Færsluflokkur: Bloggar
13.11.2008 | 22:08
Saga af kreppukonu í Köben
Ég skrapp af skerinu í nokkra daga. Fór á fund í Kaupmannahöfn vegna vinnu minnar og heimsótti í leiðinni rannsóknastofu vefjaflokkana á Ríkissjúkrahúsinu.
Ég var spurð þegar ég kom heim hvernig hefði verið. Svarið er: SKRÝTIÐ.
Eingöngu er leyfilegt að taka gjaldeyri með sér að andvirði 50.000 IKR. Það gerði í mínu tilviki 2.250 DKR. Ég valdi frekar ódýrt hótel, án morgunverðar. Dvaldi þrjár nætur og verðið var 1.650 DKR. Það þýddi að ég átti eftir 600 DKR til að ferðast fyrir og borða. Auðvitað gat ég notað kort en bankinn minn varaði mig við því, ekki væri víst hvert gengið væri á þeim tíma sem ég notaði kortið. Sögur gengu um að gengið gæti verið allt að tvöfalt það sem ég greiddi fyrir dönsku krónurnar í bankanum. Sannleiksgildi þessa ábyrgist ég ekki en ég tók strax þá ákvörðun að reyna hvað ég gæti til að láta þessar 600 DKR duga.
Þegar ég kom á hótelið tók á móti mér hótelhaldarinn, myndarleg dönsk valkyrja.
"How is the situation in Iceland?" var það fyrsta sem hún spurði mig. Ég kom mér strax upp stöðluðu svari: "The economy in Iceland isn´t bad, it´s ruined".
Konan sagði mér strax að þetta hefði mikil áhrif hjá henni, 60% af hennar viðskiptavinum væru Íslendingar og venjulega kæmu margir í nóvember. Nú bókar enginn Íslendingur og ef þeir bóka, þá afbóka þeir skömmu síðar. Við dæstum saman yfir hversu agalegt þetta ástand væri. Hún var meðvituð um að þetta væru svona 20-30 einstaklingar sem hefðu valdið þessu. Venjulegt fólk væru fórnarlömbin. Hún vissi líka til þess að Íslendingar hefðu verið hraktir út úr verslunum í Kaupmannahöfn og einnig að það væri stórvarasamt að nota kerditkort, algerlega óvíst hvert gengið væri.
Hún vissi að við mættum bara taka með okkur ákveðna upphæð í dönskum krónum og ég sagði henni hversu mikið það væri. Á sama augnabliki var hún að taka við greiðslu fyrir herbergið. Hún var fljót að reikna hvað ég hefði til að lifa fyrir. Ég flissaði vandræðalega og sagðist bara fara og kaupa jógúrt úti í "seven eleven" búðinni á móti. "Nei það skaltu ekki gera, farðu miklu heldur í stórmarkaðinn", svo sýndi hún mér hvert ég ætti að fara.
Um leið og hún stimplaði kvittunina fyrir greiðslunni spurði hún mig varlega hvort vinnan mín greiddi ekki gistinguna. "Jú, hún gerir það" svaraði ég, mér var alveg hætt að lítast á fátæktarbraginn sem var orðinn á mér, hélt hún ætlaði bara að lækka reikninginn. Ætlaði að segja henni að það yrði líklega boðið upp á mat á fundinum en fann að það var bara vandræðalegt.
Að endingu bauð hún mér að koma í eldhúsið hjá sér og fá kaffi ef ég vildi og svo gæti ég fengið smjör hjá henni á brauðið sem ég keypti í stórmarkaðinum.
Þetta var indæl kona sem vildi mér hið besta. Þetta var hins vegar afar skrýtið að vera þarna eins og bónbjargarmanneskja frá fátæku landi.
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.11.2008 | 18:21
Að setja sér markmið og ná takmarkinu
Hlustaði í morgun á þáttinn "Sprengisand" á Bylgjunni. Þar var Ragnar Arnalds. Hann vill ekki í ESB, rökin: Það tekur svo langan tíma og við erum svo langt frá því að ná efnahagslegum skilyrðum. Þetta fannst mér skrýtin rök.
Ég hef aldrei verið íþróttamanneskja, en ég setti mér markmið fyrir nokkrum árum að hlaupa 10km hlaup fyrir fertugt og síðar setti ég mér það markmið að hlaupa hálft maraþon. Ég vann að þessu með þrotlausum æfingum og náði markmiðinu. Það tók nokkur ár en tókst. Einnig hef ég sett mér markmið um að klífa ögrandi fjallstinda, til að ná því þarf að sinna æfingum samviskusamlega og þá tekst það.
Það er engin afsökun fyrir að leggja ekki af stað í vegferð sem innganga í ESB er, bara af því að við séum svo langt frá því að ná skilyrðum í dag. Þá þess heldur er að setja sér markmið og vinna að því, hafa trú á takmarkinu og vinna að því þrotlaust.
Það þarf að finna önnur rök gegn ESB ef þetta eru þau bestu.
Ég er á leið til útlanda og mun því lítið bæta á þessa síðu næstu daga. Ég veit, dýrmætur gjaldeyrir og allt það. Þetta er vinnuferð "júsermíting", enn reynum við Íslendingar að vera með í samfélagi þjóðanna. Ég mun hitta kunningja frá hinum Norðurlöndunum.
Verð að viðurkenna að ég er forvitin að vita hversu vel þeir hafa fylgst með fréttum héðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.11.2008 | 23:54
Illa upplýst fjölskylda í krísu
Gagnvart almenningi hafa stjórnvöld svipað hlutverk og foreldrar hafa gangvart börnum. Setja reglur, sjá um að farið sé eftir þeim og ef á bjátar viljum við eiga skjól í aðgerðum og því umhverfi sem stjórnvöld / foreldrar skapa þegnum / börnum sínum.
Þegar upp koma erfið mál innan fjölskyldna er mikilvægt að börnin séu uppýst um erfiðleikana. Að það sé talað við þau eins og viti bornar manneskjur en þau ekki hundsuð. Að það sé útskýrt fyrir þeim í hverju vandamálið sé fólgið og hvaða leiðir foreldrarnir sjái til lausnar. Jafnvel ef foreldrarnir eru alveg ráðalausir þá sé betra að segja eins og er, að ekki sé búið að finna lausn en talið upp hvaða möguleikar séu í stöðunni.
Mikilvægast er að gefa upplýsingar og málin séu rædd.
Nú eru mikil vandræði í fjölskyldunni Ísland. Foreldrar okkar fara ekki eftir því sem að ofan greinir. Börnin eru ekki upplýst og óvissan nagar þau. Óvissan er verri en skelfilegar staðreyndir.
Í vikunni birti Lára Hanna bloggvinkona mín færslu þar sem hún rekur viðtöl við Sigurbjörgu Árnadóttur. Hún bjó í Finnlandi þegar kreppan skall þar á á tíunda áratug seinustu aldar. Ég hvet ykkur til að skoða þessa færslu en enn frekar skora ég á ykkur að hlusta á tónspilarann hjá Láru Hönnu en þar er að finna viðtöl við Sigurbjörgu í útvarpsþáttum sl. daga. Best fannst mér viðtalið í morgunútvarpi rásar 2 þann 5.11.08. Það er þarna í tónspilaranum og tekur ekki langan tíma.
Sigurbjörg er berorð. Skefur ekki utan af því sem hún telur að geti orðið veruleiki okkar næstu árin. Skelfileg sýn.
Það merkilega er að eftir að hafa hlustað á þessar skelfilegu lýsingar leið mér betur. Þegar maður er viðbúinn því versta þá er hægt að horfa fram á við. Það er hins vegar ómögulegt þegar maður er sleginn algerri blindu og óvissu.
Ráðamenn verða að gefa okkur upplýsingar, jafnvel þó sýnin sé hrikaleg.
Á mótmælafundinum á Austurvelli í dag flutti Sigurbjörg stórgóða ræðu. Fundurinn sjálfur fékk enga athygli fjölmiðla. Lætin sem voru urðu að mestu eftir að fundinum var lokið og flest fólkið sem var á fundinum varð ekki vart við lætin. Fólkið sem sótti fundinn var venjulegt fjölskyldufólk sem er misboðið.
Ég hvet ykkur til að skoða lýsingar Salvarar og Láru Hönnu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2008 | 23:17
Af hverju mótmælafundur?
Fjórða laugardaginn í röð ætla ég að mæta á Austurvöll kl. 15.
Fyrir þremur vikum var yfirskrift mótmælafundarins að Davíð Oddson ætti að víkja úr Seðlabankanum. Raddir heyrðust að mótmælin væru þröngt skilgreind.
Fyrir viku og einnig fyrir tveim vikum var umkvörtunarefni fólks að ekki væri ljóst hverju væri verið að mótmæla.
Það er ekki auðvelt að gera Íslendingum til hæfis og rata meðalveginn þarna á milli. Líklega heitir þetta bara að finna sér afsökun fyrir að mæta ekki.
Fyrir mér er þetta einfalt. Þeir sem telja ekkert við atburðarás liðinna vikna að athuga sitja heima. Hinir mæta á útifund á Austurvelli kl 15.
Ég mæti þar því ég vil
- að bankastjórn Seðlabankans víki tafarlaust því hún hefur skaðað orðspor okkar á alþjóðavettvangi og ég tel að traust náist ekki með sömu stjórn.
- að erlendir rannsóknaraðilar verði fengnir til að rannsaka bankahrunið, STRAX.
- að stjórnvöld upplýsi almenning betur um alvarleika atburðanna
- að stjórnvöld upplýsi almenning betur um þær aðgerðir sem eru í farvatninu ef einhverjar eru.
- að Alþingi taki meira þátt í þeim aðgerðum sem um er að ræða.
- að stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, snúi sér að því að leysa vandamál en hætti að hugsa um hvernig þeir komi best út úr næstu skoðanakönnun.
- að.............................
Ég vil líka upplifa samkennd með öðru fólki sem er ekki sama hvernig málin þróast. Okkur líður öllum svipað og það er gott að upplifa að vera ekki einn með þessar hugsanir.
Þess vegna mæti ég á Austurvöll á laugardag kl 15.
Ég spyr: Af hverju mætir þú ekki?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2008 | 18:11
Bloggari fór með rangt mál - leiðrétting
Fyrr í dag birti ég færslu þar sem ég fór með rangt mál. Ég tek slíkt alvarlega og birti hér leiðréttingu.
Í gegnum frétt á dv.is fann ég síðu með úrslitum í maraþonhlaupi í Amsterdam þar sem Bjarni Ármannsson er talinn upp sem 9. Norðmaður í mark, sjá hér. Ég var of fljót að draga þá ályktun að hann hefði vísvitandi skráð sig með röngu þjóðerni.
Í hlaupum sem þessum geta skráningar hæglega misfarist. Ég hef fengið upplýsingar sem ég tek fullt mark á, um að ég hafi farið með rangt mál.
Ég bið Bjarna afsökunar á að ég skuli hafa gefið mér að um vísvitandi skráningu á röngu þjóðerni hafi verið að ræða.
Ég breytti fyrri færslu og því finnst hún ekki. Það geri ég til að fólk lesi þetta ekki fyrir mistök og taki sem sannleika.
Ég sýndi með fyrri færslu ákveðinn siðferðisbrest og biðst einnig afsökunar á því. Ég hins vegar neita að taka siðferðislega ábyrgð, slíkt tíðkast ekki á Íslandi og mun því ekki segja af mér sem bloggari.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.11.2008 | 23:23
Fréttir úr bloggheimum
Hefðbundnir fjölmiðlar geta ekki birt óstaðfestar sögur. Það geta bloggarar. Bloggarar geta líka logið upp sögum. Það verðum við að hafa í huga þegar við lesum blogg. Hins vegar birtast oft á bloggi áhugaverðar getgátur og vangaveltur sem vekja mann til umhugsunar og sýna aðra vinkla í umræðunni en sjást í hefðbundnum fjölmiðlum.
Í dag rakst ég á tvær áhugaverðar færslur.
Nú þegar grunur leikur á að Kaupþingsmenn hafi millifært hundrað milljarða á felureikninga í útlöndum, rétt fyrir þjóðnýtingu, velti ég fyrir mér fréttinni sem aldrei birtist í íslenskum fjölmiðlum.
Finnska fjármálaeftirlitið lokaði fyrir fjármagnsflutninga Kaupþings tveim dögum áður en Bretarnir gripu til umdeildra aðgerða. Hingað til hefur þögn ríkt um þetta á Íslandi, ef frá er talinn huldumaðurinn RagnarA sem reyndi ítrekað að vekja athygli á málinu.
On Oct. 6, the Finland's financial authority halted all flow of funds from Icelandic-owned banks in Finland, and ordered that no withdrawals could be made at the Finnish branch of Kaupthing.
(Moneycentral 20.10 2008)
On Monday, the Finnish financial watchdog ordered that the Finnish units of the Icelandic banks Kaupthing, Glitnir and eQ Bank not transfer deposits abroad. The Finnish branches of Glitnir and eQ bank are to continue operations as usual.
(YLE.fi 09.10 2008)Því fer fjarri ég felli einhverja dóma um málið. Eflaust er á þessu eðlileg skýring.
En samkvæmt íslenskum heimildum var Kaupþing traust og gott fyrirtæki á þessum tíma með óflekkað mannorð á alþjóðavettvangi.
Hvað réttlætti þá slíkt inngrip finnska fjármálaeftirlitsins?
Hafa blaðamenn leitað svara?
Þetta er spurning sem vert er að fá svar við.
Seinni færslan er nú meira í sögusagnastíl en ég læt hana flakka:
Tilkynning um stórar færslur komu frá CIA
Íslendingar hafa hvorki mannskap né tækni til að vakta Netið eða peningafærslur á Netinu. Það hafa Bandaríkjamenn og þaðan komu tilkynningar um óeðlilegar færslur eftir bankahrunið. Á hverjum degi er steinum velt við og óþefurinn gýs upp. Það verður að fá erlenda aðstoð Interpol strax og ekkert hik á því. Dómsmálaráðherra er ekki að meta stöðuna rétt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2008 | 22:22
Ég óttast uppúrsuðu
Krafan um aðkomu erlendra aðila við rannsókn á bankahruninu er orðin æpandi. Æ, fleiri lýsa því yfir að ekkert annað komi til greina.
Stjórnvöld verða að sýna í verki að ætlunin sé að vinna þessa rannsókn á þennan hátt. Það sýður á almenningi. Ég hef það á tilfinningunni að fjöldi á vikulegum mótmælafundi á Austurvelli nk. laugardag kl 15 verði mun meiri en áður. Fólki er orðið ljóst að það er nauðsynlegt að sýna með einhverjum hætti hug sinn í verki.
Sturla vörubílsstjóri hvatti til átaka sl. laugardag. Ég sé ekki fyrir mér að átök brjótist út þegar venjulegt fjölskyldufólk safnast fyrir á Austurvelli um miðjan dag á laugardegi. Ég hins vegar óttast að átök og jafnvel óeirðir geti brotist út í miðbænum um nætur þegar fólk hefur fengið sér í báðar tærnar. Það er ekki gott að segja fyrir um hvernig slíkt getur endað. Ég hef það frá íbúum í miðbæ Reykjavíkur að svefnfriður um sl. helgi hafi verið lítill vegna háreista fólks. Taugarnar eru greinilega þandar.Til að almennir borgar beri traust til rannsóknar á bankahruninu verður að fá erlenda aðila STRAX. Við verðum að fá fullvissu um að hægt sé að treysta rannsóknaraðilum.
Ég óttast að einhvers staðar sé tregða gegn þessu og ég óttast að sú tregða losni of seint.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.11.2008 | 22:16
Fréttir
Þegar við lesum, hlustum eða horfum á fréttir reynum við eftir bestu getu að móttaka innihaldið. Við leiðum hins vegar sjaldnast hugann að því að það hvernig fréttin er sögð, hvar í röðinni hún er í fréttatímanum eða á hvaða síðu hún er. Slíkt er í sjálfu sér ekki minni frétt en fréttin sjálf. Líka það að frétt í einum fjölmiðli telst ekki frétt í öðrum fjölmiðli.
Nokkur dæmi:
Mál Birnu Einarsdóttur bankastjóra Glitnis hefur verið til umfjöllunar í DV en lítið sem ekkert í öðrum fjölmiðlum (man ekki eftir frétt í öðrum fjölmiðlum en gæti hafa misst af).
Ég hef áður rakið mismun á fréttaflutningi íslenskra fjölmiðla og erlendra fjölmiðla á fjölda þátttakenda í mótmælum í miðbæ Reykjavíkur, sjá hér og hér:
Þeir fjölmiðlar sem ég fylgdist með sögðu að það hefðu verið 500-600 manns þarna. Ég fullyrði að þarna voru miklu fleiri. Aftenposten í Noregi segir að 2000 manns hafi komið. Sama gerðist fyrir viku, íslensku fjölmiðlarnir sögðu að 500 manns hefðu mætt, Reuters að meira en 2000 manns hefðu mætt.
Á laugardaginn var gerðist það svo að mbl.is birti frétt um mótmæli á Austurvelli kl 14.28. Sú frétt hljóðaði svona:
Útifundur stendur nú yfir á Austurvelli, en mótmælendur eru líklega í kringum eitt þúsund talsins. Hörður Torfason ávarpaði lýðinn fyrir skemmstu og hvatti fólk til þess að mæta á Austurvöll á hverjum laugardegi héðan í frá, lýsa óánægju sinni og öskra, þar til mannabreytingar verða í ríkisstjórn og í Seðlabanka.
Nú rétt í þessu var Sturla Jónsson vörubílstjóri, sem gert hefur garðinn frægan í mótmælum á þessu ári, að stíga í pontu.
Það sem er merkilegt við þetta er að Austurvöllur var afar fámennur kl 14.28 ég veit það því ég var stödd þar á þessum tíma. Mótmælagangan lagði af stað frá Hlemmi kl 14.00 og kom á Austurvöll um kl 14.40. Hörður Torfason tók til máls rétt fyrir kl 15.00 og Sturla ekki fyrr en um og eftir 15.30. Fréttin á mbl.is birtist eins og áður sagði kl 14.28.
Í kvöld fannst mér fréttamat ríkissjónvarpsins einnig einkennilegt. Fyrsta frétt hjá útvarpinu kl 18.00 og einnig á Stöð 2 (hér og hér) var náttúrulega niðurfelling skulda æðstu stjórnenda Kaupþings.
Þetta er hins vegar þriðja frétt í kvöldfréttum sjónvarpsins og ekki mikið gert úr þessu sem svo sannarlega var heitasta mál manna á meðal í dag og raunverulega stórmál ef rétt er að skuldir upp á 50 milljarða hafi verið felldar niður. Frétt um að Norðmenn ætli að lána okkur 80 milljarða þótti sjónvarpinu merkilegri en þetta og frétt um að lánsumsókn okkar hjá IMF verði tekin fyrir á föstudag einnig. Hm.....
Á tímum þegar efast er um hlutleysi fjölmiðla er ástæða til að velta því fyrir sér hvernig fréttir eru sagðar, hvaða fréttir eru sagðar og ekki síst hvaða fréttir eru ekki sagðar.
Að lokum vil ég benda á brilljant færslu Bylgju vinkonu minnar, sjá hér. Þar er svo sannarlega frétt sem er þess virði að vera sögð nokkrum sinnum þessa dagana.
Bloggar | Breytt 4.11.2008 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2008 | 22:19
Gagnrýnin hugsun
Fyrir rétt rúmu ári eða þann 23. okt í fyrra skrifaði ég bloggfærslu sem ég kallaði "Leyfið til að vera öðruvísi".
Ég mundi eftir þessari færslu í gær þegar ég velti fyrir mér mögulegum ástæðum þess að við erum komin í svona miklar efnahagslegar og ekki síður pólitískar eða hugmyndafræðilegar þrengingar sem raun ber vitni.
Hvernig stendur á því að heilt þjóðfélag gat rambað svona lengi blindandi?
Getur verið að ein af ástæðunum sé að hér hafi átt sér stað eins konar þöggun, að gagnrýnni hugsun hafi verið ýtt til hliðar?
Gagnrýnin hugsun hefur ekki átt upp á pallborðið í okkar samfélagi seinustu ár, rökræður eru alltof oft á tilfinningalegum nótum.
Unglingum er ekki kennt markvisst að gagnrýna þær auglýsingar sem á þeim dynja og læra að skilja á milli staðreynda og áróðurs.
Kirkjan kveður markvisst niður rök fólks utan kristinna trúfélaga til að hamla aðkomu kirkjunnar inn í skólastarf. Umræða um þetta byggist á tilfinningalegum rökum en ekki faglegum af hálfu kirkjunnar.
Umræðu um aðild Íslands að Evrópubandalaginu hefur markvisst verið haldið niðri og vitræn umræða ekki fengist því málið hefur ekki verið á dagskrá. Fyrir vikið veit hinn almenni borgari afar lítið hvað í aðild að ESB felst og hverju við mögulega værum að fórna með slíku.
Við vorum alveg hætt að gera athugasemdir við ótrúlega misskiptingu launa á Íslandi, þetta var bara svona.
Mótmæli á Íslandi þykja verulega hallærisleg, það væri líka alveg agalegt ef til okkar sæist á slíkum samkomum.
Svona mætti lengi telja.
Nú óskum við þess að við hefðum miklu fyrr gert athugasemdir, hvar voru fjölmiðlar, spyrjum við. En við sjálf spurðum ekki heldur. Okkur þótti bara alveg ágætt að láta ráðamennina um þetta, treystum þeim í blindni og gleymdum okkur í góðærinu.
Gleymdum að vera gagnrýnin.
Það er kominn tími til að vakna, fylgjast með og halda hverju öðru við efnið. Í því felst einnig að leyfa hverju öðru að hafa mismunandi skoðanir en jafnframt að gera kröfu um að geta rökstutt þær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.11.2008 | 22:32
Beisluð og óbeisluð orka
Virkjunin sem kennd er við Kárahnjúka var umdeild. Orkan þar hefur verið beisluð hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Því miður hefur læðst að mér sá grunur að þar höfum við látið plata okkur í samningum við erlenda auðhringi, selt orkuna okkar á útsöluprís.
En við eigum annars konar orku. Það er orkan sem felst í unga fólkinu okkar. Dætrum okkar og sonum sem eiga að erfa þetta land.
Finnar gengu í gegnum efnahagskreppu. Við uppbygginguna lögðu þeir áherslu á menntun og nýsköpun. Vonandi berum við gæfu til að gera slíkt hið sama.
Hér að neðan er mynd af óbeislaðri orku í tvenns konar mynd. Önnur hefur verið beisluð. Það er Jökulsá á Brú. Hin hefur ekki verið beisluð. Það er dóttir mín, hún er annar af mínum fulltrúum sem ég fel að erfa þetta land. Hennar orka fæst ekki á útsölu.
Myndin er tekin rétt ofan við Rauðuflúð á Jökulsá á Brú á fjórða degi gönguferðar um svæði sem var.
Hér að neðan er það sem hún hafði að segja 14 ára gömul þegar við gengum um það svæði sem nú er umflotið miðlunarlóni:
Það skal tekið fram að foreldrarnir voru tvístígandi í afstöðu sinni á þessum tíma, þetta var hennar einarða afstaða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)