Fjölskyldan Ísland

Fjölskyldan Ísland á í vanda, ábyrgðir á víxlum sem fjölskyldan vissi ekki að hún hefði skrifað upp á falla á litlu fjölskylduna, lán gjaldfalla, hlutabréf sem fjölskyldan átti hríðfalla í verði og fjölskyldufyrirtækið á í vandræðum. Reyndar lítur svo út að einhverjir innan fjölskyldunnar hafi fengið upplýsingar um að útlitið væri dökkt og ábyrgðir féllu á hana. Foreldrarnir í fjölskyldunni vildu hlífa börnunum við þessu og þögðu þunnu hljóði um þetta og létu sem allt léki í lyndi, héldu áfram að halda veislu og elsta systirin fékk að fara tvisvar á Ólympíuleikana þrátt fyrir að útlitið væri svart.

Þegar áfallið reið svo yfir var mamman orðin veik, þurfti að leggjast inn á spítala í útlöndum og gangast undir erfiða aðgerð. Pabbinn var ráðvilltur svona mömmulaus og átti erfitt með að taka ákvarðanir hratt eins og nauðsynlegt er undir svona kringumstæðum. Afi gamli hafði alltaf viljað halda öllum þráðum í sinni hendi og aldrei leyft fjölskyldunni að ráða fjármálum sínum. Það vildi svo til að hann hafði lengi eldað grátt silfur saman við einhverja þeirra sem voru að fara illa með fjölskylduna og nú skyldu sko engin vettlingatök notuð, komið að skuldadögunum.

Afinn og pabbinn ásamt litlausum föðurbróður reyndu heila helgi að semja við skúrkana og þeir töldu sig loks hafa fundið lausn sem myndi endanlega knésetja þá. Þeir gleymdu hins vegar að hafa samband við móðurættina og elsti sonur mömmunnar (af fyrra hjónabandi) var ekki látinn vita fyrr en á seinustu stundu. Stjúpsonurinn var hins vegar upp með sér yfir að hafa verið hafður með í ráðum þó seint væri og stóð keikur við hlið pabbans. Hann reyndi mikið að stappa stálinu í yngri systkinin og segja þeim að nú yrði bráðum allt gott aftur.

Klækjaráðin sem afinn hafði bruggað reyndust ekki eins klók og pabbinn og stjúpsonurinn höfðu vonað. Viðskiptavinir í Bretlandi ærðust þegar afinn staðhæfði að fjölskyldan myndi aldrei borga skuldir sem hrannast höfðu upp þar í landi. Handrukkarar voru sendir af stað og ruddust þeir inn í útibú fjölskyldufyrirtækisins í Bretlandi og brutu allt og brömluðu. Gereyðilegging blasti við. Þetta voru seinustu eigur fjölskyldunnar, eignirnar sem hún hafði vonast til að slyppu undan rukkurunum og nota átti til uppbyggingar seinna meir.

Móðurbróðirinn sem alltaf hafði staðið í skugga mömmunnar reyndi hvað hann gat að segja hvað honum fannst um atburðarásina, hann hefði nú einu sinni þekkt þessa menn þarna í Bretlandi en þeir væru sko alls ekki vinir hans lengur. Börnunum fannst þetta lítt traustvekjandi yfirlýsingar, þeim hafði alltaf fundist lítil innistæða í gasprinu hans.

Móðuramman var þegar þarna er komið við sögu orðin buguð og þreytt. Hennar hlutverk hafði verið að gæta barnanna og segja þeim að standa saman og að fjölskyldan myndi sjá þeim fyrir öruggu skjóli. Amman hafði alltaf verið útsjónarsöm og talið samstöðu fjölskyldunnar skipta öllu. Hún var ekki alveg sátt við tengdafjölskyldu dótturinnar því þar ríkti oft á tíðum mikil eiginhagsmunasemi og áhersla á að hver væri sjálfum sér næstur. Amman reyndi að hugga börnin og segja þeim að þessi fjölskylda stæði saman og deildi kjörum sínum. Börnin hlustuðu ráðvillt á og voru ekki alveg viss um að þeim væri óhætt að trúa þessu.

Reglulega komu pabbinn og stjúpsonurinn heim á matmálstímum og þrumuðu yfir börnin að bráðum yrði allt í lagi aftur, allt eins og áður, samt komu alltaf fregnir um að ástandið væri að versna. Börnin vissu ekkert hverju þau ættu að trúa. Þau hlupu í felur þegar þeir komu, "ekki segja okkur einu sinni enn að nú sé allt í lagi, við trúum því ekki".

Afinn gerðist ráðríkari með hverjum deginum og var svo komið að enginn vildi tala við hann en allir hræddust hann og enginn þorði að gera neitt sem gæti styggt hann. Fjarskyldur frændi hafði hallað á hann máli í fjölskylduboði. Þegar það barst afanum til eyrna umturnaðist afinn og hótaði fjölskyldunni öllu illu. Frændinn varð að senda út fallegt kort til allra barnanna og útskýra að þarna í fjölskylduboðinu hefði hann alls ekki verið  að tala um afann.

Pabbinn er enn sannfærður um að afinn viti allt best. Hann spyr afann alltaf ráða á hverju kvöldi og gerir ekkert nema afinn hafi lagt blessun sína á það. Mamman er enn á spítalanum. Hún veit að ráð afans hafa steypt fjölskyldunni út í þá fjármálaóreiðu sem blasir við henni. Mamman er mjög lasin en hún sagði samt í símtali við börnin að afinn yrði að hætta að skipta sér af. Veikindi mömmunnar eru mikil, þetta er erfiður tími til að standa í skilnaði. Elsti sonurinn er orðinn of háður stjúpa sínum og samþykkir blindandi allt sem hann segir, móðurbróðirinn er háll sem áll.

Er gerlegt fyrir mömmuna að standa í skilnaði eins og ástandið er? Er það kannski eini möguleikinn? Fyrrverandi eiginkona pabbans bíður á bekknum, hún er enn veik fyrir honum, það skilur reyndar enginn.

Bráðum kemur mamma heim, verst hvað hún er ennþá lasin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Fjölskylduharmleikur!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 16.10.2008 kl. 05:00

2 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Snylld!

Guðmundur Auðunsson, 16.10.2008 kl. 11:51

3 Smámynd: Solla Guðjóns

Algjör snilld jafnvel með Y.

má ég benda á þessa snilld?

Solla Guðjóns, 16.10.2008 kl. 22:10

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Auðvitað má benda á þetta, bloggið er opinber miðill, ég er komin út úr skápnum með þetta

Kristjana Bjarnadóttir, 16.10.2008 kl. 22:49

5 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Ha ha ha.

Gott innlegg.

Jón Gunnar Bjarkan, 17.10.2008 kl. 08:58

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Málið í hnotskurn!

Hrönn Sigurðardóttir, 17.10.2008 kl. 10:59

7 Smámynd: Dísa Dóra

haha góð lýsing á ástandinu

Dísa Dóra, 17.10.2008 kl. 11:07

8 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Svona er já "sagan" í suttu máli..enn sem komið er!

Vil nú trúa að bæði amman og mamman séu ekki alveg dauðar úr öllum æðum, annars verður lítið úr framhaldi hjá þér er ég hræddur um !?

Góða helgi!

Magnús Geir Guðmundsson, 17.10.2008 kl. 13:42

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Í STUTTU máli átti þetta auðvitað að vera.

Magnús Geir Guðmundsson, 17.10.2008 kl. 13:43

10 identicon

Frábært að hafa húmorinn í lagi.

Þetta er ein allrabesta útgáfan hingað til !!!

Sigrún G. (IP-tala skráð) 17.10.2008 kl. 16:40

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta er býsna góð saga og reyndar afbragðsgóð. Ég sé nú ekki alveg hvernig þessi familía nær saman fyrr en sá gamli leggst inn á elliheimilið.

En Guð hjálpi fólkinu á því elliheimili þegar að því kemur!

Árni Gunnarsson, 18.10.2008 kl. 22:11

12 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Tarna er ljóta ekkisens fjölskyldusagan.  Gæti verið beint úr "Glæstum vonum" eða Leiðindaljósi.  Verst að lenda alltaf í því að vera í hlutverki barnanna!

Sigríður Sigurðardóttir, 20.10.2008 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband