Ferð um gömlu Sovét - 3. kafli

Þetta er 3. kafli ferðasögu minnar um gömlu Sovét en sjá má 1. kafla hér og 2. kafla hér.

Ég hljóp eftir ganginum í flugstöðinni í Keflavík og átta mig á því að ég er með bíllykilinn í hendinni. Um mig rann kaldur sviti, voru engin takmörk fyrir óheppni minni þennan sólarhringinn? Ég hafði engan tíma til að hugsa þar sem vélin var við það að fara í loftið, ég sneri mér að næsta starfsmanni, sagði honum að í innritunarsalnum væri örugglega pirraður maður og hann ætti að fá þennan bíllykil. Að þessu loknu dreif ég mig í flugvélina.

Á Kastrup tók Sigrún á móti mér. Það urðu fagnaðarfundir þar sem við höfðum ekki sést síðan um vorið. Hún hafði verið í Kristianssand í Noregi um sumarið og hafði frá ýmsu að segja. Ég man enn eftir svipnum á henni þegar ég sagði henni hversu litlu hefði munað að ég missti af fluginu........og hún hefði þá ekki fengið ferðagögnin sín.

Daginn eftir mættum við aftur á Kastrupflugvöll, þar hittum við ferðafélagana sem voru víða að. Mig minnir að fararstjórinn hafi verið hollenskur en ég man ómögulega hvað hann hét. Þegar við komum til Sovétríkjanna tók á móti okkur kona sem mig minnir að hafi átt heima í Kiev og hún var síðan leiðsögumaður fyrir okkur allan tímann.

Hópurinn flaug saman til Leningrad. Í flugvélinni fengum við miða þar sem við áttum að skrá hversu mikla peninga við værum með á okkur þegar við fórum inn í landið. Ég held að allir hafi verið með dollara en þeim gat maður síðan skipt yfir í rúblur þegar við komum inn í landið. Í hvert skipti sem maður skipti dollurum í banka var það bókað á þennan miða sem við fengum í flugvélinni. Það var einnig hægt að skipta á svörtum markaði en það var mun hagstæðara og var hægt að fá fjórum sinnum meira í rúblum þannig heldur en með því að skipta löglega. Þá var hins vegar ekkert skráð á miðann og gat maður þá verið með á sér mun fleiri rúblur en opinbert virði dollaranna sem maður kom með inn í landið. Slíkt var algerlega ólöglegt.

Það var freistandi að skipta á svörtum markaði. Við vorum reyndar búin að borga bæði fæði og gistingu, það var innifalið í ferðinni. Því voru það ekki stórar upphæðir sem þetta snerist um. Kerfið virtist allt stíft og strangt og mér stóð stuggur af því. Sigrún var kaldari, bandarískur strákur sem var með okkur í ferðinni skipti fyrir hana nokkrum dollurum á svörtum. Hún var því með á sér mun fleiri rúblur en dollararnir sem hún kom með inn í landið gerðu ráð fyrir.

Við vorum fyrst nokkra daga í Leningrad. Ég man að mér fannst borgin óskaplega grá og köld í útliti. Verslanir voru tómar og kaffihús minntu helst á frystihús. Frá Leningrad flugum við til Kiev.

Fyrir utan hótelið sem við dvöldumst á í Kiev héngu nokkrir strákar. Við Sigrún spjölluðum við þá og ég man að við fórum með þeim á diskótek. Það var gaman að rabba við þá og forvitnast um þeirra hagi. Okkur fannst hins vegar mjög sérstakt hversu varir þeir voru um sig og þorðu ekki að segja okkur neitt nema þeir væru vissir um að það væri enginn að fylgjast með þeim eða að hlera. Þeir voru sífellt að kíkja í kringum sig hvort einhver væri að njósna um þá.

Strákarnir voru spenntir fyrir vestrænum klæðnaði, Levis gallabuxur var það alflottasta, næstflottast voru bolir með enskum áletrunum. Við Sigrún áttum engar Levis buxur en við vorum í bolum með einhverjum áletrunum. Okkur langaði líka í boli með rússneskum áletrunum því varð það að samkomulagi að við myndum skipta við strákana á bolum.

Ekki vildu strákarnir gera það á hóteltröppunum. Við áttum að hitta þá í bakgarði stutt frá hótelinu á tilteknum tíma, rétt eftir kvöldmat seinasta daginn okkar í Kiev, seinna um kvöldið átti allur hópurinn að taka næturlest til Odessa við Svartahaf.

Strákarnir voru stundvísir. Við drógum upp okkar boli, þeir drógu upp sína og gagnkvæm skoðun hófst. Skyndilega tóku strákarnir á rás og hlupu hver í sína áttina, einn þeirra tók bol frá Sigrúnu með sér. Við botnuðum ekki neitt í neinu hvað komið hefði fyrir, datt helst í hug að þarna hefðu þeir náð að plata okkur.

Við ákváðum að rölta til baka heim á hótel enda stutt í brottför hópsins á lestastöðina til að taka lestina til Odessa. Við gengum rólega eftir göngustíg og urðum skyndilega varar við að tveir menn veittu okkur eftirför. Þegar við nálguðumst hótelið voru þeir þétt upp við sitthvora hliðina okkar. Við ákváðum að ganga löturhægt, þeir einnig. Þeir ávörpuðu okkur á rússnesku og við hristum höfuðið. Þá tóku þeir um beltið á sér og sýndu okkur lögreglumerki.

Við vorum teknar fastar.

Framhald síðar, hér er 4. kafli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Vegna áskorana reyni ég að draga þessa ferðasögu ekki um of á langinn. Þessi síða heitir hins vegar "Efst í huga" og því mun ég birta annað efni ef það verður mér ofar í huga en framhald sögunnar.

Ég man líka þá tíð að hafa lesið framhaldssögur í viku- og mánaðarritum. Ég lofa að biðin eftir framhaldinu verður ekki umfram það.

Ég er byrjuð á 4. kafla.

Kristjana Bjarnadóttir, 21.9.2008 kl. 22:19

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég bíð mjög spennt. 

Anna Einarsdóttir, 21.9.2008 kl. 22:57

3 identicon

Ég líka, en ekki misskilja mig, þú mátt alveg draga söguna en bara mátulega lengi til að halda manni við efnið:)

Ásdís (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 12:47

4 identicon

Algjörlega stórkostleg upprifjun.  Þetta hefur verið meiri háttar ferðalag.  Bíð spennt eftir framhaldinu...

Þorbjörg (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband