Leggur og skel

Með örfárra vikna millibili voru opnaðar tvær risaleikfangaverslanir hér á höfuðborgarsvæðinu. Fréttir herma af metsölu í fyrri búðinni og örtröð við opnun í þeirri seinni.

Var skortur á leikföngum á Íslandi? Það hlýtur að hafa verið. Hafði að vísu ekki orðið vör við það, skorti ekki einu sinni leikföng í æsku.

Í æsku já.

Við Erna áttum "bú", bæði dýrabú og drullubú. Þetta var í holtinu rétt við bæinn. Í drullubúinu var gamla kolavélin hennar ömmu. Þar áttum við brotna diska frá mömmu, eyrnalausa bolla og hálfar netakúlur voru notaðar sem salatskálar eða til að hræra í kökudeig. Þarna voru hvalbein notuð sem eldhúskollar, miklar hnallþórur voru bakaðar og skreyttar með Holtasóleyjum, Jakobsfíflum og Maríustakk. Kaffi var lagað á gamla kaffikönnu frá ömmu og "drukkið" úr eyrnalausu bollunum.

Dýrabúið var myndarlegt. Hver tegund átti sinn kofa. Byggingastíllinn var einfaldur, stungið með skóflu út úr þúfu, helst í halla. Spýtur voru settar yfir hliðarnar og torfið sem stungið var út notað til að tyrfa yfir.

Við sátum um alla leggi sem til féllu á haustin, við vorum sérfræðingar í að hnýta band um þá fremsta. Svo var farið á útreiðar þetta voru að sjálfsögðu hestar. Við þekktum leggina með nafni og fundum greinilegan mun milli þeirra þegar við brugðum okkur á bak, sumir voru viljugir, aðrir hastir, sumir hrekkjóttir. Það þurfti mikið að temja.

Kjálkana var auðvelt að fá, þá fengum við náttúrulega af sviðunum. Þeir voru að sjálfsögðu kýr, við rákum stórt kúabú. Verra var þetta með kindurnar, það hefðbundna var að nota horn sem kindur en þar sem fjárstofninn heima hjá okkur var kollóttur var ekki um auðugan garð að gresja. Við vorum stórhuga og sættum okkur ekki við þau örfáu horn sem við með góðu móti komumst yfir. Því brutum við hefðina og notuðum öðuskeljar sem kindur. Af þeim var nóg við sjóinn. Við áttum því fleiri hundruð fjár og til að þær fengju nú nóg að bíta yfir sumarið þá fórum við með skeljarnar í fötum á "afrétt" sem var í holtum töluvert frá. Þar dreifðum við "kindunum" á vorin og fórum svo í leitir á haustin til að safna þeim saman.

Í borgarsamfélagi nútímans eiga börn ekki kost á leikjum eins og lýst er að ofan. En er ekki hægt með einhverju móti að leyfa þeim að nota hugmyndaflugið með heldur minna magni af tilbúnum leikföngum? Er hamingja barna okkar keypt í þeim búðum sem verið var að opna? Eða erum við sjálf að kaupa okkur frið frá þeirri sektartilfinningu sem við búum yfir þar sem við höfum ekki gefið okkur þann tíma með þeim sem við hefðum viljað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Skemmtileg lýsing hjá þér Kristjana mín.... maður teiknar þetta upp í huganum.

Anna Einarsdóttir, 12.11.2007 kl. 18:25

2 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Þú gleymir nú rúsínunni í pylsuendanum. Einu sinni vorum við með krakkana okkar á fallegum sumardegi í Árbæjarsafni. Er þá ekki sjónvarpið þar á ferð að spjalla við gesti og gangandi. Skýrleiksbörnin okkar voru þar að leika sér að leikföngum forfeðranna. Sjónvarpið spurði þau út í þessa forngripi og jú, þau höfðu sko oft séð svona, mamma mín lék sér sko að svona og.... já því má bæta við að hún fæddist áður en rafmagnið kom og ........

flott blogg systa :)

Erna Bjarnadóttir, 12.11.2007 kl. 23:19

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Jamm, rafmagnið.................meir um það síðar...........................

Blessuð börnin, fannst ekkert merkilegt við kjálkana, leggina og skeljarnar á safninu, þau höfðu sko bara sjálf leikið að þessu í sveitinni.

Kristjana Bjarnadóttir, 12.11.2007 kl. 23:59

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

ég hef verið alin upp við sektartilfinningu vegna forfeðra minna (Steinunnar ogBjarna í 5 ættlið)...en nútíminn fyrirgefur fljótt..kannski er það gott? Held allavega ekki að syndir erfirt!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.11.2007 kl. 00:50

5 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Skemmtileg skrif og ég tek undir þínar hugleiðingar. Var stundum í sveit sem barn og við krakkarnir lékum okkur oftast bara að þvi "dóti" sem við fundum í náttúrunni.

Takk fyrir skrifin á minni síðu. Knús á þig

Margrét St Hafsteinsdóttir, 13.11.2007 kl. 20:53

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fín skrif. Maður kannast við þetta flestallt. Reyndar lékum við okkur í Hveragerði meira með allskonar kassa til að sitja á og stengur og spýtur í kring, að ógleymdum potthlemmum fyrir stýri. Þetta kölluðum við bíla. Hjá okkur höfðu bollar ekki eyru heldur handarhöld. Pottar geta haft eyru í mínum huga en alls ekki bollar.

Sæmundur Bjarnason, 13.11.2007 kl. 21:43

7 Smámynd: Fríða Eyland

Handarhöld er nú nýmæli í mín eyru en finnst það langbesta orðið handarhöld í staðin fyrir handföng sem mér er tamt, nota það hér eftir..

 Búbót, snilldarfærsla Anna kom með það, ég reiknaði út í ganni hvað miklu var eytt á haus miðað við 1/2-12 árs, það koma bara vöfflur á mann þegar leikfangaverslanir eru tæmdar, er þjóðin galin ? datt mér fyrst í hug

Fríða Eyland, 14.11.2007 kl. 02:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband