Færsluflokkur: Bloggar

Austurvöllur laugardag kl 15.00

Á morgun laugardaginn 1. nóv kl 15. boðar Hörður Torfason til fundar á Austurvelli. Hörður hefur staðið fyrir fundum sem þessum í nokkrar vikur, einnig seinasta laugardag en því miður beindist athyglin þá að öðrum mótmælum sem Kolfinna Baldvinsdóttir stóð fyrir.
 
Meðfylgjandi er linkur á video af fundi sem Hörður skipulagði þann 18. okt en andinn á þessum fundi var eins og ég vil sjá í mótmælum gegn því "ástandi" sem skapast hefur á Íslandi seinustu vikur.
 
http://www.youtube.com/watch?v=RB13PYRcVvE
 

Yfirskrift fundarins er "Breiðfylking gegn ástandinu". Markmið fundarins er að sameina þjóðina og stappa í fólk stálinu.


Íslenskir fjölmiðlar hafa undanfarið gefið rangar upplýsingar um fjölda fundargesta á mótmælafundum sem haldnir hafa verið. Erlendir fjölmiðlar hafa sagt fundargesti vera 4X fleiri en þeir íslensku. Það eitt gerir mig nægilega reiða til að mér er ómögulegt að sitja heima.
  
Ég hvet ykkur til að mæta á Austurvöll á morgun kl 15.00

Ég verð þar.

Viðbót 1. nóv: Lára Hanna skrifar stórfínan hvatningarpistil, sjá hér.


Við sökkvum stöðugt dýpra

Hvert kvöld fer ég að sofa með þá hugsun í kollinum að nú sé botninum náð og það sé útilokað að fréttir morgundagsins eigi eftir að stuða mig á sama hátt og fréttir dagsins sem sé að líða.

Nánast hvern dag koma nýjar fréttir sem stuða mig litlu minna en fréttir dagsins á undan.

Botninum er hvergi náð.

Hér koma tenglar á þær fréttir sem hafa stuðað mig í dag:

Fyrsta fréttin er hér.

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari og Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, álíta sig ekki vanhæfa til að sinna frumrannsókn á starfsemi viðskiptabankanna þriggja, í aðdragandanum að falli þeirra.

Þetta segja þeir þrátt fyrir að sonur annars sé forstjóri Exista og sonur hins framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Stoða.

„Ég held að hvergi sé hægt að finna nokkurn mann [til að rannsaka þetta] sem er ekki í tengslum við einhvern sjóð, banka eða fyrirtæki. Ég held það verði að stíga varlega til jarðar áður en farið er að tala um vanhæfi á þessu stigi,“ sagði Valtýr.

Þetta er einmitt kjarni málsins, á þessu litla landi, sérstaklega í ljósi þess að háttsettir embættismenn eru furðu oft tengdir ónefndum stjórnmálaflokki þá er erfitt að finna menn sem ekki eru tengdir inn í þessi fyrirtæki. Það sem stuðar mig hins vegar að maðurinn skuli nota það sem röksemd fyrir því að það sé í lagi að hann taki þátt í rannsókninni.

Sá tími er liðinn að við kaupum þannig rök. Það er algerlega ljóst að hér er þörf á erlendum óháðum aðilum til að sjá um rannsóknina.

Viðbót 31. nóv: sjá einnig hér.

Næsta frétt sem stuðar mig er fréttin um Birnu Einarsdóttur nýráðinn bankastjóra Glitnis og kaup hennar á hlutabréfum í Glitni sem hún aldrei borgaði og á nú eru þessi viðskipti "týnd", sjá r og hér.

Það sem stuðar mig er að þetta mál kom upp í vikunni. Það mallar og ekki er að sjá að neitt eigi að gera í málinu. Hvernig eigum við að bera traust til "nýju" bankanna ef ekki er hægt að taka af festu á svona strax? Ef þessi viðskipti eru ekki hafin yfir allan vafa á konan að víkja, og það strax og ekkert hik.

Seinasta atriðið er nú það sem gerði mig alvitlausa. Það er vitnisburður bankamanns á eyjan.is sjá hér:

Mér finnst þetta svo merkilegt að ég birti þetta hér að neðan:

Frá bankamanni

Smá saga af því sem er að gerast innan bankanna þriggja núna - staðfest frá fyrstu hendi þar sem ég er einn af þeim sem þetta á við. Finnst siðferðisleg skylda mín að láta vita af þessu.

Mikill fjöldi starfsmanna hefur keypt hlutabréf gegn láni (og þá helst erlendu) á undanförnum árum og jafnvel stuttu fyrir hrunið. Innan bankanna er unnið að því hörðum höndum að leysa úr þessari flækju og losa fólk undan þessari skuldbindingu - ástæðan er m.a. sú að starfsmenn sem tapa öllu og verða gjaldþrota mega ekki vinna hjá bankanum.

Hvaða sanngirni er þetta - ef losa á ákveðinn hóp undan skuldbindingum, af hverju á það ekki við alla. Þetta þarf að fá á hreint frá Björgvini G., formönnum skilanefnda og/eða núverandi bankastjórum.

Annað að fjölmargir framkvæmdastjórar seldu eitthvað að bréfum vikuna fyrir hrunið - FME hlýtur að rannsaka það og bakfæra slík viðskipti, við treystum þeim til þess (eða ekki!).

Svona lagað má ekki viðgangast og við hljótum að krefjast rannsóknar strax. Hér verða fjárglæframenn innan bankanna sem hafa spilað með eigið fé að sitja við sama borð og allur almenningur. Annað er ólíðandi.


Tökum þátt

Ég hitti stöðugt fleiri sem játa á sig algera fréttasýki þessa daga. Sjálf er ég illa haldin, sit við tölvuna á kvöldin og skanna þær fréttir sem ég hef misst af yfir daginn.

Margir eru stútfullir af bæði skoðunum og spurningum. Þetta afl þarf að virkja. Á sumum bloggsíðum og umræðuvefjum má sjá kröfur um að nú þurfi nýtt stjórnmálaafl. Þegar ég sé slíka umræðu þá fæ ég léttan hroll. Ég tel að við höfum nú þegar nægilega farvegi fyrir skoðanir okkar, við erum bara svo fljót að afneita stjórnmálaflokkunum þegar á móti blæs, þá viljum við helst ekki kannast við þá og viljum bara eitthvað nýtt, án þess að geta almennilega skilgreint hvað.

Við höfum nú þegar fimm stjórnmálaflokka með fulltrúa á Alþingi. Þessir flokkar eru allir með einhvers konar starf í gangi sem hægt er að komast inn í. Flokkarnir halda fundi þar sem hægt er að hitta áhrifafólk, bæði til upplýsinga og einnig til að almennir kjósendur geti komið skoðunum sínum á framfæri. Hér vil ég meina að aðalatriðið sé að taka þátt og láta rödd sína heyrast, hver velur sér þann farveg sem hentar sínum skoðunum. Verst er að sitja og gera ekkert. Stjórnmálamönnum er heldur enginn greiði gerður með því að einungis jábræður mæti á þessa fundi og klappi upp allar gerðir þeirra.

Á mánudag fyrir viku sótti ég einn slíkan fund á Seltjarnarnesi þar sem ég bý. Samfylkingin á Seltjarnarnesi stóð fyrir honum, þetta var opinn fundur fyrir alla, ekki bara flokksmenn. Framsögumenn voru tveir, Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Árni Páll Árnason alþingismaður. Á þessum fundi fengu fundarmenn upplýsingar og útskýringar á annan hátt en fást í fjölmiðlum. Einnig gafst tækifæri til að koma skoðunum á framfæri við þau sem og spyrja spurninga sem brunnu á fundarmönnum. Fundurinn var bæði málefnalegur og upplýsandi. Framsögumenn fengu einnig ýmsa beitta en málefnalega gagnrýni sem ég tel ekki síður nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn.

Þessi fundur er einungis eitt dæmi um það sem er í gangi og almenningi gefst kostur á að taka þátt í. Einnig eru stéttafélög farvegur fyrir okkur til að bæði fylgjast með og koma skoðunum okkar á framfæri. Það hefur lengi verið vandamál hversu stéttafélagsfundir eru illa sóttir en þetta er svo sannarlega vannýttur farvegur.

Það er mun áhrifaríkara að nota þessa farvegi sem eru til nú þegar heldur en að eyða orkunni í nýjar stofnanir. Við höfum ekki efni á að afskrifa þau stjórnmálaöfl sem fyrir eru, það er hins vegar skylda okkar að mæta á fundi hjá þeim og veita þeim aðhald. Núverandi þing er kosið til tveggja og hálfs árs í viðbót og það er mun líklegra til árangurs að hamra á þeim flokkum sem þar sitja en rjúka til og stofna enn fleiri stjórnmálasamtök.

Það er okkar kjósenda að veita aðhald, ekki sofna á verðinum.


Krikja og skóli

Dýrmætur er réttur trúaðra að fá að rækta sína trú. Sá réttur má þó aldrei verða rétti þeirra sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða standa utan trúfélaga sterkari.

Seinustu ár hefur þjóðkirkjan sótt stíft inn í leikskóla og grunnskóla. Bænahald þykir víða sjálfsagður partur í almennri kennslustund grunnskóla, kirkjuheimsóknir í desember hafa verið óvalkvæðar og sóknarprestar hafa fengið leyfi skólayfirvalda til að koma í kennslustund hjá fermingarárgangi í þeim tilgangi að útdeila viðtalstímum vegna fermingar.

Er það réttlætanlegt að skikka grunnskólabarn utan trúfélaga til að spenna greipar og fara með bænir án þess að hugur fylgi máli?

Er það réttlætanlegt að börnum af öðrum trúfélögum og utan trúfélaga sé ekki boðið upp á val þegar farið er til kirkju í jólamánuði?

Er það réttlætanlegt að börnum utan þjóðkirkju sé ítrekað boðinn viðtalstími við sóknarprest vegna fermingarundirbúnings? Þrátt fyrir að hafa neitað kurteislega.

Ofangreint og margt fleira ástundar þjóðkirkjan í krafti stærðar sinnar.

Á kirkjuþingi unga fólksins sem haldið var föstudaginn 24. október var hvatt "til að efla boðun kirkjunnar í framhaldsskólum, með vísan til mikilvægis þess að sjónarmið kirkju og trúar þyrftu einnig að heyrast þar".

Næsti markhópur kirkjunnar eru framhaldsskólarnir. Þar eru börnin orðin eldri og eiga auðveldara með að skera sig úr hópnum og því finnst mér það reyndar bærilegri tilhugsun en aðkoma kirkjunnar á yngri stigum. Það breytir því þó ekki að það er algerlega óviðunandi að kirkjan sæki markvisst inn í opinberar stofnanir á þennan hátt.

Ég er hrædd um að okkur þætti einkennilegt ef kirkjan myndi á sama hátt sækja að starfsfólki þessara stofnana og jafnvel standa fyrir bænahaldi í matartímum.

Frelsi til að stunda trú á ekkert skylt við frelsi til að boða trú og í krafti stærðar að virða ekki rétt annarra til að ástunda aðra trú eða standa utan trúfélaga. Þjóðkirkjan verður að virða rétt þessara hópa til að hafna trúboði hennar.


Áhugaverður norskur umræðuþáttur

Hér er slóð í umræðuþátt í norska sjónvarpinu NRK1 um efnahagsástandið á Íslandi:

http://www1.nrk.no/nett-tv/klipp/427413

Ég get nú ekki sagt að ég hafi skilið allt sem þarna fór fram en það sem ég skildi var áhugavert. Fremst er viðtal við Stoltenberg forsætisráðherra Noregs í u.þ.b. 10 mín en síðan er ca 20 mín umræðuþáttur.

Greining þátttakenda var nú ekki ósvipuð greiningar mannsins á götunni á Íslandi: Bankaútrásin var eitt risastórt casino, almenningur notfærði sér ódýr lán og lifði um efni fram, eftirlitsstofnanir og stjórnvöld brugðust. Síðast en ekki síst töldu þeir að hér væri algerlega vanhæfur seðlabankastjóri sem hefði brugðist á öllum stigum málsins.

Hljómar allt kunnuglega. Við ætlum samt ekkert að hrófla við þessum seðlabankastjóra. Flokkurinn gæti klofnað.

Það sem mér fannst áhugaverðast í þættinum var hve góðmennskan lýsti af þátttakendum. Einlægur vilji Norðmannanna til að aðstoða okkur þrátt fyrir að við værum búin að koma okkur í þessi vandræði með óráðsíu og fyrirhyggjuleysi. Þeir voru eins og ábyrgt foreldri gagnvart unglingi sem er fluttur rænulaus heim eftir glórulaust fyllerí á útihátíð. Það þarf að tala góðlega yfir hausamótunum á honum, ekki of reiðilega því unglingurinn veit best sjálfur hve kjánalega hann hagaði sér. Síðan þarf að hlúa vel að honum og hjálpa til að halda lífinu áfram þannig að þetta gerist ekki aftur.

Óskaplega hlýnaði mér um hjartaræturnar við að horfa á alla þessa góðlegu Norðmenn sem vildu okkur hið besta um leið og þeir bentu góðlega á hversu kjánalega væri komið fyrir okkur.


Ógæfa íslenskra vinstri manna

Um langt árabil hefur ógæfa vinstri manna á Íslandi verið sú að leggja meiri áherslu á þau atriði sem þeir eru ósammála um en þau sem þeir geta sameinast um. Við erum nú með þrjá stjórnmálaflokka sem að meira eða minna leiti hafa það á stefnuskrá sinni að standa vörð um velferðarkerfið og auka jöfnuð þegnanna. Vegna sundrungar þessara afla hefur það verið hlutskipti þessara flokka að skiptast á að vera misnotuð hækja Sjálfstæðisflokksins.

Nú munu stuðningsmenn VG rísa upp á afturfæturna og vera mér ósammála. Vissulega er VG í þessu sambandi óspjölluð mey. En............ég minni hins vegar á að þegar Samfylkingin var stofnuð var uppi draumur um sameiningu félagshyggjuaflanna í stóran stjórnmálaflokk sem hefði burði til að hafa raunveruleg áhrif. Áður en formlega var farið að setja upp stefnuskrá klufu nokkrir aðilar sig út og stofnuðu VG. Ég minni einnig á að eftir seinustu kosningar útilokaði VG samstarf við Framsóknarflokk og seldi þar með Sjálfstæðisflokki sjálfdæmi um að velja sér hækju. VG getur því ekki skorast undan ábyrgð í þessu efni.

Ógæfa félagshyggjuaflanna á Íslandi er þyngri en tárum taki og bera þau að því leiti ábyrgð á hvernig komið er, þ.e. að hafa ekki sameinast um að standa saman um þau atriði sem þau eru sammála um og koma þannig í veg fyrir áratugalanga setu Sjálfstæðisflokksins að kjötkötlunum.

Þessi ógæfa vinstri manna kom enn fram um nýliðna helgi. Að sundra sárreiðum almenningi sem vildi koma saman til að mótmæla misnotkun á valdi, er ófyrirgefanlegt. Ég vil að vísu taka fram að hér er ég ekki að tala um nein stjórnmálaöfl heldur einstaklinga.

Á laugardag fyrir viku mætti ég á Austurvöll á mótmæli og fannst þau takast vel. Góðir ræðumenn og Hörður Torfa spilaði yfirvegað á undan og milli atriða. Fólk upplifði að það var ekki eitt með þær tilfinningar sem blunda í okkur öllum. Á þessum fundi var auglýst að aftur yrðu mótmæli á sama tíma kl 15.00 að viku liðinni. Ég hét sjálfri mér að gera það sem í mínu valdi stæði til að enn meiri fjöldi mætti þá. Ég fann fyrir stemningu fyrir þessum mótmælum og vissi strax um marga sem ætluðu að mæta, fólk sem venjulega tekur ekki þátt opinberum mótmælum en vildi nota þetta tækifæri til að sýna hug sinn.

Það vakti strax furðu mína að í öllum fréttatilkynningum um mótmæli seinasta laugardag var tekið fram að þau væru kl 16.00 eða öðrum tíma en tilkynnt var fyrir viku. Ég skannaði netið eins og ég gat og sannfærði mig um að þetta væri rétti tíminn, sendi út tölvupósta og birti færslu hér á síðunni minni.

Margir höfðu samband við mig og spurðu hvort þetta væri örugglega rétt, ég skannaði enn betur tilkynningar og fullyrti að svo væri.

Á laugardag kemur síðan í ljós að aðstandendur mótmælanna höfðu klofnað. Um var að ræða tvenn mótmæli. Hörður Torfa stóð fyrir sambærilegum mótmælum og fyrri laugardaginn kl 15.00 og Kolfinna Baldvinsdóttir stóð fyrir mótmælagöngu frá Austurvelli að ráðherrabústaðnum kl 16.00

Ég mætti fyrir misskilning í seinni mótmælin. Þau voru skólabókardæmi um hvernig ekki á að standa að svona löguðu. Lagt var af stað í gönguna  það snemma að margir komu að auðum Austurvelli og þurftu að leita mótmælin uppi. Við ráðherrabústaðinn töluðu síðan Kolfinna, Arnþrúður Karlsdóttir, Ómar Ragnarsson og Jón Baldvin Hannibalsson. Þeirra frammistöðu verður best lýst með því að margir mótmælendur flýðu af hólmi.

Þegar Kolfinna var spurð um klofning mótmælanna svaraði hún að hún vissi ekki til að búið væri að einkavæða mótmæli. HALLÓ Kolfinna, það varst þú sjálf sem stóðst fyrir því.

Mikil er ábyrgð Kolfinnu, loksins þegar Íslendingar skriðu út úr hýði sínu og voru tilbúnir til að láta sjá sig í skipulögðum mótmælum þá voru þetta einkamótmæli Kolfinnu og fjölskyldu, stolin frá Herði Torfasyni, illa skipulögð og ræðurnar voru upphrópanir án innihalds. Það verður erfitt að ná upp sömu stemningu fyrir mótmælum næsta laugardag, jafnvel þó Kolfinna haldi sig víðs fjarri.

Ég var eiginlega fjúkandi reið þegar ég sneri heim til mín í gær. Enn reiðari varð ég þegar ég heyrði fréttaflutning af mótmælunum. Þeir fjölmiðlar sem ég fylgdist með sögðu að það hefðu verið 500-600 manns þarna. Ég fullyrði að þarna voru miklu fleiri. Aftenposten í Noregi segir að 2000 manns hafi komið. Sama gerðist fyrir viku, íslensku fjölmiðlarnir sögðu að 500 manns hefðu mætt, Reuters að meira en 2000 manns hefðu mætt.

Hvað er í gangi hérna?

Það er enn full ástæða til að mótmæla, þetta misræmi í upplýsingum íslenskra og erlendra fjölmiðla sannfæra mig um það. Einnig minni ég á að við erum enn með sömu seðlabankastjórnina, það mætti stundum halda að við séum búin að gleyma því. Enn er ekki ljóst hversu mikið af Icesave skuldunum lendir á börnum okkar og barnabörnum og þrátt fyrir yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar á föstudag um að erlendir óháðir aðilar muni fara yfir hvernig þessi ósköp gátu gerst er ég enn ekki sannfærð um að svo verði. Til að ég sannfærist verður Geir að kveða fastar að orði.

En Kolfinna Baldvinsdóttir: Haltu þig fjarri miðbæ Reykjavíkur nk. laugardag. Annars fara mótmælin að snúast um að þú eigir að halda þig frá mótmælum.

Sameinuð stöndum vér, sundraðir föllum vér.


Vér mótmælum allir

Ég er þess fullviss að október 2008 verður skráður í Íslandssögubækur framtíðarinnar. Hér hafa sögulegir atburðir gerst sem hafa fengið blóðið í rólegustu Íslendingum til að renna. Við höfum verið rænd um hábjartan dag. Ekki bara veraldlegum verðmætum í nútíðinni heldur einnig sjálfsvirðingu sem þjóð, bjartri framtíð barna okkar og stórum hlutum tekna okkar í komandi framtíð, hversu stórum á enn eftir að koma í ljós en í dag er útlitið ekki bjart.

Viðbrögð og einkum viðbragðsleysi ráðamanna er æpandi og hinn venjulegi Íslendingur er löngu hættur að skilja ráðaleysi og samtryggingu einkavinaveldisins sem hér blómstrar.

Við erum stútfull af tilfinningum gagnvart þeim sem bera ábyrgð á því sem gerst hefur. Við þurfum á því að halda að finna að við erum ekki ein um þessar tilfinningar.

Á laugardaginn kemur þann 25. október kl. 16 er boðað til mótmælafundar á Austurvelli með yfirskriftinni "Rjúfum þögn ráðamanna", sjá nánar hér. 

Það er mjög mikilvægt að þátttaka í þessum mótmælum verði mikil, slíkt hefur verulega táknræna þýðingu, ráðamenn verða að skilja að þjóðinni er mikið niðri fyrir, okkur er ekki sama hvernig farið er með vald.

Til að viðhalda sjálfsvirðingu er það okkur líka mikilvægt að sýna hug okkar í verki með því að mæta. Hvernig ætlum við annars að útskýra fyrir börnum okkar og barnabörnum ef við veljum að sitja heima og látum okkur fátt um finnast meðan ráðamenn og auðmenn Íslands hneppa komandi kynslóðir í skuldafangelsi?

Eins og tryggingafélögin auglýstu: Ekki gera ekki neitt.

Mætum öll, skráum okkur á spjöld Íslandssögunnar og gerum þetta að fjölmennustu mótmælum sem haldin hafa verið á Íslandi.

Viðbót 24. okt: Sjá nánar hér.


Við megum ekki gleyma hvert öðru

Atburðir liðinna vikna eru okkur öllum ofarlega í huga. Þjóðin hefur verið rænd, steinsofandi um hábjartan dag með slökkt á öryggiskerfinu. Ég held meira að segja að útidyrahurðin hafi verið opin, ekki bara ólæst heldur galopin.

Það sem verra er, við vorum ekki bara rænd veraldlegum verðmætum, við vorum rænd sjálfsvirðingu og stolti. Við stöndum hnípin eftir og vitum ekki okkar rjúkandi ráð.

Við erum sorgmædd yfir þeim missi sem við höfum orðið fyrir.

Við erum öskureið við þá sem gerðu okkur þetta.

Og við erum hrædd því við vitum ekki hvað tekur við.

En við deilum öll þessum tilfinningum og við verðum að fá að tala um þær við þá sem okkur þykir vænt um. Við verðum líka að fá að tala ekki um þær, heldur bara ræða um hversdagslega hluti.

Nú er mikilvægt að rækta vini sína. Hringjast á, hittast fyrirvaralítið, kíkja óboðinn í kaffi og spjall.

Svilkona mín vakti mig upp með þetta. "Í vetur skulum við vera dugleg að hittast og bjóða hvert öðru oft í mat", sagði hún nýlega.

Þó það sé hægt að ræna sparifénu okkar, sjálfsvirðingu, bjartri framtíð barnanna og setja okkur í skuldafangelsi, þá er ekki hægt að ræna frá okkur vinum okkar og ættingjum.

Munum það og verum dugleg að rækta hvert annað.


"Þú veist hver"

Það hefur ekki tíðkast á Íslandi að stjórnmálamenn eða embættismenn segi af sér störfum þó þeir verði uppvísir af mistökum eða misbeitingu valds. Í fljótu bragði man ég þó eftir tveimur tilvikum:

  1. Guðmundur Árni Stefánsson sagði af sér sem heilbrigðisráðherra. Ef ég man rétt var það vegna þess að hann hafði útvegað ættingja í starf.
  2. Þórólfur Árnason sagði af sér sem borgarstjóri vegna þess að hann varð uppvís af því að hafa tekið þátt í eða a.m.k. vitað af samráði olíufélaganna.

Báðir eru í mínum huga menn að meiri fyrir þetta. Hvoru tveggja bliknar hjá glappaskotum "þú veist hvern ég meina" í ónefndum seðlabanka.

Hér eru talin örfá mistök:

  1. "Þú veist hver" lét í það skína í sjónvarpsviðtali að við myndum ekki borga erlendar skuldir okkar og kallaði með því yfir okkur milliríkjadeilu
  2. "Þú veist hver" upplýsti  í sjónvarpsviðtali um lánskjör til Kaupþings.
  3. "Þú veist hver"  tilkynnti um lán frá Rússum sem ekki var frágengið og er almennt talinn hafa klúðrað að minnta kosti góðum kjörum og skaðað lántökuferilinn.
  4. "Þú veist hver" skilgreindi ekki til hvers lán sem sótt var um til Seðlabanka Bandaríkjanna, átti að fara og fékkst það lán ekki.
  5. Ég vek athygli á orðum Jóns Baldvins Hannibalssonar í Silfri Egils sl. sunnudag um að "Þú veist hver" sé að þvælast fyrir á strandstað.

Hér eru ótalin fyrri hagstjórnarmistök "Þú veist hvers" sem seðlabankastjóri og einnig sú staðreynd að  hann var áður æðsti ráðamaður þjóðarinnar og á þar röð mistaka sem hafa leitt okkur á þann stað sem við erum nú. Einnig sú óheppilega staða að viðkomandi er fyrrverandi stjórnmálamaður án menntunar í hagfræði. 

Fyrir hönd okkar allra hefur "Þú veist hver" orðið að alþjóðlegu athlægi. Á viðskiptavef visir.is fyrr í þessum mánuði er frétt með fyrirsögninni: "Hæðst að seðlabankastjóra á erlendum viðskiptavef".  Ég hvet ykkur til að skoða þetta.

Ég frétti hjá vinkonu minni í dag að í Afríkuríkinu Túnis sé Ísland, Seðlabankastjórinn og ríkisstjórn þessa lands aðalumræðuefnið. Vinkona mín á fjölskyldu þarna og gengur umræðan út á að hér séu valdhafar gerspilltir og hér sé eitthvað mikið að hjá valdhöfum.

Á Íslandi eru enn raddir sem segja að við sem andæfum þessum vinnubrögðum ástundum einelti gagnvart "Þú veist hver". Það getur ekki flokkast undir einelti af hálfu borgaranna að fara fram á að valdhafi sem hefur orðið uppvís að glappaskotum sem talin eru hér að ofan segi af sér. Slíkt er eðlileg krafa í lýðræðisríki.

Í ríkjum þar sem spilling ríkir eru slíkar kröfur hundsaðar.

Í hverslags ríki búum við?


Reuters fréttastofan segir 4X fleiri hafa verið á Austurvelli en íslenskir fjölmiðlar

Ég mætti á Austurvöll í gær og gladdist í hjarta mínu yfir að þó nokkur fjöldi fólks sá ástæðu til að mæta þar og sýna með nærveru sinni að því væri ekki sama hvernig yfirvöld fara með vald. Þarna var fólk af öllum þjóðfélagsstéttum, eldri konur í pelsum, róttækir unglingar og allt þar á milli.

Íslenskir fjölmiðlar fullyrtu (visir.is, mbl.is, sjónvarpið) að þarna hefðu verið saman komin um 500 manns. Stöð 2 sagði lögregluna hafa gefið upp þá tölu.

Því þykir mér merkilegt að Reuters fréttastofantelur að þarna hafi verið meira en 2000 manns. Þessi tala finnst mér mun líklegri miðað við þá tilfinningu sem ég fékk af því að standa þarna og ef þið skoðið myndir Reuters þá sést að þetta var mun fleira fólk en 500 manns.

Hvernig stendur á þessum mun?

Það er verulegt áhyggjuefni ef íslenskir fjölmiðlar sjá sér hag í því að gera lítið úr þessum mótmælum. Enn meira áhyggjuefni er ef lögreglan tekur þátt í að gefa upp rangan fjölda.

Ég vona að þetta sé eina dæmið um rangan og villandi fréttaflutning íslenskra fjölmiðla. Ég hins vegar óttast að svo sé ekki.

Viðbót: Ég bendi á umfjöllun Láru Hönnu um þetta sama efni.

ps: Á ögurstundu falla öll prinsipp. Ég hef haft þá reglu að birta aðeins eina færslu á dag. Nú fellur sú regla, biðst forláts.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband