Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Virkjun Hverfisfljóts

Í nýliðinni viku gerðist það að umhverfisráðherra hnekkti úrskurði skipulagsstofnunar um að virkjun Hverfisfljóts við Hnútu skyldi ekki fara í umhverfismat. Vinnubrögð Þórunnar umhverfisráðherra eru henni til sóma en furðu sætir úrskurður skipulagsstofnunar því virkjanir almennt hafa gríðarleg áhrif á náttúruna og ættu því skilyrðislaust að fara í umhverfismat. Hér er kafli úr úrskurði skipulagsstofnunar:

Áhrif á landslag og jarðmyndanir. Fram kemur að fyrirhugað framkvæmdasvæði skiptist í tvo hluta, annars vegar nyrðra svæðið á móts við Lambhagafossa og brekkurnar syðst í Hnútu. Hins vegar syðra svæðið, Skaftáreldahraunið frá Lambhagafossum, meðfram Hverfisfljóti og niður á móts við bæina Dalshöfða og Seljaland. Ljóst er að fyrirhuguð slóðargerð muni raska Skaftáreldahrauni varanlega. Um þriðjungur slóðarinnar, eða um 2 km, verður lögð um úfið hraun en tveir þriðju, eða um 4,5 km, mun fara um sandorpið hraun.

Í sumar sem leið gekk ég um svæðið milli Skaftár og Hverfisfljóts með gönguhópnum mínum, Trimmklúbbi Seltjarnarness. Hápunktur göngunnar voru 2 fossaraðir Hverfisfljóts við Hnútu og aðeins neðar rétt ofan Dalsfjalls, slík var fegurðin og voru ferðafélagarnir á einu máli um að það sætti furðu hversu lítt þekkt fegurð þessa svæðis væri. Þessar fossaraðir eru fjarri vegaslóðum og því lítt skoðaðar einmitt þess vegna er hætt við að virkjun sé laumað þarna inn án mikillar umræðu.

Mér skilst að umrædd virkjunaráform séu við Lambhagafoss sem er í neðri fossaröðinni. Báðar þessa fossaraðir eru gríðarlega merkilegar þar sem árfarvegur Hverfisfljóts á þessum slóðum er nýr í jarðsögulegu tilliti. Hverfisfljót ruddi sér nýja leið um þetta svæði eftir Skaftárelda og því er landmótun þarna enn í fullum gangi.

Hér til hliðar í myndaalbúmi að nafni Hverfisfljót eru myndir sem ég tók í sumar og með því að skoða þær fáið þið örlitla hugmynd hvað um er að ræða. Ég vona að ekki fari fyrir þessu svæði eins og svæðinu fyrir ofan Kárahnjúka sem fékk litla athygli fyrr en eftir að ákvörðun um virkjun var tekin.

nullLambhagafoss, sjá betur í myndaalbúmi "Hverfisfljót"

 


Af kynþáttahyggju - ég fæ hroll

Í dag fékk ég sendan link inn á skapari.com sem lætur mann fá hroll. Þarna er fólk af öðrum kynstofnum en hvítum kallað nöfnum sem ég get ekki haft eftir og viðhorf til þeirra slíkt að ég á ekki orð til að lýsa. Þarna er upptalning á "óvinum Íslands" og rökstuðningur fyrir því hvers vegna viðkomandi eru á þeim lista. Þar má m.a. finna Ólaf Ragnar Grímsson og Gauta B. Eggertsson, annar er þarna vegna val á eiginkonu og hinn vegna afstöðu sinnar til "barnakvæðisins" Tíu litlir negrastrákar. Gauti skrifaði sterka grein um kvæðið í Fréttablaðið, birtist hún einnig á heimasíðu hans.

Á forsíðu skaparans má m.a. lesa:

Í stuttu máli
Ég er Skapari.
Ég er Hvítur.
Ég er Kynþáttasinni.
Ég er Norrænn.
Ég er Íslendingur.
Ég er Þjóðernissinni.
Ég er Kynbótasinni.
Ég er Rasisti.
Ég er Nasisti.
Ég er Náttúrusinni.
Ég er FRAMTÍÐIN.

Undir flipa sem kallaður er "Sköpun" má lesa:

Sköpunarhreyfingin

er byggð á hinum Eilífu Lögum Náttúrunnar,
Sögu, Rökum og Almennri Skynsemi.

1. VIÐ TRÚUM að Kynþáttur okkar er okkar Trú.

2. VIÐ TRÚUM að Hvíta Kynið er Náttúrunnar Best.

3. VIÐ TRÚUM að Kynþáttatryggð sé efst af öllum heiðrum og Kynþáttasvik sé verst af öllum glæpum.

4. VIÐ TRÚUM að það sem er gott fyrir Hvíta Kynið er æðsta dyggðin og það sem er slæmt fyrir Hvíta Kynið er versta syndin.

5. VIÐ TRÚUM að sú EINA og SANNA, HREINA og BYLTINGARKENDA Hvíta Kyn Trú - SKÖPUN - er eina frelsunin fyrir Hvíta Kynið.

Undir flipa sem kallaður er "Greinar" má finna link þar sem fjallað er um samkynhneigða:

Með blóði, svita og tárum komust samkynhneigðir út úr skápnum og með blóði, svita og tárum verður þeim troðið þangað aftur - ekki beint fögur spá en líklega mjög sönn.
Finnum lausn áður en uppgjör mun eiga sér stað.

Ég velti fyrir mér hvað vaki fyrir þeim sem halda úti slíkri síðu.

  1. Getur verið að um grín sé að ræða? Ef það er málið þá er það háalvarlegt því það er óvíst að "grínið" komist til skila. Svo mikið er víst að það fór fram hjá mér og ég lít á þetta sem stórhættulegan áróður.
  2. Getur verið að um um sé að ræða hóp af einstaklingum sem meinar þetta í fullri alvöru? Í því samhengi velti ég því fyrir mér hvort best væri að láta sem ekkert væri því það að vekja athygli á þessu gæti virkað sem örvun og auglýsing. Eftir nokkra umhugsun komst ég að því að það er líka stórvarasamt, þögn er sama og samþykki og með því að láta sem ekkert sé erum við á vissan hátt að samþykkja að þessi skoðun eigi rétt á sér. Ég get fallist á að ýmsar skoðanir sem ég er ósammála eigi rétt á sér og sé jafvel hægt að rökstyðja. Þetta er svo sannarlega undanskilið.
  3. Getur verið að um sé að ræða geðveila(n) einstakling(a)? Þetta tel ég reyndar líklegt en alvarlegt eigi að síður.

Það vakti athygli mína að hvergi er að finna nokkurn ábyrgðarmann fyrir þessum skrifum. Það er þó vottur af siðferðiskennd fólgin í því að vilja ekki kannast við þessar skoðanir undir nafni.

Nú er ég illa netfróð manneskja, en verður ekki einhver að vera opinberlega ábyrgur fyrir því sem sett er á netið? Prentmiðlar hafa ábyrgðarmann, er löggjafinn svona langt á eftir með að koma höndum yfir netmiðla?

Það að til séu í okkar samfélagi einstaklingar með hugmyndir eins og birtast þarna er verulega alvarlegt. Ég tel það skyldu mína að vekja athygli á þessu og hvet aðra til að vera meðvitaða um að þessi viðhorf séu til. Að hunsa þetta og láta eins og þetta sé ekki til býr til jarðveg fyrir svona hugarfar og þar blómstrar það. Einnig tel ég varasamt að flissa að þeim hugmyndum sem þarna birtast, með því erum við að senda ákveðin skilaboð til samfélagsins, skilaboð um að svona hugarfar sé í lagi, jafnvel fyndið.


Fákeppni á íslenskum matvörumarkaði

 Alvarlegar ásakanir hafa komið fram um verðsamráð á íslenskum matvörumarkaði. Ég ætla ekki að meta sannleiksgildi þeirra. Ég er hins vegar neytandi og sem slíkur hef ég verulegar áhyggjur af þeim atriðum sem komið hafa fram í umræðunni undanfarna daga.

Komið hefur fram að Bónus sé iðulega með verð u.þ.b. krónu lægra en Krónan. Getur það verið tilviljun? Getur verið að um ólöglegt samráð sé að ræða? Eða getur verið að einfaldlega um þegjandi samkomulag sé að ræða?

Fyrir u.þ.b. 2 árum ríkti verðstríð milli ofangreindra aðila. Gekk það svo langt að verslanir nánast gáfu sumar vörur. Klárlega töpuðu báðir aðilar á þessu verðstríði og klárlega munu neytendur á endanum greiða kostnaðinn af því. Eftir að þessu verðstríði lauk hefur Bónus iðulega komið betur út í verðkönnunum. Þessar verslanir hafa viðurkennt að vera með fólk á sínum snærum sem daglega kannar verð hjá samkeppnisaðilum og síðan eru verð í búðunum færð til eftir þessar kannanir. Bónus gaf Krónunni skýr skilaboð í umræddu verðstríði; sama hvað Krónan lækkaði sig mikið, Bónus færi neðar.

Þetta þýðir á mannamáli að Krónan veit að það þýðir ekkert að reyna að vera lægri en Bónus, Bónus fer alltaf neðar.

Getur þetta talist samkeppni á matvörumarkaði? Meðan ástandið er svona skiptir engu hvort um vísvitandi samráð er að ræða eða ekki, það er engin samkeppni til staðar þegar einn aðilinn hefur slíkt ægivald á íslenskum matvörumarkaði. Umræddur aðili hefur gefið út yfirlýsingu með fyrrnefndu verðstríði að hann líði ekki samkeppni.


Bloggari gerir grein fyrir afstöðu sinni

Anna bloggvinkona mín með meiru æsti upp í mér tilburði til leirburðar í gærkvöld. Hún bannaði stuðla á sinni síðu svo ég verð bara að birta þetta á minni. 

Ég geri hér með grein fyrir afstöðu minni til þeirra mála sem að mínu viti bar hæst í umræðunni í seinustu viku.

Kirkjuþing og afstaða kirkjunnar til samkynhneigðra

Vorrar þjóðar kirkju klerkar

af kynvillu þeir ama hafa

þeirra allir svörtu serkar

á sínum kreddum ennþá lafa

 breytt 28.10.07:

Vorrar þjóðar kirkju klerkar

við kynvillu þeir amast

þeirra allir svörtu serkar

á sínum kreddum hamast

 

Þeir hjónur gefa í hjónuband

hjónar einnig böndin hnýta

jafnrétti á langt í land

lofa sumir aðrir sýta

 

Tíu litlir negrastrákar

Bókin er níðkvæði um negra

niðrandi hana ég held

Muggse eftir myndir ei fegra

margt frekar les ég um kveld

Sala áfengis í matvöruverslunum

Fá vilja í búðunum bjóra

bytturnar yfir því fagna

sitja að sumbli og þjóra

síst mun það pöblinum gagna

 

 


Gulur Bónusbjór með bleiku svíni

Um nokkurt skeið hefur verið uppi hávær umræða um hvort leyfa eigi sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum. Lengst af hef ég leitt þessa umræðu hjá mér en nú er mér skyndilega ljóst að kostir við að leyfa þetta eru.....................ENGIR.

Ókostir eru hins vegar fjölmargir:

  1. Aðgengi að áfengi eykst. Slíkt leiðir eingöngu til aukinnar neyslu. Stórmarkaðir eru að mestu leyti mannaðir af börnum og unglingum undir löglegum innkaupaaldri áfengis og sé ég ekki að verslunin geti látið þau sjá um að jafnaldrar þeirra kaupi ekki þessa vöru.
  2. Álagning ÁTVR á áfengi er víst ekki há, að mér skilst. Tollar og gjöld eru það hins vegar og það mun ekki breytast, ríkið vill sitt. Ég á bágt með að trúa að smásöluaðilar sætti sig við lága álagningu og því grunar mig að verð muni hækka.
  3. Úrval tegunda í ÁTVR er að mínu viti ágætt. Ef varan verður seld í fleiri verslunum muni hver verslun ekki vera með lager af öllum þessum tegundum og því mun úrval minnka. Sérstaklega mun þetta eiga við úti á landsbyggðinni.
  4. Opnunartími ÁTVR er orðinn mjög áþekkur og stærri matvöruverslana. Ég get ekki séð að aðgengi fullorðins fólks að þessum sérverslunum sé eitthvað lítið og það þurfi að setja þetta í hendur smásölunnar til að bæta það.

Að þessu sögðu tel ég að það sé eingöngu hagur verslananna sjálfra að fá þetta leyfi. Ég tel að alþingismönnum beri að hugsa frekar um hag almennings, hvort heldur sem neytenda (verð og úrval) eða að takmarka eigi aðgengi að vörunni (ungt fólk).


Leyfið til að vera öðruvísi

Hvernig samfélagi viljum við búa í? Er leyfilegt að skera sig út úr fjöldanum? Skal steypa alla í sama mót? Við eigum oft erfitt með að gefa leyfið, til að vera öðruvísi, það er svo miklu þægilegra ef allir eru eins. Hafa sömu trú, sama tungumál, bakgrunn, þarfir, getu, kynhneigð, þá þurfum við ekki að taka tillit til annarra. Ó, hve lífið væri einfaldara. Þá þyrftum við aldrei að útskýra neitt fyrir börnunum okkar............

Það væri draumaheimurinn okkar, eða hvað?

Hvernig getum við gert kröfu til þess að börnin okkar gefi þetta leyfi ef það er ekki til staðar í þeirra nánasta umhverfi?

Hreyfihamlaðri stúlku í unglingadeild grunnskóla er sagt að vera inni að læra meðan bekkjarsystkinin fara út að leika sér í góða veðrinu.

Unglingsstúlka utan trúfélaga neitar að fara í kirkjuferð á vegum skólans, skólinn gerir þá kröfu að hún mæti samt, kennari spyr af hverju hún haldi jól.

"Það trúa allir á guð" fullyrðir náttúrufræðikennari í bekk með 3 börnum af asískum uppruna. Svo eru til íslensk börn utan trúfélaga.

Biskup yfir þjóðkirkju sem segir okkur að allir séu jafnir fyrir guði en vill skipta sambúðarformum í flokka eftir kynhneigð.

Getum við ætlast til umburðarlyndis af börnunum gagnvart fjölbreytileika þegar þau alast upp í umhverfi sem viðurkennir ekki litróf mannlífssins, dregur fólk í dilka?

Af hverju erum við ekki opin fyrir fjölbreytileikanum og gefum öllum tækifæri til að njóta sín á sínum forsendum?


Hjónaband

Fyrir kirkjuþingi sem nú stendur yfir liggur tillaga um að prestum verði heimilað að staðfesta samvist samkynhneigðra. Jafnframt leggur biskup fram tillögu um skilgreiningu á hjónabandinu. Samkvæmt henni getur hjónaband eingöngu verið sáttmáli milli karls og konu.

Hvað er þá staðfest samvist samkynhneigðra? Í hverju felst munurinn á staðfestri samvist þeirra og hjónabandi?

Ég skil hjónaband sem sáttmála milli tveggja einstaklinga um að taka sameiginlega ábyrgð á lífi sínu, mitt er þitt og þitt er mitt. Er skilningur biskups á þessum sáttmála milli samkynhneigðra einhver annar?

Í fréttablaðinu í dag er haft eftir biskupi: "..... grundvallaratriðið hvað hjónabandið varðar sé þessi gagnkvæmni kynjanna sem getur af sér líf". Hvað þýða þessi orð? Er hjónabandið einskis virði ef það er barnlaust? Hvað er biskup með þessum orðum að segja við hjón sem glíma við ófrjósemi?

Kirkjunnar menn verða að átta sig á þeim samfélagsbreytingum sem hafa orðið. Almenningur hefur að miklu leyti látið af fordómum sínum gagnvart samkynhneigðum. Menn innan kirkjunnar reyna að skipta sambúðarformum í flokka og það dylst engum hvaða flokkur er óæðri. Skilaboðin til samkynhneigðra eru skýr. Í örvæntingu sinni til að réttlæta þessa skoðun sína heggur biskup nærri fólki sem stríðir við ófrjósemi.

Ef kirkjan ætlar sér að lifa af í nútímanum verður hún að skilja að almenningur vill ekki að fólk sé dregið í dilka með þessum hætti, sá munur sem biskup vill gera á samvist samkynhneigðra og hjónabands karls og konu segir að hann á langt í land með að viðurkenna samkynhneigð.


Samræmd próf í grunnskólum

Í dag og á morgun eru samræmd próf í íslensku og stærðfræði í grunnskólum landsins. Í tilefni þess velti ég fyrir mér eftirfarandi spurningu:

Hver er tilgangurinn?

Möguleg svör:

  1. Kanna stöðu barnsins svo mögulegt sé að grípa inn í ef einhver frávik eru til staðar.
  2. Kanna stöðu skólans og bera saman við útkomu annarra skóla.
  3. Venja börnin við að taka yfirgripsmikil próf og vera í andrúmslofti prófa þannig að það verði þeim ekki framandi þegar kemur að því að taka próf sem raunverulega skipta þau máli.

Hvað fyrsta atriðið varðar tel ég að til skimunar á frávikum í námi, sértækum námsörðugleikum (lesblinda þar með talin) sem öðrum, hljóti skólinn að búa yfir betri aðferðum sem ekki hafi í för með sér niðurbrot þeirra barna sem þurfa á þess konar skimun að halda.

Fyrir þessi börn eru samræmd próf sem og önnur próf sem skólinn leggur fyrir hin mesta pína. Frá skólabyrjun fara þau heim tvisvar á ári með blað þar sem metið er með tölum hver staða þeirra er og þau eru fljót að átta sig á þýðingu þessa talna. Þau börn sem fá slaka útkomu fá skerta sjálfsmynd og upplifa sig sem tossa. Ef foreldrarnir draga þetta í efa sækja þau einkunnablöðin þar sem þetta stendur svart á hvítu, sama hvað foreldrarnir reyna að telja barninu trú um að þau frábær, klár og allt það sem foreldrar vilja og trúa að börnin þeirra séu. Þau trúa einkunnunum. Það er skelfileg staða að segja barni að það sé ekkert að marka einkunnir.

Líkamleg einkenni koma oft upp hjá þessum börnum, læknavísindin eru jafnvel lengi að átta sig á að rót einkennanna liggi í því að börnunum finnst þau ekki standa sig í skóla og ráða ekki við verkefnin. Endurgjöfin sem þau fá er alltof oft: Þetta er ekki nógu gott, þú verður að gera betur. Jákvæð endurgjöf er besta hvatningin og ég auglýsi hér með eftir slíku í skólastarfi. Skólarnir verða að miða að því að finna sterku hliðar einstaklingsins og vinna út frá þeim en hætta að hjakka í þeim veiku, það leiðir bara til niðurbrots.

Ef skólinn notaði þessi próf til að meta þörf á skimun fyrir sértækum námsörðugleikum væri mögulega hægt að líta jákvæðari augum á þau en því miður þá er það bara ekki svo.

Í hvert skipti sem útkoma barna í prófum er slök er það ekki hvati til að gera betur næst, fyrir þau er þetta niðurbrot, fyrir þau breytist námsefnið í ókleift fjall. Ef þau fá góða útkomu virkar það sem hvati og þau öðlast fullvissu um að þau geti þetta og þau gera betur næst. Því tel ég að próf sé í raun eingöngu jákvæð fyrir þá örfáu sem fá mjög góða útkomu.

Hvað varðar atriði númer 2 hér að ofan þá hefur rannsókn sem gerð hefur verið á hvaða þættir hafa áhrif á frammistöðu nemenda gefið þá vísbendingu að menntun foreldra og tekjur þeirra hafi mest að segja. Munur á milli skóla skýrist því meir af því að félagsleg staða fjölskyldna er hverfaskipt heldur en því hvernig  skólarnir sjálfir séu að sinna hlutverki sínu.

Seinasta atriðið tel ég að geti ekki afsakað að svona ung börn séu brotin niður með þeim hætti sem ég hef lýst hér að framan.

Samræmd próf hjá svona ungum börnum eiga ekki rétt á sér. Yfirhöfuð eiga próf og einkunnaspjöld sem börnin fara með heim til sín ekki rétt á sér fyrr en á síðari skólastigum.. Kennarar vita alveg hvar börn á yngri skólastigum standa og geta flutt foreldrum þau tíðindi. Hvernig liði okkur fullorðnum að fá sem tölur á blaði tvisvar á ári hvernig við stóðum okkur í vinnunni? Bera saman við alla hina, allir vita hvað hinir fengu. Fáar stéttir hafa mótmælt árangurstengdum launum jafn kröftuglega og kennarar. Ef fullorðnum er nóg boðið geta þeir sagt upp og farið í aðra vinnu. Börnin geta ekki hætt í skólanum ef þeim er nóg boðið.

Próf á fyrri stigum grunnskóla gefa enga vísbendingu um hvernig barnið muni standa sig síðar á lífsleiðinni, þau brjóta meira niður en réttlætanlegt getur talist. Skólinn notar þau ekki til að byggja upp einstaklingsmiðað nám eða vísbendingu um að fara þurfi yfir þarfir barna fyrir greiningu eða önnur úrræði enda ættu að vera til mun betri og markvissari leiðir til þess.


ABC barnahjálp

"Mamma, ég trúi því að allir í heiminum eigi að vera jafnir. Ertu sammála mér?" spurði dóttir mín mig nú nýlega. Jú, getur einhver við neitað þessu?

"Við höfum það svo gott hérna, ég er ofdekruð og get fengið nánast allt sem mig vantar. Það eiga ekki allir svo gott. Mér finnst við ekki gera nóg fyrir fátækt fólk", bætti hún við.

Hvað hún hefur rétt fyrir sér. Hvenær erum við búin að gera nóg? Við borgum skattana okkar og gefum í ýmsar safnanir til að friða samviskuna. En það er langur vegur í að við séum tilbúin til að leggja það mikið af mörkum að allir séu jafnir. Ekki einu sinni í okkar nánasta umhverfi. Við viljum njóta þess sem við öflum. Þannig er eðli okkar.

Þegar 15 ára unglingur vekur mann upp með þessum hætti þá áttar maður sig á að  maður er sjálfur sokkin í neyslukapphlaupið.

Við mæðgurnar ákváðum að gera eitthvað í málinu. Við höfum um nokkurra ára skeið styrkt eina stúlku í Úganda til náms, fæðis og læknisþjónustu gegnum ABC barnahjálp. Kennari dóttur minnar kynnti þetta starf fyrir börnunum og fékk þau til að safna peningum í söfnun sem kallast "Börn hjálpa börnum". Í framhaldi af því tókum við að okkur barn.

Nú var kominn tími til að fjölga í barnahópnum. Á heimasíðu ABC barnahjálparer hægt að taka að sér barn í Kambodiu, Kenya, Uganda, Pakistan, Filippseyjum eða á Indlandi. Kostnaður á mánuði er 950 - 3250 IKR, fer eftir landi og hversu mikinn stuðning barnið þarfnast. Hægt er að velja land, kyn og aldur og af sumum börnunum er mynd. Ég verð að viðurkenna að pínulítið fannst mér að ég væri að versla í búð en við völdum dreng í Pakistan fyrir 1950 kr á mánuði og stúlku í Úganda fyrir 950 kr á mánuði. Fyrir okkur er þetta 1x pizzumáltíð og getum við auðveldlega ráðið við það.

Vonandi gefur þetta þessum börnum möguleika á betra lífi í umhverfi þar sem það að kunna að lesa og skrifa getur skilið á milli feigs og ófeigs.

Ég vil vekja athygli á þessu hjálparstarfi sem er rekið af Íslendingum og hafa ófáir einstaklingar lagt af hendi verulega sjálfboðavinnu til að þetta starf geti farið fram. Með því að styrkja barn með þessum hætti gefum við því nýja von og nýtt líf.

Þetta er svolítið spurning um hversu langt við viljum ganga í að hugsa um samfélagið (heiminn) með "við" hugsuninni eða hvort við viljum blindast af "ég" hugsuninni. Munum eftir okkar minnstu bræðrum.


Erfðafræði fyrir 15 ára

Hvaða kröfur er eðlilegt að gera til skilnings 15 ára unglinga á erfðafræði? Hvaða kröfur gerum við til kennara þeirra? Hvaða kröfur gerum við til kennslubókanna?

Ég er með BSc próf í líffræði, MSc próf í heilbrigðisvísindum, erfðabreytileiki í genum tengdum ónæmiskerfinu og hjartasjúkdómar var viðfangsefni mastersverkefnisins. Ég vinn í Blóðbankanum við arfgerðagreiningu á vefjaflokkasameindum sem eru ákvörðuð af genum sem hafa mestan breytileika í öllu erfðamengi mannsins. 

Á mannamáli: Ég tel mig hafa góða þekkingu á erfðafræði.

Ég geri þær kröfur til námsefnis í erfðafræði fyrir 15 ára unglinga í grunnskóla að ég skilji það án mikilla erfiðleika. En ég geri það ekki. Ég þarf að marglesa kennslubókina til að skilja hvað er verið að fara.

Dæmi:

"Frá sjónarhóli efnafræðinnar má segja að starf gena sé að gefa frumum líkamans skipanir um hvaða efni þær eigi að framleiða og hvernig og hvenær. Þessi tilteknu efni eru prótín. Flokkur prótína sem nefnast ensím ber ábyrgð á því að mynda litarefni augnanna sem sjálft er enn eitt prótín."

Hvar týnduð þið þræðinum? Ég gerði það í fyrstu línunni. Ég skal reyna að segja þetta á mannamáli:

"Genin geyma í sér uppskrift af próteinum sem fruman framleiðir. Próteinin eru byggingarefni líkamans."

Annað dæmi:

"Undantekning frá einföldustu erfðunum eru margfaldar genasamsætur, en þá koma fleiri en tvær genasamsætur til greina í tilteknu sæti, þótt hver einstaklingur sé aðeins með tvö gen, eitt frá hvoru foreldri".

Þetta heitir á mannamáli "breytileiki" og þýðir að margar mismunandi gerðir séu til af hverju geni.

Ég vinn við að arfgerðagreina (flokka) þau gen sem hafa mestan breytileika í genamengi mannsins, ég hef aldrei áður heyrt um "margfaldar genasamsætur".

Hvað er verið að kenna börnunum okkar? Væri ekki nær að einfalda hlutina en að gera þá flóknari en þeir raunverulega eru?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband