Áfram Þorgerður Katrín

Þessi færsla er hól til menntamálaráðherra fyrir frammistöðu hennar í Kastljósinu í kvöld þar sem hún og Guðni Ágústsson áttust við vegna umræðu um trúarlega aðkomu í skólastarf. Það er örugglega ekki auðvelt að standa gegn kirkju og biskupi en mér fannst hún skilja um hvað málið snýst, mun meira en margir hafa gert.

Örlítið fannst mér vanta á að Þorgerður skýrði út í hverju kristið siðgæði er frábrugðið  "umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi" eins og segir í nýjum grunnskólalögum. Að öðru leyti stóð hún sig vel.

Aumingja Guðni var eins og nátttröll. Talaði um að kristilegt siðgæði væri fallegt orð, heiðingjar væru sjálfsagt með verra siðgæði en aðrir! 

Hvað meinti maðurinn?

Hvað eru heiðingjar? Er það ég sem stend utan trúfélaga? Er hægt að fullyrða að heiðingjar séu með verra siðgæði en aðrir án þess að geta þess hvað átt er við með þessu orði "heiðingjar"?

Æi, hvernig getur umræða meðal almennings verið á vitrænu plani þegar stjórnmálamenn og biskup láta svona.

En Þorgerður Katrín: Stattu þig stelpa!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kristjana, heiðingjar hafa ekki nema að vissum hluta sama siðgæði og kristinn siður inniheldur, eða hélztu virkilega, að þetta væri allt sama tóbakið?

Þorgerður stóð sig vel fyrir sinn málstað -- sem er þó fráleitt nógu góður málstaður.  

Jón Valur Jensson, 13.12.2007 kl. 00:45

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Jón Valur, ég hef aldrei litið á siðgæði sömu augum og tóbak, skil ekki samlíkinguna.

Hvað siðgæði varðar hef ég ekki skilið að hvaða leyti kristið siðgæði getur ekki fallið undir alemnnu skilgreininguna um að í því felist : "umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggja sáttfýsi og virðing fyrir manngildi". Það er það siðgæði sem ég og það fólk sem ég þekki utan trúfélaga hefur að leiðarljósi. Ef það er ágreiningur um að kristið siðgæði standi fyrir eitthvað annað þætti mér vænt um að vita í hverju sá ágreiningur liggur.

Kristjana Bjarnadóttir, 13.12.2007 kl. 08:29

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Ef það er ágreiningur um að kristið siðgæði standi fyrir eitthvað annað þætti mér vænt um að vita í hverju sá ágreiningur liggur.

Þarna átti náttúrulega að standa: "Ef það er ágreiningur um að kristið siðgæði standi fyrir þetta annað þætti mér vænt um að vita í hverju sá ágreiningur liggur.

Biðst afsökunar.

Kristjana Bjarnadóttir, 13.12.2007 kl. 08:30

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Ef það er ágreiningur um að kristið siðgæði standi fyrir eitthvað annað þætti mér vænt um að vita í hverju sá ágreiningur liggur.

Þarna átti náttúrulega að standa: "Ef það er ágreiningur um að kristið siðgæði standi fyrir þetta  þætti mér vænt um að vita í hverju sá ágreiningur liggur.

Biðst aftur afsökunar gleymdi að taka út annað.

Kristjana Bjarnadóttir, 13.12.2007 kl. 08:32

5 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Verð að kíkja á þetta Kastljós. Flott ef Tobba hefur staðið sig vel. Kristni á auðvitað engan einkarétt á að kenna sig við "umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggja sáttfýsi og virðing fyrir manngildi". Þessi gildi standa hins vegar lang sterkustum fótum í kristnum samfélögum Vesturlanda um það verður varla deilt. En umbætur í þeim málum hafa nú ekki komið frá sitjandi kirkjuleiðtogum á hverjum tíma ef ég man rétt ;). Í dag er fólk í þessum heimshluta einfaldlega almennt vel menntað, hefur nóg á milli handanna og getur því leyft sér að leggja áherslu á þessi gildi.

Erna Bjarnadóttir, 13.12.2007 kl. 08:59

6 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Búin að kíkja á Kastljósið. Þorgerður stóð í lappirnar við að skilja á milli fræðslu og trúboðs, sem og að halda í að kristni er auðvitað órjúfanleg frá sögu okkar og menningu.  

Áfram á þessari braut með þetta mál Þorgerður Katrín!

Erna Bjarnadóttir, 13.12.2007 kl. 10:13

7 Smámynd: Jakob Ágúst Hjálmarsson

Umræðan í gær var athyglisverð. Ég held þó að við ættum ekki að skipta liði strax. Það eru fleiri hliðar á málinu. Blogga svolítið um þetta á http://jagust.blog.is og meina að við þurfum að gæta okkar á viðmiðunum. Ég skil að vísu ekki þetta með trúboðið. Ég veit ekki um neinn prest eða djákna hér sem telur sig vera í trúboði, heldur uppfræðslu og þjónustu við skírð börn og þau önnur sem hennar kunna að óska. Það er ekki eins og íslenskt samfélag sé að vaxa fram úr heiðni þessa dagana.

Jakob Ágúst Hjálmarsson, 13.12.2007 kl. 10:50

8 identicon

Algerlega sammála þér Kristjana.

Það sem ég hjó eftir var að Guðni talaði um að verið væri að henda út Guði. Samkvæmt hans speki er Guð alltaf kristinn og því þarf að henda honum úr Þjóðsöngnum! Þvílíkt bull. GUÐ er grunnur allra trúarbragða og Gamla testamentið er ekki einkaeign kristinna. Þetta stakk mig burtséð frá kristinni trú og trúboði í skólum eða fermingarfræðslunni.

Bylgja (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 10:59

9 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sæll Jakob

 

Ég átta mig ekki á hvað þú átt við með að við ættum ekki að skipta í lið. Ég vil ekki sjá liðskiptingu í þessum efnum. Ég tel að við getum sameinast um að grunnskólinn eigi að að hafa að leiðarljósi siðferðisleg gildi sem byggjast á "umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju sáttfýsi og virðing fyrir manngildi". Með því að eyrnamerkja þessi gildi einu trúfélagi erum við að skipta þjóðinni í lið. Það vil ég ekki, nema að kristilegt siðgæði byggist á einhverju öðru en þessu.

 Varðandi trúboðið þá finnst mér gott að bera þetta saman við aðkomu stjórnmálaflokka í skóla og uppfræðslu um stjórnmál í sögulegu samhengi. Slíkt myndi flokkast undir áróður, einkum ef aðeins sá stærsti sem í krafti meirihluta fengi aðstöðu í skólanum. Slíkur stjórnmálaflokkur myndi ekki endilega upplifa það sem áróður og telja sig fullfæran um að gera þetta hlutlaust, ég er ekki viss um að við myndum öll taka undir það.

Kristjana Bjarnadóttir, 13.12.2007 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband