Færsluflokkur: Bloggar
19.10.2008 | 14:28
Sunnudagur, Silfur Egils og gömul mynd
Ég hef mikið hugsað undanfarna daga og marga pistla samið í huganum. Það geri ég iðulega þegar ég er í ræktinni, úti að hlaupa eða bara heima í eldhúsinu.
Í Silfri Egils í dag var rætt við Jón Baldvin Hannibalsson. Hann sagði allt sem ég hef hugsað þannig að ég sleppi formlegum skrifum í dag. Hvet hins vegar alla til að hlusta á Jón. Orð hans um hverslags hindrun stjórn Seðlabankans í vitrænni ákvarðanatöku hefur verið, var mjög svo athyglisverð. Ég hvet alla til að hlusta á viðtalið við Jón.
Í tilefni þess sunnudags ætla ég að birta gamla mynd svona til að létta mér og lundina.
Þessi mynd er úr albúmi Bentu frænku minnar. Á henni eru:
Efsta röð: Örn, Guðbjartur, Bjarni, Hrafnkell
Miðröð: Hvítklæddur karlmaður (?), Kristjana amma, Alexander afi, karlmaður (?), karlmaður (?).
Neðsta röð: Sigríður, Guðrún, Magndís Benediktsdóttir, Valdimar Sigurðsson
Bjarni er faðir minn, Guðrún, Guðbjartur og Hrafnkell eru föðursystkini mín og Magndís er langamma mín.
Myndin er líklega tekin 1938.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.10.2008 | 20:36
Á Austurvelli
Ég mætti á Austurvöll í dag. Það var hressandi. Þarna var saman kominn hópur fólks af öllum þjóðfélagsstéttum sem ofbauð "ástandið". Mér kom það skemmtilega á óvart að þarna voru virðulegar eldri konur í pelsum.
Margir létu það fara í taugarnar á sér að mótmælin beindust gegn einni persónu. Í byrjun gerði ég það líka en eftir að hafa lesið pistil Láru Hönnu sá ég að það var fáránlegt að láta það stoppa sig. Ef við bíðum eftir mótmælaaðgerðum sem eru teiknuð upp eftir okkar höfði er ég hrædd um að við sitjum alltaf heima.
Gerum okkur líka grein fyrir því hversu gríðarmikill gerandi þessi persóna er. Einkavæðing bankana varð í forsætisráðherratíð þessa manns, gengdarlaus stækkun bankakerfisins og lækkun bindiskyldu sömuleiðis. Síðan þegar bregðast þurfti við þá sat þessi maður sem formaður bankaráðs Seðlabankans........og gerði ekkert til að koma böndum á útrás bankana. Hvernig á þessi maður að taka þátt í björgunaraðgerðum?
Er það skrýtið að fólki ofbjóði?
Þórólfur Árnason sagði af sér sem Borgarstjóri fyrir mun minni sakir. Hann er maður að meiri og myndi ég fagna honum ef hann kæmi aftur til starfa í stjórnmálum. Þannig eiga menn sem taka ábyrgð að fá uppreisn æru. Þeir sem sitja út í hið óendanlega missa æruna. Sama hversu lengi þeir sitja, æran kemur ekki aftur.
Ég átti í morgun spjall við gamlan kunningja, það var fróðlegt. Meðal annars veltum við fyrir okkur líkindum dýrkunar á Davíð Oddssyni við dýrkun á Hitler. Báðir með gríðarlega hæfileika til að hrífa fólk með sér og hirð samherja sem verja þá hvað sem á gengur. Þetta er mjög áhugaverð sálfræðipæling. Enn áhugaverðara er að þeir nota sömu aðferð til að blekkja almúgann. Þeir finna aðila sem fólkið getur sameinast um að kenna um ófarir sínar. Hitler Gyðinga, Davíð útrásarvíkingana. Almenningur lætur blekkjast, Egill Helgason er hamslaus af reiði gagnvart útrásarliðinu og finnst þessi mótmæli skrýtin. Egill er áhrifamikill og vafalaust hafa margir hikað við að mæta á Austurvöll vegna orða hans. Davíð tókst ætlunarverkið.
Fólk er fífl.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.10.2008 | 23:51
Hagfræði eigin fjár
Ég hitti nýlega nokkra hlaupafélaga mína. "Ástandið" barst í tal, skuldir heimila og ekki síður fyrirtækja. Við vorum sérstaklega tvö sem supum hveljur yfir þessari skuldsetningu. Þá barst í tal sú kenning að fyrirtæki í rekstri ætti ekki að hafa mikla eiginfjárstöðu, með öðrum orðum, það ætti að vera skuldsett.
Á mannamáli þýðir þetta að ef verðgildi fyrirtækisins fellur vegna utanaðkomandi atburða er eiginfjárstaðan fljótt orðin neikvæð.
Ég þekki ekki annan rekstur en heimilisrekstur. Í slíkum rekstri þýðir þetta að maður á ekki fyrir skuldum. Ég hefði haldið að það væri til mikils vinnandi að borga skuldir hratt niður, einnig skuldir af íbúðahúsnæði, annars er maður raunverulega að leigja húsnæðið af bankanum. Vextir er ekkert annað en leiga af peningum.
Bankaspekingar eru búnir að fylla okkur af þessum fræðum, ekki geyma of mikla peninga í fyrirtækinu þínu, jafnvel ekki húsnæðinu þínu. Þar rýrna peningarnir bara fullyrti einn hlaupafélaginn.
Ég stóð bara eftir og gapti. Hvernig má þetta vera, hugsaði ég.
Ég er komin að niðurstöðu, þetta stenst einfaldlega ekki, fólk var einfaldlega platað. Þeir sem munu koma best út úr komandi mánuðum og árum eru þeir sem raunverulega eiga eitthvað í fyrirtækjum og húsnæði sem skráð er á þá.
Hinir elta bara skottið á sér í klikkuðum vaxtaafborgunum eða missa af skottinu.
ps. Ég er alltaf að heyra sögur af fjármálum fólks. Innanum eru sögur af fólki sem hefur keyrt um á gömlum lúnum bílum, leyft sér lítinn munað seinustu ár en.....................borgað niður lán, er jafnvel með nánast skuldlaust húsnæði, ungt fólk, ekki sérstaklega tekjuhátt. Þetta er hægt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.10.2008 | 21:02
Fjölskyldan Ísland
Fjölskyldan Ísland á í vanda, ábyrgðir á víxlum sem fjölskyldan vissi ekki að hún hefði skrifað upp á falla á litlu fjölskylduna, lán gjaldfalla, hlutabréf sem fjölskyldan átti hríðfalla í verði og fjölskyldufyrirtækið á í vandræðum. Reyndar lítur svo út að einhverjir innan fjölskyldunnar hafi fengið upplýsingar um að útlitið væri dökkt og ábyrgðir féllu á hana. Foreldrarnir í fjölskyldunni vildu hlífa börnunum við þessu og þögðu þunnu hljóði um þetta og létu sem allt léki í lyndi, héldu áfram að halda veislu og elsta systirin fékk að fara tvisvar á Ólympíuleikana þrátt fyrir að útlitið væri svart.
Þegar áfallið reið svo yfir var mamman orðin veik, þurfti að leggjast inn á spítala í útlöndum og gangast undir erfiða aðgerð. Pabbinn var ráðvilltur svona mömmulaus og átti erfitt með að taka ákvarðanir hratt eins og nauðsynlegt er undir svona kringumstæðum. Afi gamli hafði alltaf viljað halda öllum þráðum í sinni hendi og aldrei leyft fjölskyldunni að ráða fjármálum sínum. Það vildi svo til að hann hafði lengi eldað grátt silfur saman við einhverja þeirra sem voru að fara illa með fjölskylduna og nú skyldu sko engin vettlingatök notuð, komið að skuldadögunum.
Afinn og pabbinn ásamt litlausum föðurbróður reyndu heila helgi að semja við skúrkana og þeir töldu sig loks hafa fundið lausn sem myndi endanlega knésetja þá. Þeir gleymdu hins vegar að hafa samband við móðurættina og elsti sonur mömmunnar (af fyrra hjónabandi) var ekki látinn vita fyrr en á seinustu stundu. Stjúpsonurinn var hins vegar upp með sér yfir að hafa verið hafður með í ráðum þó seint væri og stóð keikur við hlið pabbans. Hann reyndi mikið að stappa stálinu í yngri systkinin og segja þeim að nú yrði bráðum allt gott aftur.
Klækjaráðin sem afinn hafði bruggað reyndust ekki eins klók og pabbinn og stjúpsonurinn höfðu vonað. Viðskiptavinir í Bretlandi ærðust þegar afinn staðhæfði að fjölskyldan myndi aldrei borga skuldir sem hrannast höfðu upp þar í landi. Handrukkarar voru sendir af stað og ruddust þeir inn í útibú fjölskyldufyrirtækisins í Bretlandi og brutu allt og brömluðu. Gereyðilegging blasti við. Þetta voru seinustu eigur fjölskyldunnar, eignirnar sem hún hafði vonast til að slyppu undan rukkurunum og nota átti til uppbyggingar seinna meir.
Móðurbróðirinn sem alltaf hafði staðið í skugga mömmunnar reyndi hvað hann gat að segja hvað honum fannst um atburðarásina, hann hefði nú einu sinni þekkt þessa menn þarna í Bretlandi en þeir væru sko alls ekki vinir hans lengur. Börnunum fannst þetta lítt traustvekjandi yfirlýsingar, þeim hafði alltaf fundist lítil innistæða í gasprinu hans.
Móðuramman var þegar þarna er komið við sögu orðin buguð og þreytt. Hennar hlutverk hafði verið að gæta barnanna og segja þeim að standa saman og að fjölskyldan myndi sjá þeim fyrir öruggu skjóli. Amman hafði alltaf verið útsjónarsöm og talið samstöðu fjölskyldunnar skipta öllu. Hún var ekki alveg sátt við tengdafjölskyldu dótturinnar því þar ríkti oft á tíðum mikil eiginhagsmunasemi og áhersla á að hver væri sjálfum sér næstur. Amman reyndi að hugga börnin og segja þeim að þessi fjölskylda stæði saman og deildi kjörum sínum. Börnin hlustuðu ráðvillt á og voru ekki alveg viss um að þeim væri óhætt að trúa þessu.
Reglulega komu pabbinn og stjúpsonurinn heim á matmálstímum og þrumuðu yfir börnin að bráðum yrði allt í lagi aftur, allt eins og áður, samt komu alltaf fregnir um að ástandið væri að versna. Börnin vissu ekkert hverju þau ættu að trúa. Þau hlupu í felur þegar þeir komu, "ekki segja okkur einu sinni enn að nú sé allt í lagi, við trúum því ekki".
Afinn gerðist ráðríkari með hverjum deginum og var svo komið að enginn vildi tala við hann en allir hræddust hann og enginn þorði að gera neitt sem gæti styggt hann. Fjarskyldur frændi hafði hallað á hann máli í fjölskylduboði. Þegar það barst afanum til eyrna umturnaðist afinn og hótaði fjölskyldunni öllu illu. Frændinn varð að senda út fallegt kort til allra barnanna og útskýra að þarna í fjölskylduboðinu hefði hann alls ekki verið að tala um afann.
Pabbinn er enn sannfærður um að afinn viti allt best. Hann spyr afann alltaf ráða á hverju kvöldi og gerir ekkert nema afinn hafi lagt blessun sína á það. Mamman er enn á spítalanum. Hún veit að ráð afans hafa steypt fjölskyldunni út í þá fjármálaóreiðu sem blasir við henni. Mamman er mjög lasin en hún sagði samt í símtali við börnin að afinn yrði að hætta að skipta sér af. Veikindi mömmunnar eru mikil, þetta er erfiður tími til að standa í skilnaði. Elsti sonurinn er orðinn of háður stjúpa sínum og samþykkir blindandi allt sem hann segir, móðurbróðirinn er háll sem áll.
Er gerlegt fyrir mömmuna að standa í skilnaði eins og ástandið er? Er það kannski eini möguleikinn? Fyrrverandi eiginkona pabbans bíður á bekknum, hún er enn veik fyrir honum, það skilur reyndar enginn.
Bráðum kemur mamma heim, verst hvað hún er ennþá lasin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.10.2008 | 23:53
Hryðjuverkalög
Bretar beittu hryðjuverkalögum á íslensk fyrirtæki í Bretlandi í seinustu viku.
Þeir klikkuðu á einu grundvallaratriði, láta framselja til sín hryðjuverkamennina.
Hvað ég hefði orðið glöð ef þeir hefðu látið kné fylgja kviði.
Er orðið of seint að biðja þá um það?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.10.2008 | 20:13
Icesave
Ef marka má orð viðskiptaráðherra á forsíðu fréttablaðsins í dag þá reyndu fjármáleftirlit bæði Íslands og Bretlands að fá stjórnendur Landsbankans til að stofna dótturfélag um netbankann Icesave. Með því hefðu ábyrgðir á sparifénu fallið á Breta en ekki Íslendinga.
Ég endurtek: miðað við þessa frétt þá reyndu fjármálaeftirlit beggja landanna að fá Landsbankann til að stofna dótturfélaga í Bretlandi, þar með bæru íslenskir skattgreiðendur ekki þessa ábyrgð.
Stjórnendur Landsbankans drógu lappirnar, vildu hafa þetta svona. Með því gátu þeir flutt peningana til Íslands.
Hverjir voru stjórnendur Landsbankans?
Eitt nafnið sem kemur upp í hugann er Kjartan Gunnarsson, sá var a.m.k. um tíma varaformaður bankaráðs Landsbankans. Fylgir því ekki einhver völd? Já og ábyrgð.
Sagt hefur verið frá faðmlögum þessa manns við forsætisráðherra.
GARG
Ætlar Geir að faðma þessa menn?
Eitt faðmlag, við borgum og málið dautt.
Viðbót nokkrum mínútum eftir birtingu á færslu:
Skoðið frétt Eyjunnar (sjá hér) um hver er skipaður forstöðumaður innri endurskoðunar í Nýja Landsbankanum. Sá mun heita Brynjólfur Helgason og Icesave verkefnið í Hollandi og Bretlandi var áður undir honum. Þetta er eins og að setja aðalkrimmann yfir lögregluna.
Hvað er í gangi hérna? Látum við bjóða okkur hvað sem er?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2008 | 22:41
Allt svo mikið SAMAN á félagslegum grunni
Þessa dagana er mikið talað um nýjar áherslur, við eigum að:
- fara svo mikið SAMAN í gegnum þá erfiðleika sem framundan eru
- leysa öll vandamálin á félagslegum grunni
- sýna samstöðu
- taka slátur
- vera nýtin
- vera fyrirhyggjusöm
- smyrja nesti
Og svo framvegis.
Ég er alveg til í að vera sammála þessu og taka þátt í þessu hugarfari og þessum nýja sparneytna lífstíl. Þetta er nefnilega það hugarfar og sá lífsstíll sem ég hef talið farsælastan og reynt að tileinka mér.
EN.....................
Ég er tortryggin sál, hvaða tryggingu hef ég fyrir því að gróðapungarnir hafi ekki breytt sér í hrægamma og nýti sér rústir bankanna og mögulega brátt fleiri fyrirtækja til að skara eld að sinni köku? Einmitt meðan okkur sauðsvörtum almenningi er sagt að nú séu breyttir tímar og nú skuli allt gert svo mikið SAMAN.´
Oft var þörf fyrir sterka og gagnrýna fjölmiðla en aldrei sem nú. Við megum ekki sofna á verðinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.10.2008 | 21:43
Hringt í Davíð
Einn morguninn í nýliðinni viku ræddi ég við samstarfskonu mína ástandið í efnahagsmálum landsins. Okkur var framganga seðlabankastjóra ofarlega í huga og töldum báðar að hann ætti samstundis að fara frá. Í miðju samtali teygir samstarfskona mín sig í símann og segir:
"Ég ætla að hringja í Davíð".
Ég verð eitt spurningamerki á svipinn, ég vissi að hún væri framtakssöm og léti verkin tala en ég vissi ekki að hún hefði númerið hans bara svona í kollinum.
Þegar hún sá svipinn á mér skellti hún upp úr, hún var auðvitað að grínast.
"Ég þarf að hringja í tölvudeildina því ég kemst ekki inn í tölvuna mína", sagði hún svo til skýringa.
Ég skellti einnig upp úr, hún náði mér alveg.
Samstarfskona mín velur nú númerið hjá tölvudeildinni. Tölvudeildin svarar strax:
"Tölvudeild, Davíð". !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Þetta var of mikið, hún treysti sér ekki til að bera upp neitt erindi, hvorki þetta með tölvuvandræði sín né þetta með seðlabankastjóra. Hún skellti á og við sprungum báðar.
Erindið til tölvudeildar varð að bíða aðeins. Hitt erindið bíður ennþá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2008 | 17:16
Þingflokkur Sjálfstæðismanna klappaði meðan þjóðin sat sem lömuð
Á ráfi um bloggheima er mögulegt að rekast á ýmislegt athyglivert sem almennt þykir ekki fréttnæmt í stærri fjölmiðlum. Ég rakst í gærkvöld á færslu sem vakti athygli á dagbókarfærslu dómsmálaráðherra frá því seinasta mánudag. Þar er m.a. eftirfarandi texti:
Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 15.00 og þar var frumvarpið lagt fyrir þingmenn og kynnti Árni M. Mathiessen fjármálaráðherra það í fjarveru Geirs H. Haarde, sem var að búa sig undir ávarp til þjóðarinnar, sem hann flutti í sjónvarpi og útvarpi klukkan 16.00. Þar lýsti hann því, hvernig fyrir fjármálakerfi þjóðarinnar væri komið. Við hlustuðum á hann í þingflokksherberginu og að máli hans loknu var honum klappað verðskuldað lof í lófa.
Hversu vel sem forsætisráðherra flutti ræðu sína á mánudaginn þá var efni hennar þess eðlis að lófaklapp átti engan veginn við. Ekki frekar en í jarðarför eftir velútfærða líkræðu. Þjóðin sat sem lömuð eftir þessa ræðu og hugsaði með skelfingu til framtíðarinnar, okkur var fögnuður með lófataki ekki efst í huga.
En þingflokkur Sjálfstæðisflokksins klappaði.............
Í hvaða leikriti er þingflokkur Sjálfstæðisflokksins að leika?
Ekki því sama og almenningur á Íslandi, fólkið sem stendur í nokkurra klukkutíma biðröð í Hagkaup eftir að slátursendingin komi þann daginn. Biðröðin í dag náði lengst innan úr búðinni og út á götu sögðu mér sölumennirnir.
Mér stendur ekki á sama um viðbrögð ráðamanna við vandanum. Þessi viðbrögð eru ekki til þess fallin að ég treysti þeim til að taka á honum af fullri alvöru.
Er þessi þingflokkur ennþá að klappa fyrir Seðlabankastjóra?
Æi.............................
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Seinasti einn og hálfur sólarhringur hefur verið ákaflega farsakenndur. Einn aðalleikarinn í þeim farsa er Davíð Oddsson. Ég tek mér leyfi að vísa í frétt í DV (sem ég hingað til hef ekki talið ábyrgustu heimildina en sé bara ekki annað en blaðið hafi töluvert til síns máls), sjá hér. Í þessari frétt er vitnað til viðtals við Davíð í Kastljósinu í gærkvöld:
Þar lýsti Davíð því yfir að Íslendingar myndu ekki standa við skuldbindingar í útlöndum. Á meðal æðstu embættismanna er það viðhorf uppi að með þessu hafi hann kallað yfir þjóðina reiði Breta sem nú hafa lýst yfir því að lögsókn verði undirbúin á hendur íslenska ríkinu vegna sparifjár sem Landsbankinn getur ekki endurgreitt. ,,Yfirlýsingarnar eru sem olía á eld og hafa tryllt markaðinn," sagði heimildarmaður DV nú rétt í þessu.
Davíð braut að auki trúnað í viðtalinu þegar hann upplýsti að lán til Kaupþings væri einungis til skamms tíma. Einnig talaði hann opinberlega um fjárhagsstöðu Glitnis sem hann sagði slæma en hafði áður lýst sem traustri. Hálftíma eftir þau ummæli var Glitnir yfirtekinn.
Í stuttu máli:
- Davíð lét í það skína að sparifjáreigendur í Bretlandi yrðu fyrir verulegum skaða og kallaði með því yfir okkur milliríkjadeilu
- Davíð lét í það skína að Glitnir yrði yfirtekinn.
- Davíð upplýsti lánskjör til Kaupþings.
- Fyrr um morguninn hafði hann tilkynnt um lán frá Rússum sem ekki var frágengið.
Vegna seinasta atriðisins hefur Davíð fyrir hönd okkar allra orðið að alþjóðlegu athlægi. Á viðskiptavef visir.is er frétt með fyrirsögninni: "Hæðst að seðlabankastjóra á erlendum viðskiptavef". Ég hvet ykkur til að skoða þetta.
Fyrir þá sem ekki hafa tíma eða þolinmæði þá er þetta kjarninn í þeirri frétt:
Þar er sagt að þrátt fyrir að kreppan sé skollin á sé ekki allt neikvætt sem fylgi henni. Taldir eru upp tíu jákvæðir fylgikvillar, á borð við að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum eru minna í fréttum, olíuverð lækki og að í stað þróunaraðstoðar fari skattfé fólks nú þangað sem þess er raunverulega þörf - á Wall Street.
Fjórða atriði á listanum er svo vel til þess fallið að hughreysta fólk sem telur sig hafa gert einhverjar gloríur á fjármálasviðinu. Þú gerðir líklega ekkert jafn vandræðalegt og seðlabankastjóri Íslands, sem tilkynnti að Ísland hefði tekið fjögurra milljarða evra lán frá Rússum, sem Moskva hafði aldrei samþykkt."
Ég vek athygli á að Davíð Oddson er seðlabankastjóri ennþá, einum og hálfum sólarhring eftir þetta glappaskot. Við öll borgum honum laun fyrir þetta, við öll gjöldum fyrir mistök hans.
Í DV stendur að Sjálfstæðisflokkurinn verji Davíð því ef hann verði rekinn þá klofni flokkurinn. Þá vitum við forgangsröðina á þeim bænum, flokkurinn fyrst, þjóðin svo.
Erum við sátt við þetta?
Ekki ég, ég er dýrvitlaus, ennþá þrátt fyrir að hafa reynt að hlaupa úr mér reiðina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)