Feitt hross

Laugagerðisskóli í einhverju hádeginu líklega árið 1975. Það var hross í matinn. Líklega gamall dráttarklár af einhverjum bænum. Lógað á hlaðinu og seldur í mötuneytið. Þetta var fyrir daga heilbrigðisvottorða. Svo var hrossið brytjað niður og soðið í potti. Lengi, því gamlir vöðvar eru seigir.

Kartöflur voru afhýddar og soðnar, líka lengi. Hvít uppbökuð sósa, vel bragðbætt af sykri.

Matsalurinn var opnaður og stóðið ruddist inn. Það var mikið reynt að láta okkur ganga í röð. Tókst misvel.

Það sátu 6 gríslingar saman við borð, stálbakki með kjötbitum, fat með kartöflum og uppstúf. Kjötið var rauðbrúnt, með drapplitaðri fitu. Þetta drapplitaða var ansi áberandi. Bikkjan hafði líklega verið vel haldin. Við plokkuðum skástu bitana og gomsuðum í okkur af bestu lyst, vorum ýmsu vön í þessu mötuneyti. Þegar skástu bitarnir voru búnir fór ég með bakkann með fitubitunum fram í eldhús og bað um meira. Mér var bent á að það væri fullt af bitum enn á bakkanum. Ég stundi upp á þeir væru frekar feitir og ólystugir. "Ekki getum við gert af því þó hrossið hafi verið feitt" svaraði eldhúskonan.

Nei ég held það hafi bara verið rétt hjá henni, hún hafði ekki stjórnað ofeldinu á þessu hrossi. Ábót á bakkann skyldum við ekki fá nema klára alla drapplituðu fituna, sem við gerðum ekki, vorum ekki nógu svöng.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ígghhhh..... held að ég hefði frekar nagað skóna mína heldur en fituklumpana. 

Anna Einarsdóttir, 25.10.2007 kl. 21:30

2 identicon

Þessi litur er algerlega fastur í minni mínu, rauðbrúnn alveg áreiðanlega. Svo var kássa úr afgöngunum síðar í vikunni með lapþunnri kartöflumús sem var reyndar meira í líkingu við sósu. Hvernig var annars matseðillinn: Soðinn fiskur á mánudögum, kjötbollur í brúnni sósu á þriðjudögum....... Saltkjötið og baunirnar á föstudögum var alltaf vinsælt. Man ekki eftir að seðillinn breyttist mikið þau 8 ár sem ég var viðskiptavinur í þessu mötuneyti.

Ásdís (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband