Ferð um gömlu Sovét 4. kafli

Þetta er framhald af ferðasögu minni um gömlu Sovétríkin. Hér má sjá 1. kafla, 2. kafla og 3. kafla.

Karlarnir með löggubeltin tóku okkur Sigrúnu og leiddu okkur inn á hótelið. Okkur var báðum strax ljóst að við vorum grunaðar um svartamarkaðsbrask. Hversu vel við skynjuðum alvöruna er ég ekki viss. Ég man að innst inni trúði ég ekki að neitt alvarlegt gæti gerst, ég var 24 ára og það er einhvern veginn í eðli ungs fólks að gera sér illa grein fyrir hættum í umhverfinu.

Á hótelinu var lögreglan með aðstöðu í nokkuð stóru herbergi. Þeir byrjuðu strax að yfirheyra okkur á rússnesku en við skildum ekki neitt. Fljótlega komu hollenski fararstjórinn og rússneska leiðsögukonan. Ég held að ferðafélagar okkar hafi séð í hvaða félagsskap við vorum komnar og látið þau vita. Við Sigrún sáum strax á svip þeirra að málið var grafalvarlegt.

Sigrún hafði skipt peningum á svörtum markaði fyrr í ferðinni. Hún var með meira af rúblum en magn dollaranna sem hún kom með inn í landið gaf til kynna. Slíkt var lögbrot, okkur var það báðum ljóst. Ég gerði mér grein fyrir að taugar Sigrúnar væru mun meira þandar en mínar. Það varð með okkur þegjandi samkomulag um að ég hefði orð fyrir okkur þar sem ég var í meira jafnvægi. Við gátum að sjálfsögðu ekki rætt þetta þarna en síðar kom í ljós að við hugsuðum nákvæmlega það sama þ.e. að það væri betra að ég hefði orð fyrir okkur.

Þá hófst yfirheyrslan. Mig minnir að fararstjórinn og leiðsögukonan hafi túlkað fyrir okkur, þó held ég að einhver frá lögreglunni hafi haft einhverja enskukunnáttu. Spurningarnar snerust um hvað við hefðum verið að gera þarna í þessum bakgarði. Við þóttumst bara hafa verið að skoða okkur um og könnuðumst ekkert við að hafa hitt einhverja drengi. Eitthvað sýndist mér löggan lítið trúuð á þessa söguskýringu.

Þegar ekkert gekk með að fá okkur til að játa glæpinn (sem enn var ósýnilegur) vorum við beðnar að sýna þeim hvað við værum með í handtöskunum okkar. Okkur rann kalt vatn milli skinns og hörunds því þarna nálguðust þeir miðann með yfirlitinu yfir peningana. Ég var búin að setja í handtöskuna mína ýmislegt sem ég ætlaði að hafa við höndina í lestinni til Odessa. Ég tók einn hlut í einu upp úr töskunni, lýsti hvaða hlutur þetta væri og til hvers ég notaði hann, bara til að treina tímann. Þetta var absúrd sena og löggan skynjaði það og brast þolinmæði.

"Sýndu okkur peningana þína og miðann með yfirlitinu" skipuðu þeir.

"Þar kom að því" hugsuðum við báðar og ég man að ég fraus eitt augnablik. Ég náði þó fljótt áttum og dró upp það sem ég var með, allt slétt og fellt, dollararnir mínir og upplýsingarnar á miðanum um peningaviðskipti mín í Sovétríkjunum stemmdu. Þar með misstu þeir alveg áhugann á Sigrúnu og hún var ekki spurð út í sín viðskipti, mér er enn óskiljanlegt hvaða lukka var yfir henni.

Í miðri yfirheyrslunni komu tveir lögreglumenn með einn af strákunum inn í herbergið, við vorum spurðar hvort við könnuðumst við strákinn, við neituðum. Strákurinn var með bolinn hennar Sigrúnar í bakpokanum sínum og aðspurð játaði Sigrún að eiga bolinn. Þar með var fæddur glæpur.

Hvernig gat strákur sem við könnuðumst ekki við verið með fatnað af Sigrúnu? Þetta þarfnaðist frekari yfirheyrslna og skýringa enda örugglega kolólöglegt.

Eftir töluvert þras og vesen gafst löggan upp á frekari yfirheyrslum. Stóri glæpurinn fannst ekki. Sigrún þurfti hins vegar að skrifa undir skjal sem hljóðaði eitthvað á þessa leið:

T-bolur með áletruninni "(skrifað var hvaða enska áletrun var á bolnum)" fannst í fórum (nafn stráksins) sem ég þekki ekki.

Þessi pappír var síðan festur við landvistarleyfi Sigrúnar til merkis um brot hennar. Á landvistarleyfið mitt var skrifaður áberandi bókstafur í eitt hornið. Hvað hann þýddi fékk ég engar skýringar á.

Með þetta sluppum við úr yfirheyrsluherberginu. Rútan sem átti að flytja okkur á lestastöðina var mætt fyrir utan hótelið þegar við komum út. Það mátti ekki mikið tæpara standa með að við misstum af lestinni til Odessa. Mikið varð ég fegin þegar lestin rann úr af lestastöðinni í Kiev, við vorum sloppnar.

Framhald síðar, hér er 5. kafli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þetta er eins og besti krimmi !

Anna Einarsdóttir, 23.9.2008 kl. 23:34

2 identicon

Þú ert frábær sögumaður!

Ég fylgist spennt með, og hlakka til framhaldsins.

Bryndís (IP-tala skráð) 24.9.2008 kl. 18:28

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Tek undir með Önnu...  ég les og les... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.9.2008 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband