Hvað þarf seðlabankastjóri að gera mörg glappaskot áður en hann er látinn víkja?

Seinasti einn og hálfur sólarhringur hefur verið ákaflega farsakenndur. Einn aðalleikarinn í þeim farsa er Davíð Oddsson. Ég tek mér leyfi að vísa í frétt í DV (sem ég hingað til hef ekki talið ábyrgustu heimildina en sé bara ekki annað en blaðið hafi töluvert til síns máls), sjá hér. Í þessari frétt er vitnað til viðtals við Davíð í Kastljósinu í gærkvöld:

Þar lýsti Davíð því yfir að Íslendingar myndu ekki standa við skuldbindingar í útlöndum. Á meðal æðstu embættismanna er það viðhorf uppi að með þessu hafi hann kallað yfir þjóðina reiði Breta sem nú hafa lýst yfir því að lögsókn verði undirbúin á hendur íslenska ríkinu vegna sparifjár sem Landsbankinn getur ekki endurgreitt. ,,Yfirlýsingarnar eru sem olía á eld og hafa tryllt markaðinn," sagði heimildarmaður DV nú rétt í þessu.
Davíð braut að auki trúnað í viðtalinu þegar hann upplýsti að lán til Kaupþings væri einungis til skamms tíma. Einnig talaði hann opinberlega um fjárhagsstöðu Glitnis sem hann sagði slæma en hafði áður lýst sem traustri. Hálftíma eftir þau ummæli var Glitnir yfirtekinn.

Í stuttu máli:

  1. Davíð lét í það skína að sparifjáreigendur í Bretlandi yrðu fyrir verulegum skaða og kallaði með því yfir okkur milliríkjadeilu
  2. Davíð lét í það skína að Glitnir yrði yfirtekinn.
  3. Davíð upplýsti lánskjör til Kaupþings.
  4. Fyrr um morguninn hafði hann tilkynnt um lán frá Rússum sem ekki var frágengið.

Vegna seinasta atriðisins hefur Davíð fyrir hönd okkar allra orðið að alþjóðlegu athlægi. Á viðskiptavef visir.is er frétt með fyrirsögninni: "Hæðst að seðlabankastjóra á erlendum viðskiptavef".  Ég hvet ykkur til að skoða þetta.

Fyrir þá sem ekki hafa tíma eða þolinmæði þá er þetta kjarninn í þeirri frétt:

Þar er sagt að þrátt fyrir að kreppan sé skollin á sé ekki allt neikvætt sem fylgi henni. Taldir eru upp tíu jákvæðir fylgikvillar, á borð við að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum eru minna í fréttum, olíuverð lækki og að í stað þróunaraðstoðar fari skattfé fólks nú þangað sem þess er raunverulega þörf - á Wall Street.

Fjórða atriði á listanum er svo vel til þess fallið að hughreysta fólk sem telur sig hafa gert einhverjar gloríur á fjármálasviðinu. „Þú gerðir líklega ekkert jafn vandræðalegt og seðlabankastjóri Íslands, sem tilkynnti að Ísland hefði tekið fjögurra milljarða evra lán frá Rússum, sem Moskva hafði aldrei samþykkt."

Ég vek athygli á að Davíð Oddson er seðlabankastjóri ennþá, einum og hálfum sólarhring eftir þetta glappaskot. Við öll borgum honum laun fyrir þetta, við öll gjöldum fyrir mistök hans.

Í DV stendur að Sjálfstæðisflokkurinn verji Davíð því ef hann verði rekinn þá klofni flokkurinn. Þá vitum við forgangsröðina á þeim bænum, flokkurinn fyrst, þjóðin svo.

Erum við sátt við þetta?

Ekki ég, ég er dýrvitlaus, ennþá þrátt fyrir að hafa reynt að hlaupa úr mér reiðina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þarna lastu Davíð pistilinn Kristjana.     Ég ætla að linka á þetta.

Anna Einarsdóttir, 8.10.2008 kl. 21:21

2 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Úbbs...he did it again...

Bergljót Hreinsdóttir, 8.10.2008 kl. 22:16

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk Anna, hvað getum við gert til að losna við þetta krabbamein?

Kristjana Bjarnadóttir, 8.10.2008 kl. 23:17

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Var að rekast á áhugaverða bloggsíðu, sjá hér. Þar kemur eftirfarandi fram:

91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.
Hafi verknaður sá, sem í 1. og 2. mgr. hér á undan getur, verið framinn af gáleysi, skal refsað með …1) fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.

Getur verið að eitthvað af þessu eigi við umræddan mann.

Bara spyr.

Kristjana Bjarnadóttir, 9.10.2008 kl. 00:30

5 identicon

Já við erum algerlega rúin trausti annara þjóða. Jafnvel þó yfirlýsingar Gordons Brown lykti af því að þarna hafi hann hlotið kærkomið tækifæri til að hífa upp eigin vinsældir gagnvart þjóð sinni.

Snorri Ásmundsson myndlistarmaður tók af skarið og afhenti Geir uppsagnarbréf Davíðs O. Það er algerlega vitskerrt hugmynd að halda í bankastjórana í Seðlabankanum eins og komið er nú.

Ásdís (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 10:25

6 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ekki veit ég nú alveg hvað við getum gert..... en að fara inn á Vísi.is og taka þátt í skoðanakönnun um hvort seðlabankastjórar eigi að víkja eða ekki...... það er byrjun.

Anna Einarsdóttir, 9.10.2008 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband