Vér mótmælum allir

Ég er þess fullviss að október 2008 verður skráður í Íslandssögubækur framtíðarinnar. Hér hafa sögulegir atburðir gerst sem hafa fengið blóðið í rólegustu Íslendingum til að renna. Við höfum verið rænd um hábjartan dag. Ekki bara veraldlegum verðmætum í nútíðinni heldur einnig sjálfsvirðingu sem þjóð, bjartri framtíð barna okkar og stórum hlutum tekna okkar í komandi framtíð, hversu stórum á enn eftir að koma í ljós en í dag er útlitið ekki bjart.

Viðbrögð og einkum viðbragðsleysi ráðamanna er æpandi og hinn venjulegi Íslendingur er löngu hættur að skilja ráðaleysi og samtryggingu einkavinaveldisins sem hér blómstrar.

Við erum stútfull af tilfinningum gagnvart þeim sem bera ábyrgð á því sem gerst hefur. Við þurfum á því að halda að finna að við erum ekki ein um þessar tilfinningar.

Á laugardaginn kemur þann 25. október kl. 16 er boðað til mótmælafundar á Austurvelli með yfirskriftinni "Rjúfum þögn ráðamanna", sjá nánar hér. 

Það er mjög mikilvægt að þátttaka í þessum mótmælum verði mikil, slíkt hefur verulega táknræna þýðingu, ráðamenn verða að skilja að þjóðinni er mikið niðri fyrir, okkur er ekki sama hvernig farið er með vald.

Til að viðhalda sjálfsvirðingu er það okkur líka mikilvægt að sýna hug okkar í verki með því að mæta. Hvernig ætlum við annars að útskýra fyrir börnum okkar og barnabörnum ef við veljum að sitja heima og látum okkur fátt um finnast meðan ráðamenn og auðmenn Íslands hneppa komandi kynslóðir í skuldafangelsi?

Eins og tryggingafélögin auglýstu: Ekki gera ekki neitt.

Mætum öll, skráum okkur á spjöld Íslandssögunnar og gerum þetta að fjölmennustu mótmælum sem haldin hafa verið á Íslandi.

Viðbót 24. okt: Sjá nánar hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

hmmmmmm..... kannski málinu óviðkomandi - en þar sem ég er handihafi Rauða Pennans - ..... var það Intrum sem auglýsti: Ekki gera ekki neitt?

Hrönn Sigurðardóttir, 24.10.2008 kl. 22:00

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

vantar þarna eitt ekki!

Sign. Rauði Penninn ;) 

Hrönn Sigurðardóttir, 24.10.2008 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband