Valkostir í íslenskum stjórnmálum

Ég varð ákaflega döpur við að horfa á formann VG í kastljósi sjónvarps í kvöld. Ég vildi svo óska að til væri valkostur gegn ónýtri ríkisstjórn. Ég hvet ykkur til að horfa á viðtalið við Steingrím, sjá hér.

Steingrímur hefur hamast mjög gegn lántöku hjá IMF og vissulega er IMF ekki draumalánveitandinn. 

Aðspurður um hvað annað hann sæi í stöðunni: Jú það væri nauðsynlegt að taka lán, en við hefðum átt að leita annað. Nú er það ljóst að ekki einu sinni Norðurlandaþjóðirnar vildu lána okkur nema með aðkomu IMF.

Það kom aðeins á Steingrím þegar spurt var hvert við hefðum átt að leita. Jú til Kína, Rússland..................eða bara eitthvað.

Halló eitthvað land...............viltu lána mér peeeening?

Steingrímur taldi að við hefðum samið af okkur varðandi Icesave. Við hefðum átt að gefa okkur meiri tíma. Veit hann ekki að gjaldeyrisvaraforði okkar er ekki óendanlegur? Erfiðlega gengur að fá gjaldeyri fyrir útflutningi heim. Við einfaldlega höfðum ekki meiri tíma. Þar fyrir utan þá hef ég ekki skilið hvernig við ætluðum að sleppa við að borga þessa lágmarksinnistæðutryggingu. Samningsstaða okkar var engin.

Það hvernig við komumst svo í þessa ömurlegu stöðu er svo allt annað mál. Þess vegna vildi ég óska að formaður VG væri meira lausnamiðaður.

Því miður Steingrímur þér mistókst að heilla mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég tók líka nokkur skref til baka

Sigrún Jónsdóttir, 17.11.2008 kl. 22:19

2 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Því miður eins og Steingrímur er góður ræðumaður þá er hann aldrei sammála nokkrum og er alla tíð á móti öllu sama hversu gott málið er.

V.G Verður aldrei stjórntækur með þennan foringja Steingrímur er og verður stjórnarandstæðingur.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 17.11.2008 kl. 22:51

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Því miður er þetta laukrétt hjá þér Jón. Steingrímur er mikill ræðuskörungur og hefur sem slíkur oft heillað mig. Honum virðist hins vegar eðlislægt að vera á móti, það getur verið vel til þess fallið að öðlast tímabundna hylli. Þegar hins vegar lausnirnar vantar getur sú hylli ekki varað lengi.

VG eiga hins vegar a.m.k. tvær mjög frambærilegar konur og ef karlinn hefði vit á að stíga til hliðar er ég sannfærð um að það yrði flokknum til góðs.

Það virðist því geta komið upp foringjakreppa víða..................

Kristjana Bjarnadóttir, 17.11.2008 kl. 23:21

4 identicon

Held að VG ættu að fara að huga að sínum málum og troða kallinum í poka og henda honum austur í sína heimasveit. Finnst hann vera mesti afturhaldsseggur og lýðskrumari sem til er. Vorkenni því hugsjónafólki sem álpaðist í flokkinn vegna þess að það skilgreindi sig "grænt" og/eða sem feminista.

Bylgja (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 08:51

5 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Það getur svo sem vel verið að fátt sé um fína drætti í lánamálum, en sagan hefur vissulega kennt okkur að IMF hefur rústað hverju hagkerfinu á fætur öðru með hagsmunagæslu sinni fyrir fjölþjóðleg lánafyrirtæki og þvingunum til landa til að galopna markaði svo ríkar þjóðir geti dömpað niðurgreiddum landbúnaðarvörum á fátækar þjóðir eins og ég bendi á í bloggi mínu. .Það er líka vel þekkt hvernig IMF fór með Argentínu og var hagkerfinu þar ekki bjargað fyrr en að IMF var hennt út. Því er sjálfsagt að gagnrýna það að tekin séu lán frá IMF og vissulega rétt að leita allra annarra kosta fyrst.

Þú segir að gjaldeyrisforðinn dugi ekki endalaust. Vissulega er það rétt, en nú vill svo til að útflutningur er meiri en innflutningur og því ætti gjaldeyrisforðinn að aukast, allavega meðan ekki er verið að borga sukkreikningan. Eitt vandamálið er auðvitað að gjaldeyristekjurnar skila sér ekki allar til landsins, en slíkt er hægt að gera að skildu af stjórnvöldum. Ríkisstjórnin gæti t.d. tekið yfir öll utanríkisviðskipti tímabundið og tryggt þannig gjaldeyri. Drastískt, en tímarnir kalla jú á drastískar lausnir. Það er því alls ekki augljóst að það verði að ganga í það að skuldsetja hvern einasta landsmann fyrir milljónum án þess að athuga aðra möguleika

Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að milljarðarnir verði ekki fluttir úr landi á stundinni þegar opnað verður fyrir gjaldeyrisviðskipti, eins og gerðist í Argentínu? Hvaða hömlur verða á gjaldeyrisviðskiptum, verður settur skattur á gjaldeyrisútflutning eins og Lilja Mósesdóttir mælti með? Verður komið í veg fyrir að útflytjendur sitji á gjaldeyrinum með stjórnvaldsaðgerðum. Nú er ég búinn að benda á nokkrar tillögur sem eru valkostur við að veðsetja framtíðarkynslóðirnar og eiga það á hættu að peningarnir hverfi úr landi. Hugsaður þér, ef milljarðarnir einfaldlega hverfa (sem oftar en ekki hefur gerst þar sem IMF kemst með puttana), þá situr almenningur eftir með allar skuldirnar án þess að neitt fáist í staðin. Finnst þér virkilega enn óeðlilegt að Steingrímur hafi vogað sér að gagnrýna IMF lánið.

Nú skulum við líta á stöðuna í pólitíkinni. Steingrímur og VG eru búin að vara við því í árafjölda að útþensla bankakerfisins væri tímasprengja og einkavinavæðing þeirra bæði óréttlát og varasöm efnahagslega. Það var hlegið að þeim fyrir þetta, m.a. af "útrásarsinnunum" í Samfylkingunni. Eitt helsta hlutverk stjórnarandstöðu er að gagnrýna varasamar stjórnvaldsaðgerðir, en fyrir vikið er VG kallaðir "nöldrarar" og "úrtölumenn", fyrir það eitt að stunda skildu sína. Þú og fleiri virðast finna Steingrími og VG allt til foráttu, séu ekki stjórntækir, bara á móti öllu. Nú langar mig að líta á árangur Samfylkingarinnar. Efnahagskerfið hrundi undir þeirra stjórn, þó vissulega sé stór hluti þessa fyrri ríkisstjórnum að kenna. Davíð Oddson situr ennþá sem seðlabankastjóri, í boði Samfylkingarinnar. Bönkunum er stjórnað af sama fólki og setti allt á hausinn, í boði Samfylkingarinnar og viðskiptaráðherra flokksins. Bankastjórn og bankaráð seðlabankans situr enn í boði Samfylkingarinnar. Yfirstjórn fjármálaeftirlitsins situr enn í boði Samfylkingarinnar. Samfylkingin getur ekki hlaupist undan þeirri ábyrgð að vera í ríkisstjórn. En því miður virðist eina stefnumál flokksins nú vera að gefast upp og ganga í ESB og taka upp evru. Hvaða tillögur aðrar hefur flokkurinn fram að færa? Nú er ég alveg til í að líta á ESB aðild, en það er ljóst að það er langtímaferli, sérstaklega að taka upp evru. Það gerist ekki á einni nóttu og fjarstæða að halda að hægt sé að taka upp evru einhliða með því að skipta bara um pappírspeningana í umferð. Hvort sem aðild að evru og ESB er á dagskrá í framtíðinni eða ekki þá breytir því ekkert að vandamálið er hér og nú og þarf að taka á því nú þegar.

Þegar ég ber saman meintar ávirðingar Steingríms og VG við áþreifanleg mistök Samfylkingarinnar í ríkisstjórn þá er það ekki vafi að mínu áliti hvorn valkostinn ég vel sem vinstrimaður. Vissulega má gagnrýna VG fyrir margt en það sem stendur uppúr er að ríkisstjórnin situr enn í boði Samfylkingarinnar. Bara sú staðreynd ein sér nægir mér til að finnast gagnrýni sem þú og fleiri setja á Steingrím og VG vera tittlingaskít. 

Guðmundur Auðunsson, 18.11.2008 kl. 14:02

6 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Mummi, það er algerlega rétt að VG er með hreina samvisku hvað fortíðina varðar. Þess vegna langar mig afskaplega mikið til að þeir séu raunverulegur valkostur.

Þrátt fyrir að bera enga ábyrgð á þessari ömurlegu stöðu þá fer ég fram á að þeir séu lausnamiðaðir til að ég geti litið þannig á. Það vantaði í gærkvöld og það vantar alltof oft. Ef þeir hafa lausnir í sínum skúffum þá hefur þeim mistekist að koma því á framfæri þannig að ég hafi tekið eftir, kannski verð ég bara að taka mig á.

Ég hef látið sannfærast um að ESB sé sú leið sem við eigum að fara. Ég ætla ekki að rökstyðja það hér. Ég veit að það er umræða um það innan VG. Ég hins vegar óttast að Sjálfstæðisflokkurinn verði á undan að skipta um stefnu hvað þetta varðar og því sitjum við uppi með óbreytta stjórn lengur en ég vil.

Ég vil Röskvustjórn.

Kristjana Bjarnadóttir, 18.11.2008 kl. 17:50

7 identicon

Þetta var góð ræða hjá Guðmundi. Tek undir hvert orð. Hvers konar afstaða er það að segja að heill stjórnmálaflokkur sé ekki stjórntækur fyrir að gagnrýna stjórnvöld og hafa ekki tillögur sem leysa vanda þjóðarinnar í einum Kastljósþætti þegar sitjandi ráðamenn eru búnir að keyra þjóðina í þrot. Hefur VG setið í ríkisstjórn og sýnt sig af því að geta ekki unnið með öðrum?

Erna (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 21:14

8 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Erna, ég sagði ekki orð um að VG væri ekki stjórntækur. Ég meira að segja sagðist vilja Röskvustjórn en þar skipa VG og Samfylking lykilhlutverk. VG hefur ekki setið í ríkisstjórn en hins vegar hafnaði formaðurinn alfarið setu í stjórn með Framsókn daginn eftir seinustu kosningar og þar með komust Sjálfstæðismenn í draumaaðstöðu, gátu valið sér hjákonu.

Samfylkingin er alls ekki að standa sig þessa dagana, ég hins vegar vil sjá valkost til framtíðar. Fyrir mig sem tel að við eigum samleið með öðrum Evrópuþjóðum og hafna einangrunarstefnu þá er VG því miður ekki valkostur. Með formann sem leggur áherslu á það sem ekki á að gera þá minnka enn frekar líkur á að svo geti verið.

Að þetta hins vegar verði til þess að við sitjum uppi með áframhaldandi stjórn finnst mér grautfúlt.

Kristjana Bjarnadóttir, 18.11.2008 kl. 23:55

9 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Well þú sagðir að ekki væri til valkostur gegn ónýtri ríkisstjórn.... það þýðir að þér finnst t.d. VG ekki valkostur í ríkisstjórn. Allt tal um ESB aðild, ESB kórinn er að verða búinn að dáleiða landslýð með því að kyrja þennan söng látlaust. Hefur ekki sýnt sig undanfarna daga að við fáum ekki að vera eins og smábörn í þeirri fjölskyldu. Hagsmunum okkar er betur borgið í samfloti með Norðmönnum, við þurfum hins vegar að sinna því vel.

Erna Bjarnadóttir, 19.11.2008 kl. 08:42

10 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Kristjana, við erum sammála um Röskvustjórnina. En varðandi ESB þá er ég tilbúinn að líta á það aftur, þó mikið þurfi til að sannfæra mig um að það sé rétt í stöðunni. En það breytir ekki þeirri staðreynd að allt tal um ESB og upptöku evru leysir ekki vandann í dag. Upptaka evru er margra ára fyrirbæri og innganga í ESB tekur að minnsta kosti 1-2 ár með hraðferð. Hvað á að gera í dag, það er spurningin. Ég og Steingrímur erum ekki einir um það að efast um IMF leiðina. Ég bendi á viðvaranir Gylfa Magnússonar á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur hefur einnig bent á hættuna af IMF leiðinni. Það er fyrst og fremst tvennt sem er stórhættulegt. Í fyrsta lagi hávaxtastefnan. Hvað á að gera þegar fjöldi fólks lendir á götunni þar sem það hefur ekki efni á að borga af húsnæðinu sínu? Hvað á að gera þegar atvinnuleysi stóreykst vegna þess að lífvænleg fyrirtæki fara á hausinn vegna hávaxtastefnunnar? Það leiðir síðan til þess að fleiri einstaklingar lenda á vonarvöl og missa húsnæði sitt. O.sv.fr. Seinni hættan er útstreymi fjármagns. Ef krónan verður sett á flot þá er hætta á að peningarnir hverfi úr landi á örskammri stundu. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að hindar þetta? Setja á háan skatt á útstreymi fjármagns? Banna tilfærslur á fjármunum úr landi? Augljóst er að eitthvað verður að gera, annars hverfur gjaldeyrinn og við sitjum uppi með skuldirnar.

Þú biður um tillögur að lausnum. Ég mæli með Malasísku leiðinni.  Þegar kreppan mikla gekk yfir SA Asíu fyrir rúmum 10 árum neitaði Malasía að taka við láni frá IMF meðan Indónesía, Tæland og Filippseyjar gerðu það. Í stuttu máli festi malasíska ríkisstjórnin gengið til að halda vöxtum niðri. Settar voru hömlur á gjaldeyrisviðskipti því annars gekk kerfið auðvitað ekki upp. IMF hótaði Malasíu öllu illu en það sem gerðist var að Malasía komst út úr kreppunni miklu fyrr og miklu betur en löndin sem þáðu "aðstoð" frá IMF. Ég bjó þar á þessum tíma og ferðaðist til allra landanna og gat séð hversu miklu meira hrun varð í "IMF" löndunum. Og það merkilega gerðist að hótanir IMF um að enginn myndi fjárfesta í landinu í komandi framtíð þar sem erlendum fyrirtækjum var tímabundið settar skorður við flutning á hagnaði úr landi. Í dag nýtur Malasía mikillar erlendrar fjárfestingar meðan menn halda sig frá Filippseyjum, Tælandi og Indónesíu.

Guðmundur Auðunsson, 19.11.2008 kl. 12:37

11 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

VG er að mínu mati ávallt valkostur í ríkisstjórnarsamstarf, slíkt fer á endanum eftir þeim málefnasamningi sem næst með þeim flokkum sem ætla að vinna saman.

Hins vegar þegar maður metur leiðir sem VG hefur bent á til lausnar þeim vanda sem við er að etja á þessari stundu þá get ég ekki séð að leyniferð til Noregs (sjá visir.is) hefði verið lausn á gjaldeyrisvanda okkar á sama tíma og Jens Stoltenberg sagði  að forsenda láns frá þeim hefði verið að Íslendingar leituðu fyrst til IMF (ruv.is).

Ég gagnrýni hins vegar ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa dregið það von úr viti að leita til IMF. Mér virðist ljóst að strax í vor eða sumar hafi enginn viljað lána okkur og stjórnvöldum þá þegar bent á að leita til IMF. Ég hins vegar er með stóran stein í maganum af hræðslu við skilyrði IMF og hvernig svo þetta allt lukkast. Að mínu mati áttum við ekki annarra kosta völ.

Ég get alls ekki fallist á að Evrópuþjóðir eigi að samþykkja að við fáum að vera "smábörn" meðal þeirra og því ekki þurfa að borga þær skuldir sem við stofnuðum til. Við hljótum að virða þá samninga sem við erum aðilar að. Það er alveg ljóst að ef við hefðum neitað að borga, eins og einhverjum hefur dottið í hug þá værum við búin að segja okkur úr samfélagi siðaðra þjóða til margra áratuga. Slíkt kemur í mínum huga ekki til greina. Áttum við að sleppa við að borga skuldir okkar af því við erum svo mikil smábörn að við kunnum ekki fótum okkar forráð? Nei, ég óska eftir að við séum fullvaxta þjóð í ESB með réttindum og skyldum sem því fylgja. Hvað Icesave deiluna varðar gagnrýni ég ríkisstjórnina harðlega fyrir seinagang í lausn á þessari deilu. Ekki að við höfum gengist við alþjóðlegum skuldbindingum.

Vissulega leysir ESB umsókn ekki vanda næsta árs. Það er hins vegar ljóst að til framtíðar þurfum við að hugsa til lausna á gjaldmiðilsvanda okkar og þar er evran eina raunhæfa lausnin. Til þess verðum við að ganga þarna inn hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Ég viðurkenni að ég þekki ekki það sem þú Mummi kallar Malasísku leiðina. Ef vandinn hér er eitthvað sambærilegur og þar á þeim tíma hefði kannski mátt skoða það. Mig grunar þó að okkar kreppa og gjaldeyrisvandi okkar hér sé mun djúpstæðari. Ég deili svo sannarlega með þér áhyggjum af því hvað verða mun og tel að venjulegt fólk hér hafi ekki hugmyndaflug í hversu hrikalegt ástandið mögulega kemur til með að verða.

Kristjana Bjarnadóttir, 19.11.2008 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband