Samræmd próf í grunnskólum

Í dag og á morgun eru samræmd próf í íslensku og stærðfræði í grunnskólum landsins. Í tilefni þess velti ég fyrir mér eftirfarandi spurningu:

Hver er tilgangurinn?

Möguleg svör:

  1. Kanna stöðu barnsins svo mögulegt sé að grípa inn í ef einhver frávik eru til staðar.
  2. Kanna stöðu skólans og bera saman við útkomu annarra skóla.
  3. Venja börnin við að taka yfirgripsmikil próf og vera í andrúmslofti prófa þannig að það verði þeim ekki framandi þegar kemur að því að taka próf sem raunverulega skipta þau máli.

Hvað fyrsta atriðið varðar tel ég að til skimunar á frávikum í námi, sértækum námsörðugleikum (lesblinda þar með talin) sem öðrum, hljóti skólinn að búa yfir betri aðferðum sem ekki hafi í för með sér niðurbrot þeirra barna sem þurfa á þess konar skimun að halda.

Fyrir þessi börn eru samræmd próf sem og önnur próf sem skólinn leggur fyrir hin mesta pína. Frá skólabyrjun fara þau heim tvisvar á ári með blað þar sem metið er með tölum hver staða þeirra er og þau eru fljót að átta sig á þýðingu þessa talna. Þau börn sem fá slaka útkomu fá skerta sjálfsmynd og upplifa sig sem tossa. Ef foreldrarnir draga þetta í efa sækja þau einkunnablöðin þar sem þetta stendur svart á hvítu, sama hvað foreldrarnir reyna að telja barninu trú um að þau frábær, klár og allt það sem foreldrar vilja og trúa að börnin þeirra séu. Þau trúa einkunnunum. Það er skelfileg staða að segja barni að það sé ekkert að marka einkunnir.

Líkamleg einkenni koma oft upp hjá þessum börnum, læknavísindin eru jafnvel lengi að átta sig á að rót einkennanna liggi í því að börnunum finnst þau ekki standa sig í skóla og ráða ekki við verkefnin. Endurgjöfin sem þau fá er alltof oft: Þetta er ekki nógu gott, þú verður að gera betur. Jákvæð endurgjöf er besta hvatningin og ég auglýsi hér með eftir slíku í skólastarfi. Skólarnir verða að miða að því að finna sterku hliðar einstaklingsins og vinna út frá þeim en hætta að hjakka í þeim veiku, það leiðir bara til niðurbrots.

Ef skólinn notaði þessi próf til að meta þörf á skimun fyrir sértækum námsörðugleikum væri mögulega hægt að líta jákvæðari augum á þau en því miður þá er það bara ekki svo.

Í hvert skipti sem útkoma barna í prófum er slök er það ekki hvati til að gera betur næst, fyrir þau er þetta niðurbrot, fyrir þau breytist námsefnið í ókleift fjall. Ef þau fá góða útkomu virkar það sem hvati og þau öðlast fullvissu um að þau geti þetta og þau gera betur næst. Því tel ég að próf sé í raun eingöngu jákvæð fyrir þá örfáu sem fá mjög góða útkomu.

Hvað varðar atriði númer 2 hér að ofan þá hefur rannsókn sem gerð hefur verið á hvaða þættir hafa áhrif á frammistöðu nemenda gefið þá vísbendingu að menntun foreldra og tekjur þeirra hafi mest að segja. Munur á milli skóla skýrist því meir af því að félagsleg staða fjölskyldna er hverfaskipt heldur en því hvernig  skólarnir sjálfir séu að sinna hlutverki sínu.

Seinasta atriðið tel ég að geti ekki afsakað að svona ung börn séu brotin niður með þeim hætti sem ég hef lýst hér að framan.

Samræmd próf hjá svona ungum börnum eiga ekki rétt á sér. Yfirhöfuð eiga próf og einkunnaspjöld sem börnin fara með heim til sín ekki rétt á sér fyrr en á síðari skólastigum.. Kennarar vita alveg hvar börn á yngri skólastigum standa og geta flutt foreldrum þau tíðindi. Hvernig liði okkur fullorðnum að fá sem tölur á blaði tvisvar á ári hvernig við stóðum okkur í vinnunni? Bera saman við alla hina, allir vita hvað hinir fengu. Fáar stéttir hafa mótmælt árangurstengdum launum jafn kröftuglega og kennarar. Ef fullorðnum er nóg boðið geta þeir sagt upp og farið í aðra vinnu. Börnin geta ekki hætt í skólanum ef þeim er nóg boðið.

Próf á fyrri stigum grunnskóla gefa enga vísbendingu um hvernig barnið muni standa sig síðar á lífsleiðinni, þau brjóta meira niður en réttlætanlegt getur talist. Skólinn notar þau ekki til að byggja upp einstaklingsmiðað nám eða vísbendingu um að fara þurfi yfir þarfir barna fyrir greiningu eða önnur úrræði enda ættu að vera til mun betri og markvissari leiðir til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég held að það séu mjög margir foreldrar, kennarar og skólastjórnendur sem eru í grunninn sammála þér í þessu.  Þú hefur séð mína skoðun í bloggi mínu frá því í dag, þannig að þú sérð að ég er á sömu skoðun.  Mig langar samt að taka þetta einu skrefi lengra og segja að hver nemandi í grunnskóla eigi eingöngu að fást við námsefni sem gæfi honum á bilinu 6 til 8 í einkunn á prófi.  Þar með er ég ekki að segja að sumir nemendur eigi að dragast langt aftur úr og aðrir að æða á undan (þó það gerist líklegast a.m.k. tímabundið).  En einkunn á þessu bili sýnir að nemandinn er að fást við námsefni sem nægilega þungt/ögrandi til þess að hann þarf að hafa fyrir því og ekki það þungt að hann ráði ekki við það.  Nemandi sem sífellt fær undir 6 er að fást við of þungt efni.  Hann er ekki að ná ýmsum grunnþáttum og lærdómurinn er strögl, kvöð eða jafnvel leiðindi.  Nemandi sem er sífellt að fá yfir 8, er að fást við of létt námsefni og þar með er það ekki nægilega ögrandi.  Hann hefur getu til að fara hraðar yfir og kljást við erfiðari verkefni.  Einstaklingsbundið nám getur tryggt þetta.  Samræmd próf ekki.

Marinó G. Njálsson, 18.10.2007 kl. 22:38

2 identicon

Alveg sammála þessu og hér með kvitta ég fyrir að lesa bloggið þitt reglulega og þakka fyrir mig. 'Eg les líka bloggin þeirra Önnu og Gíslínu!Þið eruð frábærir bloggarar hver með sínum hætti.

aslaugben (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 22:45

3 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Sammála eins og venjulega Kristjana.  Litla frænka mín var að æfa sig í gær á gömlu prófi, margar blaðsíður af efni og pabbi hennar sagði að þetta væri bara verulega þungt. Svo fór sú litla snemma að sofa svo hún væri betur undirbúin fyrir prófið....og hún er bara 9 ára.  Er þetta Breiðavík nútímans....eða þannig...

Gíslína Erlendsdóttir, 18.10.2007 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband