Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
16.1.2008 | 22:12
Harry Potter og hans hyski
Ég hef nýverið lokið lestri seinustu bókarinnar um Harry Potter. Bókin er spennandi og heldur manni við efnið, það vantar ekki.
Í þessum bókum er gríðarlega mikil pólitík á milli línanna, barátta góðs og ills, tryggð og hollusta við vini og félaga, hversu langt nær hún, jafnvel í þeim tilvikum þegar einstaklingurinn er málstaðnum ósamþykkur.
Nú seinustu vikur hefur ákveðin stöðuveiting ákveðins setts dómsmálaráðherra verið milli tannanna á fólki, almenningur rís upp á afturfæturna og gagnrýnir. Merkileg hefur mér þótt viðbrögð margra samflokksmanna, með rökum sem órökum. Einhverra hluta vegna minnir þetta mig á samstöðu þeirra sem dvalið höfðu á Slytherin heimavistinni, jafnvel þó Voldemort færi fram með morðum, ofbeldi og órökum skyldi halda trúnað við hann.
Við veltum þessu fyrir okkur á kaffistofunni í dag, fundum nokkrar samsvaranir milli persóna í bókunum og í hinu pólitíska litrófi á Íslandi í dag. Ég tek það fram að þetta er eingöngu til gamans gert.
Sjálfstæðisflokkurinn er að sjálfsögðu Slytherin heimavistin og Gryffindor vinstri menn.
Voldemort = Davíð Oddsson
Harry Potter = Dagur B. Eggertsson (útlitslega finnst mér þetta sérlega fyndið!)
Ron = Guðmundur Steingrímsson (fær að vera með í fjörinu sem besti vinur Harrys)
Hermione = Svandís Svavarsdóttir (ótrúlega klár)
Lúna = Margrét Sverrisdóttir (Lúna var ekki á Gryffindor vistinni en var í bandalagi með Harry)
Faðir Lúnu = Að sjálfsögðu Sverrir Hermannsson
Neville = Sumir sögðu Björn Ingi, mér finnst Ólafur Magnússon betri
McGonagal = Jóhanna Sigurðardóttir, Ingibjörg Sólrún kemur til greina en aldurinn og nefið vinnur með Jóhönnu.
Draco Malfoy = Gísli Marteinn
Crabbe eða Goyle = Sigurður Kári mig vantar hinn
Ormshali = Árni Matthíssen (lítill karl sem fórnar sér fyrir herrann en það verður honum að falli)
Snape = Björn Ingi (Snape var meðlimur Fönixreglunnar en vann einnig með Voldemort, maður vissi aldrei í hvoru liðinu hann var)
Pearcy Weasley = Össur (Var á Gryffindor en langaði óskaplega að vera mikill maður og tilbúinn til að kyngja ýmsu til að það mætti verða)
Ekki gekk þetta nú fullkomlega upp því okkur reyndist ómögulegt að finna tvífara Dumbeldore, mér datt í hug Steingrímur Hermannsson, það er þessi landsföðurímynd, Dumbeldore hafði líka ýmsa mannlega breyskleika. Þessi tillaga mín fékk ekki nægilegan hljómgrunn. Þá stakk ég upp á Ólafi Ragnari en honum var líka hafnað. Ég hafnaði Jóni Baldvin. Hagrid sömuleiðis vantar tvífara, þó dettur mér Steingrímur J í hug. Þá er ég með prinsippfastan og sérvitran karakterinn í huga, ekki endilega útlitið.
Ég semsagt auglýsi eftir íslenskum Dumbledore.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.1.2008 | 18:03
Málefni liðinnar viku
Í liðinni viku hefur mikið verið fjallað um skipan dómara norðan heiða. Margar spurningar hafa vaknað, hvaða reynsla og mannkostir er vert að telja til þegar meta skal hæfni í svona embætti, er verið að veita svona embætti vegna ættartengsla eða kannski þrátt fyrir ættartengsl? Eiga menn að gjalda föður síns?
Dómara verður að veljavandi það mikill er.
Mannkosti mikla skal telja
meta sem vera ber.
Til vara í nefnd hefur verið
vonað og kallinu beðið.
Í Ljóðanefnd lesa skal kverið.
Lofa skal nýkrýnda peðið.
Ættar skal ei sinnar gjalda
ekki má hindra hans frama.
Til þjóðar kveðjuna kalda
ég kalla og er ekki sama.
Gengi hlutabréfa á mörkuðum hríðféll. Þeir sem áttu ekkert prísa sig sæla, þetta skiptir okkur engu máli, þvílík lukka. Þeir sem héldu að þeir væru ríkir í gær eiga bara skuldir í dag, þeir sem vissu að þeir væru ríkir í gær eru það enn í dag, þeir kunna að passa sitt.
Á fallanda fæti er gengið
fátækir horfa það á.
Hagnað sinn hafa fengið
hákarlar því skal ég spá.
20.12.2007 | 22:37
Fáránleiki í fréttatíma
Ríkissjónvarpið á það til að tapa sér algerlega í spennufréttum. Fréttamaður er gerður út af örkinni vegna einhverra atburða sem verið er að fjalla um, stillt upp fyrir utan höfuðstöðvar stofnunar eða samtaka sem tengjast fréttinni. Jafnvel í myrkri og vondu veðri. Tæknilið og fréttamaður látið bíða eftir réttu stundinni.
Í miðjum fréttatíma er lesinn inngangur að fréttinni, síðan er skipt yfir á niðurrigndan fréttamann utan við myrkvað hús, bein útsending. Augljóslega er ekkert að gerast en fréttamaðurinn fer yfir aðalatriði fréttarinnar.
Í kvöldfréttum sjónvarps í kvöld var ein svona sena. Landspítalinn þarf að draga saman seglin, engar nýráðningar á næsta ári en reyna á að komast hjá uppsögnum. Fréttamaður stendur fyrir utan myrkvaða byggingu Landspítalans og lýsir fjárhagsvanda spítalans. Hvað var að gerast á fimmtudagskvöldi 20. desember sem kallaði á beina útsendingu? Frétt um að ekki stæði til að segja upp starfsfólki um næstu mánaðamót?
Hvað var að gerast úti í myrkrinu sem gerði beina útsendingu nauðsynlega? Ekki einu sinni rætt við nokkurn enda allir sem tengdust fréttinni farnir heim að horfa á fréttirnar.
Ég óska eftir því að skattpeningum mínum sé varið í eitthvað annað en að borga fréttamönnum og tækniliði yfirvinnu fyrir að standa úti í myrkri og segja mér að mér verði ekki sagt upp um næstu mánaðamót.
14.12.2007 | 23:30
"Siðlaus" fræðsla Alnæmissamtakanna
Ég er í allan dag búin að velta fyrir mér hvort ég eigi að hlæja að Guðna Ágústsyni eða gráta yfir hans málflutningi. Á síðu 2 í Fréttablaðinu í dag er eftirfarandi fyrirsögn: "Guðni segir fræðslu siðlausa". Forvitni mín var strax vakin. Málið snýst í stuttu máli um að Alnæmissamtökin voru með forvarnarfræðslu í grunnskóla Vestmannaeyja og var kvartað við Guðna yfir að hún hafi verið "óviðeigandi".
Hjá mér vakna nokkrar spurningar:
- Af hverju er kvörtun yfir fræðsluefni utanaðkomandi samtaka send til Alþingismanna? Er ekki eðlilegra að skólayfirvöld fjalli um málið?
- Hvernig getur Guðni á þessu stigi málsins (það kemur fram að hann hafi ekki heyrt fyrirlesturinn) fullyrt að fræðslan sé siðlaus?
- Á hvaða leið er formaður Framsóknaflokksins? Fullyrðir einn daginn að "heiðingjar" hafi verra siðferði en kristnir, næsta dag er fræðsla um alnæmi orðin siðlaus.
Líklega er mér síst hlátur í hug, Guðni hefur stundum verið fyndinn, þetta er mjög langt frá því. Þetta er sorglegt, hér er verið að ýja að því að ekki megi fjalla um kynsjúkdóma og smitleiðir tæpitungulaust. Ekki veit ég hvað fræðslufulltrúi Alnæmissamtakanna sagði sem Guðna finnst orka tvímælis en landlæknir segir í sömu frétt að umfjöllun Alnæmissamtakanna hafi hingað til verið vönduð.
Svona málflutningur ber með sér að formaður Framsóknarflokksins vilji teprulegt tal um smitleiðir alnæmis. Þekking á smitleiðum og alvarleika sjúkdómsins er undirstaða forvarna, grunnskólabörn verða að fá þessa fræðslu ef við ætlum að stemma stigu við þessum sjúkdómi. Að sporna við umræðu ýtir undir fáfræði, þessi málflutningur er Guðna til skammar og er í raun aðför að upplýstu samfélagi.
Ég hélt að ég byggi í Vestur-Evrópu á 21. öldinni.
13.12.2007 | 00:37
Áfram Þorgerður Katrín
Þessi færsla er hól til menntamálaráðherra fyrir frammistöðu hennar í Kastljósinu í kvöld þar sem hún og Guðni Ágústsson áttust við vegna umræðu um trúarlega aðkomu í skólastarf. Það er örugglega ekki auðvelt að standa gegn kirkju og biskupi en mér fannst hún skilja um hvað málið snýst, mun meira en margir hafa gert.
Örlítið fannst mér vanta á að Þorgerður skýrði út í hverju kristið siðgæði er frábrugðið "umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi" eins og segir í nýjum grunnskólalögum. Að öðru leyti stóð hún sig vel.
Aumingja Guðni var eins og nátttröll. Talaði um að kristilegt siðgæði væri fallegt orð, heiðingjar væru sjálfsagt með verra siðgæði en aðrir!
Hvað meinti maðurinn?
Hvað eru heiðingjar? Er það ég sem stend utan trúfélaga? Er hægt að fullyrða að heiðingjar séu með verra siðgæði en aðrir án þess að geta þess hvað átt er við með þessu orði "heiðingjar"?
Æi, hvernig getur umræða meðal almennings verið á vitrænu plani þegar stjórnmálamenn og biskup láta svona.
En Þorgerður Katrín: Stattu þig stelpa!
5.12.2007 | 00:00
Er magn alltaf ávísun á gæði?
Í dag var töluvert fjallað um niðurstöður PISA könnunar og við Íslendingar ekkert alltof hressir með niðurstöðurnar.
Ég hef í tengslum við árangur í skólastarfi oft velt fyrir mér eigin skólagöngu, 2 x vika í 7 ára bekk, ca 4 x vika í 8 ára bekk (dreift yfir veturinn), önnur hver vika eftir það fram að 13 ára aldri og eftir það hverja viku. Alltaf í heimavist. Skólastarf hófst um mánaðamót september / október og lauk í byrjun maí. Þetta var mun styttri tími en jafnaldrar mínir á í þéttbýli á Íslandi á þessum tíma fengu. Í lok grunnskóla var árangur mældur í samræmdum prófum sem bekkurinn minn ( ca 20 krakkar ) tók, einnig öll hin börnin sem fengu mun meiri tíma í skóla, sérstaklega á yngri árum. Niðurstaðan var að við vorum yfir landsmeðaltali í öllum fögum. Einnig í öllum prófþáttum sem gefnir voru upp. Þetta er lítið úrtak og sannar ekki neitt, eigi að síður er vert að velta þessu fyrir sér.
Þegar ég skoða námsbækur barna minna er þar að finna margt sem ég sá fyrst í menntaskóla og sumt hef ég aldrei séð eða lært. Þetta hlýtur að bera metnaðarfullu skólastarfi vitni. Það er hins vegar umhugsunarefni hvort við erum að ætla börnunum um of, hvort þau nái að meðtaka allt þetta efni. Getur verið að yfirferðin sé of yfirborðsleg til að kennslan skili tilætluðum árangri?
Spyr sá sem ekki veit. Ég rakst hins vegar á bloggfærslu skólamanns um þetta efni og finnst mér vert að benda á hana.
20.11.2007 | 18:12
Er þróun staðreynd eða skoðun
Er hægt að hafa mismunandi skoðun á staðreyndum raunvísindanna? Dæmi:
- 2+2=5.
- Jörðin er flöt.
- Sólin snýst í kringum jörðina.
Eru til mismunandi skoðanir á fullyrðingum sem þessum? Erum við tilbúin til að viðurkenna þessar fullyrðingar sem jafnréttháar skoðanir og það sem við teljum "vísindalega sannað"?
Hvaða hug berum við til menntakerfisins ef á vegi okkar verður fólk sem staðhæfir eitthvað af þeim atriðum sem ég taldi upp hér að ofan?
Þróun er í mínum huga staðreynd og hélt ég satt að segja að svo væri í huga flestra. Gilda einhver önnur viðhorf okkar á meðal gagnvart þeim raunvísindum en til þeirra sem ég taldi upp hér að ofan?
Hvernig kirkjan vill túlka sköpunarsöguna í ljósi þróunar er mér ekki ljóst. Ekki að það trufli mig eða mína sýn á lífið, heldur finnst mér ekki boðlegt að unglingar í upplýstu samfélagi nútímans líti á Adam og Evu sem sögupersónur í mannkynssögunni. Kristinfræði er kennd í grunnskólum á Íslandi, það er staðreynd. Í þessari kennslu er alls ekki alltaf ljóst hvenær er verið að kenna börnunum óstaðfestar sögusagnir með misvitrum boðskap (dæmi: sonarfórn Abrahams) eða staðreyndir mannkynssögunar.
Er það nema von að börnin geri sér ekki alltaf grein fyrir mörkunum þarna á milli fyrst það er ekki skýrt út fyrir þeim? Hver er tilgangurinn með svona kennslu?
Getur verið að upplýst nútíma samfélag telji það bara í lagi að hægt sé að hafa þá "skoðun" að sköpunarsagan eigi við rök að styðjast? Erum við virkilega svo hrædd við kirkjuna að við þorum ekki að andmæla þessu opinberlega?
Berum við meiri virðingu fyrir mismunandi "skoðunum" á staðreyndum raunvísindanna ef þær snúa að trúarlegum álitaefnum heldur en þeim atriðum sem talin voru upp í upphafi pistilsins?
18.11.2007 | 21:32
Umræða um líffæraflutninga óskast
Nýlega fjallaði ég um líffæraígræðslur. Nú kemur framhald af því og einskorða ég mig við nýrnaígræðslur. Vissuð þið að:
- Árlega eru framkvæmdar 7-10 nýrnaígræðslur á Íslandi.
- Miðað við höfðatölu eru framkvæmdar flestar nýrnaígræðslur úr lifandi gjöfum á Íslandi á öllum Norðurlöndum. Fæstar eru þær í Finnlandi.
- Finnar standa öðrum Norðurlandaþjóðum framar í fjölda ígræðslna úr látnum gjöfum.
Nánar um þetta. Í desember 2003 var framkvæmd á Landspítalanum fyrsta nýrnaígræðsla á Íslandi. Árlega eru framkvæmdar á Landspítalanum 7-10 nýrnaígræðslur. Áður voru þessar aðgerðir framkvæmdar erlendis, Kaupmannahöfn eða um tíma í Gautaborg. Fyrir utan stórkostlega bætt lífsgæði þega er um að ræða hagkvæma aðgerð þar sem nýtt starfhæft nýra losar sjúklinginn úr kostnaðarsamri meðferð og aðgerðin því fljót að "borga sig upp". Íslenskir nýrnasjúklingar sem ekki eiga kost á nýra úr lifandi gjafa eru á biðlista eftir nýra á ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn og ef um er að ræða ígræðslu þar teljast þeir með í þeirra tölum.
Nýra úr lifandi gjafa er líklegra til að endast heldur lengur en nýra úr látnum gjafa. Þægindi bæði þega og gjafa að eiga kost á þessari aðgerð hér heima eru ótvíræð. Mögulegt er að það geti að hluta skýrt hversu hátt hlutfall lifandi gjafa er hér á landi.
Umhugsunarvert er hins vegar að Íslendingar eru miðað við höfðatölu með heldur lágt hlutfall látinna líffæragjafa. Þó er erfitt er að draga miklar ályktanir um þetta þar sem um lágar tölur er að ræða árlega og sveiflur því miklar. Mögulegt er að þetta lága hlutfall skýrist af því að lítil umræða er manna á meðal um hver afstaða hvers og eins er til líffæraflutninga.
Hver er þín afstaða til líffæraflutninga úr látnum gjöfum? Veist þú hver afstaða þinna nánustu er?
Aftur hvet ég til þessarar umræðu og ekki síst út frá hugsuninni hvaða afstöðu við hefðum gagnvart þeim ef við eða náinn ættingi þyrfti á líffæri að halda.
15.11.2007 | 21:36
Líffæraígræðslur
Ýmsir sjúkdómar eru þess eðlis að líffæraígræðsla er eina von sjúklings. Um getur verið að ræða hjarta, lungu, lifur eða nýru. Nýrnaígræðslur njóta töluverðrar sérstöður þar sem sjúklingur á möguleika á meðferð í blóðskilun eða kviðskilun og einnig er mögulegt fyrir sjúklinginn að fá nýtt nýra úr lifandi gjafa, oftast systkini eða foreldri. Stundum er þetta ekki valkostur fyrir sjúklinginn og er hann þá settur á biðlista eftir nýra úr látnum gjafa. Líffæraígræðslur hjarta, lungna og lifra eru bara mögulegar úr látnum gjöfum.
Fyrir þá sjúklinga sem um ræðir er þetta oft á tíðum lífgjöf, a.m.k. fær sjúklingurinn ef vel tekst til umtalsvert aukin lífsgæði.
Sífellt fleiri sjúklingar eru á biðlista eftir líffærum en framboðið er takmarkað. Eitt af því sem takmarkar framboð er að ættingjar látins mögulegs líffæragjafa treysta sér ekki við dánarbeð að heimila líffæratöku. Þetta er mjög skiljanlegt sjónarmið ef ættingjarnir vita ekki hug hins látna og umræða um þessi atriði hefur aldrei farið fram. Því er upplýst umræða innan fjölskyldna um líffæragjafir úr látnum einstaklingum mikilvæg þannig að fólk viti um hvað málið snýst og sé kunnugt um hug sinna nánustu.
Þetta er kannski ekki skemmtilegasta umræðuefnið við kvöldverðarborðið en eigi að síður mikilvægt að ræða svona mál og afla sér upplýsinga ef fólk veit ekki um hvað málið snýst. Það er líka mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk sem kemur að þessum málum hvetji til þessarar umræðu og gefi á opinberum vettvangi upplýsingar sem gagnast fólki til að taka vitræna ákvörðun.
Ég hvet til þessarar umræðu og bendi fólki á að nálgast þetta einnig frá sjónarhóli þeirra sjúklinga sem þurfa á líffærum að halda. Hver væri okkar hugur til líffæraígræðslna ef við sjálf eða náinn ættingi væri á slíkum biðlista?
12.11.2007 | 18:06
Leggur og skel
Með örfárra vikna millibili voru opnaðar tvær risaleikfangaverslanir hér á höfuðborgarsvæðinu. Fréttir herma af metsölu í fyrri búðinni og örtröð við opnun í þeirri seinni.
Var skortur á leikföngum á Íslandi? Það hlýtur að hafa verið. Hafði að vísu ekki orðið vör við það, skorti ekki einu sinni leikföng í æsku.
Í æsku já.
Við Erna áttum "bú", bæði dýrabú og drullubú. Þetta var í holtinu rétt við bæinn. Í drullubúinu var gamla kolavélin hennar ömmu. Þar áttum við brotna diska frá mömmu, eyrnalausa bolla og hálfar netakúlur voru notaðar sem salatskálar eða til að hræra í kökudeig. Þarna voru hvalbein notuð sem eldhúskollar, miklar hnallþórur voru bakaðar og skreyttar með Holtasóleyjum, Jakobsfíflum og Maríustakk. Kaffi var lagað á gamla kaffikönnu frá ömmu og "drukkið" úr eyrnalausu bollunum.
Dýrabúið var myndarlegt. Hver tegund átti sinn kofa. Byggingastíllinn var einfaldur, stungið með skóflu út úr þúfu, helst í halla. Spýtur voru settar yfir hliðarnar og torfið sem stungið var út notað til að tyrfa yfir.
Við sátum um alla leggi sem til féllu á haustin, við vorum sérfræðingar í að hnýta band um þá fremsta. Svo var farið á útreiðar þetta voru að sjálfsögðu hestar. Við þekktum leggina með nafni og fundum greinilegan mun milli þeirra þegar við brugðum okkur á bak, sumir voru viljugir, aðrir hastir, sumir hrekkjóttir. Það þurfti mikið að temja.
Kjálkana var auðvelt að fá, þá fengum við náttúrulega af sviðunum. Þeir voru að sjálfsögðu kýr, við rákum stórt kúabú. Verra var þetta með kindurnar, það hefðbundna var að nota horn sem kindur en þar sem fjárstofninn heima hjá okkur var kollóttur var ekki um auðugan garð að gresja. Við vorum stórhuga og sættum okkur ekki við þau örfáu horn sem við með góðu móti komumst yfir. Því brutum við hefðina og notuðum öðuskeljar sem kindur. Af þeim var nóg við sjóinn. Við áttum því fleiri hundruð fjár og til að þær fengju nú nóg að bíta yfir sumarið þá fórum við með skeljarnar í fötum á "afrétt" sem var í holtum töluvert frá. Þar dreifðum við "kindunum" á vorin og fórum svo í leitir á haustin til að safna þeim saman.
Í borgarsamfélagi nútímans eiga börn ekki kost á leikjum eins og lýst er að ofan. En er ekki hægt með einhverju móti að leyfa þeim að nota hugmyndaflugið með heldur minna magni af tilbúnum leikföngum? Er hamingja barna okkar keypt í þeim búðum sem verið var að opna? Eða erum við sjálf að kaupa okkur frið frá þeirri sektartilfinningu sem við búum yfir þar sem við höfum ekki gefið okkur þann tíma með þeim sem við hefðum viljað?