Sögusagnir um rússneskan peningaþvott

Um miðjan október gerðist það einu sinni sem oftar að ég sat við tölvuna langt fram yfir miðnætti og reyndi að grafa eftir einhverjum upplýsingum um hvað væri að gerast hér á þessu skeri. Það var (og er reyndar enn) svo margt sem ég ekki skil.

Svo kom að því að ég skreið í rúmið. Ég gat hins vegar ekki sofnað og fór að velta landsmálunum fyrir mér. Stóra spurningin sem þvældist fyrir mér var þessi:

"Hvers vegna í ósköpunum ættu Rússar að vilja lána okkur peninga þegar engir aðrir vilja það?"

Ímyndunaraflið fór af stað og þarna lá ég og samdi í huganum æsilega glæpaskáldsögu um íslenska glæpamenn sem auðguðust í Rússlandi á viðskiptum við þarlenda mafíu, keyptu banka á íslandi og notuðu hann sem peningaþvottavél. Íslenskir ráðamenn voru flæktir í þessa svikamyllu.

Rétt þegar svefninn var að yfirvinna mig hrökk ég upp. Mér fannst ég verða að láta einhverja vita af þessu, ég var næstum farin að skrifa þingmönnum sem ég treysti bréf þar sem ég var búin að "fatta plottið". Ákvað samt að bíða til morguns.

Þegar ég vaknaði hló ég bara að þessari vitleysu minni.

Í gærkvöld fór ég svo á fundinn í Háskólabíó. Þar var Þorvaldur Gylfason og hann hafði þetta að segja:

Bankakreppa á Íslandi er ekki einkamál Íslendinga. Þrálátur orðrómur um fjárböðun íslenzkra banka fyrir rússneska auðmenn horfir nú öðruvísi við en áður. Íslendingar og umheimurinn þurfa að fá að vita, hvort orðrómurinn á við rök að styðjast og hvað fór úrskeiðis.

Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Voru fleiri en ég með svona bilað ímyndunarafl eða á þetta við einhver rök að styðjast?

Í dag skrifar svo Jón Baldvin eftirfarandi í Morgunblaðið:

Erlendir aðilar sem fást við að rannsaka ferla rússneskra mafíupeninga um Norðurlönd beina sjónum sínum að eignarhaldsfélögum rússneskra mafíuforingja á eyjum í Karíbahafi. Í leiðinni hafa þeir rekið augun í fjölda eignarhaldsfélaga, þar sem ráða má í íslenskan uppruna þrátt fyrir náið sambýli við rússneska ólígarka. Mun rannsókn á starfsháttum íslensku bankanna hér heima og erlendis fyrir hrun þeirra leiða í ljós að þar hafi verið ástunduð viðskipti við landamæri hins glæpsamlega? Mun slík rannsókn einnig leiða í ljós að vottun virtra endurskoðunarfyrirtækja um fjárhagslegt heilbrigði bankanna var ekki pappírsins virði? Á það eftir að koma á daginn að tök fáeinna auðjöfra á öllum helstu auðsuppsprettum íslensks efnahagslífs og stofnunum þeirra voru slík að þeir komust upp með hvað sem var í skjóli leynilegs valds yfir mönnum og stofnunum?

Ég verð ein augu þegar ég sé svona. Ef minnsti fótur er fyrir svona getgátum þá þarf að rannsaka það, STRAX.

Eru okkar verstu martraðir að verða að raunveruleika?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Já, ég held að okkar verstu martraðir SÉU raunveruleiki. Og enginn virðist vera að gera neitt í því.

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.11.2008 kl. 22:27

2 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Um svipað leyti að Landsbankinn var seldur Bjöggunum sat ég í flugvél á leið til heimalandsins. Til að stytta mér stundir stautaði ég mig í gegn um grein í Newsweek um olígarkana rússnesku, tilurð þeirra, og hvernig þeir kæmu auðæfum sínum í umferð.

Við lestur greinarinnar setti að mér ónotahroll. Algengasta aðferðin við að koma peningum í umferð var að setja upp gervifyrirtæki sem að nafninu væru í meirihlutaeigu útlendinga. Að hæfilegum tíma liðnum væru fyrirtækin seld, gjarnan með 100 - 1000 földum hagnaði. Útlendingarnir færu til síns heima með fullar hendur fjár, fjárfestu, í fjármálastofnunum og bönkum sem aftur veittu fjármagninu aftur á heimaslóð. Sem sagt þá höfðu peningarnir farið einn umgang í "þvottavélinni" og allir undu glaðir við sitt. Þ.e. á meðan ekki komst upp um þá eins og Kodrokvskí sem ég held að sitji enn í rússnesku fangelsi. Aðrir greiddu mútur sínar skilvíslega og fengju þess vegna frið, sbr. Abramaovish, íslandsvininn einlæga.

Sveinn Ingi Lýðsson, 25.11.2008 kl. 22:39

3 identicon

Hér er ekkert rannsakað strax.

Ásdís (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 10:01

4 Smámynd: haraldurhar

   Vitaskuld eru fullt af peningum á svamli hér og hvar í heiminum, bæði í eigu Rússa sem annara.  Eg áleit strax er tilkynnt var um Rússalánið, að það væru einhverjir hagsmunir Rússa að viðhalda ísl. bönkunum.   Einhvern tíma fyrir löngu las ég að ekki hefði verið byggður svo traustur eða hár borgarmúr, að asni klyfjaður gulli kæmist ekki yfir hann.

haraldurhar, 26.11.2008 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband