Færsluflokkur: Bloggar

Á hliðarlínunni

Á heimili mínu, líkt og mörgum orðum, var fjármálakreppan rædd yfir kvöldmatnum. Við ræddum þetta í bæði víðu og þröngu samhengi, orsök og mögulegar afleiðingar. Ég benti unga fólkinu jafnframt á að þetta væri söguleg stund og við myndum alltaf muna eftir þessum degi, hvar við vorum stödd þegar forsætisráðherra flutti ræðuna sína kl 16.00. Síðan eftir einhver ár þegar lífið væri aftur komið í svipaðar skorður og fennt í þessa atburði þá væri þetta eins og hver önnur hindrun í lífinu.

Ég minnti á að afi þeirra og amma hefðu átt heimili í Vestmannaeyjum í gosinu og þannig hefði þetta verið fyrir þeim, það hefði verið verkefni sem tekist hefði verið á við og þannig væri þetta núna.

Sonurinn, björgunarsveitarmaðurinn, benti hins vegar á eftirfarandi: "En það er allt annað, þegar náttúruhamfarir verða þá fer maður bara í björgunarsveitargallann til að gera eitthvað, núna getur maður ekkert gert, maður horfir bara ráðþrota á."

"Já", sagði ég, "en við hin sem ekki erum í björgunarsveit, við getum ósköp lítið gert í náttúruhamförum".

"Jú, það er hægt að gefa pening í safnanir handa þeim sem misstu allt sitt þegar það verða náttúruhamfarir, það er ekki hægt núna". 

Það er nefnilega nokkuð til í þessu, við stöndum svolítið á hliðarlínunni og bíðum hvað verður og höfum ekki tök á að grípa inn í með nokkrum hætti. Það er vond tilfinning.


Umræða um neyðarlög

Eins og margir landsmenn sit ég og reyni að átta mig á hvaða hremmingar ganga nú yfir okkur. Að einhverju leyti skortir mig þekkingu og vit til að skilja hvað þetta raunverulega þýðir.

Miklu skiptir að börn séu upplýst um það sem vitað er og hvað þetta þýðir fyrir þeirra fjölskyldu en enn skortir mikið á að almenningur geti skýrt þetta út fyrir þeim, við fullorðna fólkið skiljum það ekki enn.

Ég horfi nú á umræður frá Alþingi. Innlegg tveggja þingmanna vil ég minnast á:

Steingrímur J. Sigfússon vill draga til ábyrgðar þá sem fyrir þessu stóðu. Það er kannski ekki verkefni dagsins í dag en svo mikið er víst að þetta er það sem við þessi sauðsvarti almenningur vil sjá. Ekki endilega opinberar refsingar, bara að nöfnin séu tilgreind þeim til ævarandi skammar. Almenningi svíður sú staðreynd að ástandið sé mögulega tilkomið vegna græðgi einungis 20-30 manna.

Guðni Ágústsson segir framsóknarmenn hafa varað við þessu. Mögulega má það til sanns vegar færa og sannarlega hefur ríkisstjórnin siglt um seinustu mánuði með bundið fyrir augun. En Guðni gleymir alltaf að minnast á hver var við stjórnvölinn þegar grunnurinn var lagður að þessum atburðum. Hver var í ríkisstjórninni sem einkavæddi bankana, lækkaði bindiskyldu, jók möguleika einstaklinga og fyrirtækja til skuldsetningar, réð Davíð Oddsson sem seðlabankastjóra? Það sem ég er að segja m.ö.o. leyfði íslensku hagkerfi að éta fíl. Guðni, stundum er bara betra að hafa lágan prófíl.

Nú er verkefnið að vinna saman á samfélagslegum nótum, styðja sameiginlega við þá sem eiga um sárt að binda vegna þessa. Einhvern veginn er mér það ofar í huga en spariféð okkar.

Var einhver að tala um félagshyggju?

ps. Það er náttúrulega grátbroslegt að það sé hægt að flokka færslur hér á blogginu undir "Landsbankadeildin". Líklega eiga flestar færslur í dag heima þar.


Fólk framtíðarinnar

Þessa dagana er auðvelt að gleyma sér í svartsýnisrausi. Auðvelt að finnast allt vera á niðurleið og engin framtíðarsýn.

Við megum ekki gleyma því að mikill mannauður er í ungu fólki. Um helgina stóðst 18 ára sonur minn nýliðapróf björgunarsveitarinnar Ársæls. Þjálfunin hefur staðið í eitt ár og fólst meðal annars í: Skyndihjálparnámskeiðum, kennslu í ferða- og fjallamennsku, kennslu í rústabjörgun og svona mætti lengi telja. Fjallamennskunámskeiðin voru erfiðust, helgarferð frá föstudegi til sunnudags á jökli um miðjan vetur, fyrst rigning og síðan frost. Þar var farið yfir atriði sem tengjast ferðalögum á jöklum, ísklifur og fleira, hafst við í tjöldum og dagskrá meginhluta sólarhringsins. Björgunarsveitarfólk verður að hafa nokkurra sólarhringa úthald og þjálfunin miðast við þann veruleika.

Prófið sjálft var um 30 tíma vinna við lausn á mismunandi þrautum. Nokkurra klukkustunda rötunaræfing um erfitt landsvæði og síðan próf í leitartækni og fleiri atriðum. Engin hvíld. Hluti af prófinu fólst í því að kunna að bjarga sér og félögum sínum við erfiðar aðstæður og einnig að útbúnaður væri réttur og nægilega góður.

Á dögum eins og í dag þegar bankakreppa vofir yfir er mikilvægt að minnast þess gríðarlega mannauðs sem liggur í unga fólkinu okkar.

Ég er ákaflega stolt móðir í dag.


Ég er sár, svekkt og hef skömm á..........

Fyrir um ári síðan birti ég færslu sem bar heitið "Reið". Nú þessa dagana bærast aftur í mér sterkar tilfinningar. Það er ekki reiði, ég hef ekki orð yfir þessa tilfinningu, mér finnst almenningur í landinu hafa verið misnotaður og valdhafar hafa staðið þegjandi hjá, án aðgerða. Orðin sem mér dettur í hug eru: sár, svekkt, skömm og svo einhver tómleikatilfinning, getur verið að þetta sé að gerast?

Þessar tilfinningar mínar beinast gegn:

  • Stjórnvöldum undanfarinna ára sem með sínum aðgerðum og aðgerðaleysi leyfðu bönkunum að tútna út langt umfram það sem eðlilegt var miðað við stærð hagkerfisins og möguleika seðlabankans til að styðja við þá ef illa færi.
  • Stjórnvöldum undanfarinna ára fyrir að hafa ekki í kjölfar einkavæðingar bankanna sett einhverjar reglur um bann við krosseignatengslum. Það getur ekki verið gott að bankarnir séu í eigu sömu manna og hafa mestu fjármálaumsvifin, afleiðingin er að þeir lána sjálfum sér umfram það sem eðlilegt er.
  • "Útrásarliðinu" og öllum gölnu kaupréttarsamningunum. Hvað ætli að séu margar millur eða milljarðar sem bankarnir hafa borgað þannig út?
  • Núverandi stjórnvöldum fyrir að hafa stungið höfðinu í sandinn seinustu mánuði og vonað að þetta lagist af sjálfu sér.
  • Davíð Oddsyni fyrir að haga sér eins og eiræðisherrann yfir Íslandi
  • Guðna Ágústssyni og Valgerði Sverrisdóttur fyrir að tala núna eins og þau hafi aldrei verið í ríkisstjórn. Valgerður gagnrýndi meira að segja að Davíð Oddsson væri Seðlabankastjóri, bíddu hver var bankamálaráðherra þegar hann var ráðinn?

Listinn er lengri en þetta er það sem mér datt fyrst í hug.

Ég á aðeins eina ósk, hún er sú að þegar við förum aftur að rétta úr kútnum þá munum við öll læra af þessu, veita stjórnvöldum og fjármálakerfinu meira aðhald, verðum sjálf ekki jafnauðtrúa á að skjótfenginn gróði sé endilega á hendi. Skiljum að eignir sem eru veðsettar í topp eru ekki raunverulegar eignir, lærum að spara, hægjum á okkur í lífsgæðakapphlaupinu.


Krónan og raunveruleg verðmæti

Ég hef aldrei átt hlutabréf, mér hefur einhvern vegin þótt það áhættusamt. Minn sparnaður hefur ætíð verið í krónum á bankabók.

Í dag gerði ég mér grein fyrir því að það er verulega áhættusamt að geyma spariféð sitt í þessum krónum. Raunverulegt verðmæti krónunnar er að þurrkast upp. Það er verulega áhættusamt að eiga þennan gjaldmiðil og geyma þó ekki sé nema fermingapeninga unglingsins í þessum gjaldmiðli. Hann er ekki pappírsins virði fyrir utan landsteinana.

Nú er komið að því að launþegar landsins krefjist þess að fá launin sín uppgerð í raunverulegum verðmætum en ekki verðlausum gjaldmiðli. Þessi raunverulegu verðmæti hljóta þá að tengjast starfssemi á vinnustaðnum.

Hm, ég vinn í Blóðbankanum.................!


Röskva

Röskva, samtök félagshyggjufólks í Háskóla Íslands, er 20 ára á þessu ári. Þessara tímamóta minntist Röskvufólk á Borginni sl. laugardagskvöld.

Í stefnuskrá Röskvu sem samþykkt var á stofnfundi hennar fyrir 20 árum kemur orðið félagshyggja 18 sinnum fyrir. Það segir meira en mörg orð um fyrir hvað þetta félags stendur.

Þegar við stofnuðum Röskvu trúðum við því að félagshyggjufólk næði betri árangri í baráttu sinni fyrir hugsjónum sínum með því að sameina krafta sína frekar en að vinna að þeim í mörgum minni fylkingum. Ég trúi því enn og mig dreymir enn um samvinnu félagshyggjufólks á landsvísu.

Á dögum eins og í dag þegar færa má rök fyrir að frjálshyggjan hafi beðið ákveðið skipbrot, okkar sameiginlegu sjóðir taka yfir það sem talið var glæst fley útrásarliðs, þá langar mig að horfa örlítið lengra, dreyma. Dreyma um að einhvern tíma verði kosið á ný í þessu landi, að þjóðin hafi lært eitthvað um fyrir hvað hægri menn standa og að það sé full ástæða til að nefna orðið félagshyggja 18 sinnum í einni stefnuskrá. Félagshyggja þýðir nefnilega að við viljum öll njóta þess þegar vel gengur og bera saman ábyrgð þegar illa gengur, ekki bara að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið.

Í fréttablaðinu á laugardaginn stóð: "Sjallar óvelkomnir á Borgina". Það gildir líka fyrir þá stjórn sem ég vil sjá í þessu landi.

Sjallar eru óvelkomnir í Röskvustjórn.


Ferð um gömlu Sovét 5. kafli

Þetta er framhald af ferðasögu minni um gömlu Sovétríkin. Hér má sjá 1. kafla, 2. kafla, 3. kafla og 4. kafla.

Eftir viðburðaríka dvöl í Kiev, var komið að því að skoða Odessa. Sú borg kom mér mun meira aðlaðandi fyrir sjónir en sérstaklega Leningrad sem var verulega fátækleg en einnig var Kiev frekar grá. Í Odessa voru kaffihús og lifandi mannlíf á götum. Rússneska leiðsögukonan skýrði þetta með því að mun meiri matvælaframleiðsla væri þarna sunnar, nauðþurftir bárust illa norður til Leningrad og skýrði það mun meiri fátækt fólksins þar. Vörurýrnun í flutningum var verulegt vandamál og spilling í öllu kerfi var grasserandi.

Frá Odessa lá leiðin til Moskvu. Moskvu minnist ég helst vegna mikillar mengunar, öll föt urðu strax grá af sóti. Einnig er mér Rauða torgið minnisstætt og ekki síst grafhýsi Leníns, þar lá karlinn smurður og fínn, sá það með eigin augum.

Frá Moskvu flugum við svo til baka til Kaupmannahafnar. Við Sigrún vorum örlítið spenntar að vita hvort við myndum lenda í einhverri athugun eða yfirheyrslu vegna pappírsins sem festur var við landvistaleyfið hennar og bókstafsins sem skrifaður var á mitt. Svo reyndist ekki vera.

Flugið var seint á föstudagskvöldi. Í vélinni fór ég að finna fyrir miklum magaverkjum og vott af ógleði. Maturinn sem við fengum í Sovét var ekki það mest kræsilega sem ég hef fengið um dagana. Allt drykkjarvatn var soðið og við drukkum mikið te. Mig grunaði að þessir verkir tengdust matnum eða drykkjarföngum.

Á Kastrup tóku ættingjar Sigrúnar á móti okkur en við fengum að gista hjá frænku hennar sem bjó í Kaupmannahöfn. Við ætluðum að dvelja þarna í nokkra daga og skoða okkur um, heimferð var áætluð á miðvikudegi, á fimmtudegi var 1. september og þá átti ég að mæta í fyrsta skipti á nýjan vinnustað, Blóðbankann.

Á Laugardeginum fórum við í ferð að einhverjum kastala og um kvöldið í Tivoli. Ég var alltaf með þessa magaverki og ætlaði ekki að komast heim með lestinni um kvöldið, gat varla gengið. Sigrún er hið mesta hörkutól og var augljóst að henni fannst ég fullaum. Á sunnudagsmorgun var ég algerlega að farast, frænkan gaf mér gammel dansk en allt kom fyrir ekki. Þar kom að Sigrún yfirheyrði mig um verkina og kom þá í ljós að þeir voru mestir í botnlangastað. Ég var flutt á spítala og skorin upp um kvöldið við botnlangabólgu.

Ég get enn þann dag í dag ekki hugsað þá hugsun til enda hvað hefði gerst ef þetta botnlangakast mitt hefði orðið tveim dögum fyrr, í Moskvu.

Sigrún var á þessum tíma í námi í sjúkraþjálfun og var hún dugleg að koma mér fram úr rúminu strax á mánudag, ég þurfti að verða ferðafær á miðvikudag. Ég man að ég var aum eftir uppskurðinn og gat varla gengið.

Frænkan hjálpaði Sigrúnu að panta hjólastól á Kastrup þannig að ég þyrfti ekki að ganga alla flugstöðina. Við mættum tímanlega á flugvöllinn en þegar þangað kom var þar enginn hjólastóll. Við tékkuðum farangurinn inn og biðum........og biðum. Á skjá mátti sjá að farið var að hleypa inn í flugvélina. Þolinmæði okkar var á þrotum og á endanum fékkst stóll. Starfskona á vellinum keyrði stólinn og Sigrún fylgdi með. Á leiðinni að vélinni sást á skjá: "Gate closed" fyrir okkar vél. Svitinn bogaði af Sigrúnu því hún var með þungar töskur í handfarangri. SAS konan sem keyrði stólinn minn var ekki ánægð með þá þjónustu sem við höfðum fengið.

Þegar við komum að vélinni var beðið eftir okkur þar sem farangurinn var þegar kominn. Enn og aftur slapp ég með skrekkinn.

Þegar til Keflavíkur kom var ég fær um að ganga með því að liggja framá töskugrindina. Ég man eftir tortryggnissvip tollvarðanna þegar ég gekk þar framhjá, náföl og liggjandi fram á grindina.

"Nei, ekki taka mig, ég nenni þessu ekki", hugsaði ég. Það dugði, þeir hleyptu mér í gegn.

Ég hafði þurft að hringja heim og biðja systur mína um að hringja í nýju yfirmenn mína og tilkynna að ég myndi ekki mæta í vinnu fyrsta vinnudaginn minn. Það leit ekki vel út að byrja í nýrri vinnu með því að tilkynna veikindi.

Þessi ferðasaga hófst með því að ég keypti mér tvo vinstrifótarskó. Ferðin sjálf var bráðskemmtileg en það má segja að hver vinstrifótaruppákoman hafi rekið aðra. Því segi ég það að hendi það mig aftur að kaupa tvo vinstrifótarskó þá ætla ég að halda mig í rúminu í nokkra daga.

Kveikjan að því að ég settist niður til að skrifa þessar minningar var að nú í september eru 20 ár síðan ég byrjaði að vinna í Blóðbankanum, þegar ég minntist þess rifjaðist þessi ferð upp fyrir mér. Ég er enn að vinna í Blóðbankanum, þó ekki samfellt allan tíman þar sem ég var fjögur og hálft ár á öðrum vinnustað.


Ferð um gömlu Sovét 4. kafli

Þetta er framhald af ferðasögu minni um gömlu Sovétríkin. Hér má sjá 1. kafla, 2. kafla og 3. kafla.

Karlarnir með löggubeltin tóku okkur Sigrúnu og leiddu okkur inn á hótelið. Okkur var báðum strax ljóst að við vorum grunaðar um svartamarkaðsbrask. Hversu vel við skynjuðum alvöruna er ég ekki viss. Ég man að innst inni trúði ég ekki að neitt alvarlegt gæti gerst, ég var 24 ára og það er einhvern veginn í eðli ungs fólks að gera sér illa grein fyrir hættum í umhverfinu.

Á hótelinu var lögreglan með aðstöðu í nokkuð stóru herbergi. Þeir byrjuðu strax að yfirheyra okkur á rússnesku en við skildum ekki neitt. Fljótlega komu hollenski fararstjórinn og rússneska leiðsögukonan. Ég held að ferðafélagar okkar hafi séð í hvaða félagsskap við vorum komnar og látið þau vita. Við Sigrún sáum strax á svip þeirra að málið var grafalvarlegt.

Sigrún hafði skipt peningum á svörtum markaði fyrr í ferðinni. Hún var með meira af rúblum en magn dollaranna sem hún kom með inn í landið gaf til kynna. Slíkt var lögbrot, okkur var það báðum ljóst. Ég gerði mér grein fyrir að taugar Sigrúnar væru mun meira þandar en mínar. Það varð með okkur þegjandi samkomulag um að ég hefði orð fyrir okkur þar sem ég var í meira jafnvægi. Við gátum að sjálfsögðu ekki rætt þetta þarna en síðar kom í ljós að við hugsuðum nákvæmlega það sama þ.e. að það væri betra að ég hefði orð fyrir okkur.

Þá hófst yfirheyrslan. Mig minnir að fararstjórinn og leiðsögukonan hafi túlkað fyrir okkur, þó held ég að einhver frá lögreglunni hafi haft einhverja enskukunnáttu. Spurningarnar snerust um hvað við hefðum verið að gera þarna í þessum bakgarði. Við þóttumst bara hafa verið að skoða okkur um og könnuðumst ekkert við að hafa hitt einhverja drengi. Eitthvað sýndist mér löggan lítið trúuð á þessa söguskýringu.

Þegar ekkert gekk með að fá okkur til að játa glæpinn (sem enn var ósýnilegur) vorum við beðnar að sýna þeim hvað við værum með í handtöskunum okkar. Okkur rann kalt vatn milli skinns og hörunds því þarna nálguðust þeir miðann með yfirlitinu yfir peningana. Ég var búin að setja í handtöskuna mína ýmislegt sem ég ætlaði að hafa við höndina í lestinni til Odessa. Ég tók einn hlut í einu upp úr töskunni, lýsti hvaða hlutur þetta væri og til hvers ég notaði hann, bara til að treina tímann. Þetta var absúrd sena og löggan skynjaði það og brast þolinmæði.

"Sýndu okkur peningana þína og miðann með yfirlitinu" skipuðu þeir.

"Þar kom að því" hugsuðum við báðar og ég man að ég fraus eitt augnablik. Ég náði þó fljótt áttum og dró upp það sem ég var með, allt slétt og fellt, dollararnir mínir og upplýsingarnar á miðanum um peningaviðskipti mín í Sovétríkjunum stemmdu. Þar með misstu þeir alveg áhugann á Sigrúnu og hún var ekki spurð út í sín viðskipti, mér er enn óskiljanlegt hvaða lukka var yfir henni.

Í miðri yfirheyrslunni komu tveir lögreglumenn með einn af strákunum inn í herbergið, við vorum spurðar hvort við könnuðumst við strákinn, við neituðum. Strákurinn var með bolinn hennar Sigrúnar í bakpokanum sínum og aðspurð játaði Sigrún að eiga bolinn. Þar með var fæddur glæpur.

Hvernig gat strákur sem við könnuðumst ekki við verið með fatnað af Sigrúnu? Þetta þarfnaðist frekari yfirheyrslna og skýringa enda örugglega kolólöglegt.

Eftir töluvert þras og vesen gafst löggan upp á frekari yfirheyrslum. Stóri glæpurinn fannst ekki. Sigrún þurfti hins vegar að skrifa undir skjal sem hljóðaði eitthvað á þessa leið:

T-bolur með áletruninni "(skrifað var hvaða enska áletrun var á bolnum)" fannst í fórum (nafn stráksins) sem ég þekki ekki.

Þessi pappír var síðan festur við landvistarleyfi Sigrúnar til merkis um brot hennar. Á landvistarleyfið mitt var skrifaður áberandi bókstafur í eitt hornið. Hvað hann þýddi fékk ég engar skýringar á.

Með þetta sluppum við úr yfirheyrsluherberginu. Rútan sem átti að flytja okkur á lestastöðina var mætt fyrir utan hótelið þegar við komum út. Það mátti ekki mikið tæpara standa með að við misstum af lestinni til Odessa. Mikið varð ég fegin þegar lestin rann úr af lestastöðinni í Kiev, við vorum sloppnar.

Framhald síðar, hér er 5. kafli.


Ferð um gömlu Sovét - 3. kafli

Þetta er 3. kafli ferðasögu minnar um gömlu Sovét en sjá má 1. kafla hér og 2. kafla hér.

Ég hljóp eftir ganginum í flugstöðinni í Keflavík og átta mig á því að ég er með bíllykilinn í hendinni. Um mig rann kaldur sviti, voru engin takmörk fyrir óheppni minni þennan sólarhringinn? Ég hafði engan tíma til að hugsa þar sem vélin var við það að fara í loftið, ég sneri mér að næsta starfsmanni, sagði honum að í innritunarsalnum væri örugglega pirraður maður og hann ætti að fá þennan bíllykil. Að þessu loknu dreif ég mig í flugvélina.

Á Kastrup tók Sigrún á móti mér. Það urðu fagnaðarfundir þar sem við höfðum ekki sést síðan um vorið. Hún hafði verið í Kristianssand í Noregi um sumarið og hafði frá ýmsu að segja. Ég man enn eftir svipnum á henni þegar ég sagði henni hversu litlu hefði munað að ég missti af fluginu........og hún hefði þá ekki fengið ferðagögnin sín.

Daginn eftir mættum við aftur á Kastrupflugvöll, þar hittum við ferðafélagana sem voru víða að. Mig minnir að fararstjórinn hafi verið hollenskur en ég man ómögulega hvað hann hét. Þegar við komum til Sovétríkjanna tók á móti okkur kona sem mig minnir að hafi átt heima í Kiev og hún var síðan leiðsögumaður fyrir okkur allan tímann.

Hópurinn flaug saman til Leningrad. Í flugvélinni fengum við miða þar sem við áttum að skrá hversu mikla peninga við værum með á okkur þegar við fórum inn í landið. Ég held að allir hafi verið með dollara en þeim gat maður síðan skipt yfir í rúblur þegar við komum inn í landið. Í hvert skipti sem maður skipti dollurum í banka var það bókað á þennan miða sem við fengum í flugvélinni. Það var einnig hægt að skipta á svörtum markaði en það var mun hagstæðara og var hægt að fá fjórum sinnum meira í rúblum þannig heldur en með því að skipta löglega. Þá var hins vegar ekkert skráð á miðann og gat maður þá verið með á sér mun fleiri rúblur en opinbert virði dollaranna sem maður kom með inn í landið. Slíkt var algerlega ólöglegt.

Það var freistandi að skipta á svörtum markaði. Við vorum reyndar búin að borga bæði fæði og gistingu, það var innifalið í ferðinni. Því voru það ekki stórar upphæðir sem þetta snerist um. Kerfið virtist allt stíft og strangt og mér stóð stuggur af því. Sigrún var kaldari, bandarískur strákur sem var með okkur í ferðinni skipti fyrir hana nokkrum dollurum á svörtum. Hún var því með á sér mun fleiri rúblur en dollararnir sem hún kom með inn í landið gerðu ráð fyrir.

Við vorum fyrst nokkra daga í Leningrad. Ég man að mér fannst borgin óskaplega grá og köld í útliti. Verslanir voru tómar og kaffihús minntu helst á frystihús. Frá Leningrad flugum við til Kiev.

Fyrir utan hótelið sem við dvöldumst á í Kiev héngu nokkrir strákar. Við Sigrún spjölluðum við þá og ég man að við fórum með þeim á diskótek. Það var gaman að rabba við þá og forvitnast um þeirra hagi. Okkur fannst hins vegar mjög sérstakt hversu varir þeir voru um sig og þorðu ekki að segja okkur neitt nema þeir væru vissir um að það væri enginn að fylgjast með þeim eða að hlera. Þeir voru sífellt að kíkja í kringum sig hvort einhver væri að njósna um þá.

Strákarnir voru spenntir fyrir vestrænum klæðnaði, Levis gallabuxur var það alflottasta, næstflottast voru bolir með enskum áletrunum. Við Sigrún áttum engar Levis buxur en við vorum í bolum með einhverjum áletrunum. Okkur langaði líka í boli með rússneskum áletrunum því varð það að samkomulagi að við myndum skipta við strákana á bolum.

Ekki vildu strákarnir gera það á hóteltröppunum. Við áttum að hitta þá í bakgarði stutt frá hótelinu á tilteknum tíma, rétt eftir kvöldmat seinasta daginn okkar í Kiev, seinna um kvöldið átti allur hópurinn að taka næturlest til Odessa við Svartahaf.

Strákarnir voru stundvísir. Við drógum upp okkar boli, þeir drógu upp sína og gagnkvæm skoðun hófst. Skyndilega tóku strákarnir á rás og hlupu hver í sína áttina, einn þeirra tók bol frá Sigrúnu með sér. Við botnuðum ekki neitt í neinu hvað komið hefði fyrir, datt helst í hug að þarna hefðu þeir náð að plata okkur.

Við ákváðum að rölta til baka heim á hótel enda stutt í brottför hópsins á lestastöðina til að taka lestina til Odessa. Við gengum rólega eftir göngustíg og urðum skyndilega varar við að tveir menn veittu okkur eftirför. Þegar við nálguðumst hótelið voru þeir þétt upp við sitthvora hliðina okkar. Við ákváðum að ganga löturhægt, þeir einnig. Þeir ávörpuðu okkur á rússnesku og við hristum höfuðið. Þá tóku þeir um beltið á sér og sýndu okkur lögreglumerki.

Við vorum teknar fastar.

Framhald síðar, hér er 4. kafli.


Græða og grilla / Tapa og tárast

Mér varð það á í vikunni að nota góða hugmynd að bloggi í athugasemd á aðra færslu, það var nú kannski af því að færslan var kveikjan að hugmyndinni. Þannig var að Anna skólasystir mín skrifaði um sjálfstæðismennina sem áður vildu bara græða á daginn og grilla á kvöldin (sjá færslu Láru Hönnu frá því í janúar sl og einnig færslu mína frá sama tíma). Anna óttast að þeir séu bara núna að tapa á daginn og eldi inni á kvöldin. Ég held svei mér þá að þeir hafi ekki þrek í að elda, þeir eru bara að reikna tapið og svekkja sig á því.

tapa á daginn og tárast á kvöldin
taka skal stöðu gegn íslenskri mynt
saman þeir verja og halda um völdin
verðbólgubálið mikla skal kynt

tapa á daginn og tárast á kvöldin
taka skal stöðu með íslenskri mynt
saman þeir verja og halda um völdin
verðbólgubálið mikla skal kynt

Ég get hins vegar ómögulega ákveðið mig hvort passi betur að þessir menn taki stöðu gegn krónunni, þar vísa ég auðvitað til þess að orðrómur er um að bankarnir geri þetta. Hitt er að vísan passi betur með því að segja að þeir taki stöðu með krónunni, þar vísa ég auðvitað til seðlabankastjóra DO sem má ekki heyra á minnst á annað en að hún sé fullgildur gjalmiðill.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband