Færsluflokkur: Bloggar

Gandhi og friðsamleg mótmæli

Í gærkvöld horfði fjölskyldan saman á myndina um Gandhi. Líklega eru 20 ár síðan ég sá þessa mynd og var þetta mjög góð upprifjun. Þessa mynd ætti eitthvað kvikmyndahúsið að sýna þessa dagana, án endurgjalds.

Gandhi barðist fyrir sjálfstæði Indlands. Indverjar voru örsnauðir á þessum tíma undir stjórn Breta. Grunnhugmynd Gandhis var að baráttan færi fram án ofbeldis. Það þýddi samt ekki að lagabókstaf væri fylgt. Gandhi ögraði yfirvöldum á hárfínan hátt. Ef til handtöku eða ofbeldis lögreglu kom streittust mótmælendur ekki á móti. Ekki kom til greina að greiða sektir eða tryggingar til að sleppa við fangavist.

Eftir að ég horfði á myndina þá varð mér betur og betur ljóst hversu mikil snilld gjörningurinn með Bónusfánann á Alþingishúsinu var. Hann var án ofbeldis, án skemmda á nokkrum hlut en ótrúlega táknrænn.

Ef þeir sem heimsóttu Seðlabankann í dag hefðu sleppt málningunni þá hefði þetta náðst þar líka. Að setjast friðsamlega og syngja í anddyrinu er algerlega í þessum anda.

Þúsundir Íslendinga hafa á friðsamlegan hátt sýnt hug sinn í verki með því að mæta á hverjum laugardegi á útifundi á Austurvelli. Það er ekki hægt að merkja að ráðamenn hafi tekið eftir þessari ólgu.

Friðsamleg mótmæli sem ganga skrefinu lengra eru augljóslega í farvatninu. Þar á ég við að lögum og reglum sé ögrað á friðsaman hátt. Þetta er stundum kallað borgaraleg óhlýðni.

Við sitjum uppi með algerlega óhæfan seðlabankastjóra sem ríkistjórn Íslands heldur hlífiskildi yfir. Lögin sem samþykkt voru í skyndi fyrir seinustu helgi færa honum skelfilega mikil völd, nóg voru þau fyrir.

Ég vil þennan seðlabankastjóra burt úr Seðlabankanum og eftir að hafa horft á myndina um Gandhi er ég fylgjandi aðgerðum sem ganga skrefinu lengra en mótmælin hafa gert hingað til.

Að draga Bónusfána að hún á Alþingishúsinu og friðsamleg seta í anddyri Seðlabankans heyrir undir þetta.


Verslunin Herðubreið opnar

Áhrif efnahagskreppunnar eru margvísleg. Einna fyrstir til að finna fyrir samdrætti eru arkitektar og er verulegur samdráttur þegar orðinn í þeirri grein.

Það er aðdáunarvert að fylgjast með viðbrögðum æskuvinkonu minnar Elínar. Hún hefur í samvinnu við félaga sinn rekið arkitektastofuna Skapa & og Skerpa arkitektar að Barónsstíg 27. Nú hafa verkefni þeirra dregist verulega saman en þau láta ekki deigan síga.  

Í samvinnu við Bryndísi Sveinbjörnsdóttur fatahönnuð hafa þau sett upp verslunina Herðubreið í húsnæðinu. Í versluninni verður til sölu margs konar áhugaverður varningur, svo sem íslensk fatahönnun fyrir bæði börn og fullorðna, skart og fylgihlutir, rabbabarakaramella beint frá býli, myndlist, tónlist og bækur. Arkitektastofan Skapa & Skerpa hyggst bíða kreppuna af sér í vari, í kjallara húsnæðis síns.

Verslunin Herðubreið opnar laugardaginn 29. nóvember kl 13.00 að Barónsstíg 27.

Til hamingju með verslunina Elín og félagar, þetta er glæsilegt framtak sem sýnir í verki íslenskt hugvit, hugrekki og kraft.

Gangi ykkur vel.


Fréttamat fréttastofu RUV

Ég lagði það á mig seint í gærkvöld að horfa á norska þáttinn Brennpunkt á norsku sjónvarpsstöðinni NRK1. Þennan þátt getið þið horft á netinu með því að smella á linkinn. Tekið skal fram að skandinavísk tungumál eru ekki mín besta hlið en töluvert af þættinum fór fram á ensku.

Það sem mér fannst markverðast í þessum þætti var saga Jóns Sullenberger af því þegar Jón Ásgeir bauð helstu stórjöxlum í íslenska bankageiranum á lystisnekkju í Flórida, hét þetta árshátíð aðstoðarforstjóra. Reyndar er það Tryggvi Jónsson sem sendir tölvupóstinn með boðinu, eftir því sem ég best veit er sá dæmdur maður í dag og enn í vinnu hjá Nýja Landsbankanum. Ég vona að ég hafi þar rangt fyrir mér. Skv tölvupóstinum (sjá hér og ég hvet ykkur til að skoða athugið einnig hverjir fá póstinn) var ekki ætlast til að um stúkuferð væri að ræða, templarar voru beðnir um að vera heima og reita arfa. Strax í boðinu er gefið út að nú skyldi svallað. Skv upplýsingum Jóns Sullenberger voru á gestalistanum 13 menn, þar á meðal allir helstu eigendur og stjórnendur bankanna þriggja þegar þeir hrundu í seinasta mánuði.

Miðað við gestalistann, er auðvelt að gera sér í hugarlund að þarna hafi grunnur verið lagður að samráði eða "samvinnu" í bankageiranum. Planið var að komast inn í bankana og ná þar aðgengi að peningum. Hringekjunni hvernig bankarnir (sem voru að stórum hluta í eign þessara manna) skiptust á að lána sápukúlufyrirtækjum hvers annars, er lýst í þættinum. Það þurfti enga dularfulla fundi í Öskjuhlíðinni eins og í stóra grænmetissamráðsmálinu.

Það getur vel verið að fyrir einhverja hér á landi séu þetta engar fréttir. Þ.e. að þessir menn hafi drukkið og djammað saman reglulega og verið með mikla samvinnu. Mér fannst það fréttir og hafði ekki séð það fyrr. Vissulega bara vitnisburður eins manns um þessa ferð á snekkjuna í Miami en það er staðreynd að þeir stunduðu að lána hverjir öðrum, það hefur komið víðar fram og það vitnuðu fleiri en Jón um þetta í þættinum.

Mér brá því í morgun þegar ég hlustaði á fréttir RUV kl 8.00 í morgun. Þar var fjallað um þáttinn Brennpunkt. Það sem fréttamönnum RUV fannst helst  koma fram þar var að saksóknari hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sagðist ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að rannsaka efnahagsbrot og því þyrftu íslenskir fjárglæpamenn ekki að óttast afskipti lögreglu. Vissulega slæmt en þetta vissi ég og þurfti ekki norska sjónvarpsmenn til að segja mér þetta.

Fréttamenn RUV létu hins vegar alveg vera að segja okkur frá þessum nánu kynnum bankamannanna sem sagt var frá þarna í þættinum og því hvernig þeir skiptust á að lána hverjir öðrum háar upphæðir, jafnvel án annarra veða en bréfum í fyrirtækjunum sem þeir voru að lána.

Er það bara svona sjálfsagt að viðskipti fari fram á þennan hátt hér á landi að íslenskum fjölmiðlum þyki það ekki lengur fréttmætt?

Hér er ég að tala um RUV sem ég af öllum fjölmiðlum hef hingað til borið hvað mest traust til.

Þessi afgreiðsla RUV á þessu máli segir mér að ef við viljum fá að vita eitthvað er ekki nóg að láta íslenska fjölmiðla miðla því til okkar, við verðum því miður að ganga alla leið og fara frumheimildirnar til að fá að vita eitthvað.

Að mínu mati féll fréttastofa RUV á þessu prófi.


Sögusagnir um rússneskan peningaþvott

Um miðjan október gerðist það einu sinni sem oftar að ég sat við tölvuna langt fram yfir miðnætti og reyndi að grafa eftir einhverjum upplýsingum um hvað væri að gerast hér á þessu skeri. Það var (og er reyndar enn) svo margt sem ég ekki skil.

Svo kom að því að ég skreið í rúmið. Ég gat hins vegar ekki sofnað og fór að velta landsmálunum fyrir mér. Stóra spurningin sem þvældist fyrir mér var þessi:

"Hvers vegna í ósköpunum ættu Rússar að vilja lána okkur peninga þegar engir aðrir vilja það?"

Ímyndunaraflið fór af stað og þarna lá ég og samdi í huganum æsilega glæpaskáldsögu um íslenska glæpamenn sem auðguðust í Rússlandi á viðskiptum við þarlenda mafíu, keyptu banka á íslandi og notuðu hann sem peningaþvottavél. Íslenskir ráðamenn voru flæktir í þessa svikamyllu.

Rétt þegar svefninn var að yfirvinna mig hrökk ég upp. Mér fannst ég verða að láta einhverja vita af þessu, ég var næstum farin að skrifa þingmönnum sem ég treysti bréf þar sem ég var búin að "fatta plottið". Ákvað samt að bíða til morguns.

Þegar ég vaknaði hló ég bara að þessari vitleysu minni.

Í gærkvöld fór ég svo á fundinn í Háskólabíó. Þar var Þorvaldur Gylfason og hann hafði þetta að segja:

Bankakreppa á Íslandi er ekki einkamál Íslendinga. Þrálátur orðrómur um fjárböðun íslenzkra banka fyrir rússneska auðmenn horfir nú öðruvísi við en áður. Íslendingar og umheimurinn þurfa að fá að vita, hvort orðrómurinn á við rök að styðjast og hvað fór úrskeiðis.

Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Voru fleiri en ég með svona bilað ímyndunarafl eða á þetta við einhver rök að styðjast?

Í dag skrifar svo Jón Baldvin eftirfarandi í Morgunblaðið:

Erlendir aðilar sem fást við að rannsaka ferla rússneskra mafíupeninga um Norðurlönd beina sjónum sínum að eignarhaldsfélögum rússneskra mafíuforingja á eyjum í Karíbahafi. Í leiðinni hafa þeir rekið augun í fjölda eignarhaldsfélaga, þar sem ráða má í íslenskan uppruna þrátt fyrir náið sambýli við rússneska ólígarka. Mun rannsókn á starfsháttum íslensku bankanna hér heima og erlendis fyrir hrun þeirra leiða í ljós að þar hafi verið ástunduð viðskipti við landamæri hins glæpsamlega? Mun slík rannsókn einnig leiða í ljós að vottun virtra endurskoðunarfyrirtækja um fjárhagslegt heilbrigði bankanna var ekki pappírsins virði? Á það eftir að koma á daginn að tök fáeinna auðjöfra á öllum helstu auðsuppsprettum íslensks efnahagslífs og stofnunum þeirra voru slík að þeir komust upp með hvað sem var í skjóli leynilegs valds yfir mönnum og stofnunum?

Ég verð ein augu þegar ég sé svona. Ef minnsti fótur er fyrir svona getgátum þá þarf að rannsaka það, STRAX.

Eru okkar verstu martraðir að verða að raunveruleika?


Sveitabrúðkaup

Ég hef verið upptekin undanfarna daga við að koma yngri systur minni í hjónaband. Slíkt krefst töluverðrar vinnu og nánasta fjölskylda lagði þar hönd á plóg. Þetta var sannkallað sveitabrúðkaup því hjónaefnin reyndu eftir fremsta megni að hafa veitingarnar eins "sveitalegar" og kostur var, þ.e. afurðir af eigin búi en þau eru bændur að Stakkhamri.

Allir sögðu svo já á réttum stöðum.

Til hamingju Laufey og Þröstur!

019


Óbragð í munni

Það verður ekki annað sagt en að Davíð hafi tekist að vekja á sér athygli í gær.

Stóra spurningin sem hann skildi eftir er:

Hvað telur hann sig vita um orsök þess að Bretar beittu á okkur hryðjuverkalögum?

Af hverju steinþegir Samfylkingin eftir langan og strangan hitafund í þingflokknum í gær? Davíð jós auri út og suður og þar á meðal yfir ríkisstjórnina og því er þögn Samfylkingarinnar ærandi.

Ég átti von á uppgjöri í dag, engar fréttir voru í mínum huga hrikalega vondar fréttir. Það bárust ekki einu sinni fréttir af því að það væri plott í bakherbergjum eða kurr í fólki.

Ég les bara eitt út úr þessu. Davíð veit eitthvað...........og það kemur mörgum illa ef það er látið uppi. Þess vegna segir enginn neitt sem gæti hróflað við honum.

Ég er með þvílíkt óbragð í munninum og vona bara að ég hafi ekki hundsvit á þessu og vaði í þvílíkri villu.

Ég er líka með óbragð yfir því sem kom fram í kastljósviðtali í gærkvöld hjá Óla Birni Kárasyni. Hann gaf í skyn að "orðið á götunni" sé ekki úr lausu lofti gripið. Þ.e. að það sé verið að fella niður skuldir stærstu skuldaranna í "nýju" bönkunum.

Ég bara vil ekki trúa að það sé hægt. Ég er hins vegar furðu lostin yfir því að fjölmiðlar veita þessu enga athygli, Óli Björn sagði þetta eins og þetta væri bara staðreynd sem verið væri að ganga frá.

Og við borgum.


Valkostir í íslenskum stjórnmálum

Ég varð ákaflega döpur við að horfa á formann VG í kastljósi sjónvarps í kvöld. Ég vildi svo óska að til væri valkostur gegn ónýtri ríkisstjórn. Ég hvet ykkur til að horfa á viðtalið við Steingrím, sjá hér.

Steingrímur hefur hamast mjög gegn lántöku hjá IMF og vissulega er IMF ekki draumalánveitandinn. 

Aðspurður um hvað annað hann sæi í stöðunni: Jú það væri nauðsynlegt að taka lán, en við hefðum átt að leita annað. Nú er það ljóst að ekki einu sinni Norðurlandaþjóðirnar vildu lána okkur nema með aðkomu IMF.

Það kom aðeins á Steingrím þegar spurt var hvert við hefðum átt að leita. Jú til Kína, Rússland..................eða bara eitthvað.

Halló eitthvað land...............viltu lána mér peeeening?

Steingrímur taldi að við hefðum samið af okkur varðandi Icesave. Við hefðum átt að gefa okkur meiri tíma. Veit hann ekki að gjaldeyrisvaraforði okkar er ekki óendanlegur? Erfiðlega gengur að fá gjaldeyri fyrir útflutningi heim. Við einfaldlega höfðum ekki meiri tíma. Þar fyrir utan þá hef ég ekki skilið hvernig við ætluðum að sleppa við að borga þessa lágmarksinnistæðutryggingu. Samningsstaða okkar var engin.

Það hvernig við komumst svo í þessa ömurlegu stöðu er svo allt annað mál. Þess vegna vildi ég óska að formaður VG væri meira lausnamiðaður.

Því miður Steingrímur þér mistókst að heilla mig.


Ef um hagstjórnarmistök var að ræða, ætla Sjálfstæðismenn að gangast við þeim

Þessi bloggfærsla flokkast undir tvöfaldan ritstuld. Hugmyndin er Bylgju og hún birti fyrir nokkrum dögum brilljant bloggfærslu, sjá hér.

Færslan hennar var bara svo brilljant að ég geri bara eins og Hannes Hólmsteinn hefur áður gert, endurbirti það besta. Ritstuldurinn er tvöfaldur því bitastæðasti hlutinn er tekinn af heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, xd.is sjá hér.

Þá að efninu. Á seinasta landsfundi flokksins í apríl 2007 sagði formaðurinn eftirfarandi:

En ef mesta framfaraskeið hagsögunnar endurspeglar mistök í hagstjórn, skulum við sjálfstæðismenn fúslega gangast við þeim.

Ég bíð spennt................

Nei annars, það er bara alheimsfjármálakreppa...............þess vegna "lentum" við í þessu.

Yeh, right.


Kreppukona í Köben - seinasti hluti

Þetta er þriðji og seinasti hluti sögu af ferð til Köben. Fyrsti hluti er hér, annar hluti hér.

Á fundinum sem ég sótti hitti ég fólk sem ég hitti öðru hvoru í norrænu samstarfi á því sviði sem ég starfa á.

"How is the situation in Iceland" var algeng spurning eftir kurteislegar kveðjur. Svíarnir sögðu mér að deginum áður hefði sænska ríkið yfirtekið einn bankann hjá þeim. Þeir vildu meina að ástandið þar væri strax orðið verra en í bankakreppunni eftir 1990.

Ég dvaldi svo í einn dag á rannsóknastofu við Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn. Sú sem tók á móti mér þar heitir Bodil og ég hef hitt hana á nokkrum fundum. Hún spurði einskis. Mér fannst það einkennilegt eftir allt spurningaflóð hinna skandinavanna. Í hádegismatnum þegar kom vandræðalega þögn nefndi ég þetta. Þá sagði hún:

"I didn´t ask because I thoght it would be too embarrasing for you". Já blessuð konan var tillitssöm.

Ég sagði þeim að eitt af vandamálum okkar væri hversu þaulsetnir allir væru á sínum stólum þrátt fyrir mistök, jafnvel afglöp í starfi. Nefndi dæmi um niðurfellingu persónulegra ábyrgða stjórnenda hjá stórum banka, viku áður en hann var yfirtekinn. Þar á meðal eiginmaður ráðherra. Einnig að einn af þeim sem staðið hefði að þessari ákvörðun væri formaður eins stærsta verkalýðsfélags á Íslandi. Bæði sitja enn.

Þeir sem á þetta hlýddu störðu á mig í forundran. Svo sagði einn: "Þú ert ekki að lýsa vestrænu lýðræðisríki, þú ert að lýsa spillingu í þriðja heims ríki".

Þá höfum við það. Hér þarf mikið að skúra áður en við getum tjáð okkur um stjórnarfar í öðrum löndum.


Meira af kreppukonu í Köben

Þetta er framhald af ferðasögu minni til Köben í vikunni. Fyrsti kafli sjá hér.

Ég fór á fund fyrir notendur ákveðinnar vöru á Norðurlöndunum. Ég var sú eina af þátttakendum sem mætti degi áður en í fundarboði voru þeir sem mættu snemma boðið að koma og borða kvöldverð með fundarboðendum. Ég hafði boðað komu mína.

Ég mætti á tilskyldum tíma til að verða samferða í kvöldmatinn. Þar voru tveir sölumenn frá Bandaríska framleiðandanum og tveir skandínavískir sölumenn. Annan, Stuart, hafði ég hitt nokkrum sinnum, verulega viðkunnanlegur maður.

Þegar ég mætti í lobbíið á hótelinu þar sem þau gistu var það fyrsta sem Stuart sagði: "How is the situation in Iceland?" Ég svaraði eftir bestu getu og átti ágætt rabb við Stuart sem var greinilega brugðið yfir ástandinu.

Við gengum síðan saman á veitingastað í nágrenninu. Ég átti frekar von á að þetta yrði í boði fyrirtækisins en var engan veginn viss. Eins og gefur að skilja spyr maður bara ekki að svoleiðis. Ég hafði farið í stórmarkaðinn um daginn og verslað smá og um leið og ég skoðaði matseðilinn varð mér ljóst að það yrði á mörkunum að seðlarnir sem ég átti eftir dygðu fyrir máltíðinni. Þokkaleg kjötmáltíð kostaði vel yfir 200 DKR sem gerðu vel yfir 4400 IKR. Bjór með matnum kostaði minnir mig 65 DKR sem gerðu ca 1400 IKR. Ég lét á engu bera og fann ódýra kjúklingabringu og pantaði mér bjór með.

Yfir matnum var rætt um heima og geyma, oftar en einu sinni barst talið að ástandinu á Íslandi en einnig að kreppunni á heimsvísu. Peter, sá frá Bandaríkjunum sagði að margir af hans vinum hefðu tapað stórfé á hlutabréfum.

Þegar aðalréttinum var lokið var fóru þau að velta fyrir sér eftirréttum. Ég rétt leit á þá en sá að verðið var í kringum 100 DKR. Það gerði 2200 IKR sem mér fannst alveg fáránlegt verð fyrir ískúlu og þar að auki hélt ég enn í vonina með að 600 dönsku krónurnar mínar færu langt með að duga mér. Ég sagði þeim hinum að ég væri svo södd eftir aðalréttinn að ég gæti bara ekki torgað eftirrétt, það er bara ekki hægt að bera fyrir sig nísku í svona selskap.

Þegar að uppgjöri kom þá auðvitað var allt sett á reikning fyrirtækisins, ég borgaði ekki krónu. Það grunaði mig reyndar allan tímann, en gat engan veginn verið viss.

Ég dvaldi á öðru og mun ódýrara hóteli en þau. Ég viðurkenndi fyrir þeim að fyrir ári hefði dýra hótelið alveg komið til greina, núna væri verðið bara út úr kortinu. Nóttin þar var á 1050 DKR sem gera ca 23.100 IKR. Fyrir einu ári voru þetta ca 12.600 IKR. Mér fannst örlítið pínlegt að viðurkenna þetta en þetta er bara sá veruleiki sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í dag. Það sem fyrir ári var gerlegt að borga fyrir er bara ekki inni í myndinni í dag.

Þegar ég skildi við þau fyrir utan hótelið þeirra, sagði Stuart að kannski hefðu þau bara öll átt að dvelja á ódýra hótelinu, það væri engin ástæða til að eyða svona miklu í hótelkostnað. Ég hummaði bara eitthvað, var sammála honum á vissan hátt en grunaði hann um að segja þetta bara svona í samúðarskyni.

Ég fann að honum fannst illa fyrir okkur Íslendingum komið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband