Tökum þátt

Ég hitti stöðugt fleiri sem játa á sig algera fréttasýki þessa daga. Sjálf er ég illa haldin, sit við tölvuna á kvöldin og skanna þær fréttir sem ég hef misst af yfir daginn.

Margir eru stútfullir af bæði skoðunum og spurningum. Þetta afl þarf að virkja. Á sumum bloggsíðum og umræðuvefjum má sjá kröfur um að nú þurfi nýtt stjórnmálaafl. Þegar ég sé slíka umræðu þá fæ ég léttan hroll. Ég tel að við höfum nú þegar nægilega farvegi fyrir skoðanir okkar, við erum bara svo fljót að afneita stjórnmálaflokkunum þegar á móti blæs, þá viljum við helst ekki kannast við þá og viljum bara eitthvað nýtt, án þess að geta almennilega skilgreint hvað.

Við höfum nú þegar fimm stjórnmálaflokka með fulltrúa á Alþingi. Þessir flokkar eru allir með einhvers konar starf í gangi sem hægt er að komast inn í. Flokkarnir halda fundi þar sem hægt er að hitta áhrifafólk, bæði til upplýsinga og einnig til að almennir kjósendur geti komið skoðunum sínum á framfæri. Hér vil ég meina að aðalatriðið sé að taka þátt og láta rödd sína heyrast, hver velur sér þann farveg sem hentar sínum skoðunum. Verst er að sitja og gera ekkert. Stjórnmálamönnum er heldur enginn greiði gerður með því að einungis jábræður mæti á þessa fundi og klappi upp allar gerðir þeirra.

Á mánudag fyrir viku sótti ég einn slíkan fund á Seltjarnarnesi þar sem ég bý. Samfylkingin á Seltjarnarnesi stóð fyrir honum, þetta var opinn fundur fyrir alla, ekki bara flokksmenn. Framsögumenn voru tveir, Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Árni Páll Árnason alþingismaður. Á þessum fundi fengu fundarmenn upplýsingar og útskýringar á annan hátt en fást í fjölmiðlum. Einnig gafst tækifæri til að koma skoðunum á framfæri við þau sem og spyrja spurninga sem brunnu á fundarmönnum. Fundurinn var bæði málefnalegur og upplýsandi. Framsögumenn fengu einnig ýmsa beitta en málefnalega gagnrýni sem ég tel ekki síður nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn.

Þessi fundur er einungis eitt dæmi um það sem er í gangi og almenningi gefst kostur á að taka þátt í. Einnig eru stéttafélög farvegur fyrir okkur til að bæði fylgjast með og koma skoðunum okkar á framfæri. Það hefur lengi verið vandamál hversu stéttafélagsfundir eru illa sóttir en þetta er svo sannarlega vannýttur farvegur.

Það er mun áhrifaríkara að nota þessa farvegi sem eru til nú þegar heldur en að eyða orkunni í nýjar stofnanir. Við höfum ekki efni á að afskrifa þau stjórnmálaöfl sem fyrir eru, það er hins vegar skylda okkar að mæta á fundi hjá þeim og veita þeim aðhald. Núverandi þing er kosið til tveggja og hálfs árs í viðbót og það er mun líklegra til árangurs að hamra á þeim flokkum sem þar sitja en rjúka til og stofna enn fleiri stjórnmálasamtök.

Það er okkar kjósenda að veita aðhald, ekki sofna á verðinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hóst... Hóst... Stéttarfélög sem láta eins og stýrivaxta hækkun hafi komið þeim stórlega á óvart eru ekki trúverðugur upplýsingamiðill um ástandið.

Hvað í ósköpunum höfðu Þórunn og Árni fram að færa..... Samfylkingin talar út og suður þessa dagana

Herjan (IP-tala skráð) 30.10.2008 kl. 16:27

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Herjan:

Í þessari færslu hvet ég fólk til að taka þátt og láta rödd sína heyrast innan þeirra samtaka sem fyrir eru. Ég er ekki að halda því fram að einhver farvegur sé albestur þó ég nefni dæmi af fundi sem ég sjálf hafi sótt: 

"Hér vil ég meina að aðalatriðið sé að taka þátt og láta rödd sína heyrast, hver velur sér þann farveg sem hentar sínum skoðunum"

Það er ekki síður mikilvægt að veita stéttafélögum og stjórnmálamönnum aðhald. Það gerum við ekki með því að sitja heima á þeim forsendum að allir séu ómögulegir. Upphrópanir eins og koma fram í þinni athugasemd skila okkur engu.

Kristjana Bjarnadóttir, 30.10.2008 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband