Svandísar

Fjölmiðlar og bloggheimar gera nú harða hríð að Svandísi Svavarsdóttur fyrir að í Rei skýrslunni skuli enginn dreginn til ábyrgðar. Ég vil sjá þetta í öðru ljósi.

Snilld Svandísar felst í því að ná samstöðu um skýrsluna. Þrátt fyrir að orðalag hafi kannski ekki verið eins harðort og í þeim drögum sem kynnt voru í gær þá fer ekki á milli mála að víða var pottur brotin.

  • Afskipti FL group að samningsgerð á milli REI og OR sem voru vægast sagt óeðlileg.
  • Umboðsleysi kjörinna fulltrúa til ákvarðanataka á ýmsum stigum málsins.

Svona mætti lengi telja. Undir þetta kvitta borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem meðhöfundar að skýrslunni og í borgarráði. Þetta gera:

  • Þeir sömu og sögðu Vilhjálm vera áfram sinn oddvita eftir uppþotið í haust.
  • Þeir sömu og studdu hann sem sinn foringja í myndun núverandi meirihluta.
  • Þeir sömu og verða að gera það upp við sig að ári hvort þeir kjósa hann aftur sem borgarstjóra.

Nema Vilhjálmur verði hrakinn frá. Hvort er það neyðarlegra fyrir Vilhjálm að vera hrakinn burt af sínum eigin félögum eða af Svandísi Svavarsdóttur?

Hinn kosturinn er að þeir borgarfulltrúar sem kvitta upp á að allt sé satt og rétt sem sagt er í REI skýrslunni haldi áfram að styðja sinn mann.

Þetta er svona "no way out situation".

Nú verða Sjálfstæðismenn sjálfir að taka afstöðu til síns eigin foringja sem harðneitar að bera nokkra ábyrgð, hann ætlar bara að læra af mistökunum. Fyrir utan að hann hafði að eigin sögn umboð til að gera þetta allt saman, já og fjölmiðlar snúa bara út úr, hann var ekkert margsaga!

Við skulum heldur ekki gleyma því að ef sexmenningarnir títtnefndir hefðu mátt ráða í haust hefði REI verið selt strax á brunaútsölu og ekkert ljótt verið grafið upp. Það hentar oft í "fyrirmyndarfjölskyldum" að stinga vandamálunum ofan í skúffu.

Takið eftir að með því að hafa skýrsluna þó þannig að allir geti skrifað undir hana, verða þeir sjálfir að horfast í augu við að þarna hafi fjölmargt einkennilegt verið á ferðinni. Og taka ábyrgð á eigin gjörðum, eða ekki og verða að standa skil á því í næstu kosningum.

Svandís ber enga ábyrgð á gerðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og hennar pólitísku hagsmunir eru að þeir engist sem mest og lengst undir þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Ekki vantaði nafnaköllin þegar hún var í kasti á örlagadeginum sjálfum.

Þú ert vafalaust í Vinstri grænum og það er fallegt af þér að reyna að verja hina fallandi stjörnu þótt hún hafi bugðist okkur öllum.

Halla Rut , 7.2.2008 kl. 22:21

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Já ég hlýt að vera vinstri græn, hef lengi grunað það, líklega var ég í Sjálfstæðisflokknum þegar ég hældi Þorgerði Katrínu hér um daginn. Nei, ég vil að fólk fái að njóta þess sem vel er gert, hvar í flokki sem þeir standa. Má ekki tala vel um aðra en þá sem eru með sama flokksskírteini og maður sjálfur?

Það er hins vegar bara þannig þessa dagana að mér finnst oftar þeir á vinstri kantinum standa sig betur, a.m.k. í borgarmálunum.

Er Svandís fallandi stjarna af því að hún gengur ekki um með blóðbragð í munninum? Er það þannig pólitík sem þú vilt Halla Rut?

Kristjana Bjarnadóttir, 7.2.2008 kl. 22:28

3 identicon

Það er nefnilega sérstök list að semja skýrslur um erfið mál sem allir þátttakaendur í starfinu skrifa undir. Aðeins þannig verða slíkar skýrslur til einhvers gagns því ella getur hver smákóngurinn á fætur öðrum stigið fram síðar og bent á eitthvað sem viðkomandi er ósammála. Óháð öllu öðru þá tókst Svandísi hér vel til.

Gafnaljós (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 09:04

4 identicon

Ég segi bara eins og ég hef sagt áður: MIKIÐ ER ÉG FEGIN AÐ VERA EKKI REYKVÍKINGUR.

Alveg sama hvernig á málið er litið þetta er no no way out en endar eflauast á því að Villi verður látinn fara og málið er dautt.

Nema tárin bjargi honum (hvað er þetta með reykvíska borgarfulltrúa, vantar í þá kvenhormón??)

Bylgja (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 14:45

5 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Ja mikið er nú gott að vera í pólitíska örygginu hér í Mýrinni,,,,, svo hef ég líka heyrt að það sé gott að búa í Kópavogi

Erna Bjarnadóttir, 8.2.2008 kl. 15:23

6 identicon

Já, já, eða þannig.

Ásdís (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 16:11

7 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Góð færsla Kristjana.

Ég held að það sé hollt fyrir Höllu Rut og aðra sem eru að niðra Svandísi og aðra sem tóku slaginn í REI-málinu að rifja upp atburði haustsins. 

Hvert var málið að stefna í byrjun október? Hver var það sem reif í stýrið áður en í endanlegt óefni var komið. Það var búið að samþykkja samruna REI og GGE. Það var gert í einum hvelli til að unnt væri að tilkynna milljarðagróða fyrir FL-group á einhverjum eigendafundi úti í London til að bjarga því fyrirtæki úr skítnum.

Með öðrum orðum einkaaðilar voru búnir að festa klær sínar í eignir almennings sjálfum sér til framdráttar. Það var gert með samþykki allra í stjórn OR nema Svandísar. Hennar framgangur setti málið í þann farveg að öll einkavæðing og brask með þessar almenningseigur er slegin út af borðinu. Átti t.d. Bjarni Ármannsson ekki að græða heilar 500 milljónir strax á braskinu? Áttu ekki fleiri starfsmenn OR og REI að fá kaupréttarsamninga á gjafakjörum?

Var ekki lausn sexmenninga sjálfstæðismanna í borgarstjórninni að selja bæri REI sem fyrst til svokallaðra fjárfesta á útsölu.

Það er skiljanlegt að fólk vilji sjá blóð renna, en það er ekki hlutverk þessa stýrihóps. Nú á títtnefndur Vilhjálmur að verða borgarstjóri eftir ár, vel verndaður af bakvarðarsveit sinni. Svandís og Dagur eru í minnihluta og hafa því ekki afl til að koma í veg fyrir það.

Það sem gerir málið enn flóknara er að Þegar það hófst voru Sjálfstæðismenn í meirihluta og Vilhjálmur borgarstjóri, síðan tók við vinstri meirihluti í 100 daga. En nú þegar lokahönd var lögð á skýrsluna var sjálfstæðisflokkurinn aftur kominn til valda. Það er nú komið fram hvers vegna, það var svo mikilvægt fyrir sjálfstæðismenn að komast aftur til valda. Auðvitað til að fela sem mest af óþægilegum staðreyndum í skýrslunni.

Ekki má gleyma að mikið hefur unnist í þessu máli og komin önnur sýn á einkavæðingu og brask með almennigseigur. Vonandi verður þetta til þess að gengið verður varlegar um eigur almennings en ætlunin var í kring um REI.

Með kveðju,

Valgeir Bjarnason, 8.2.2008 kl. 18:10

8 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sæl Valgeirk

Takk fyrir þetta yfirlit, ekki vanþörf á að hressa aðeins upp á pólitískt minni okkar, það virðist ansi stutt hjá mörgum í þessu máli.

Kristjana Bjarnadóttir, 8.2.2008 kl. 19:54

9 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Kæri Haukur,

Þú vilt sjá blóð flæða, en þá verður líka að benda á hver á að vera böðullinn. Nú er kominn næstum sami meirihluti og kom þessu klúðri af stað. Þeirra er valdið. Villi verður borgarstjóri eftir ár!

Valgeir Bjarnason, 8.2.2008 kl. 21:32

10 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég spurði þrjá tölvufróða bloggara um eftirfarandi sem vakti athygli mína:

"Mig langar að spyrja þig hvernig getur staðið á því að könnunin sem nú er á vefsíðunni http://www.visir.is/ getur breyst eins hratt og raun ber vitni - ég trúi ekki mínum eigin augum.

Spurt er:  Á Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson að segja af sér í kjölfar skýrslu stýrihópsins um REI? Svarmöguleikar eða Nei að venju.

Fyrir um það bil 2-3 tímum var svarhlutfallið þannig að um 72% höfðu sagt .

Nú hef ég setið fyrir framan tölvuskjáinn og horft á þessa tölu hrapa svo hratt að það er hreint með ólíkindum. Ég geri ráð fyrir að einhver hundruð eða einhver þúsund manns hafi tekið þátt í könnuninni svo prósentutalan hreyfist ekki hratt við hvert atkvæði. Á hálftíma hafa tölurnar hins vegar breyst úr því að vera um 70% - 30% Nei í að vera um 49% - 51% Nei.

Hvernig er þetta hægt? Nú á hver og einn ekki að geta kosið nema einu sinni og þótt allur Sjálfstæðisflokkurinn hafi greitt atkvæði síðasta hálftímann hefðu tölurnar ekki getað breyst svona hratt, svo mikið veit ég. Ekki heldur þótt einhver hægrisinnaður tölvunörd hafi setið við tölvuna sína, eytt smákökunum, "refreshað" og kosið aftur.

Eru þeir hjá Vísi að falsa niðurstöðurnar eða geta kerfisstjórar úti í bæ greitt 100 atkvæði í einu eða eitthvað slíkt?

Það verður augljóslega ekkert að marka niðurstöðu þessa Kjörkassa Vísis, svo mikið er augljóst."

Þessir tveir tölvufróðu menn eru Steingrímur og Elías og Kári og verður fróðlegt að sjá svör þeirra.

------------------------------------

Fyrir um korteri skipa um spurningu í kjörkassa Vísis...

Þegar svörin voru orðin:  Já = 49,9%  og Nei = 50,1% var komið með nýja spurningu.

Grunsamlegt?

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.2.2008 kl. 21:36

11 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Svar Steingríms:

Auðvelt er fyrir þá sem að kunna að skrifa lítinn JAVAscript bút sem að kýs í sífellu frá sömu IP tölunni & eyðir sjálfkrafa þeirri 'köku' sem að liggur á vafra kjósandans sem að á að koma í veg fyrir að sami aðilinn geti kosið oftar en 2svar.

Þetta grunaði mig.

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.2.2008 kl. 21:41

12 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Svona netkannanir eru mjög óvísindalegar og gefa í besta falli einhverjar minni háttar vísbendingar.

Það að einhverjum detti í hug að föndra svona við þær er náttúrulega í senn fyndið og sorglegt. Þetta getur hæglega verið einhver tilfinningaríkur hægri tölvunörd með engin tengsl við flokkinn. Þetta gæti líka verið einhver á vegum flokksins. Í sjálfu sér skiptir það ekki máli, Vilhjálmur er einfær um að grafa sína gröf.

Það er finnst mér að koma betur í ljós snilldin við að láta alla standa að þessari skýrslu. Nú þurfa Sjálfstæðismennirnir sjálfir að taka á málum, geta ekki skýlt sér á bak við "vonda vinstri menn". Enn hefur enginn andað öðru út úr sér en að Vilhjálmur njóti fulls trausts, því lengur sem þeir halda því áfram því erfiðara verður þetta fyrir þá. Það er líka snilldin í þessu því það þjónar ekki hagsmunum vinstri manna að þetta sé þeim neitt sérstaklega létt.

Kristjana Bjarnadóttir, 8.2.2008 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband