Gulur Bónusbjór með bleiku svíni

Um nokkurt skeið hefur verið uppi hávær umræða um hvort leyfa eigi sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum. Lengst af hef ég leitt þessa umræðu hjá mér en nú er mér skyndilega ljóst að kostir við að leyfa þetta eru.....................ENGIR.

Ókostir eru hins vegar fjölmargir:

  1. Aðgengi að áfengi eykst. Slíkt leiðir eingöngu til aukinnar neyslu. Stórmarkaðir eru að mestu leyti mannaðir af börnum og unglingum undir löglegum innkaupaaldri áfengis og sé ég ekki að verslunin geti látið þau sjá um að jafnaldrar þeirra kaupi ekki þessa vöru.
  2. Álagning ÁTVR á áfengi er víst ekki há, að mér skilst. Tollar og gjöld eru það hins vegar og það mun ekki breytast, ríkið vill sitt. Ég á bágt með að trúa að smásöluaðilar sætti sig við lága álagningu og því grunar mig að verð muni hækka.
  3. Úrval tegunda í ÁTVR er að mínu viti ágætt. Ef varan verður seld í fleiri verslunum muni hver verslun ekki vera með lager af öllum þessum tegundum og því mun úrval minnka. Sérstaklega mun þetta eiga við úti á landsbyggðinni.
  4. Opnunartími ÁTVR er orðinn mjög áþekkur og stærri matvöruverslana. Ég get ekki séð að aðgengi fullorðins fólks að þessum sérverslunum sé eitthvað lítið og það þurfi að setja þetta í hendur smásölunnar til að bæta það.

Að þessu sögðu tel ég að það sé eingöngu hagur verslananna sjálfra að fá þetta leyfi. Ég tel að alþingismönnum beri að hugsa frekar um hag almennings, hvort heldur sem neytenda (verð og úrval) eða að takmarka eigi aðgengi að vörunni (ungt fólk).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Auðvitað er bara verið að þessu til að auka gróða verslunarinnar. Um að gera að selja sem allra mest. Reyndar sé ég ekkert óeðlilegt við það að mönnum sé hjálpað við að auka sölu á tiltekinni vöru. Ég er bara alls ekki sammála því að ástæða sé til þess að auka sölu á áfengi, einfaldlega vegna þess að allskyns heilbrigðisvandamál stafa af neyslu þess. Ég hugsa að ég mundi líka vera fylgjandi algeru áfengisbanni, en það er bara ekki raunhæft. Ég er líka viss um að þeir sem vilja leyfa sölu léttvíns og bjórs hvar sem er mundu helst vilja að það sama gilti um allt áfengi.

Sæmundur Bjarnason, 25.10.2007 kl. 00:17

2 identicon

Blessuð frænka.

Mikið er ég innilega sammála þér í þessari færslu sem og oft áður.  Ef ég horfi t.d. aðeins á mitt nánasta umhverfi (gerir maður það ekki venjulega þegar maður myndar sér skoðanir á hlutunum!?)  þá er hér mjög fín  ÁTVR verslun með þokkalegu úrvali léttra og sterka vína +´nokkrar tegundir af bjór.  Opið 6 daga vikunnar, þó ekki fyrr en eftir hádegi mán.-fim. yfir vetrartímann.  En flestir ættu nú að komast í ríkið á þeim tíma ef þeir þurfa.

Svo er hér bæði Bónus og Samkaup.  Í Bónus er undantekning ef afgreiðslufólkið er komið af fermingaraldri og í Samkaup er mjög margt skólafólk að vinna seinnipartinn og um helgar.  Ég gæti ekki hugsað mér að þau ættu að afgreiða mig/aðra með vínið.

Mér finnst það ekki í lagi að unglingar geri það.  Ég vildi ekki að mín börn væru að afgreiða vín, svo ekki get ég ætlast til að aðrir geri það. 

Ég er viss um að þeir alþingismenn sem eru alltaf að berjast fyrir þessu áfengisfrumvarpi hafa aldrei hugsað um veruleikann utan Ártúnsbrekkunnar.  Þeir hafa ekki hugmyndaflug til að sjá hvernig vöruúrvalið myndi minnka allverulega úti á landi.  Eða kannski er þeim alveg sama, hver veit?

Hætt að þusa, kveðjur til þín, Þorbjörg.

Þorbjörg (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 09:14

3 identicon

Algerlega sammála og vandséð hvernig verslanir ætla að manna stöður afgreiðslufólks á kassa. Svo er það með óklíkindum að heilbrigðisráðherra styðji frumvarpið. Að vísu var hann einn af upphafsmönnum þess, ef mig minnir rétt, en maður hélt bara að hann hefði þroskast eitthvað smá við að setjast í ráðherrastólinn.

Ásdís (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband